Þegar boðað var að það yrði gerð breyting á vörugjöldum fornbíla 40 ára og eldri ákvað stjórn Fornbílaklúbbs Íslands að fara í þá vegferð að formaður klúbbsins Rúnar Sigurjónsson færi í það að ná samræðum við þingmenn og koma okkar sjónarmiðum og upplýsingum til fulltrúa Efnahags og viðskiptanefndar þingsins, en málið var á borði þeirrar nefndar. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins sem sæti á í nefndinni, tók við gögnum okkar til athugunar og meðhöndlunar og fór með þau fyrir nefndina sem tók málið fyrir og ræddi rökstuðning okkar fyrir því að falla frá fyrirhuguðum breytingum eins og þær litu út.  

Undanfarin ár hafa þessir 40 ára+ fornbílar fylgt sömu reiknireglu aðflutningsgjalda og litlar sendiferðabifreiðar og því verið greidd 13% vörugjöld eins og af þeim. Einungis hafa rétt um 100 ökutæki eldri en 40 ára verið flutt inn síðastilin 20 ár, eða rétt um 5 ökutæki að meðaltali á ári og var það meginstefið í okkar rökstuðningi hversu fá ökutæki þetta væru og því lítill tekjustofn sem myndi gersamlega hverfa ef birtar breytingar færi í geng að óbreyttu.

Skemmst er frá því að segja að niðurstaðan af þessari vinnu er að komið hefur í ljós að engin breyting er fyrirhuguð á því hvaða reikniregla gjalda verður fyrir þessa fornbíla og eftir sem áður munu þeir fylgja sömu reglu og litlir sendibílar, en vörugjöld þeirra munu þó hækka úr 13% yfir í 20% núna um áramótin. Vörugjöld fornbílar 40 ára og eldri munu því hækka um 7 prósentustig eins og á litlum sendibílum.

Semsagt á mannamáli þýðir þetta það, að eftir því sem við komumst næst verður reiknireglan óbreytt en fornbílar færast upp í 20% vörugjöld samhliða breytingum á vörugjöldum sendibíla. Það mun því ekki verða gert að að þessir 40 ára+ fornbílar verði settir í sömu reiknireglu og allar aðrar brunahreyflabifreiðar sem þýtt hefði skelfilega niðurstöðu fyrir þá sem hefðu í hyggju að flytja inn eldri fornbíl.

Áfram mun þurfa að greiða full aðflutningsgjöld af fonbílum 25-40 ára, reiknað út frá stærð þeirra, eins og verið hefur undanfarin ár og því í raun ekki um að ræða neina breytingu þar á.

Þetta eru því í raun jákvæðar fréttir þó smávægilegar breytingar verði og að okkar mati nokkuð ásættanleg niðurstaða.