Eldri fréttir - Mars 2013


Stjórn FBÍ heimsækir FBF

Stjórn Fornbílaklúbbsins heimsótti síðasta laugardag nokkra félaga í FBF, Fornbílafjelag Borgarfjarðar, og skoðaði safn og aðstöðu þeirra. Mikið verk hefur verið unnið þar við að koma húsnæði þeirra í notkun og er þar orðin góð aðstaða fyrir félaga þeirra og einnig eru þar rúmlega 30 bílar til sýnis ásamt ýmsum öðrum munum. Nokkurn tíma hefur staðið til að fara í heimsókn þessa en nóg hefur verið að snúast í kringum okkar félagsheimili í vetur. Þarna var gott samstarf og samvinna beggja klúbba ítrekuð og mun FBF standa að nokkrum kvöldum og/eða rúntum sem verða í nafni okkar (FBÍ), en auðvitað fyrir félaga beggja, en með þessu er vonandi hægt að færa eitthvað starf nær félögum á þessu svæði enda gott að geta leitað til góðra aðila, en samskonar samstarf hefur gefist vel fyrir norðan við BA. Myndir frá þessu eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [25.03]jsl


Upplagt að skoða safn um helgina

Fengum sent þetta slide show sem sýnir úrvalið af sýningargripum í Tæknimynjasafninu í Sinsheim, Þýskalandi. Þetta safn hýsir bíla, flugvélar, hertæki og lestar og greinilega margt að sjá þarna. [22.03]jsl
Dóta- og verkfærakvöldið

Í gærkvöldi mættu félagar með söfn sín eða sérstaka hluti til að leyfa öðrum að skoða. Einnig var vinsæla bílagetraunin á sínum stað, en félagar hafa haft gaman af að keppa innbyrðis um visku sína um sjaldgæfa bíla. Eftir bráðabana var Sigurbjörn Helgason með flest stig og hlaut verðlaun fyrir sína frammistöðu. Kosið var um flottasta safnið og var Garðar Schiöth með yfirburði í þeirri kosningu, enda fáir sem eiga jafn stórt safn bílamódela. [21.03]jsl


Leita glæstra fornbíla

Er dýrgripur inni í skúr eða skemmu hjá þér? Finnur Thorlacius bílablaðamaður og Sigurjón Ragnar ljósmyndari gera nú mikla leit að dýrgripum í flokki fornbíla Íslendinga. Ætlunin er að gera þeim verðug skil í sannkallaðri glæsibók sem kemur út hjá Veröld í haust. Vitað er að í skúrum og skemmum víða um land leynast ýmsir gullmolar frá fyrri tíð, jafnt amerískir kaggar sem evrópskar drossíur. Eigendur glæstra fornbíla eru eindregið hvattir til að láta vita af sjálfrennireiðum sínum í netfangið fornbilar@verold.is en þær verða myndaðar sérstaklega fyrir bókina við bestu aðstæður. Þær upplýsingar sem þurfa að koma fram í póstinum eru tegund og undirtegund, árgerð, eigendaskrá, eftir því sem kostur er, ásamt núverandi ástandi. Þá þarf að fylgja með nafn núverandi eiganda og farsímanúmer. Aðeins verða teknir með í bókina fornbílar sem eru í góðu ásigkomulagi. Samkvæmt lögum eru þær bifreiðar fornbílar sem orðnar eru 25 ára gamlar. Stefnt er að því að myndatökur hefjist um miðjan apríl, svo tíminn til að senda inn upplýsingar er takmarkaður. Finnur Thorlacius hefur skrifað um bíla og önnur ökutæki um langt árabil, fyrst í Morgunblaðið en síðar hjá Vísi og Fréttablaðinu og reynsluekið fleiri bílum en hann kærir sig um að muna. Sigurjón Ragnar hefur um tveggja áratuga skeið verið afkastamikill ljósmyndari, bæði á Íslandi og erlendis, og myndað fyrirsætur, jafnt sem knattspyrnustjörnur – og bíla. [20.03]


Auglýst eftir framboðum í stjórn

Kjörnefnd vill minna á að framboð til stjórnar (eða breytingartillögu á lögum) skal hafa borist kjörnefnd einum mánuði fyrir aðalfund, frestur til að skila inn framboði er 19. apríl. Hægt er að kynna sér framboðin á Kosning 2013, en eins og er þá vantar framboð til varamanns þar sem flestir aðrir stjórnarmenn gefa kost á sér áfram. Áhugasamir geta haft samband við formann kjörnefndar, Grétar, í síma 892 1413. [18.03]jsl


Minnt á árgjald

Vert er að minna á að samkvæmt lögum klúbbsins þá er eindagi árgjalda 30. mars og miðast útstrikun við þann tíma, en ekki í byrjun maí eins og var áður. Forðist útstrikun og fáið ármiða fyrir skírteinið tímanlega. [15.03]jslBíla-frímerki

Í dag eru gefin út fjögur ný frímerki sem tilheyra seríunni "Bílaöldin". Að þessu sinni eru myndir af Ford T vörubíl, Chevrolet hálfkassabíl, Mercedes Benz rútu og Bedford slökkvibíl. Hægt er lesa nánar um þessi frímerki á síðu Frímerkjasölunnar. [14.03]jslOlíur fyrir öldunga

Bílanaust vildi koma á framfæri að þeir væru komnir með olíur frá Comma "Classic Motor Oil", sem er sérstaklega fyrir gamlar vélar. Fyrstu brúsarnir eru komnir í verslun þeirra að Bíldshöfða 9 og að Dalshrauni í Hafnarfirði. Nánari upplýsingar um þessar olíur er að finna á síðu Comma. [13.03]jslSteðjanúmer fyrir sumarið

Minnum félaga á að panta tímanlega ætli þeir að fá sér steðjaplötur fyrir sumarið Smíðað er reglulega í hverjum mánuði, en gott er samt að hafa góðan fyrirvara. Einnig er minnt á að skrá fyrst númerið hjá Umferðastofu svo öruggt sé að það sé laust. [08.03]jsl
Meira um dvergbíla

Ernie Adams sem við sögðum frá í síðustu viku, er ekki bara með þennan eina bíl sem hann hefur smíðað. Á heimasíðu hans er hægt að sjá fleiri verkefni hans og sögu þeirra. Einnig eru video sem sýnir hann að smíða grill og lista á einn bílinn. [07.03]jsl