Eldri fréttir - Febrúar 2013

1949 Mercury Dwarf Car

Í gegnum árin hafa bílar farið minnkandi, en Ernie Adams tekur það bókstaflega en í þessu myndbandi er hægt að sjá smábílinn sem hann smíðaði. Það tók hann fimm ár að klára verkið enda þurfti að handsmíða allt sem fór í bílinn. [26.02]jslKathryn DiMaria veit hvað hún vill

Þegar Kathryn DiMaria var 12 ára þá var hún alveg ákveðin í því hvað hún vildi gera, kaupa bíl og gera hann upp. Saga hennar hefur gengið á netinu og bílablöð hafa verið að fjallla um þessa stelpu sem er 14 ára núna og er að gera upp Pontiac Fiero og gerir allt sjálf með smá aðstoð og kennslu frá pabba og frænda sínum. Hér er hægt að sjá myndband um Kathryn DiMaria. [22.02]jsl


Bílagetraun

Þekkir þú vel bílategundir? Sérðu vel mun á árgerðum? Ef svo er þá er þessi getraun fyrir þig. Í hverjum parti eru fjórir bílar og val um fjögur svör, sést svo hvað var rétt um leið og opnast fyrir næsta skref. Í lokin er gefið upp hversu vel gekk í heildina. Reyndu nú: Car Show Game - 1950s [18.02]jslÞorrablótið - Myndir

Síðasta laugardagskvöld var þorrablótið okkar haldið og í fyrsta skipti í nýja félagsheimilinu. Rúmlega 100 manns voru i blótinu, en eftir matinn, sem var auðvitað frá Kjötsmiðjunni, voru nokkur skemmtiatriði og kvöldið endaði síðan með balli frá kl. 11 til 01 þar sem hljómsveit hússins spilaði við góðan fögnuð enda margreyndar kempur þar á ferð. Gífurlegur munur er að hafa nýja félagsheimilið og sérstaklega fyrir þá sem koma að svona uppákomu, þar sem ekki þarf að vera að flytja alla muni og búnað á staðinn og svo að skila víða um bæinn, núna er flest allt á staðnum og fljótlega eftir að gestir eru farnir þá er flest allt klárt og ekki þarf að eyða deginum á eftir í frágang og skilun húsnæðis. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [18.02]jsl


Vegna Skilaboða

Ef þú færð ekki Skilaboðin í email þá höfum við ekki þitt netfang eða ekki hefur verið tilkynnt um breytingu á því. Auðvelt er að senda inn tilkynningu um breytingu með þessu formi. Skilaboðin eru auðvitað aðgengileg hér á heimasíðu okkar, en verði breytingar eða aukatilkynningar vegna dagskrá þá er hún send til allra sem eru á netfangalistanum. [14.02]jslHlíðasmárinn

Undanfarið hefur félagsheimilið verið að lifna mikið við og er farið að virka eins og vonast var til. Eitthvað um 60-80 manns hafa verið að mæta þegar dagskrá hefur verið og eins hafa venjulegu rabbkvöldin verið með góða mætingu og bókaherbergið vel notað, menn mæta með myndir til að rúlla í sjónvarpinu og nefndir nýta fundarherbergið. Í bókaherberginu er ljósritunarvél svo auðvelt er að taka með sér heim upplýsingar sem finnast í viðgerðabókum, einnig er þar tölva til prufu og verður bætt við í þeirri deild eftir þörfum og hvernig nýting er. Eldhúsið er klárt, eftir að hafa verið stækkað, innrétting var stækkuð og sprautuð, vatnsvél er einnig komin svo auðvelt er að fá sér ískalt vatn. Tvisvar í mánuði á stærri kvöldum er kaffi með nýbökuðu bakkelsi selt á 500 kr. og innkoman af því notuð til að kaupa næstu skammta og líka að halda úti fríu kaffi á rabbkvöldum. Á næstu vikum verður farið í að koma upp hljóðkerfinu, bæta og breyta lýsingu. [11.02]jslLeitað eftir bílum í mynd

Til stendur að gera mynd um fund Regans og Gorbachev sem var haldinn í Höfða. Bílar frá 1975 til 1986 koma til greina sem bakgrunnur, en helst er verið að leita eftir limó bílum sem geta komið til greina, einnig Suburban, Volvo og svo auðvitað Harley Davidsson frá þessum tíma. Einnig er leitað eftir bílum sem gætu líkst Zil bíl Gorbachev. Nánari uppl. er hægt að sjá hér. og svo á Fornbílaspjallinu. [08.02]jsl


Áhugavert kvöld

Í gærkvöldi mætti Eggert Þór Bernharðsson, prófessor í menningarmiðlun, að sýna okkur verkefni sem Hagnýt menningarmiðlun hefur verið að vinna að, þ.e. gerð stuttmynda í formi sjónvarpsfrétta frá liðnum tíma. Fór hann yfir gerð "fréttar" um Thomsen-bílinn og hvað þarf að gera til að gæta þess að allt passi við viðkomandi tíma, t.d. fatnaður, bakgrunnur (fólk, bílar, hús og flugvélar). Sýndi hann einnig önnur "Fréttaskot úr fortíð" en þau eru níu eins og er, en fleiri eru í bígerð. Frétt um Thomsen-bílinn. [07.02]jsl