Eldri fréttir - Janúar 2012

Erlendar sýningar 2012

Þegar farið verður í ferðalög á árinu er upplagt að skoða hvort einhverjar bílasýningar séu sem hægt er að kíkja á í leiðinni. Erfitt er að finna tæmandi lista yfir sýningar og samkomur þar sem þær eru mismikið auglýstar á netinu, en þessar síður sýna smá þverskurð af því sem er að finna núna og síðan bætist við eftir því sem líður að sumri. Einnig er hægt að finna upplýsingar í staðarblöðum, bæklingum á hótelum og svo auðvitað í leit, t.d. á Google undir "classic car show (heiti lands eða staðar)". [30.01]jsl
www.classic-car-directory.com/events
www.carshownews.com/autoshows
www.motoringevents.net
www.oldcarsweekly.com/showcalendar


Mynd með frétt
Titanic Rolls Royce

Þessi 101 árs Rolls Royce Silver Ghost, sem ber nafnið 'Titanic', verður einn aðalsýningargripurinn á bílasýningu sem haldin verður í Newcastle í lok janúar. Þessi Rolls var smíðaður fyrir Lord Pirrie stjórnarmann Harland and Wolff sem smíðuðu hið fræga RMS Titanic. Bíllinn hefur átt farsælla líf heldur en skipið sem hann var nefndur eftir, en hann var seldur árið 1924 eftir lát Lord Pirrie's. Fram til 1950 hafði honum verið breytt í sjúkrabíl og í stuttan tíma sem björgunarbíl með gálga! Var hann tekinn í gegn og að lokum seldur til Bandaríkjanna upp úr 1980, og kom síðan aftur til baka um 2000, en þá tók við fjögurra ára uppgerð. Þrátt fyrir margvíslega ævi þá ber hann ennþá plötu með 'Titanic' nafninu og skjaldarmerki Lord Pirrie's. [27.01]jslBíllinn hans pabba

Margir hafa náð sér í bíla sömu tegundar, eða jafnvel sama bílinn, og var heima fyrir þegar þeir voru að alast upp eða þeirra fyrsti bíll. Ef það er ekki þegar veruleiki þá dreymir marga um að ná sér í einhvern sérstakan bíl sem er tengdur góðum minningum eða tímabili á sinni ævi.Á þessu myndbandi er hægt að sjá þegar bræður ásamt myndaliði frá Chevy fundu bíl föður þeirra og afhentu honum aftur sinn 1965 Chevy Impala SS, en í myndinni er farið yfir það hvernig þeir fundu hann. [26.01]jsl/sh


Nýr fornbílaárgangur

Þar sem bílar frá árinu 1987 teljast núna fornbílar (opinberlega eftir skráningardegi) er upplagt í byrjun nýs fornbílaárs að skoða hvað gerðist á þessu ári, fyrir þá sem eiga bíla frá því ári. Margt gleymist fljótt og sumir fornbílaeigendur í dag voru ekki einu sinni fæddir þetta ár. Á People History er að finna upplýsingar um hvert ár fyrir sig og samkvæmt þessari síðu voru t.d. Ford Escort, Ford Taurus, Honda Accord og Chevrolet Cavalier meðal söluhæstu bíla í Bandaríkjunum. [23.01]jsl


Enn vantar í Ferðanefnd

Stjórn vill minna á að enn er leitað eftir fólki í Ferðanefnd. Ekki er hægt að búast við að full dagskrá verði í ferðum í sumar sé ekki áhugi hjá félögum að sinna þessu starfi, en auðvelt er að taka að sér vissar ferðir og álagið minna á hvern eftir því sem fleiri eru í nefndinni. [20.01]jsl


Kjörnefnd skipuð

Stjórn hefur skipað kjörnefnd fyrir aðalfund 2012, en samkvæmt lögum klúbbsins skal það gert ár hvert í janúar. Stjórn samþykkti einróma að fá þá Grétar Pál Ólafsson og Kjartan Friðgeirsson áfram, enda hafa þeir staðið sig mjög vel í þessu starfi síðasta ár. Munu þeir síðan kalla eftir aðstoð annarra félaga eftir þörfum á aðalfundi, enda hefur góður kjarni myndast í kringum þessi ábyrgðarstörf. Í næstu skilaboðum verður síðan auglýst formlega eftir framboðum, en kosið er um þrjá stjórnarmenn og tvo varamenn. [19.01]jsl


Íslenska á spjallinu

Nú er búið að setja upp Íslensku á spjallinu, þeir sem eru þegar skráðir verða að fara í User control panel -> Board preferences og breyta úr ensku í íslensku (virkar bara með sjálfgefnu thema, prosilver). Unnið er einnig í að losna við spam skráingar sem er vandamál á öllum spjallborðum og væntanlega ætti að vera hægt að opna fyrir sjálfvirkar skráningar fljótlega, en í dag þarf að opna handvirkt fyrir hvern sem nýskráir sig. [17.01]jsl


Sérstakt safn

Grandpa's Garage & Body Shop í DeSoto, Kansas, er rekið af Dean Weller sem hefur safnað ýmsum bílum sem hann hefur síðan annað hvort gert upp eða jafnvel byggt frá grunni eftir myndum og teikningum. Sumum breytir hann til að líkjast öðrum tegundum eða bara eftir því sem honum finnst fara best. Grein ásamt myndum um Dean Weller og Grandpa's Garage & Body Shop er að finna hér. [16.01]jslFornbílakvöld á Suðurnesjum

Eins og félagar taka eftir á dagatalinu þá eru merkt inn kvöld sem verða haldin í Keflavík fyrir þá félaga sem eru á Suðurnesjum. Þessi kvöld verða á þriðjudögum svo auðvelt er fyrir félaga að mæta einnig á kvöldin í bænum sé áhugi á þeirri dagskrá. Kvöldin verða einu sinni í mánuði til prufu og með ýmsri dagskrá, en um sumarið lögð áhersla á létt rabbkvöld með rúnti eftir aðstæðum. Kvöldin verða í 88 húsinu, Hafnargötu 88, Keflavík og opið verður frá kl. 20 til 23. [09.01]jslTímamótasamkomulag bílaklúbba

Í desember síðast liðnum var undirritað af stjórn Fornbílaklúbbs Íslands og Bílaklúbbs Akureyrar samkomulag um samstarf á ýmsum sviðum sem snýr að starfi og kjörum félaga beggja klúbba. Í þessu felst að félagar beggja klúbba geta gengið að sömu kjörum á vissum sviðum og viðburðum eftir því sem á við. Nánar um þetta samkomulag er fjallað í nýjustu Skilaboðum FBÍ og BA mun kynna það sama fyrir sínum félögum. Í tengslum við þetta samkomulag mun BA sjá um nokkur kvöld fyrir norðan í nafni FBÍ og einnig verða til prufu valdir rúntar sem verða á sama tíma á báðum stöðum. Með þessu samkomulagi er vonast til að hægt verði að bjóða upp á meira starf fyrir norðan og svo auðvitað verða BA félagar velkomnir í starfið fyrir sunnan. Tekið skal fram að báðir klúbbar starfa auðvitað með sínu lagi áfram eins og hefur verið, en stjórnir beggja klúbba vonast til að þetta verði til að efla samskipti félaga og starf klúbbanna. [05.01]jsl


Fornbílaspjallið uppfært

Í lok ársins var lokið við að uppfæra Fornbílapjallið en til stóð að flytja undir fornbill.is um leið en ekki varð að því í bili. Þegar svona aðgerð er í gangi er alltaf möguleiki á að eitthvað misfarist eða breytist og ef aðgangur einhvers virkar ekki sendið þá póst á fornbill@fornbill.is og takið fram notendanafn og lykilorð og mun vera reynt að bæta úr því. Ekki er víst að tenglar sem vísa í aðra pósta virki en aðilum bent á að uppfæra þá í þeim virkum umræðum sem skipta máli. Slóð á spjallið er þá framvegis www.fornbill.is/spjall. Einnig eru orðin virk lykilnetföng sem enda á @fornbill.is og eru það fyrir klúbbinn sjálfan fornbill, formadur, ritari, gjaldkeri, geymslur og ferdanefnd (ekki virkt strax). Ætti þetta að vera auðvelt fyrir félaga að muna þess aðal netföng. [04.01]jsl