Eldri fréttir - Nóvember 2012

Vantar húddskrautið?

Marga bíla frá ´40 og ´50 vantar merki bílsins eða flott húddskraut sem oft var hægt að kaupa aukalega og var ekki endilega ætlað á sérstaka tegund. Vegna sérvisku Bifreiðaeftirlits Ríkisins var eigendum fyrirskipað að saga húddskrautið af svo ekki væri hætta á meiðslum ef það væri ekið á gangandi vegfaranda (sem sagt ekki hægt að meiða fólk með ákeyrslunni sjálfri!!!!!). Hjá The Taillight King (mikið úrval af linsum á ljós og ýmislegt annað) er hægt að fá ýmis húddskraut vilji menn skreyta bílinn. Á þessari síðu er hægt að sjá myndir af algengu húddskrauti. [27.11]jslHlíðasmárinn í gærkvöldi

Síðustu daga hefur verið unnið við að stækka eldhúsið, en það þótti heldur mjótt þegar unnið var í því. Um leið var lagað það sem þurfti í rafmagni og vatni til að tryggja að allt sé í lagi í þeim málum næstu árin. Vikulega er náð í bækur upp á Esjumel til að koma fyrir í bókasafninu og í gær var bætt við hillum, ljósritunarvélin er komin á sinn stað. Netið er auðvitað aðgengilegt í öllu húsnæðinu og prentari verður tengdur fljótlega, og nýtist vel nefndum. Í síðustu viku var salurinn leigður út í fyrsta skipti til klúbbs vegna fundar og fyrirspurnir frá fleiri klúbbum hafa komið, svo það má búast við áframhaldi á því eftir áramót. [22.11]jslBílar í máli og myndum

Félögum Fornbílaklúbbsins gefst nú einstakt tækifæri til að eignast með góðum afslætti bókina "Bílar í máli og myndum" sem er nýútkomin hjá Forlaginu. Bókin, sem er 360 bls. í stóru broti, leiðir lesandann á einstakan hátt í gegnum sögu bílsins, allt frá árdögum hans fyrir rúmlega 120 árum til dagsins í dag. Í bókinni getur að líta meira en 1200 bíla af öllum stærðum og gerðum, margbreytilegar vélar og sögu ástsælustu tegundanna og mannanna á bak við þær. Óhætt er að fullyrða að þessi bók sé sannkölluð skemmtireisa í gegnum bílasöguna. Félagar Fornbílaklúbbsins geta nú eignast þessa einstöku bók með 25% afslætti, eða á 6743 kr., í bókabúð Forlagsins að Fiskislóð 39 í Reykjavík gegn framvísun félagsskírteinis. [19.11]jslTekið á því í Bretlandi

Árlega mæta eigendur bíla sem voru smíðaðir fyrir 1931 og taka þátt í keppni sem er haldin í Lake District, Cumbria. Þar reyna menn að komast á sem bestum tíma upp Fleetwith Pike sem er 648 metra fell með ekta sveitavegi. Að þessu sinni voru 150 bílar sem tóku þátt og margir klæddir upp í stíl við sinn bíl. Svona keppnir eru vinsælar, enda margir sem nota tækifærið til að njóta sinna bíla í alvöru akstri, enda voru þeir smíðaðir til notkunar. Hér er hægt að sjá fleiri myndir frá þessari keppni. [15.11]jsl


Ferðanefnd að mótast

Nokkrir félagar hafa svarað kalli og stefna að taka að sér ferðanefnd fyrir næsta sumar og er þegar byrjað að móta sumarið og raða upp dagatali. Símon Arnar Pálsson, Hinrik B. Pétursson og Þórður Helgi Bergmann taka nefndina að sér, en Símon mun veita henni formennsku og vera tengiliður. Kristín Sunna Sigurðardóttir verður áfram, einnig þeir Magnús Magnússon og Sigurjón Guðleifsson, en þeir sjá aðallega um það sem snýr að Suðurnesjum. Ferðanefnd vill heyra sem fyrst í þeim sem hafa áhuga á að vera með þeim félögum næsta sumar í þessu starfi, eða vilja taka að sér stakar ferðir, enda starfið þess auðveldara eftir því sem deilist á fleiri. Einnig er leitað eftir aðilum sem vilja taka að sér fundi eða ferðir á ýmsum stöðum úti á landi og væri gaman að geta haft einhverja skipulagða viðburði hér og þar á næsta ári. [13.11]jslAlvöru bílskúr

Hver mundi ekki vilja svona aðstöðu fyrir sína bíla? Ed Brown hefur allavega látið drauminn rætast, enda miðað við bílaflotann sem hann á þá ætti ekki að vera mikið mál að splæsa í einn góðan skúr undir dótið. Hér eru myndir sem voru teknar þegar Kit-Han-Ne Car Club fór í heimsókn til hans árið 2009. [09.11]jslThe Italian Job valin besta bílamyndin

Í nýlegri könnun meðal bílaáhugafólks í Bretlandi var The Italian Job (1969) valin sem besta bílamyndin og Bullitt hafnaði í öðru sæti. Í þessari könnun var spurt um nokkur atriði, classic motoring movie, classic car in the movies, classic motorcycle, car chase, favourite classic in television and classic they would most like to see featured. Aston Martin DB5 úr Goldfinger og Mini úr The Italian Job voru auðvitað efstir á blaði, Harley-Davidson úr Easy Rider og Triumph úr The Great Escape fyrir mótorhjólin. Jaguar Mk2 úr Inspector Morse var ofarlega í hugum fólks og auðvitað Jaguar E-Type. Þessi könnun var aðallega gerð til að finna út hvaða bíla ætti að sýna vegna Classic Film Festival, sem verður í tengslum við bílasýninguna í Birmingham 16.-18. nóvember. [08.11]jslClassic Range Rover vinsæll

Oft laumast ýmsar tegundir til að verða vinsælar, og áður en nokkur veit af þá eru þeir orðnir eftirsóttir og dýrir. Upprunalegi Range Rover hefur verið að skapa sér góðan markað í Bretlandi og þessir Classic Range Rover tveggja dyra eru orðnir jafnvel dýrari en 2012 árgerðin, með öllum mögulegum aukahlutum. Þetta á auðvitað aðallega við um bíla sem hefur lítið verið átt við og mundi lítið þýða að bjóða þeim t.d. Range héðan með hækkun og breiðum dekkjum. Hér er smá grein um Classic Range Rover í The Telegraph. [02.11]jsl


10 dýrustu bílarnir

Á þessari síðu er hægt að sjá lista yfir þá bíla sem hafa fengið hæstu boð á uppboðum. Svona listar breytast ekki mikið, en samt er alltaf einhver hreyfing á því hvað þykir eftirsótt. Sá ódýrasti á listanum fór á 920 milljónir, svo það er ekkert venjulegt fornbílafólk sem er að kaupa þessa bíla, en oftast er þetta fjárfesting. [01.11]jsl