Aðalfundur Fornbílaklúbbs Íslands var haldinn í félagsheimili klúbbsins í Ögurhvarfi miðvikudaginn 24. maí. 

Fyrir utan hefðbundin aðalfundarstörf og umræður og ákvararðanir um lagabreytingar er það helst að frétta að stjórnarskipti urðu í félaginu á fundinum. Formaður klúbbsins til síðastliðinna fjögurra ára, Bjarni Þorgilsson sem og Gunnar Örn Hjartarson, Ómar Kristjánsson og Stefán Halldórsson, stjórnarmenn og varastjórnarliðarnir Atli Vilhjálmsson og Margrét Pála Ólafsdóttir gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. 

Nýkjörna stjórn skipa. 

Rúnar Sigurjónsson, formaður til tveggja ára

Bjarni Benediktsson, Einar J Gíslason og Jóhann Örn Ingimundarson sem stjórnarliðar til tveggja ára. 

Þar sem nýkjörinn formaður kom úr sitjandi stjórn þurfti að kjósa einn mann í stjórnina í hans stað til eins árs og var Karl Hákon Karlsson kosinn í það embætti. 

Ólafur Hjálmarsson og Stefán Örn Stefánsson voru kosnir sem varamenn í stjórn til eins árs. 

Kosnir voru skoðunarmenn reikninga til eins árs, þeir Gunnar Bergþór Pálsson og Ingibergur Sigurðsson. 

Varaskoðunarmaður reikninga til eins árs er Steini Þorvaldsson.

Jón Hermann Sigurjónsson og Kristín Sunna Sigurðardóttir eiga eftir eitt ár af tveggja ára kjörtímabili sínu og sitja því áfram í aðalstjórn ásamt nýkjörnum fulltrúum. 

Nýkjörinni stjórn langar að senda fyrir hönd félagsmanna fráfarandi formanni, stjórnarliðum og varastjórnendum félagsins bestu þakkir fyrir vel unnin störf á kjörtímabili sínu með ósk um velfarnað í framtíðinni. 

Vegna áskoranna er hér birt ræða nýkjörinns formanns af fundinum. 

Kæru félagar

Ég heiti Rúnar Sigurjónsson og er frambjóðandi til formanns hér í kvöld. 

Mér er það ljóst að ég er hér kominn til að taka við embætti formanns Fornbílaklúbbs Íslands, enda einn í framboði. 

Það mun sannarlega verða mér mikill heiður að taka við því embætti og þjóna sem ykkar formaður næsta kjörtímabil (og jafnvel lengur). 

Markmið mitt er að verða einskonar verkstjóri félagsins sem við ætlum í sameiningu að gera svo skemmtilegt og áhugavert. Markmiðið er að gera félagið viðkunnalegan og áhugaverðan áfangastað fyrir alla þá sem áhuga hafa á menningarverðmætum tengdum bílum og allskyns ökutækjum. 

Ég finn mig knúinn til þess að fórna tíma mínum fyrir ykkur félagsmenn góðir til þess að svo megi verða. En til að þetta geti gengið langar mig að koma á fót ,,Gaman saman” verkefninu, sem í framkvæmd hljómar ekki flókið þegar ég útskýri það, en gefur okkur öllum tækifæri til að vera virkir þáttakendur í því að gera félagið okkar áhugavert og frábært. 

Verkefnið snýst um að við ættlum öll að gera þetta saman. Með jákvæðni og brosi á vör ætlum við öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og vinna saman að velferð félagsins. Ég vil virkja tillögur að ferðum og viðburðum frá félagsmönnum og gefa hinum ýmsu aðilum innan okkar raða tækifæri til að láta ljós sitt skína. Vissulega mun það verða svo að sum okkar gera kanski meira en aðrir minna. 

En þegar að margir taka sig saman og fjölmargir leggja eitthvað smá á sig til að vinna lítilræði fyrir félagið, til dæmis að stýra einni ferð, grilla pylsur, sjá um opið hús, sýna okkur áhugaverðar myndir eða á eitthvern hátt hjálpa til við að gera prógrammið fjölbreytt og áhugavert að þá höfum við svo mikið ef margir taka þátt. 

Við höfum öll ólík áhugasvið innan sameiginlegs áhugamáls okkar og við ætlum að láta ljós okkar skína og leifa okkur hinum að sjá inn í þann hugarheim sem við höfum. Við ætlum að fylgjast vel með því hvað hinir eru að gera og láta okkur varða um verkefni annara, sem ætti þá að verða okkur hvatning til að gera vel sjálf. 

Svona starfsaðferð hef ég áður nýtt í þessu félagi er ég var formaður ferðanefndar klúbbsins. Þá nýtti ég fullt af góðum hugmyndum og á þeim árum áttum við dásamlegar samverustundir sem vert er að stefna að á nýju. 

Við ætlum semsagt að umbera og virða hvort annað og skoðanir hvors annars og búa þannig til áhugaverðan grundvöll fyrir því að gera félagið okkar áhugavert og skemmtilegt. Því öll höfum við það sama markmið sem er að varðveita eins vel og okkur er mögulegt þau menningarverðmæti úr ökutækjasögu heimsins sem okkur er falið að varðveita.

Okkur er líka falið að kynna og gera áhugamálið áhugavert fyrir komandi kynslóðir. Það er verkefni sem er í dag öllum fornbílaklúbbum í heiminum áskorun. Hér er verk að vinna en ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera bjartsýn og jákvæð gagnvart því að komandi kynslóðir muni fá áhuga á samgöngutækjasögu, enda eru hlutirnir alltaf svo að ef við höfum ekki sjálf trú á því að okkur takist að leysa verkefni að hvernig eigum við þá að telja öðrum trú um ágæti verkefnisins. 

Mig hlakkar til að vinna með ykkur öllum og sjá hvernig okkur tekst að gera þennan fornbílaklúbb okkar þannig úr garði að hann geti mótað og þróað jákvæða ævi fólks, rétt eins og þessi klúbbur hefur gert fyrir mig, en ég er búinn að vera félagi í þessum klúbb í rúm 30 ár, eða rúm 60% af ævi minni. 

Mér finnst það mikilvægt að öðrum standi slík gæði til boða og því skulum við gera þetta saman og vinna saman til ævarandi heilla fyrir Fornbílaklúbb-Íslands. 

Nú göngum við til kosninga, en í dag snýst kosningin fyrst og fremst um það að við ætlum að sameinast í þessum gildum til framtíðar. Mér þætti því vænt um að sjá atkvæði ykkar allra til stuðnings við það að við ætlum okkur í sameinigu að gera klúbbinn okkar svo frábæran.

Takk fyrir mig í bili.

(Rúnar Sigurjónsson)