Eldri fréttir - Nóvember 2011

Mælum með Google Calendar

Google Calendar er örugglega það þægilegasta sem undirritaður getur bent fólki á að nota vegna skipulagningar áhugamála og vinnu sinnar og þar á meðal fornbílamætingar. Í nokkurn tíma höfum við haft dagskrá klúbbsins aðgengilega í Google Calendar, og á forsíðu fornbill.is er að sjá yfirlit yfir næstu viðburði. Þeir sem hafa ekki notað Google Calendar átta sig kannski ekki strax á hversu þægilegt er að nota það, en eftir að hafa stofnað aðgang, sem kostar ekkert og allir sem hafa gmail eru með það þegar, er hægt að setja upp sín dagatöl sem er hægt að hafa fyrir sig eða leyfa fjölskyldu, samstarfsfélögum og öðrum aðgang. Um leið og maður er komin með sitt dagatal þá er komið að þessu þægilega, hægt er að sækja önnur opin dagatöl (eða fá boð um aðgang frá öðrum) og t.d. sjá dagskrá Fornbílaklúbbsins á sínu dagatali um leið og maður skipuleggur sín frí eða annað. Google Calendar getur einnig sent áminningar um viðburði, bæði í tölvunni, í mail eða það besta, í sinn gsm síma en sú þjónusta kostar ekkert. Eina sem þarf að gera er að velja viðburð og velja hverskonar áminningu. Ef þú ert að nota Google Chrome þá er einnig hægt núna að hafa Google Calendar "offline" svo alltaf er hægt að sjá sitt dagatal þó að maður sé ekki nettengdur. [28.11]jsl


Til sölu uppfært

Nú er búið að færa inn mikið af "nýjum" hlutum í Til sölu síðurnar. Varahlutanefnd hefur verið dugleg að mynda og flokka bretti, stuðara, húdd og margt fl. (ca. 120 hluti). Upplagt fyrir þá sem eru í framkvæmdum í vetur að skoða síðurnar, þar sem ýmislegt getur leynst þar. [25.11]jsl


Flottar myndir af flottum bílum

Félagi okkar sendi okkur þetta myndasafn (í power point) en lítið er vitað hvar þær eru teknar eða við hvaða tækifæri, en þarna eru bara flottir bílar svo það er nóg. [24.11]jsl


Buick til sölu í Noregi

Eftir bankahrunið var nokkuð um að Norðmenn kæmu hingað til að gera góð kaup á fornbílum, en núna er tækifærið að snúa því við þar sem Stein E. Tveter hafði samband við okkur og vildi benda á að hann væri með 1970 Buick Estate Wagon til sölu. Stein þessi á fyrir 1970 Buick Electra Convertible og 1970 Dodge Coronet 500 sem er á leiðinni til hans. Hægt er að sjá nánar um þennan Buick hér en lægra verð er ef bíllinn er seldur út úr landi. Aðal ástæða Steins var samt að fá upplýsingar um næsta landsmó,t þar sem hann og kona hans höfðu verið hér á landi og rákust á síðuna okkar þegar leitað var eftir meiri upplýsingum um Ísland og er stefnt á aðra heimsókn hingað. [23.11]jsl


Downton Abbey Downton Abbey Downton Abbey
100 ára sjónvarpsstjarna

Einn af mörgum fallegum og áhugaverðum bílum á Classic Motor Show í Birmingham var þessi 1911 Renault type CB12/16hp, en bíllinn er notaður í Downton Abbey þáttunum sem eru núna sýndir á Rúv. Bíllinn er óuppgerður en fullkomlega ökuhæfur, eins og sést í þessum þáttum, en Julian Fellowes sem samdi Downton Abbey er einnig fornbílaáhugamaður og hefur sótt þessa sýningu síðustu ár. [21.11]jsl


Átak vegna rafrænna Skilaboða

Stjórn klúbbsins hefur hafið átak til að fá félaga til að skrá sig með netfang til að fá Skilaboð í rafrænu formi. Undanfarin ár hefur þessi útgjaldaliður verið að hækka og enn einu sinni hafa póstburðargjöld hækkað og stefnir í að útgáfa Skilaboða kosti 17-18% af innkomu félagsgjalda og er ekki hægt að réttlæta svo hátt hlutfall til að koma út smá blaði með dagskrá. Rafrænu Skilaboðin hafa verið að stækka og eru orðin ítarlegri og hægt er að koma meira af efni til félaga án nokkurs kostnaðar og auðvitað er um leið hægt að senda út aukatilkynningar verði breytingar á dagskrá, eða annað sem kemur upp. Stefnt er að ná 85-90% félaga í rafræn Skilaboð (eru þegar tæp 60% í dag) fyrir aðalfund 2012 og fyrir þá sem eftir eru verður hægt að fá Skilaboð prentuð á blaði, en þau verða auðvitað með gamla laginu og ekki með eins miklum upplýsingum og hin rafrænu. Félög og klúbbar eru mikið farin að nota rafræn fréttabréf og hjá mörgum er ekki boðið upp á annað, þar sem kostnaður vegna svona útgáfu fer sífellt hækkandi. Hægt er að senda inn netfang vegna Skilaboða hér og minnum um leið á að nauðsynlegt er að senda okkur breytingar á netföngum, alveg eins og breytingar á heimilsföngum. [18.11]jsl


Ritnefnd óskast - Ítrekun

Enn er verið að leita eftir aðilum sem hafa áhuga á að koma að þessu máli og einnig góðum pennum til að senda nefndinni greinar um ýmis bílamál. Væntanlega er búið að fá aðila sem mun stýra nefndinni til að byrja með, en einn maður gerir ekki allt svo skorað er á félaga að gefa sig fram. Stefnt er að því að koma út blaði klúbbsins tvisvar á ári, vor og haust/vetur og æskilegt er að í nefndinni séu ekki færri en 2-3 félagar. Áhugasamir geta haft samband við Þorgeir í 895 8195 eða Jón Hermann í 895 1515. [16.11]jslNokkrar myndir frá sýningu

Eins og hefur komið fram þá vorum við nokkrir á bílasýningu í Birmingham um helgina og var þar margt að sjá. Í ár var sýningin stærri en síðustu ár og þar var einnig mikið af eldri mótorhjólum. Top-gear var einnig með ýmislegt í gangi og var þetta mikil og góð helgi. Myndasýning frá þessari sýningu verður síðan á dagskrá seinna í vetur. [14.11]jsl


Safn Safn Safn Safn
Safn
Safn
Skundað á sýningu

Núna erum við nokkrir félagar í Bretlandi, erum að fara á fornbílasýningu í Birmingham, en þetta er lokasýning klúbbanna þar og jafnframt ein sú stærsta þar í landi. Í gær var farið á Heritage Motor Centre Museum og safnið skoðað og svo er sjálf sýninginn um helgina. [11.11]jsl
Gleymdar konur í bílasögunni

Í bílasögunni er að finna margar merkar uppfinningar á hlutum sem þykja sjálfsagðir í dag, en voru ekki teknir með opnum örmum og sannast að enginn er spámaður í sínu landi. Mary Anderson fékk á þessum degi árið 1903 skráð einkaleyfi á "gluggahreinsitæki fyrir rafmagnsbíla eða önnur farartæki til að hreinsa snjó, ís eða slyddu af glugga". Ekki fékkst neinn til að framleiða eða selja þessa græju og var jafnvel talað um að það mundi trufla ökumann og valda slysum, en þessa hugmynd hafði Mary einmitt fengið eftir að hafa séð hvað illa gekk að hreinsa snjó af glugga sporvagns sem hún var í, þrátt fyrir að ökumaðurinn hafi verið með skiptan glugga sem hægt var opna til að sópa af, en um leið snjóaði inn á hann og farþega. Einkaleyfi hennar rann út áður en einhver vildi kaupa það og upp úr 1913 var farið að bjóða þennan aukahlut á bílum, sem við auðvitað þekkjum sem rúðuþurkur. Önnur kona, Charlotte Bridgewood, kom með aðra útgáfu sem byggðist á rúllum í stað blaðs, en varð ekki vinsælt, en dóttir hennar Florence Lawrence fann síðan upp stefnuljósið og síðar merki til að sýna að stoppa ætti bílinn, það var tengt við bremsupedala, en skráði það aldrei sem einkaleyfi svo að aðrir nýttu sér það. [10.11]jsl


Karmann Ghia samkoma

Í sumar var samkoma Karmann Ghia bíla í Þýskalandi í tilefni 50 ára afmælis T 34 gerðarinar sem kom á markað árið 1961. Eitthvað um 400 bílar mættu í heildina en þó að þetta sé Þýskur bíll þá var hann mjög vinsæll í Bandaríkjunum á sínum tíma og er það að parti vegan þess að hann sást í Get Smart þáttunum og svoleiðis er nóg til að gera bíla vinsæla svipað og P1800 bílinn sem var notaður í The Saint. Hér er hægt að sjá myndir á Karmann Ghia Owner's Club í Bretlandi. [09.11]jsl


Auglýst eftir myndum

Þar sem stutt er eftir af árinu og undirritaður fer að taka saman myndir fyrir myndaalbúmið 2011 er óskað eftir myndum frá Tröllaskagaferð og Wing´s & Wheels sem vantar í safnið. Hægt er að senda þær til okkar á fornbill@fornbill.is (1600x1200) eða á Fornbílaklúbbur Íslands, P.O.Box 8915, 128 Reykjavík. [07.11]jslRoam'n Relics Car Show

Roam'n Relics Car Show hefur verið haldið árlega frá 1981, en tilgangur þessa sýninga er að safna fyrir ýmis góðgerðarfélög, aðallega sem snýr að börnum. Hér er hægt að sjá myndir frá sýningu þessa árs sem var haldin í október. [04.11]jsl


Meira um eBay

Í framhaldi af góðum fyrirlestri Bjarna Þorgilssonar um leyndardóma eBay, kosti og galla og flest þar á milli, þá er vert að benda á hjálpartól sem er hægt að sækja fyrir Internet Explorer, Google Chrome og fleiri. Tólið gerir þér auðveldara að fylgjast með þínum uppboðum án þess að þurfa að vera alltaf að fara inn á síðuna sjálfa. Einnig er hægt að sækja "app" með sama fyrir flesta snjallsíma. [03.11]jsl