Eldri fréttir - Janúar 2013

Kjörnefnd skipuð

Stjórn hefur skipað formann kjörnefndar fyrir árið 2013, en samkvæmt lögum klúbbsins er það gert í janúar ár hvert. Einróma var Grétar Páll Ólafsson skipaður áfram og mun hann fá með sér þá sem hafa verið honum til stuðnings, enda er þetta góður hópur sem hefur sinnt þessu vel og hnökralaust. Um leið er bent á að öll framboð og eða tillögur um breytingar á lögum verða að berast kjörnefnd mánuði fyrir aðalfund sem verður 22. maí. [23.01]jsl


Vegna greiðsluseðla

Að gefnu tilefni er félögum bent á að vilji þeir losna við greiðsluseðla (í framtíðinni) þá verða þeir að óska eftir því við sinn banka um að hafa innheimtur frá klúbbnum pappírslausar, einnig er hægt að gera það í flestum heimabönkum. Mjög margir nýta sér þetta, en það verður að gerast í gegnum banka viðkomandi. [21.01]jslLétt myndasería

Á svona rigningardögum í janúar er upplagt að hressa aðeins upp á lífið og skoða stutta myndaseríu (power point) af flottum bílum og vona að það styttist í vorið, reyndar eru bara 95 dagar í fyrsta kvöldrúnt. [18.01]jsl


Mynd með frétt
Chevrolet Corvette 60 ára

Fyrir 60 árum var fyrsta Corvettan frumsýnd á Motorama sýningunni, sem var haldin á Waldorf-Astoria hótelinu í New York. Corvettan varð fljótt vinsæl enda mikið öðruvísu en það sem var á markaðnum á þessum tíma. Í gegnum árin hefur hún farið í gegnum nokkur breytingarskeið og mjög misjafnt hvað hverjum finnst flottasta útgáfan, en þriðja kynslóðin er einna þekktust og kemur fyrst í huga flestra, en flott Corvette Sting Ray vekur einnig mikla athygli. Síðustu kynslóðir hafa endað eins og flestar tegundir, í útliti sem auðvelt er að taka ekki eftir. Hér er hægt að sjá nánar um sögu Vettunar. [17.01]jslDagatalið fyrir 2013

Í janúar verður dagatalið fyrir 2013 sent út, gert er ráð fyrir 19 ferðum í sumar og nokkrum auka-ferðum. Sú breyting er gerð að kvöldin í Hlíðasmára eru ekki fyrirfram merkt, heldur verður sett upp dagskrá fyrir hvern mánuð eftir því hvað á við ,enda er í raun ekki þörf á sérstökum rabbkvöldum þar sem þeir sem hafa ekki áhuga á viðkomandi dagskrá geta verið í bókaherberginu og rætt saman um leið og blöð eru skoðuð. Fyrir ofan er hægt að sækja dagatalið sem pdf og svo er það auðvitað alltaf hér á fornbill.is með upplýsingum fyrir hvern mánuð. [16.01]jsl


Greiðsluseðlar fyrir 2013 sendir út

Búið er að senda út greiðsluseðla vegna árgjalds 2013. Sé seðill ekki kominn í lok mánaðar (og viðkomandi ekki með kreditkort skráð hjá okkur) er bent á að hafa samband við gjaldkera á netfangið gjaldkeri@fornbill.is. Breyting á lögum FBÍ vegna árgjalds var gerð á síðasta aðalfundi og er eindagi núna 30. mars og verður útstrikun virk strax í apríl, en ekki um miðjan maí eins og áður hefur verið. Eins og venjulega verður ármiði á skírteini sendur út í byrjun næsta mánaðar eftir að greitt er. [11.01]jslVerðmæti mynda

Þessar myndir hafa örugglega verið bara teknar sem tækifærismyndir fyrir þá sem seldu eða fluttu þessa bíla og örugglega enginn verið að spá í sögulegt gildi þeir, en margt breytist með tímanum. Líklega eru flestir af þessum bílum fyrir löngu horfnir og enn líklegra er að flutningabílarnir séu fyrir löngu horfnir, en í raun er jafnvel skemmtilegra að skoða þá, frekar en það sem þeir flytja þar sem það eru bílar sem hafa verið mikið fyrir augum okkar. [08.01]jslÞorrablót FBÍ

Laugardagskvöldið 16. febrúar verður hið árlega og vinsæla þorrablót Fornbílaklúbbsins og auðvitað haldið í nýja félagsheimilinu í Hlíðasmára. Verðið er 3.200 kr. á mann og er þorrahlaðborð (Kjötsmiðjan) innifalið, en drykkir verða seldir gegn vægu gjaldi svo ekki er ástæða til þess koma með nesti. Hljómsveit hússins spilar fyrir dansi milli 11-01. Það er vissara að panta miða sem fyrst á fornbill@fornbill.is eða í síma 895-8195, því að á síðasta ári varð fljótt uppselt. Forsala miða verður einnig á öllum miðvikudagskvöldum okkar í Hlíðasmáranum. Nánar í næstu skilaboðum og á heimasíðunni fornbill.is. [07.01]jslNý blöð á bókasafnið

Ákveðið var að bæta við þremur nýjum blöðum við þær áskriftir sem eru í gangi, en öll þau blöð eru aðgengileg á bókasafninu í félagsheimilinu. Útvíkkar þetta úrvalið þar sem um er að ræða blöðin Classic Bike Guide, Tractor og Heritage Commercials. [03.01]jsl