Kæri félagi Fornbílaklúbbs Íslands.
Nú er árið 2021 senn á enda og 2022 bíður okkar. Á nýju ári verða miklar breytingar hjá okkur því loks eignumst við félagsheimili á jarðhæð sem mun án nokkurs vafa bæta alla aðstöðu okkar og gera það auðveldara að hafa skemmtilega og fræðandi dagskrá sem hæfir áhugafólki um gömul ökutæki.
 
Við reiknum með að nýja félagsheimilið verði orðið tilbúið til þess að hefja þar starfsemi í mars 2022 og er mikil eftirvænting hjá stjórn klúbbsins að koma starfinu í Ögurhvarf. Við vonum innilega að næsta ár verði ekki öllu félagsstarfi erfitt eins og síðustu tvö og að bölvuð óværan sem hefur herjað á okkur linnulítið víki sem allra fyrst.
 
Stjórn klúbbsins vill nota tækifærið og bjóða þeim ökutækjaklúbbum sem eiga ekki eigið húsnæði að koma til samstarfs við Fornbílaklúbb Íslands. Nýtt húsnæði opnar loks möguleikana á því að smærri klúbbar geti átt sitt skjól hjá Fornbílaklúbbnum fyrir sína hittinga og er það von okkar að Ögurhvarf verði staður sem muni sameina sem flesta í þessu áhugamáli og auka samstarf og slagkraft þessa hóps á komandi árum.
 
Stjórn Fornbílaklúbbs Íslands þakkar félögum fyrir liðið ár og óskar öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.