Fyrsta V8 vélin sem var ætluð í fólksbíla kom 1914 í Cadillac ef frá eru taldir 3 tilraunabílar Rolls Royce um 1905, og Lincoln notaðist einnig við V8, en allt risavaxnar samsettar blokkir þar sem mikil smíðavinna var nauðsynleg til að setja allt saman.

En vélin sem við sýnum í dag er Ford V8 en sú vél var fyrsta vélin sem náði að vera það ódýr í framleiðslu að bílar fyrir almenning gátu notast við þær.  Chevrolet hafði komið fram skömmu áður með 6 stokka vél og Ford gamli ákvað að ef það væru fleiri cylindrar sem fólkið vildi þá skyldi hann smíða það.

Mikið bras var að fullkomna mót og járnsteypuframleiðsluna til þess að smíða blokkina í eitt stykki en það hafði aldrei áður verið gert.  Tók langan tíma að prufa sig áfram og á tímabili þótti gott ef ein af hverjum 100 heppnaðist þannig að úr henni mætti smíða vél.  Tókst þetta á endanum og varð V8 vélin hryggjarstykki bílaframleiðslu Ford í áratugi frá árinu 1932.

Þess má að gamni geta að það voru Frakkar sem smíðuðu fyrstu V8 vélina, árið 1904.  Hún var til notkunar í flugi.