Kæru félagar.

Það er loks komið að því að þetta hörmungarár 2020 er á enda.  Við getum vonandi tekið upp þráðinn á vordögum 2021 og það verður ekkert hik þegar að því kemur. 

Við í stjórn klúbbsins erum stolt af verkum okkar á árinu, klúbburinn stendur mjög vel, við höfum sinnt viðhaldi á eigum klúbbsins og tryggt stoðir okkar enn frekar með því að skoða alla þætti reksturs félagsins. 

Um jólin ákvað stjórn félagsins samhljóða að láta gott af okkur leiða og sinna kalli Forseta Íslands að þeir sem væru aflögufærir styddu við samlanda sína á þessu erfiða ári og sýndu þar náungakærleik í verki.  Við vonum að Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði finni góð not fyrir styrk okkar sem við afhentum þeim á Þorláksmessu.  Félagar um land allt eiga heiðurinn af þessu framtaki og hefur stjórn fundið mikinn stuðning frá félögum við þessa ráðstöfun.

Nú bíðum við bara þess að bólusetningar nái að kveða drauginn niður svo við getum sameinast á ný í kringum gamla bíla, notið félagskaparins, vináttunnar og góða veðursins í sumar.  

Við óskum öllum félögum og áhugafólki um gamla bíla gleðilegs nýs árs og við þökkum fyrir þær góðu stundir sem við náðum þó saman á árinu sem er að líða.

Stjórn Fornbílaklúbbs Íslands.