Kæru félagar Fornbílaklúbbs Íslands.
Eins og allir vita þá hefur þetta ár 2020 verið hálfgerð martröð fyrir alla, og ekki síst fyrir allt félagsstarf í landinu. Þetta ár hefði örugglega haft gott af því að mínúspóllinn hefði verið losaður af strax í janúar en svona er þetta bara.
Nú hyllir undir betri tíma en á mánudag verður vonandi 2 metra reglan tekin í 1 meter sem gerir að verkum að við getum farið að gera eitthvað saman aftur.
Miðvikudagskvöldið 9. september ætlum við eftir langa bið að opna aftur félagsheimilið í Hlíðasmára og bjóða uppá nýtt kaffi og ilmandi vöfflur. Þetta verður bara rabb og spjallkvöld og hugsanlega finnum við uppá einhverju skemmtilegu.
Laugardaginn 12. sept ætlum við svo að blása til veglegrar haustferðar og heimsækja Samgöngusafnið að Stóragerði í Skagafirði.
Við ætlum að taka daginn snemma og hittast á Esjumelnum í einu af húsum okkar þar sem hefur fengið talsverða andlitsupplyftingu í „covid-fríinu“. Húsið opnar klukkan 8:00. Þar verður létt morgunkaffi í boði fyrir félaga og reiknum við með að leggja af stað í Skagafjörðinn um kl 10:00. Stóragerði mun taka á móti okkur með hádegismat og verða öll hús opin fyrir félaga að skoða.
Hver og einn fer svo bara til síns heima að vild eftir heimsóknina í Stóragerði.