Kæri félagi Fornbílaklúbbs Íslands.
Nú er árið 2020 senn á enda og má segja að þetta ár hafi verið erfitt öllu félagsstarfi, hvar sem er í heiminum. Stjórn klúbbsins ákvað strax í upphafi faraldursins að vera hluti af lausninni frekar en vandanum og vorum við á því að draga saman í félagsstarfinu hratt og fumlaust svo það væri engin hætta á að félagar okkar myndu smitast af óværunni á okkar hittingum. Þetta var ekki sársaukalaus aðgerð, en við þykjumst vita að langsamlega flestir félagar sjá nú að þetta var það eina rétta að gera í stöðunni og við verðum bara að þrauka þetta hver í sínu lagi, útí bílskúr hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Stjórn hafði gróflega áætlað ákveðnum hluta af tekjum 2020 sem ætti að fara aftur til félaga í formi skemmtunar eða veitinga á hittingum klúbbmeðlima, og er það ljóst að útgjöld okkar í þann málaflokk hafa dregist mikið saman á árinu miðað við upphaflegar áætlanir. Má segja að það sé talsverður „afgangur“ á reikningum klúbbsins af því sem hefði annars farið í skemmtanir, grillveislur, kleinur og kaffi á þeim hittingum sem ekki var hægt að halda. Tekjur klúbbsins af bílageymslum hafa aukist og sú gleðilega þróun hefur orðið á árinu að félögum fjölgaði þrátt fyrir allt og erum við nú um 1250 talsins í þessum góða klúbbi.
Stjórnin vill að félagar geti litið til baka að árinu loknu sem stoltir félagar, að við séum sterkur klúbbur sem stendur styrkum fótum. Klúbbur sem er annt um félaga og fjölskyldur þeirra. Klúbbur sem er stoltur fulltrúi áhugafólks um gamla bíla um land allt og lætur gott af sér leiða.
Eins og öllum er ljóst urðu mikil skriðuföll um miðjan desember á Seyðisfirði sem hrifu með sér hluta byggðarinnar. Það er mikil mildi að enginn hafi látist í þessum náttúruhamförum eða slasast alvarlega. Ljóst er að mikið uppbyggingarstarf er framundan á Seyðisfirði enda eignatjón gríðarlegt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgast með Björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði sem staðið hefur í stafni í björgunarstarfinu í kjölfar skriðufallanna ásamt fjölmörgum öðrum á Austurlandi. Í aurskriðunum skemmdist húsnæði björgunarsveitarinnar ásamt bílakosti og tjón þessarar fámennu en öflugu björgunarsveitar því mikið.
Félagar í Fornbílaklúbbi Íslands vilja leggja sitt á vogarskálarnar í því uppbyggingarstarfi sem framundan er á Seyðisfirði. Þannig viljum við vera áfram hluti af lausninni en ekki vandanum. Hefur stjórn Fornbílaklúbbs Íslands því ákveðið að ráðstafa því fé sem annars hefði farið í skemmtanir á árinu 2020, og styrkja með því Björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði um 1 milljón króna. Þeir fjármunir munu vonandi nýtast vel í þeim verkefnum sem framundan eru hjá björgunarsveitinni.
Stjórn klúbbsins þakkar félögum samstarfið á árinu og óskar þeim sem og landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.