Mercedes-Benz L319 voru framleiddir frá 1955 til 1967 í mörgum útgáfum. Hægt var að fá þá sem pallbíla, sendibíla og rútur og enduðu þó nokkrir svona bílar hér á landi. Það er óhætt að segja að þeir voru húðlatir en seigir með aðeins 43 hestöfl í fyrstu bílunum en þetta var vísvitandi gert til þess að halda kostnaði niðri við framleiðsluna að nota vélar sem voru til í fólksbílaframleiðslunni. Þeir gerðu þó sitt gagn þótt hægt færu og voru notaðir um allt land til fólks og vöruflutninga. Ef sýndar eru gamlar upptökur frá bæjarlífi á Íslandi í sjónvarpinu þá má oft sjá einn Skötusel þvælast um strætin og sem dæmi þá sást vel í þáttunum um snjóflóðin á Norðfirði sem nú eru í sýningu á RÚV að þar liggur einn á hliðinni í höfninni.
Langflestir þessara bíla hafa horfið af yfirborði jarðar en þeir þykja í dag eftirsóttir til uppgerðar og eru óneitanlega skemmtilegir karakterar þegar þeir vakna á ný til lífsins.