Fræsluefni

Fornbílasöfn í Bretlandi

Mörg góð fornbílasöfn er að finna í Bretlandi og eins og almennt með söfn í Bretlandi þá eru þau skemmtilega sett upp og vönduð. Myndir frá þessum söfnum hafa verið sýndar á myndakvöldum klúbbsins og hafa komið fyrirspurnir um staðsetningu þeirra. Hér fyrir neðan er að finna kort yfir helstu söfnin, og sérstaklega þau er hafa verið heimsótt af undirrituðum og Þorgeiri Kjartanssyni og verða söfnum bætt við hér eftir því sem þau verða heimsótt. Með því að færa músina yfir rauðu deplana sést nafn viðkomandi safns, eins er hægt að smella á þá og opnast þá gluggi með korti í Google Map sem sýnir staðsetningu safns og síðan er hægt að nota "zoom out" til að sjá stærra svæði.
Fyrir félaga er hægt að nálgast skrá fyrir Google Earth yfir söfninn, þar kemur fram hvenær viðkomandi safn var skoðað, staður og heimasíða ef til. Einnig til skrá yfir ýmsa áhugaverða staði í UK og London, verður bætt við þessar skrá eftir því sem tími er til. [jsl]


Glasgow Museum Of Transport Manchester Museum of Transport Malvern Showground Haynes International Motor Museum Tank Museum Beaulieu Transport Museum Brooklands Museum Bentley Wildfowl and Motor Museum Duxford Transport Museum Heritage Motor Center NEC sýningarhöll Streetlife Museum of transport British Commercial Vehicle Museum Cars of the Stars Moray Motor Museum Grampian Transport Museum Myreton Motor Museum Lakeland Motor Museum
Stærra kort hér (en án tengla)


Um frostlög á bifreiðum

Komið hefur í ljós að fjöldi bifreiðaeigenda virðist ekki gera sér grein fyrir að hætta getur verið fólgin í því að skipta ekki um frostlög, en það getur orsakað tæringu eða skemmdir. Þykir því rétt að gefa eftirfarandi upplýsingar í sambandi við eðli Ethylene Glycol frostlagar, sem nú er notaður hér á landi: Til skamms tíma var það venja að frostlögur væri hafður í bifreiðum aðeins yfir vetrarmánuðina og var þá mikið notaður alkóhólfrostlögur. Var frostlögurinn tekinn af strax og voraði. Fyrir nokkrum árum var hins vegar tekið að framleiða frostlög sem hafa mátti á kerfum bifreiðanna allt árið og varð þetta einkum nauðsynlegt í sambandi við notkun á aluminium og öðrum léttmálmum í bifreiðavélar, en vatn verkar tærandi á slíkar vélar við hátt hitastig. Frostlögur sá sem nú er seldur (Ethylene Glycol), hefur eftirfarandi eiginleika: 1. Hann lækkar frostmark kælivökvans. 2. Hann ver kælikerfi bifreiðarinnar gegn ryðmyndun og tæringu. Besta vernd fæst með 50% blöndu. Framleiðendur mæla með að skipt sé um frostlög eftir eitt ár en í mörgum tilfellum mun hann endast lengur. 3. Hann veldur ekki tjóni á lakki bifreiðarinnar eða á öðrum hlutum hennar, svo sem vatnskassa, miðstöð, slöngum, pakkningum eða þess háttar. 4. Hann hefur suðumark við um það bil 200°C og gufar því ekki upp í kælikerfinu. 5. Hann freyðir ekki. 6. Efnabreytingar á honum eru mjög hægfara. 7. Hann veldur ekki eldhættu. 8. Nota má hann jafnt á bensín- og dísilvélar. Hlutverk frostlagarins, auk þess að verja vél og kælikerfi bifreiðarinnar fyrir frosti, er að hindra ryðmyndun, tæringu og froðumyndun í kælikerfinu. Til þess að fullnægjandi vernd fáist að þessu leyti þarf frostlagarblandan að innihalda minnst 50% af frostlegi á móti 50% af vatni, en þessi blanda gefur einnig frostþol niður í -37°. A) Bætt á kerfið: Ef nýlegur frostlögur er á kerfi bifreiðarinnar er aðeins nauðsynlegt að athuga styrkleikagráðu hans og bæta síðan við eftir því sem þurfa þykir til þess að ná nægilegu frostþoli blöndunnar. Í þessu sambandi verður að hafa það í huga, að nauðsynlegt er að nægilegt vatn sé á kerfinu. B) Skipt um frostlög: Sé frostlögur á bifreiðinni orðinn gamall, er hætt við því að sýrumyndun geti átt sér stað, sem valdi tæringu á kælikerfi bifreiðarinnar. Þetta getur valdið skemmdum á vél, vatnskassa og miðstöð bifreiðarinnar. Vísbendingu um sýrustig frostlagarins á kerfinu má fá með einfaldri prófun með Universal-Indikatorpappír. Ef frostlögurinn er orðinn gamall á bifreiðinni eða ef athugun með Universal-Indikatorpappír leiðir í ljós að frostlögurinn er súr (ph-tala 7 eða lægri), er nauðsynlegt að skipt sé algjörlega um á kerfinu. Skal þá fylgja eftirfarandi reglum. a) Mikilvægt er að kælikerfi bifreiðarinnar sé algjörlega tæmt. Er því nauðsynlegt að fylgjast með því að tæmingarhanar séu vel opnir. b) Ráðlegt er að skola bifreiðina út með hreinu vatni, helst volgu. c) ÁFYLLING: Einfaldast er að láta tilbúna blöndu á bílinn (50% frostlög á móti 50% vatni). Þegar frostlagablandan hefur verið sett á kælikerfið er vélin sett í gang og látin ganga nokkrar mínútur þannig að kerfið lofttæmist. Síðan er bætt á þar til yfirborð blöndunnar er nokkru fyrir neðan yfirfallið. Verður að ætla nokkurt rúm fyrir þenslu frostlagarins þegar hann hitnar. Ef kerfið hefur verið tæmt og notaður er óblandaður frostlögur, er rétt að láta á það helming þess vatns sem kerfið tekur. Láta síðan frostlöginn á og fylla upp með vatni. d) SÍÐARI ÁFYLLINGAR: Ef ástæðan fyrir því að minnkað hefur á kælikerfinu er uppgufun vatnsins, er bætt á meira vatni. Hafi hins vegar komið fram leki á kælikerfinu er nauðsynlegt að bætt sé á blöndu af frostlegi og vatni. (Upplýsingar teknar af heimasíðu OLÍS)


Yfirbreiðslur fyrir fornbíla!

Félagi í Fornbílaklúbbnum, Jón Loftsson, er nýbyrjaður að flytja inn vandaðar yfirbreiðslur fyrir bíla og vélhjól. Um er að ræða nokkrar gerðir af yfirbreiðslum, til nota innanhús eða utan. Einnig má sérpanta klæðskérasniðnar yfirbreiðslur eða jeppayfirbreiðslur. Ritstjóri heimasíðunnar hefur persónulega reynslu af því að nota yfirbreiðslu yfir fornbíl og fullyrðir að slíkt sé alger nauðsyn. Hún hlífir bílnum gegn ryki og öðrum óhreinindum, og hindrar að óþarfa nudd valdi lakkskemmdum. Erlendir fornbílasérfræðingar ganga svo langt að kalla menn sóða sem ekki nota yfirbreiðslur fyrir fornbíla sína og líkja því við að menn nenni ekki að hirða í sér tennurnar. Það endar náttúrulega með því að bíllinn þarf á sprautuverkstæði meðan eigandinn lætur smíða upp í sig falskar! Jón Loftsson er búinn að setja upp vandaða heimasíðu með nánari upplýsingum um yfirbreiðslurnar ásamt verðum, en félagar í Fornbílaklúbbnum fá auka afslátt hjá Jóni. www.loftsson.com/bilar


Aðflutningsgjöld fornbíla

Fornbíla 40 ára og eldri er hægt að flytja inn og láta tolla samkvæmt reikningi. Einungis er greitt 13% vörugjald af samanlögðu innkaupsverði og flutningsgjaldi.Þegar vörugjaldið hefur verið lagt við innkaupsverðið og flutningsgjaldið er 24,5% virðisauki lagður ofan á allt saman.


Fornbílatryggingar

Formaður klúbbsins hefur á liðnum misserum fundað með forsvarsmönnum tryggingafélaga vegna óhóflegra fornbílatrygginga sem hækkað hafa mikið á liðnum árum. Alvarleg fákeppni milli þessara aðila hefur hins vegar komið í veg fyrir áhuga þeirra til lækkunar. Nú er hins vegar komið til skjalanna nýtt tryggingafélag, Íslandstrygging hf, sem Fornbílaklúbburinn hefur samið við fyrir hönd allra félagsmanna. Býður Íslandstrygging fornbílamönnum 12.000 kr. fast iðgjald fyrir alla fornbíla, en skilyrði er að menn komi einnig með brúksbílinn og eina aðra tryggingu til félagsins (t.d. heimilistryggingu), en það býður almennt hagstæðari tryggingar en þekkist á markaðnum. Formaður klúbbsins gekk persónulega að þessu tilboði og lækkaði tryggingariðgjöld af bílum sínum og fasteignum um ásættanlega upphæð. Fornbílamenn eru hvattir til að eiga viðskipti við þá sem þekkja okkar þarfir og lækka iðgjöld á fornbílnum í samræmi við notkun og snúa sér til Íslandstryggingar, Sætúni 8 (s.514-1000) og taka félagsskírteinið með sér.


Öryggisbelti í fornbíla

Heimasíðan hefur fengið upplýsingar um aðila sem framleiðir og selur öryggisbelti í fornbíla. Í flestum tilfellum er að ræða tveggja punkta belti, sem nægja til að halda ökumanni og farþegum innandyra ef illa fer, en því miður voru alvarlegustu slysin hér í gamla daga þegar fólk féll út úr bílunum í veltu eða ákeyrslu og lenti undir þeim. Í vetur verða umræður um þessi mál hjá Fornbílaklúbbnum, en eins og allir vita er umferðin farin að taka ískyggilegan toll í formi mannslífa og nú er bara spurning hvað við fornbílamenn getum haldið okkur lengi frá þeim óhugnaði. Slóðin að öryggibeltum fyrir fornbíla er: www.andoauto.com/seat_belts.htm


Varahlutir í fornbíla

Þeir sem voru svo ólánsamir að finna ekki varahluti í fornbílinn sinn á síðasta varahlutamarkaði klúbbsins þurfa kannski ekki að örvænta. Hér eru tvö fyrirtæki sem sérhæfa sig í varahlutum fyrir fornbíla: www.hirschauto.com og www.ynzyesterdaysparts.com .


Ný merki á fornbílinn

Margir sem gert hafa upp fornbíla standa frammi fyrir því að fá ekki rétt merki á þá. Hér er fyrirtæki sem sérhæfir sig í uppgerð og endurgerð merkja á fornbíla: www.emblemagic.com


Útvarp í fornbíla

Vantar þig útvarp í fornbílinn með réttu útliti? Hér er fyrirtæki sem sérhæfir sig í slíkum tækjum: www.soundmove.com


Um gæði bílalakka og umhirðu þeirra Vatnslökkin

Fyrir rúmum tíu árum var sett bann í Evrópu á innflutning bifreiða með olíuakríl lökkum og krafist var af bifreiðaframleiðendum að nota umhverfisvænni lökk eða vatnsþynnanleg lökk á bifreiðar sem fluttar voru inn. Síðan þessi eiturefni voru tekin úr lökkunum hafa menn glímt við margháttuð vandamál. Þessi lökk reynast einfaldlega of gljúp og loka yfirborðinu ekki nægilega vel. Umhirða bílalakka í dag er því með öðrum hætti en áður var. Dæmi eru um nokkurra mánuða bíla sem eru farnir að láta verulega á sjá, lakkið orðið afar matt og oft reynist vera hvít slikja á yfirborðinu. Í flestum tilfellum er orsökin þvottakústar þvottaplananna eða sjálfvirku þvottastöðvarnar. Bökunartíminn Framleiðsla bifreiða er sífellt að verða hraðari og framleiðendur hafa í æ ríkari mæli reynt að stytta bökunartíma lakkana. Til þess að þetta sé hægt verður að auka þurrefnisinnihaldið. Því fylgir sú hætta að hárfínar rispur myndist á yfirborði lakksins, svokallaðar míkrórispur, og er því mjög nauðsynlegt að umhirða þess sé rétt. Við höfum oft tekið eftir því að tuskan sem við bónum með verður lituð af lakkinu. Þetta eru merki þess að bökun lakksins er of lítil. Okkar ráð er að polera lakkið vel því núningurinn myndar hitann sem upphaflega vantaði uppá og herðir því lakkið. Nýjasta afurð framleiðenda er lakk sem kallast Auto Acril RM+ og virðist það bæta töluvert hersluna í yfirborðinu. Umhirðan Með réttri umhirðu geta vatnslökkin verið endingarbetri en gömlu lökkin. Til að svo sé, þarf að gæta vel að eftirfarandi: · Þrífið bílinn oft með leysiefnalitlum efnum. Í hreinsibónum eru mikið af leysiefnum sem matta lakkið. · Látið tjöruhreinsinn ekki liggja lengi á bílnum og alls ekki að nudda lakkið með honum, heldur skolið fljótt af með vatni. Endurtakið frekar tjöruhreinsunina á þeim blettum sem erfiðastir eru. · Notið helst ekki sjálfvirku bílaþvottastöðvarnar heldur þvoið sjálf með svampi og sápu eða notið bónstöðvar þar sem þekking er til staðar. Bílakaup eru næst mesta fjárfesting heimilanna og það er óþarfi að láta bílinn tapa verðgildi sínu of fljótt. Mikilvægt er fyrir bifreiðaeigendur að gera sér grein fyrir því að ekki er nægjanlegt að bóna bílinn einungis fyrstu mánuðina eða yfir sumartímann, heldur er nauðsynlegt að halda bónhúðinni við, allt árið um kring. Töfraefnin Á seinustu árum hafa komið fram ýmis “Töfraefni” í lakkvörnum sem sölumenn þeirra fullyrða að endast í marga mánuði eða jafnvel nokkur ár. Einn reyndi að selja mér efni sem hann sagði endast líftíma bifreiðarinnar. Skrum af þessu tagi eru þessum sölumönnum til skammar en verst er þó að fjöldi fólks trúir þessu. Þessi efni eru flest bandarísk, framleidd fyrir allt önnur lökk en við notum og menn trúa í blindni öllu sem misheiðarlegir sölumenn þessara framleiðanda segja. Reyndin er sú að þessi efni hafa alls ekki staðið undir væntingum og hefur nú dregið mikið úr notkun þeirra. Við höfum prófað flest efnin en ekkert þeirra hefur staðið undir þeim væntingum eða fullyrðingum sem sölumenn þeirra hafa lofað. Nú er svo komið að við erum afar vandlátir á hvaða efni við tökum til prófunar. Lakkskemmdir Tjara sem situr á bifreiðinni litar lakkið samtímis því að hún skemmir herslu þess. Litur bifreiðarinnar hefur líka mikið að segja. Sumir hreinir litir (ekki sanseraðir litir) eru viðkvæmari fyrir skemmdum vegna þess að í mörgum tilfellum er þurrefnainnihald þess meira. Ef Míkrórispur eru komnar í lakkið er ráðlegt að massa eða pólera lakkið með fínum massa fyrir gamalt lakk en látið kunnáttumann um það, því auðvelt er að skemma meira með röngum efnum eða rangri meðhöndlun. Niðurlag Ástæðan fyrir þessum skrifum er að á þessa bónstöð koma mjög oft nýlegar bifreiðar með afar illa farin eða stórskemmd lökk sem ekki er hægt að bóna upp, heldur þarf að massa eða pólera með ærnum tilkostnaði. Slíkum tjónum er auðveldlega hægt að komast hjá og spara þá fjármuni sem aðgerðum þessum fylgja. Allt og sumt sem þarf er að hugsa vel um bifreiðina sína. Það skilar sér í endursölu. Nóg er nú samt. Jósef Kristjánsson. Bónstöð Hjá Jobba.


Sandblástur fornbíla

Fyrirspurnir hafa borist vegna sandblástursþjónustu fyrir fornbílamenn. Tveir aðilar eru vefstjóra efst í huga; Hjálmtýr í Sandblæstri HK, Helluhrauni 6 í Hafnarfirði (s.555-6005) og Sigurður í Bílasetrinu Flugumýri 18 í Mosfellsbæ (s.586-8685). Báðir þessir aðilar hafa víðtæka reynslu af sandblæstri og málningarvinnu fyrir fornbílamenn.


Hvaða eldneyti hentar fornbílum best?

Nú þegar farið er að halla að vori og veturstaðnir fornbílar fara á næstu misserum að streyma út á götur borgarinnar er rétt að leiða hugann að bensínkaupum. Fornbílamönnum er gjarnan annt um ökutæki sín og vilja þeim oftast það besta sem þeir geta fyrir þá gert í ummhirðu og rekstri. Margur fornbílamaðurinn sér nú oft ekki eftir að „splæsa“ á bílinn sinn eithverju dýru og fínu til að hann gangi nú vel og örugglega á leiðarenda ánægjulegrar ökuferðar. En ekki er allt fengið með verðinu og fullyrðingum í auglýsingum olíufélaganna. Sú er reynsla nokkra af okkar félögum klúbbsins sem tekið hafa þá ákvörðun að prófa hið svokallaða V-pover eldsneyti og önnur háoktana bensín á fornbíla sína. Flestir fornbílar eru ekki framleiddir með notkun slíks elsneytis í huga enda vélar þeirra lágþjöppuvélar sem eiga að ganga á eldfimu eldsneyti. Athuga ber þó að til eru örfáir yngri forbílar sem þetta á ekki við um. Sé þjappa vélar það há að gert sé ráð fyrir slíku háoktan eldneyti (sjá t.d. eigendahandbók bíls) má að sjálfsögðu nota það. Fyrir þá sem ekki vita, þá minnkar eldfimnin í bensíni eftir því sem oktantala þess hækkar. Eldfimni bensíns er lækkuð með bætiefnum til þess meðal annars að koma í veg fyrir forsprengingar í háþrýstu brunahólfi. Því hafa nokkrir af félögum okkar uppskorið aflleysi, missprengingar og ójafnan hægagang í fornbílum sínum með því að setja á þá bensín með of hárri oktantölu. Vill því undirritaður benda fornbílamönnum á að kaupa bara ódýrasta bensínið eða 95 oktan (sem í sumum tilfellum er jafnvel alltof hátt) á bíla sína og þannig njóta þess besta sem í boði er fyrir fornbílinn og budduna. Þetta ágæta fræðsluerindi barst heimasíðu Fornbílaklúbbsins frá Rúnari Sigurjónssyni formanni ferðanefndar klúbbsins.