Eldri fréttir - Júlí 2011

Leitað eftir bílum í Reykjavík og á Vík

Fyrirspurn barst frá erlendum aðila sem er að koma hingað til að taka nokkrar stuttar kynningar í sambandi við vetrartísku. Óskaði hann eftir að komast í samband við eigendur eldri bíla sem hafa tök á að aðstoða hann, en tók fram að ekki væri hægt að greiða mikið fyrir þetta nema þá kannski smá bensínkostnað og svo eintak af viðkomandi efni. Áætlað er að vera í nágrenni Vík dagana 6.- 7. ágúst og svo í Reykjavík 8. - 9. ágúst. Hægt er að hafa samband við Jeremy Elman í +44 (0) 7780 610361 eða á Jeremy_elman@qvc.com. [29.07]jslGærkvöldið

Á dagskrá var blæju-bíla rúntur en frekar fáir svoleiðis mættu, kannski vegna rigningar. Eftir frekar stuttan rúnt um miðbæinn var endað í kaffi í Hörpunni og var um leið hægt að virða fyrir sér þetta mikla bákn sem við öll eigum. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins stærri fyrir félaga. [28.07]jsl


Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld Safnarakvöld
Bíla-grill

Flestir sem hafa heimsótt félaga í BA og hafa hitt á grillveislu hjá þeim þekkja þeirra sérstaka grill sem passar einstaklega vel við stemmninguna. Á netinu fundust nokkrar myndir af ýmsum útfærslum af grillum tengdum bíladellu, en ein flottasta útfærsla er án efa sem er á síðustu myndunum. Svo er auðvitað hægt að deila um hvort þetta sé gáfuleg leið til að nota þessa bílaparta eða body, en góðar hugmyndir samt. [22.07]jsl


Önnur stór helgarferð fyrirhuguð

Í ágúst er helgarferð á jeppum og trukkum fyrirhuguð helgina 19. – 21. ágúst. Svona ferð var prufuð í fyrra og þó að ekki væru mörg farartækin, þá höfðu þátttakendur gaman af þar sem nokkrir fóru með sem farþegar. Á föstudeginum verður farið upp Landssveit, Fjallabaksleið-nyrðri, Dómadal og gist í skála við Landmannahelli. Laugardagur: Landmannalaugar, Ljóti Pollur, Frosta-staðarvatn, gist í skála við Landmannahelli. Sunnudagur: Sigalda, Háifoss, Stöng, Þjóðveldisbærinn, Hjálparfoss og svo Reykjavík. Pláss er fyrir 15 manns í skála og miðað við fullt hús kostar gisting í 2 nætur kr. 4000 á mann, einnig er hægt að vera á tjaldsvæði. Ferðin í heild er ca. 320 km. og brottför verður kl. 14 föstudaginn 19. ágúst frá Shell Vesturlandsvegi. Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig og eða vilja meiri upplýsingar hafið samband við Heiðar Smárason í síma 849 7941. [21.07]jsl


Tröllaskagaferð 21. - 24. júlí

Löng helgarferð verður farin á Tröllaskaga og hefst ferðin 21. júlí, en farið verður frá Shell Vesturlandsvegi og er mæting þar kl. 9.30. Gróf ferðalýsing:
Fimmtudagur: Reykjavík - Sauðárkrókur.
Föstudagur: Þormóðsholt - Stóragerði – Lón - Siglufjörður.
Laugardagur: Ólafsfjörður – Dalvík – Akureyri.
Sunnudagur: Farið að Ystafelli.
Nánari ferðalýsingu er að finna hér og hjá ferðanefnd á ferdanefnd@internet.is og svo einnig á miðvikudagskvöldum í Árbænum. [19.07]jslFarmal-dagurinn

Um helgina var mikið fjör hjá þeim sem hafa gaman af gömlum dráttarvélum, en á laugardaginn var hinn árlegi dráttarvélardagur á dagskrá hjá Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri. Um leið var verið að gera Farmal hátt undir höfði í tilefni þess að ný bók, eftir Bjarna Guðmundsson, var að koma út um sögu Farmal og annarra tækja frá IH - International Harvester Company. Sýndur var sláttur með Farmölum, stuttur skrauthringur var ekinn og fegurstu Farmalarnir voru valdir, en tveir af þeim þremur sem þóttu bera af eru í eigu félaga okkar. Dagurinn endaði síðan á akstri allra þeirra véla sem mættar voru. Myndir frá þessum degi. [18.07]jslKvennarúnturinn

Í gærkvöldi var árlegi kvennarúnturinn á dagskrá, 45 bílar mættu í Kauptúnið þar sem rúnturinn hófst, og fengu allar konur rós frá BYKO. Ekinn var góður og stór hringur í Hafnarfirði og svo haldið til Kópavogs í stuttan hring, en endað síðan á Amokka þar sem kvenfólkinu var boðið í kaffi af ferðanefnd, en karlar þurftu auðvitað að sjá um sig sjálfir. Alls voru rúmlega 100 mættir í kaffið. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins stærri fyrir félaga.[14.07]jsl


Í tilefni kvennarúnts

Margaret Dunning hefur gaman af bílum, en ekki nýjum þar sem ekki er lengur hægt að greina hvaða bíll eða vél er á ferðinni. Margaret keyrir 1930 Packard og hefur mikið gaman af, en óskar þess að fleiri væru með bíla frá sínum yngri árum á götunni. Bíllinn hennar er reyndar yngri en hún þar sem Margaret er 101 árs!!! Sjá smá viðtal við Margaret. [11.07]jslFlottur rúntur í gærkvöldi

Eitthvað um 100 bílar mættu í muscle-car rúntinn í gærkvöldi, enda frábært veður og hvað er þá betra en að hreyfa bílinn. Þó að kvöldið hafi verið tileinkað 8 gata græjum þá var vel blandað, allt frá 1942 til 2010, og allir nutu sín vel. Farið var frá Bílabúð Benna og Sæbrautin ekinn að Snorrabraut þar sem farið var yfir og komið í miðbæinn frá Gömlu-Hringbraut, en eftir að hafa keyrt Lækjargötu var haldið út á Gróttu þar sem var endað og var fólk í góðu stuði þar til kl. 23. Tveir blaðamenn á vegum sænskra blaða fengu far í einum bílnum og voru að safna efni í grein um rúntinn, en þeir eru hér til að skrifa nokkrar greinar um Ísland. Leist þeim vel á bílaflóruna hér, sérstaklega hvað var blandað og pláss fyrir alla sama hverju þeir aka. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri fyrir félaga. [07.07]jsl


Myndir hjá "Life"

Blaðið Life er vel þekkt fyrir sínar vönduðu greinar en enn þekktara fyrir vandaðar myndir sem prýða hvert blað. Á heimasíðu Life er að finna ýmsar myndir úr safni þeirra, en Þröstur Reynisson benti okkur á nokkrar þeirra sem tengjast bílum en hægt er að gera leit að myndum eftir efni.
Ralph-Laurens classic Cars
Retromobile mania in Paris
In praise of cars with real curves
Daytona motorcycle madness
[06.07]jslÁrbæjarsafn Árbæjarsafn Árbæjarsafn Árbæjarsafn
Myndir frá gærdeginum

Síðast liðinn sunnudag var fornbíladagur í Árbæjarsafni, en eins og síðustu ár þá hefur honum verið slegið saman við fatadag. Þrátt fyrir rigningarútlit mættu 36 bílar til að stilla upp innan um húsin á safninu, en einhver misskilningur var vegna viðverutíma okkar þarna svo margir ákváðu að vera lengur en auglýstur tími dagskrár ferðanefndar var til að gestir gætu séð bílana. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri fyrir félaga. [04.07]jsl


Árbæjarsafn
Fornbíla- og fatadagur í Árbæjarsafni (1)

Árlegur fornbíladagur í Árbæjarsafninu verður sunnudaginn 3. júlí, en þessi dagur er jafnframt árlegur fatadagur klúbbsins, enda eiga gamlir bílar, gömul hús og öldruð klæði vel saman. Eru félagar hvattir til að mæta á fornbílum sínum, klæddir í stíl við aldur bíla sinna og eiga þar ánægjulegan dag innan um fögur hús og skemmtilegar sýningar, meðan að samborgararnir skoða glæsivagnana. Mæting er við safnið stundvíslega kl. 10 og verða bílarnir hafðir til sýnis á öllu svæðinu til kl. 15. Kaffi fyrir félaga í húsnæði klúbbsins. [01.07]jsl