Eldri fréttir - September 2011


Félagar óskast í Fornbílabandið

Komið hefur upp sú hugmynd að setja saman smá band sem gæti tekið nokkur lög við ýmiss tækifæri og uppákomur klúbbsins. Félagi okkar Georg Óskar Ólafsson ætlar að taka að sér að leiða bandið og koma því í gang, en Georg er þekktur úr Hröfnunum og einn hinna upprunalegu Papa. Ekki er stefnt að gefa út plötu strax, svo að þeir sem hafa áhuga þurfa aðallega að kunna á sitt hljóðfæri (eða söng) og hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni. Áhugasamir geta haft samband við Georg í síma 861 7011. [30.09]jsl


Eitthvað sem allir hafa skoðun á

Fréttasíða rakst á þessa grein um bón og gæði þess, en þeir hjá ConsumerReports.org komast að þeirri niðurstöðu að dýr og fín merki þýða ekki endilega góða vöru. Bílaáhugafólk getur verið sammála um að gæði bóns og vinnsla þess er eitthvað sem allir hafa skoðun á og eiga sínar aðferðir og uppáhalds tegundir. Við ætlum ekki að setja fram okkar skoðun en bendum frekar á viðkomandi grein og ráð þeirra um val á bóni, og látum hvern fyrir sig um að dæma. [29.09]jsl


Ferðamætingar fyrir sumarið

Þar sem dagskrá sumars er lokið vill Ferðanefnd benda félögum á að skoða sínar mætingar svo að þær séu allar skráðar réttar áður en útgáfa verðlaunapeninga á sér stað. Mætingar er hægt að sjá á fornbill.is undir Fyrir félaga > Dagskrá FBÍ > Ferðamætingar. Athugasemdir er hægt að senda inn á ferdanefnd@internet.is. Mismunandi fjöldi stiga var í boði eftir ferðum en brons er gefið fyrir 14-17 mætingar, silfur fyrir 18-21 og gull fyrir 22-28 mætingar. Eins og staðan er í dag eru 25 aðilar sem ná verðlaunum í ár, en í heildina voru 256 félagar skráðir með 1242 mætingar í ferðum í sumar. [23.09]jslÖkutæki frá 1769 á sýningu

Old Car Festival var haldin hjá Henry Ford Greenfield Village í síðustu viku og meðal margra annarra gripa þarna vakti án efa mikla athygli endursmíði af einu elsta "horseless vehicle" sem vitað er um, en það er gufuvagninn sem Nicholas Cugnot hannaði/smíðaði árið 1769. Í bílasögunni er þetta talið elsta farartækið sem notaði sitt eigið vélarafl, eða var ekki dregið af hestum, og þó að það hafi ekki farið hratt yfir þá var þetta samt mikil bylting í hugsunargangi og sýndi hvað mögulegt væri. Myndir frá þessari samkomu er að finna hér og eins vídeó af eftirlíkingu Cugnot´s. [22.09]jslEsjumelur í gær

Í gærdag var lokadagurinn á dagskrá sumarsins, en hefð er fyrir því að hafa opinn dag og vöfflukaffi á Esjumelnum. Virkilegt leiðindaveður var þennan dag, en þrátt fyrir það var hin besta mæting og sala varahluta meiri en í fyrra. Vöfflurnar klikkuðu ekki frekar en venjulega og höfðu þær baksturskonur ekki undan að fæða gesti sem komu víða að, frá Húsavík og austan úr sveitum. Myndir eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [19.09]jsl


Ritnefnd óskast

Útgáfunefnd klúbbsins hefur lítið verið starfandi undanfarin ár, mikið vegna tímaleysis nefndarmanna, en nú skal blásið til sóknar og leitað er eftir aðilum sem vilja koma að þessum málum. Stefnt er að því að koma út blaði klúbbsins tvisvar á ári, vor og haust/vetur og æskilegt er að í nefndinni séu ekki færri en 2-3 félagar. Áhugasamir geta haft samband við Þorgeir í 895 8195 eða Jón Hermann í 895 1515. [15.09]jsl


1934 Voisin C-25 Aerodyne 1930 Stutz M
Fágætir bílar á Pebble Beach Concours

Í lok ágúst var hin þekkta Pebble Beach Concours samkoma, að þessu sinni voru margir sjaldgæfir bílar til sýnis. Bestur var valinn 1934 Voisin C-25 Aerodyne, en meðal annarra var þarna einnig Stutz, Talbot-Lago og fleiri en flestir eiga það sameignlegt að hafa verið smíðaðir í örfáum eintökum eða voru sérpantaðir. Myndir frá Pebble Beach Concours er hægt að sjá hér. [14.09]jslJón Guðmundsson - Fallinn félagi

Þann 5. September lést á Landsspítalanum, eftir stutt veikindi, félagi okkar Jón Guðmundsson eða Jonni eins og flestir kölluðu hann. Jonni var mikill áhugamaður um gamla bíla og traktora og hafði mjög gaman af samkomum og félagsskapnum í klúbbnum. Stjórn klúbbsins vottar fjölskyldu og ættingjum samúð. Útför fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju miðvikudaginn 14. september kl 15 og verður jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Það er einlæg ósk ættingja Jonna að sem flestir sjái sér fært að mæta á fornbílum til að heiðra Jonna síðasta spölinn og hafa nokkrir félagar ákveðið að standa heiðursvörð við kirkjugarðinn til að taka á móti þeim sem fylgja honum úr kirkjunni. Þeir sem vilja mæta í heiðursvörð fornbílaklúbbsins mæti við kirkjugarðinn í Hafnarfirði kl 15:30 til uppstillingar. [10.09]bþ/jsl


Leitað eftir formanni í Ferðanefnd

Núverandi formaður Ferðanefndar, Gunnar Örn Hjartarson, hefur óskað eftir að láta af störfum um næstu áramót, en Gunnar hefur verið í Ferðanefnd síðan 2006 og verið formaður hennar frá hausti 2008. Æskilegt er að tilvonandi formaður komi að gerð dagatals fyrir 2012 svo gott væri að fá tilnefningar sem fyrst þó að eiginleg skipti verði ekki fyrr en um áramót. Áhugasamir geta haft samband við Þorgeir í 895 8195 eða Jón Hermann í 895 1515. [09.09]jslGærkvöldið

Í gærkvöldi var heimsókn í bílaumboðið Bernhard, þar sem hægt var að kynnast því sem þeir flytja inn, en margar minningar vöknuðu hjá mönnum við að sjá eldri Hondu mótorhjól sem voru þar til sýnis. Eftir heimsóknina var stuttur rúntur í gegnum miðbæinn. Myndir eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [08.09]jslLaugardagurinn

Það er komin löng hefð á að Fornbílaklúbburinn taki þátt í dagskrá Ljósanætur í Reykjanesbæ ásamt öðrum bíla og hjólaklúbbum. Að þessu sinni var veðrið með besta móti og kom það fram í mætingu, þar sem rúmlega 170 bílar voru mættir á túnið til sýningar og heyrðist að 400 hjól hefðu tekið þátt í akstrinum. Flestir fóru heim þegar leið að kvöldmat, en margir halda í þá hefð að mæta hjá Magga og Jóhönnu og grilla saman, fara síðan í bæinn til að sjá flugeldasýninguna. Myndir eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [05.09]jsl