Eldri fréttir - Október 2012

Steðjanúmer fyrir jól

Minnum á að síðasti pöntunardagur steðjanúmera fyrir jól er 15. nóvember. Upplagt er að gefa sjálfum sér í jólagjöf gott númer á bílinn, nú eða benda makanum að á þetta sé málið í ár. Að venju þarf að tryggja sér númerið hjá Umferðastofu fyrst áður en pantað er hjá okkur. Pöntunarform er á fornbill.is eða í síma 895 8195. [31.10]jslLondon to Brighton Veteran Car Run

Hinn árlegi akstur bíla sem eru 108 ára og eldri, frá London til Brighton, verður haldinn næsta sunnudag. Áætlað er að rúmlega 500 bílar taki þátt og er það svipað og síðustu ár. Skemmtileg nýjung er að hægt er að kaupa sér far með "open top bus" sem fylgir bílunum alla leið og innifalið er að vera á besta stað við ræsingu og endamark. Hér er hægt að sjá meira um aksturinn og eins þá sem hafa skráð sig. [30.10]jslLaugardagskvöldið

Félagsheimilið okkar var formlega tekið í notkun síðasta laugardagskvöld þegar félagar komu saman á haustfagnaði og skáluðu fyrir nýju tímabili í sögu klúbbsins. Boðið var upp á léttar veitingar og "húsband" klúbbsins mætti og tók nokkur lög. [29.10]jsl


Haustfagnaður og formleg opnun félagsheimilis

Laugardagskvöldið 27. október verður félagsheimilið formlega tekið í notkun og um leið kveðjum við sumarið með haustfagnaði. Kvöldið verður haldið í félagsheimili okkar Hlíðasmára 9, 3. hæð, og opnar húsið kl. 21 og eftir að skálað hefur verið fyrir nýju tímabili í sögu klúbbsins verður boðið upp á léttar veitingar og þá verður barinn opinn með mjöð á vægu verði. [25.10]jslFerðaverðlaun í gærkvöldi

Fríður hópur fornbílafólks tók á móti ferðaverðlaunum fyrir liðið sumar, og að því loknu var kaffi, síðan rúlluðu myndir á tjaldinu frá ferðum. Alls fengu 16 verðlaun (14 stig eða meira af 24) en í heildina voru 245 skráðir með 970 mætingar í sumar, en þetta eru bara mætingar skráðra félaga, þar sem heldur fleiri koma með í ferðir, enda allir velkomnir alltaf með í ferðir eða rúnta. [25.10]jsl


Verðlaunaafhending

Miðvikudagskvöldið 24. október verður afhending verðlauna fyrir ferðamætingar fyrir liðið sumar. Húsið opnar kl. 20.30 og dagskrá hefst kl. 21. Eftir afhendingu munu myndir frá sumrinu rúlla ókynntar á tjaldinu. Eftirtaldir félagar eru beðnir að mæta til að taka á móti ferðaverðlaunum (stigafjöldi er með fyrirvara um breytingar).
Gull: Árni / Guðný og Símon Arnar Pálsson.
Silfur: Gunnar Már Gunnarsson, Hilmar Helgason, Kristín Sunna Sigurðardóttir, Sigurður Ásgeirsson, Sveinn Þorsteinsson og Þorgeir Kjartansson.
Brons: Ársæll Árnason, Bjarni Þorgilsson, Björn Magnússon, Garðar H. Garðarsson, Jens Kristján Jensson, Jón Hermann Sigurjónsson, Kristinn Sigurðsson, Þórður Helgi Bergmann. [23.10]jsl


Vinsæl "rúgbrauð"

Undanfarin ár hefur orðið mikil aukning á vinsældum eldri Volkswagen bíla og þá sérstaklega Type 2, öðru nafni Transporter, Kombi, Microbus, the Bus (US), Camper (UK) eða "rúgbrauð". Gífurlega stórir klúbbar eru erlendis í kringum þessa bíla og má segja að endalaust sé búið að breyta þeim bæði innan sem utan. Sama hefur verið að gerast með þá eins og bjölluna að vinsælt er að gera þá í stíl við "rat-rod". Ein þeirra sem kom á Landsmótið 2011 ásamt öðrum frá Hollandi heldur úti síðu um VW bíla og þar er að finna myndir frá ýmsum VW samkomum og einnig er hægt að sjá myndir frá stórri samkomu sem var nýlega í Brighton. [22.10]jslDósa bílar

Það verður langt í það að maður hafi séð allt, þar sem alltaf er einhver að koma með eitthvað nýtt. Sandy Sanderson býr til bílamódel úr áldósum og miðað við myndir af þessum módelum er þetta listilega gert og vel úthugsað. Kannski sjáum við svona frá einhverjum félaganum á næsta safnara- og dótakvöldi? [19.10]jslFélagsheimilið lifnar við

Í gærkvöldi var sýnd mynd frá ferð klúbbsins til Færeyja, en þessi fyrstu kvöld hafa verið smá prufukeyrslur á nýja félagsheimilinu og var ekki annað að sjá en félagar taki því vel. Hljóðkerfi er til bráðabirgða en nýtt sýningartjald kom vel út og eftir myndina, á meðan félagar fengu sér kaffi, voru látnar rúlla myndir frá síðustu árum og má búast við að einhverjar myndir verði í gangi öll kvöld, hvort sem það verður í sal eða frammi þar sem verður sér skjár. Á þeim kvöldum sem einhver dagskrá er verður kaffiskammtur (kaffi/gos + kaka/vaffla) seldur á vægu verði. [18.10]jslMyndir frá jeppa- og trukkaferð

Nýlega fengum vð myndir frá jeppa- og trukkaferð er farin var um miðjan ágúst síðastliðinn. Þrátt fyrir mikla jeppa- og trukkaeign félaga þá hefur verið lítil þátttaka í þessum ferðum og erlendis finnst mönnum skrítið hvað eigendur hér nota bíla sína lítið í svona ferðir, þegar auðvelt er að finna fáfarnar og skemmtilegar leiðir og eru erlendir aðilar farnir að sækjast í að koma hingað til að nota bíla sína. Myndir eru á Myndasíðu og eins stærri fyrir félaga. [15.10]jslEnn eitt bílasafnið

Í vikunni var Bentley Wildfowl & Motor Museum skoðað, lítið en nett safn sem er á fallegum stað sem býður upp á margt til að skoða um leið. Þessi staður er ekki svo langt frá London ef það vantar hugmynd fyrir dagsferð. [12.10]jslFlott Bond sýning

Til áramóta er flott sýning á bílum og tækjum úr 007 myndunum í tilefni þess að Bond myndirnar eru 50 ára. Sýningin er haldin við National Motor Museum safnið, sem á 40 ára afmæli á þessu ári, en Beaulieu heldur einnig upp á að 60 ár eru síðan að setrið var opnað fyrir almenning. [11.10]jsl


Breyting á dögum í Keflavík

Vegna breytinga á dagskrá í Íþróttaakademíunni þá færist okkar kvöld á fimmtudaga. Fram til áramóta verða þessi kvöld, 11. okt., 8. nóv. og 6. des. Opið verður á sama tíma, frá 19.30 til 22. [10.10]jslHeimsókn á Ferguson safnið

Um helgina skoðaði undirritaður safn Ferguson fjölskyldunnar á Isle of Wight. Margt forvitnilegt var að sjá þar, en safnið var opnað árið 2003 og er opið eftir samkomulagi. Nokkrar myndir eru hér frá safninu. [08.10]jsl


Burnout 2012
Bílasýning Kvartmíluklúbbsins um helgina

Árleg bílasýning Kvartmíluklúbbsins verður haldin á Korputorgi dagana 6. - 7. október. Sýningin er opin á laugardag frá kl 10:00 - 22:00 og sunnudag frá kl 10:00 - 18:00. Miðaverð er kr 1500 og frítt fyrir 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum. Um 80-90 tæki af öllum stærðum og gerðum verða á sýningunni, svo allir ættu að sjá eitthvað við sitt hæfi. [04.10]jsl


Rabbkvöld í Hlíðasmára, opið milli kl. 20.30 og 23

Frá og með október erum við fluttir í Hlíðasmára og verður þar með öll dagskrá þar. Rabbkvöld í okt. verða þann 3, 10. og 31. Rabbkvöld verða með venjulegu sniði, en í nýja húsnæðinu er auðvelt fyrir þá sem vilja sýna myndir sínar að gera það án þess að trufla þá sem vilja rabba og lesa blöð/bækur. Nýr opnunartími verður einnig tekinn upp. Húsið opnar kl. 20.30 og lokar kl. 23. [02.10]jsl


Yfirfarið mætingar

Í október verða afhent mætingarverðlaun fyrir sumarið 2012 og eru þeir sem best hafa mætt beðnir um að yfirfara sín stig, svo að ekki sé verið að hlunnfara viðkomandi um stig verðlauna. Hægt er að sjá mætingar hér. [01.10]jsl