Kæru félagar.
Það er fátt ef nokkuð hægt að gera við núverandi aðstæður. Við verðum bara öll að þrauka og hlýða Þríeykinu. Sem betur fer höfum við internetið og alla þá kosti sem því fylgir. Einn besti kostur internetsins er að auðvelt er að birta ljósmyndir í góðum gæðum frá liðinni tíð. Sigurður Harðarson sendi okkur þessar myndir sem hann rakst á í gömlu safni sínu og það sem gerir þær sérstaklega merkilegar er að þarna er sennilega fyrsti hópakstur okkar um borgina á Þjóðhátíðardaginn 1977. Þarna eru örugglega bílar á ferð sem sumir hverjir hafa ekki sést lengi. Gaman væri að fá meira af svona sent til okkar svo við getum birt þetta hér öðrum til ánægju.
Að öðru, þótt ekki séu neinir viðburðir í gangi þá gengur venjulegur rekstur klúbbsins vel. Við höfum birt ársreikning okkar og það er greinilegt að staðan er almennt góð. Bílageymslurnar eru orðnar fullar fyrir veturinn og er nýting þeirra með allra besta móti og tekjur af þeim hafa aldrei verið meiri en nú.
Við vonum að Covid óværan verði drepin fyrr en seinna svo við getum hafið okkar starf aftur en þangað til verðum við bara að hittast á internetinu. Við biðjum félaga sem og aðra sem eiga gamlar myndir af bílum að senda okkur þær og við munum birta þær hér.
Við þökkum Sigurði Harðarsyni kærlega fyrir að senda okkur þessar myndir hér að neðan.