Eldri fréttir - Ágúst 2011


Halldór Bjarnason - Fallinn félagi


Þann 20. ágúst féll frá einn af stofnfélögum Fornbílaklúbbsins, Halldór Bjarnason.
Dóri, eins og hann var best þekktur, var einn af þremur sonum Bjarna í Túni sem var mikið virkur á fyrstu árum klúbbsins og voru þeir allir á stofnfundi klúbbsins. Dóri var mikill bílaáhugamaður og sérstaklega þegar Ford átti í hlut og þótt hann hafi ekki verið með eldri bíl síðustu árin þá lét hann sig ekki vanta á sýningar og stærri bílasamkomur. Stjórn klúbbsins vottar fjölskyldu og ættingjum samúð. Jarðarförin verður þann 30. ágúst kl. 13 í Áskirkju. [29.08]jslRúntur í Kjósina

Í gærkvöldi var farinn rúntur út fyrir borgina þegar rúmlega 45 bílar héldu áleiðis í Hvalfjörðinn og fóru að Meðalfellsvatni og enduðu í Kaffi Kjós, frjáls heimferð var síðan eftir kaffið þar. Áskorun var að mæta með "sixpencara" sem höfuðfat í tilefni þess að rúnturinn var tileinkaður breskum bílum og voru nokkrir sem tóku sig vel út með þá. Myndir eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga.[25.08]jslJeppa og trukkaferðin

Síðustu helgi fóru nokkrir félagar í helgarferð, en áhugi er fyrir því að fá þá félaga sem eiga jeppa, húsbíla, trukka og rútur að hreyfa þessi tæki sín og fara eina ferð á hverju sumri. Einhver tregða er samt hjá mönnum og virðist ekki vera sami áhugi og er erlendis að nota sín tæki eins og sást þegar bílar mættu hingað í HERO rallið. Komið var víða við, en gróf ferðalýsing: Föstudagur, Landssveit, Fjallabaksleið-nyrðri, Dómadalur og gist í skála við Landmannahelli. Laugardagur: Landmannalaugar, Ljóti Pollur, Frostastaðarvatn, gist í skála við Landmannahelli. Sunnudagur: Sigalda, Háifoss, Stöng, Þjóðveldisbærinn, Hjálparfoss og svo Reykjavík. Magnús Magnússon smellti af nokkrum myndum fyrir okkur hin. Myndir eru komnar á Myndasíðu, og stærri og fleiri fyrir félaga.[24.08]jsl


Spjall-uppfærslu-stjóra vantar

Klúbburinn óskar eftir félaga sem gæti tekið að sér að uppfæra Fornbílaspjallið og um leið flytja það á nýjan hýsingarstað. Best ef viðkomandi gæti einnig verið stjórnandi áfram ásamt öðrum stjórnendum þess. Nauðsynlegt að hafa kunnáttu á MySQL og eitthvert inngrip í php. Núverandi aðalstjórnandi, Jón S. Loftsson, hefur nóg með fornbill.is, myndasafnið, stjórnarsetu, félagskránna Skilaboðin og fl., svo ekki hefur verið tími til að sinna þessum uppfærslum sem eru komnar á tíma. Hægt að hafa samband við Jón á jon.s.loftsson@gmail.com. [22.08]jsl


Allen Swift
Eitthvað til að stefna að

Allen Swift átti ennþá sinn fyrsta bíl þegar hann lést árið 2009, og þá 102 ára! Hann hafði ánafnað safni bílnum eftir sinn dag, var búið að aka honum 170þús. mílur og gekk eins og klukka. Bílinn, Rolls-Royce Picadilly P1 Roadster, hafði hann fengið nýjan í útskriftargjöf frá föður sínum, en Allen ók honum fram til dauðadags. Líklegast hefur hann verið sá sem lengst hefur átt sinn bíl frá fyrsta degi, en við hinir sem eigum ennþá okkar fyrsta bíl höfum eitthvað til að stefna að. [19.08]jslChevy-rúnturinn

Í gærkvöldi fóru 45-50 bílar rúnt um vesturbæinn, Seltjarnarnes og enduðu í Árbænum í kaffi. Byrjað var við Shell við Birkimel, en þar var tekið vel á móti hópnum og mikill áhugi starfsmanna á þessum flota "alvöru bíla" eins og einn orðaði það. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [18.08]jsl


Risasamkoma BMW

Um síðustu helgi var haldin gífurlega stór samkoma BMW bíla af öllum árgerðum og týpum hjá Heritage Motor Centre í Bretlandi. Von var á um 3000 bílum í heimsókn og hefur örugglega verið gaman hjá þeim sem mættu og eiga BMW. Næstu helgi verður einnig samkoma hjá safninu, en þá koma saman eigendur Jaguar XJ, XJ-S og XK bæði eldri og nýrri. Nokkrar myndir fá BMW samkomunni er að finna hér. [17.08]jslLaugardagurinn

Hópur 40 bíla mætti snemma á Eyrarbakka til að taka þátt í Aldamótahátið sem haldin var þar um helgina. Ekið var í kjölfar skrúðgöngu um bæinn, sem hófst kl. 11, en að henni lokinni var bílum stillt upp við Gónhól. Ýmislegt var um að vera um allan Eyrarbakka þessa helgi og nokkrir félagar gistu um helgina. Þegar leið á daginn fór fólk að halda heim, en margir komu við í Hveragerði þar sem einnig var bæjarhátíð í gangi. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [15.08]jsl


Jeppa og trukkaferð 19. - 21. ágúst

Jeppa og trukka ferð er fyrirhuguð helgina 19. – 21. ágúst. Heyrst hefur af nokkrum sem stefna á ferðina en betur má ef duga skal, taka þarf frá gistirými svo öruggt sé með það. Eins ef einhverjir vilja fara með sem farþegar í rútunni (viðkomandi tekur þátt í olíukostnaði) þarf að skrá sig svo hægt sé að gera ráð fyrir þeim. Á föstudeginum verður farið upp Landssveit, Fjallabaksleið-nyrðri, Dómadal og gist í skála við Landmannahelli. Laugardagur: Landmannalaugar, Ljóti Pollur, Frosta-staðarvatn, gist í skála við Landmannahelli. Sunnudagur: Sigalda, Háifoss, Stöng, Þjóðveldisbærinn, Hjálparfoss og svo Reykjavík. Pláss er fyrir 15 manns í skála og miðað við fullt hús kostar gisting í 2 nætur kr. 4000 á mann, einnig er hægt að vera á tjaldsvæði. Ferðin í heild er ca. 320 km. og brottför verður kl. 14 föstudaginn 19. ágúst frá Shell Vesturlandsvegi. Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig og eða vilja meiri upplýsingar hafið samband við Heiðar Smárason í síma 849 7941. [11.08]jslSunnudagurinn

Í gær var dagsferð á dagskrá og um leið picnic-ferð eða lautarferð eins og íslenska útgáfan er, þar sem áður fyrr þurfti alltaf að finna lautir eða annarskonar skjól svo að nestið fyki ekki. Haldið var um hádegi til Þingvalla í frábæru veðri og eftir stopp við þjónustumiðstöðina var farið á endastað þar sem 30 bílum var raðað upp á stæðinu þar sem Valhöll stóð. Um miðjan dag var okkur boðið í smá skoðun um nánasta umhverfi og Torfi sagnfræðingur fræddi hópinn um ýmislegt viðvíkjandisögu staðarins. Eftir þessa gönguferð var nestið tekið upp og fólk kom sér fyrir á grasinu sem hylur rústir Valhallar. Var síðan frjáls heimferð og ýmist að fólk fór til baka eða í gegnum Grímsnesið. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og stærri fyrir félaga. [08.08]jslGærkvöldið

Í gærkvöldi var Thunderbird-rúntur á dagskrá , en þessi rúntur hefur verið að þróast út í "American Graffiti" hitting við Grillnesti í Mosfellsbæ. Hægt var að mæta þangað beint um kvöldið, en einnig var hóprúntur frá Rafstöðvarvegi fyrir þá sem vildu aðeins meira út úr kvöldinu. Um 40 bílar fóru þaðan í ausandi rigningu en þegar komið var í Mosfellsbæ var orðið þurrt og nokkur hópur bíla mættur við Grillnesti en eitthvað um 90 bílar voru þarna samankomnir í heildina. Ýmis tilboð voru fyrir þá sem mættu og var starfsfólk á hjólaskautum og klætt í tilefni kvöldsins. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins stærri fyrir félaga.. [04.08]jsl


Snilldar hönnun

Í þessu vídeó er hægt að sjá hversu mikil snilldarhönnun var á bakvið Willys jeppann, þarna sýna nokkrir hermenn hversu lengi það tekur að taka einn Willys í sundur og raða honum aftur saman, auðvitað ekki í smærstu parta en í þessa helstu einingar. Hérna er einnig vídeó um sögu Willys og notkunarmöguleika í WWII. [03.08]jsl