Nú er komið að opnu húsi þar sem við efnum til fyrirlestrar, fræðslu og myndasýningar um bíla frá árunum 1930-31 sem eru komnir í salinn. Húsið opnar klukka 20:00.
Þeir Ólafur Örn Haraldsson og Rúnar Sigurjónsson ætla hér að sameina krafta sína í að kynna okkur fyrir bílunum sem núna eru komnir í salinn okkar í Ögurhvarfi. Í dálítinn tíma er búinn að vera í salnum 1930 árgerð af Studebaker bíl og nú hafa tveir bílar, Ford árgerð 1930 og Chevrolet árgerð 1931 bæst í salinn.
Þetta voru árið 1931 með algengustu bílategundum sem sjá mátti á götum á Íslandi og því er efnt til fyrirlesturs um þessa bíla. Margir halda bíla frá þessum tíma alla nánast eins, en svo er nú alls ekki þó líkir séu. Við förum í gegnum hvað er sérstakt í hverjum bíl og skoðum hönnun þeirra og smíði.
Fyrst ætlar Ólafur að kynna okkur sögu Studebaker bílsins, en sá bíl kom nýr til Íslands á sínum tíma og var upphaflega keyptur af afa Ólafs árið 1930. Síðan mun Rúnar taka við og sýna okkur í máli og myndum hver er í raun og veru megin munurinn á þessum bílum og fara yfir nokkrar söguelgar staðreyndir um þessa bíla sem eftir aðeins örfá ár fagna 100 ára afmæli sínu.
Missum ekki af þessum einstaka viðburði og merkilegu umfjöllun um þessi áhugaverðu ökutæki.
Að sjálfsögðu verður kaffi og kaffiveitingar á boðstólnum.
Allt bílaáhugafólk velkomið.
Stjórnin.