Upphafið

Fornbílaklúbbur Íslands var stofnaður á fjölmennum fundi í Templarahöllinni 19. maí árið 1977. Helstu hvatamenn að stofnun hans voru Bjarni Einarsson, Jóhann E. Björnsson, Kristján Jónsson og Þorsteinn Baldursson. Bjarni hafði þegar árið 1967 safnað saman fornbílum á höfuðborgarsvæðinu til sýningar á Laugardalsvellinum og með því frumherjastarfi vakti hann áhuga fjölmargra á mikilvægi varðveislu gamalla bíla sem síðar leiddi til stofnunar Fornbílaklúbbsins.  Í félagsheimili klúbbsins er farið yfir hverjir voru stofnfélagar klúbbsins á mynd sem hangir þar uppá vegg.

Ferðir á vegum klúbbsins

Fysta verkefni klúbbsins var hópakstur 17. júní 1977 í Reykjavík sem lauk með sýningu við Austurbæjarskólann. Þessi fyrsta ferð tókst með ágætum og vakti geysimikla athygli. Síðan hefur hópakstur og fornbílasýning á 17. júní verið fastur liður í starfi klúbbsins, borgarbúum til ómældrar ánægju. Fornbílaklúbburinn skipuleggur nú um 15 ferðir á hverju sumri, bæði skemmri og lengri. Meðal fastra ferða má nefna vorferð um Suðurnes, þjóðhátíðarakstur í Reykjavík, fornbíladag í Árbæjarsafni, langferðir, helgarferðir og hótelferðir, auk haustferðar á Þingvöll eða í Heiðmörk. Fyrsta verulega langferðin sem klúbburinn efndi til var hringferð í tilefni af tíu ára afmæli klúbbsins árið 1987. Þessi afmælishringferð var endurtekin árið 1997. Þá hefur tvisvar verið efnt til utanlandsferða á vegum klúbbsins. Farið var til Norðurlandanna árið 1992 og til Færeyja árið 1996, en klúbburinn hefur sterk vináttutengsl við fornbílaklúbbinn í Færeyjum, Föroya Ellis Akför.

Bílageymslur og byggingar

Fljótlega eftir stofnun klúbbsins hófst leit að hentugu húsnæði fyrir bíla félagsmanna. Lyktir urðu þær að haustið 1977 var tekið á leigu 600 fermetra húsnæði að Trönuhrauni 4 í Hafnarfirði. Þar höfðu félagarnir ekki aðeins geymsluaðstöðu heldur gátu þeir líka fengið viðgerðarstæði. Þetta reyndist klúbbnum of dýrt svo að 1979 var flutt í 170 fermetra húsnæði á Gelgjutanga í Reykjavík. Þar var einungis hægt að geyma bíla og hefur þeirri stefnu verið fylgt síðan að ekki eru leigð út viðgerðarstæði. Þarna leigði klúbburinn þar til hann eignaðist fyrsta geymsluhús sitt að Vagnhöfða 23 vorið 1981. Þetta var 180 fermetra skemma með geymslulofti fyrir varahluti. Þessa ágætu geymslu átti klúbburinn til 1984 þegar húsið var selt til brottflutnings. Þá var fengin lóð á Kjalarnesi og ráðist í byggingu stálgrindarhúss. Dæmið gekk upp vegna ótrúlegs dugnaðar félagsmanna og með rausnarlegri aðstoð margra fyrirtækja. Geymslan sem er 315 fermetrar að stærð var byggð árið 1986 og fylltist hún strax af bílum. Árið 1987 var hafinn undirbúningur að byggingu annarrar geymslu við hlið hinnar fyrri. Sú var byggð árið 1988 og er 374 fermetrar að stærð. Brátt kom í ljós að þessar geymslur nægðu ekki svo ráðist var í byggja þriðja húsið árið 1990 og er það 502 fermetrar. Fornbílaklúbburinn á í dag þessar þrjár geymslur á Esjumel skuldlausar, sem samtals eru um 1200 fermetrar að stærð og eru þær fullnýttar yfir vetrarmánuðina. Hafa tekjur af þeim ásamt félagsgjöldum staðið undir öllum framkvæmdum og arðsaukningu klúbbsins á liðnum áratug.

Fundarstaðir og félagsaðstaða

Klúbburinn fékk fyrsta húsnæðið til afnota fyrir félagsaðstöðu sína í upphafi árs 1980. Þetta var rishæð í gömlu húsi við Sölvhólsgötu í eigu Prentsmiðjunnar Eddu og var staðurinn nefndur Eddubær. Í þessu litla risi var opið hús vikulega í um þriggja ára skeið og var það félagsskapnum mikil lyftistöng. Síðan voru fundir færðir yfir á síðasta fimmtudag hvers mánaðar og haldnir í húsnæði starfsmannafélagsins Sóknar, fyrst við Freyjugötu og síðar í Skipholti. Árið 1991 tók klúbburinn á leigu húsnæði í Skeifunni 4 og voru fundir haldnir þar vikulega. Árið 1995 festi klúbburinn kaup á eigin húsnæði við Vegmúla 4. Var það tæpir 200 fermetrar að stærð með vönduðum innréttingum og nýttist klúbbnum hið besta. Á haustdögum 1997 barst klúbbnum hátt tilboð í húsnæðið frá nærliggjandi fyrirtæki og þegar salan var afstaðin stóð klúbburinn uppi með umtalsverða fjármuni. Tók stjórn klúbbsins þá ákvörðun að leita eftir því við borgarstjórann í Reykjavík að borgaryfirvöld létu klúbbnum í té lóð undir nýtt félagsheimili og bílasafn, sem áætlað er að verði um 1000 fermetrar að stærð. Eftir ströng fundarhöld og langa meðgöngu fékk klúbburinn lóð í Elliðaárdal, þar sem árið 2007 var byrjað á framkvæmdum á húsi hannað af Agli Guðmundssyni arkitekt. Á meðan var fengin aðstaða í Árbæjarsafni til að halda fundi og einnig hafa stærri kvöld verið haldin á Amokka í Kópavogi.

Þegar langt var komið með byggingu varð hið fræga bankahrun í lok árs 2008 og nánast allar framkvæmdir á landinu stöðvuðust. Reynt var að halda áfram á árunum 2009 og 2010, en erfiðlega gekk að fá fjármagn og styrktaraðilar ekki lengur á lausu og ekkert að fá frá opinberum aðilum. Á félagsfundum haustið 2010 og í byrjun árs 2011 var ákveðið að selja húsið og hætta við áform um safn og finna í stað húsnæði sem hentar sem félagsheimili. Í ágúst 2011 var húsið síðan selt og vorið 2012 var ákveðið að kaupa húsnæði að Hlíðasmára 9, Kópavogi, og hófst félagstarf þar haustið 2012.  Árið 2021 var ákveðið að selja félagsheimili okkar í Hlíðasmára í miðjum Covid19 faraldri og var nýtt félagsheimili í Ögurhvarfi 2 opnað á 45 ára afmæli klúbbsins þann 19. maí 2022.

Útgáfumál

Fyrsta tölublað af félagsriti klúbbsins, Fornbílnum, kom út í apríl 1979. Þetta var fjórblöðungur sem hafði að geyma fréttir, auglýsingar og fróðleik fyrir klúbbfélaga. Blaðið var orðið 32 blaðsíður að stærð með fjölbreyttu efni og kom það út árlega, því miður hafa ekki fengist aðilar til að koma út blaði síðustu ár en vonandi stendur það til bóta haustið 2012. Fljótlega var þörf á að koma ýmsum skilaboðum til félaganna oftar en Fornbíllinn kom út og var hafin útgáfa á litlu fréttablaði árið 1987 sem nefnist Skilaboð. Þetta blað kemur nú út ellefu sinnum á ári og flytur fréttir af fundum, ferðum og sýningum á vegum klúbbsins. Árið 1998 tók stjórn klúbbsins ákvörðun um að láta gera heimasíðu fyrir klúbbinn. Var hún síðan formlega opnuð 23. nóvember 1998, en heimasíðan hefur stækkað mikið í gegnum árin og tekið breytingum og er nú orðin aðal vetvangur frétta til félaga en síðan er einnig mikið heimsótt erlendis frá.

Sýningar

Einn þáttur í starfi Fornbílaklúbbsins, sem hvað mesta athygli hefur vakið, eru sýningar á bílum og ýmsu sem tilheyrir sögu bílsins á Íslandi. Glæsilegustu sýningar klúbbsins eru þær sem haldnar eru á fimm ára fresti í tilefni af afmæli bílsins á Íslandi. Sú fyrsta var haldin í Laugardalshöllinni í júní 1979. Síðan var sýning í tengslum við Auto 84 í húsi Árna Gíslasonar við Tangarhöfða, og árin 1989, 1994, 1999 og 2004 í Laugardalshöllinni. Í maí 1997 var haldin sérstök afmælissýning í Perlunni í tilefni af 20 ára afmæli klúbbsins og aftur í húsnæði B&L í tilefni af 25 ára afmæli FBÍ árið 2002. Sýning var haldin á 30 ára afmæli klúbbsins í nýju húsnæði Ræsis við Krókháls sem þótti takast vel og var vel við hæfi að vera með sýningu í væntanlegu bílaverkstæði og sýningarsal bíla. Sýning var einnig í maí 2012 þegar klúbburinn hélt upp á 35 ára afmæli.

Varahlutir

Fornbílaklúbbur Íslands hefur allt frá stofnun haft eitt af sínum markmiðum að safna varahlutum sem gæti nýst til uppgerða eða viðhalds og er selt á vægu gjaldi til félaga. Fljótlega fóru bílaumboðin að bjóða FBÍ varahluti og fleira sem áður var fleygt og eins hafa einstaklingar látið FBÍ nóta góðs við tiltektir frekar en farga hlutum. Í gegnum árinn hefur þessi lager stækkað mikið og er svo komið að geymslan er löngu búinn að sprengja af sér sitt pláss og hafa verið fengnir nokkrir gámar til geymslu hluta en þeir eru líka að fyllast. 

Bílar í eigu klúbbsins

Í árslok 1978 keypti Fornbílaklúbburinn björgunarbíl með gálga af bifreiðastöð Steindórs. Bíllinn er Chevrolet árgerð 1937 og hafði upphaflega verið rúta en síðar verið breytt. Klúbburinn á bílinn enn og hefur hann oft komið í góðar þarfir. Hann hefur nokkrum sinnum verið lagfærður og síðast var hann alveg tekinn í gegn og endurbyggður frá grunni árin 1991-93. Í október 1998 eignaðist klúbburinn síðan annan kranabíl, en sá er af gerðinni International árgerð 1967. Er hann notaður í geymslum klúbbsins við tilfærslu þungra varahluta og ógangfærra bíla. Gamli kraninn verður hins vegar áfram flaggskip klúbbsins.

Söfn Fornbílaklúbbsins

Snemma á ferli klúbbsins hófust menn handa við að safna gömlum ljósmyndum af bílum á Íslandi. Var þar lengst af forgöngumaður Bjarni Einarsson frá Túni, en hann var allra manna ötulastur við söfnun gamalla bílamynda. Er safnið nú orðið mikið af vöxtum og ómetanleg heimild. Hefur mikið starf verið unnið við myndskráningu, kópíeringar og frágang. Þá hafa stækkaðar myndir úr safninu prýtt veggi á sýningum klúbbsins og víðar. Klúbburinn á einnig allgott safn af bílabókum, handbókum, blöðum, bæklingum og kvikmyndum.

Annað félagsstarf

Stjórn Fornbílaklúbbsins og nefndir hans halda reglulega fundi. Á stjórnarfundum er auk hefðbundinna framkvæmdamála unnið að hagsmunamálum fornbílaeigenda og hefur á þeim vettvangi náðst ótrúlegur árangur. Má þar nefna að öll opinber gjöld hafa fengist afnumin af fornbílum, tryggingar verið stórlækkaðar, undanþágur fengnar frá reglum um búnað vegna skoðunar, leyfi fengið til að nota gamlar númeraplötur og innflutningsgjöld lagfærð. Stjórn Fornbílaklúbbsins starfaði einnig með Bílgreinasambandinu og Forsetaembættinu að uppgerð fyrsta forsetabíls lýðveldisins, sem er Packard árgerð 1942, en hann var tekinn í notkun á ný 17. júní 2008 sem hátíðabifreið forsetans.

Fyrsti formaður Fornbílaklúbbsins var Jóhann E. Björnsson, en hann gegndi því starfi frá 1977 til 1985. Þá tók Rudolf Kristinsson við og var hann formaður til 1990 er Kristinn Snæland tók við. Fjórði formaður var Örn Sigurðsson, frá 1993 til 2003, en þá tók Sævar Pétursson við sem formaður og var til 2011. Þá tók við Þorgeir Kjartansson og var formaður til maí 2019, Bjarni Þorgilsson var formaður 2019-2023 og núverandi formaður klúbbsins er Rúnar Sigurjónsson.

Óhætt er að fullyrða að ótrúlega mikið starf hefur verið unnið þann rúmlega aldarfjórðung sem Fornbílaklúbbur Íslands hefur starfað og hafa þar margir unnið óeigingjarnt starf. Hefur klúbbnum tekist að breyta áliti íslensku þjóðarinnar á fornbílum frá því að vera taldir ómerkilegt skran í það að vera gersemar sem jafnvel hæfa þjóðhöfðingja. Með þessari viðhorfsbreytingu var fornbílamennskan viðurkennd sem áhugavert menningarstarf og ómissandi þáttur í íslensku þjóðlífi.