Eldri fréttir - Maí 2011

Ábending og tilmæli frá varahlutanefnd

Geymslu- og varahlutanefnd vill koma á framfæri ábendingu til þeirra félaga sem koma í leit að varahlutum. Gangið vel og snyrtilega um, jafnframt setjið hluti aftur á sinn stað og í pakkningar hafi þeir verið pakkaðir. Bæði nefndin og hjálparmenn hafa lagt mikla vinnu á sig við að flokka og raða svo lagerinn sé aðgengilegur, en áhugi manna minnkar við að halda þessu starfi áfram sé vinna þeirra ekki virt meira en það sem sumir sýna með umgengni sinni. Ekki viljum við fá lagerinn aftur í það horf sem hann var lengi í, svo við skulum allir taka okkur á í þessu máli. [30.05]jsl


Aðalfundur 2011 Aðalfundur 2011 Aðalfundur 2011 Aðalfundur 2011
Aðalfundur 2011 Aðalfundur 2011 Aðalfundur 2011 Aðalfundur 2011
Aðalfundur í gærkvöldi

Aðalfundur 2011 var haldinn á Amokka í gærkvöldi. Mæting var þokkaleg, 82 félagar, en á fundinum var verið að kjósa um nýjan formann og fimm stjórnarmenn. Úrslit voru þau að Þorgeir Kjartansson var kosinn formaður með öllum greiddum atkvæðum, (9 auðir, 1 ógildur). Fjórir buðu sig fram í fullt tímabil og atkvæði féllu svo af 80 greiddum atkvæðum (2 auð): Garðar Arnarson 70, Jón S. Loftsson 66, Þorsteinn Jóhannsson 55 og Þröstur Reynisson 33. Tveir buðu sig fyrir hálft tímabil í stað Þorgeirs sem varð formaður og Egils Matthíassonar sem vildi hætta vegna annarra verkefna, atkvæði féllu þannig af 82: Jón Hermann Sigurjónsson 71 og Stefán Halldórsson 69. Þrír buðu sig til varamanns og voru þeir Ólafur Björgvinsson með 63 og Sigurbjörn Helgason með 49 kosnir, en Steingrímur E. Snorrason hlaut 48 atkvæði. Ein lagabreyting var tekin fyrir og afgreidd með öllum atkvæðum, kosið var um árgjald og var mikill meirihluti fyrir að hafa það óbreytt. Lagt var fyrir fundinn að túlka hvaða atkvæðamagn þyrfti kæmi tilboð í húsið okkar og var samþykkt með öllum nema einu atkvæði að láta meirihluta atkvæða gilda. Fráfarandi formaður Sævar Pétursson þakkaði stjórnarmönnum og félögum fyrir samfylgdina og að lokum vill núverandi formaður þakka fráfarandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið og býður nýja menn velkomna til starfa. Nánar er fjallað um fundinn í Skilaboðum sem fara í póst eftir helgi. Þar sem áliðið var er fundi var slitið var rúntur felldur niður og þar með fáar myndir til birtingar, nema örfáar af fundinum. Úrslit kosningar er einnig hægt að sjá á síðunni um aðalfund. [26.05]jsl


Videó af uppgerð á 1941 Plymouth

Margir halda vel utan um uppgerð bíls síns, annað hvort með myndum eða videó, hér er hægt að sjá röð af stuttum myndskeiðum af uppgerð á 1941 Plymouth en eigandi hefur átt hann í mörg ár en byrjaði á uppgerð fyrir 1-2 árum og setti stefnuna á að hafa hann tilbúinn fyrir sýningu í júlí 2011. Í heildina eru þetta 12 bútar og í hverju er farið yfir sérstök atriði og góðar upplýsingar gefnar um lausnir. [23.05]jsl


Tvö ný video frá Beaulieu

Í vikunni sendi bílasafnið í Beaulieu frá sér tvö stutt videó, annað er létt yfirlit frá vor varahlutamarkaðnum þeirra sem var haldinn síðustu helgi og svo skemmtilegt viðtal við afkomanda John Montagu, um hvernig hann tengdist sögu "Spirit of Ecstasy", húddskrauti Rolls-Royce. John Montagu var mikill bílaáhugamaður og meðal annars gaf út The Car Illustrated, en bílasafnið í Beaulieu er sett upp til minningar um hann og safnið er staðsett á ættarsetri Montagu fjölskyldunnar sem hefur verið í eigu hennar frá 1538. Beaulieu safnið er með facebook síðu þar sem hægt er að fylgjast með því nýjasta þar. [20.05]jsl


Chitty Chitty Bang Bang Chitty Chitty Bang Bang Chitty Chitty Bang Bang
Chitty Chitty Bang Bang til sölu

Þennan bíl kannast flest allir við úr samnefndri bíómynd frá 1968, byggð á sögu Ian Flemings (höfundur 007). Það voru víst sex smíðaðir í allt, en þessi er einn af þeim sem er full götuhæfur. Þeir voru smíðaðir af Ford Racing Team með Ken Adam sem yfirhönnuð og var reynt að gera bílinn sem raunverulegastan, fyrir utan að hann gat siglt, flogið og gert ýmsar kúnstir. Ken Adam hefur komið víða við í kvikmyndasettum og vann hann við t.d. fyrstu 007 myndirnar. Húddið er úr áli, farþegarýmið var smíðað af bátasmiðum frá Buckinghamshire og brass lugtir og fl. tekið frá hinum ýmsu bílum, en mælaborðið var fengið frá flugvél. Þessi var lengi til sýnis í Beaulieu safninu, en einnig er til eftirlíking sem hefur verið á götunni í Bretlandi og hefur verið til sýnis og notkunar við ýmis tækifæri. Bíllinn var metinn á 1-2 milljónir dollara fyrir uppboðið. [18.05]jslKrambúð opin á rabbkvöldi

Annað kvöld er rabbkvöld á dagskrá og í Árbænum verða nýjustu blöðin og heitt á könnunni. Krambúð klúbbsins verður einnig opin og er tilvalið að ná sér í það sem vantar t.d. grillmerki, rúðumerki, blýbæti, endurnýja derhúfuna og fl. Árbærinn er opinn frá kl. 20 til 23. [17.05]jsl


Skoðunardagur utan Reykjavíkur

Frumherji býður uppá skoðunardag fyrir þá félaga Fornbílaklúbbsins sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, mánudaginn 16. maí, eða fyrsta opnunardag stöðvar, ef hún er lokuð á mánudeginum. Sama gjald er á öllum stöðvum, 1800 kr., en panta þarf tíma fyrirfram. Nánari upplýsingar eru veittar hjá skoðunarstöðvum Frumherja. Munið að sýna félagsskírteinin.


Skoðunaradagurinn

Laugardaginn s.l. var hinn árlegi skoðunardagur hjá Frumherja fyrir höfuðborgarsvæðið. Mættu 120 bílar í skoðun, en einnig var nokkuð um gesti til að sjá hvað væri nýtt og breytt. Stemningin var góð og var þetta fínn dagur þrátt fyrir að hitastigið hefði mátt vera nokkrum gráðum hærra, en heitt bakkelsi og grillaðar pylsur bættu það upp. Hópur af bílum mætti frá Selfossi eins og venjulega og sýndu hvað var nýtt á þeim slóðum. Eftir skoðun var farinn rúntur um Reykjavík þar sem farið var í gegnum Vogahverfið, Laugardal, Laugaveg og endað síðan í ísbúðinni Íslandi, þar sem var tilboð fyrir félaga. Myndir frá frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri fyrir félaga. [16.05]jsl


Erlendar sýningar í ár

Hér er smá listi yfir helstu sýningar og samkomur sem félagar hafa verið að sækja síðustu ár, ekki er þetta tæmandi listi heldur smá yfirlit um það sem hefur verið vinsælt. Yfirleitt gengur fólk snemma frá þessum ferðum, t.d. Old Car sem er byrjað að bóka fyrir nokkru og NEC, en sá hópur er búinn að ganga frá sinni ferð. Oft verður erfitt að fá hótel nálægt sýningum og verð hækkar þegar nær líður.

28. - 30. maí. Trucks and troops er samkoma herbíla og allt í anda WWII, haldið á Beaulieu, UK.

15. - 16. júlí. Varberg - Wheels and Wings, í Svíþjóð er mikill fornbílaáhugi og margar sýningar og samkomur ár hvert. Nokkrir félagar hafa verið að kíkja þar síðustu ár.

11. - 12. september. International Autojumble, Beaulieu, UK. Þetta er staðurinn ef þú átt breskan bíl sem er í uppgerð, 2000 básar, bílar til sölu og eins til sýnis. Ekki skemmir að eitt flottasta bílasafn Bretlands er á staðnum, þarf heila helgi.

4. - 8. október. Árlega fer hópur á Hershey sem er stór samkoma bíla og söluaðila varahluta.

6 nóvember. London to Brighton Veteran Car Run, ca. 600 bílar sem taka þátt hvert ár. Allir verða að vera framleiddir fyrir 1905. Þetta er eitthvað sem allt fornbílafólk verður að sjá allavega einu sinni á ævinni.

11. - 13. nóvember. Footman James Classic Motor Show, Birmingham. Lokasýning bílaklúbba í Bretlandi, ca.1100 bílar og margir sölubásar með bækur, módel og verkfæri. Fornhjólasýningar í sér höll og Top Gear Life og fl.

24.- 27. nóvember. Old Car, Daytona. Oft líka nefnt Turkey Run og er haldið í kringum þakkargjörðarhátíðina í US. Bílar og meira af bílum, stór hópur fer árlega og oft upppantað (Icelandair) með löngum fyrirvara. [11.05]jsl


Fundargerð og ársreikningur

Fundargerð frá síðasta félagafundi er komin á svæðið fyrir félaga, en á aukafundi síðasta haust var samþykkt að fundargerðir yrðu birtar á netinu. Jafnframt er kominn þar ársreikningur 2010 og er upplagt fyrir félaga að kynna sér hann fyrir aðalfund í lok mai, er þetta í fyrsta skipti sem ársreikningur er birtur fyrir fund og eins á netinu. Þess má geta að nýtt aðgangsorð hefur tekið gildi og er það birt í nýjustu Skilaboðum. [10.05]jsl


Sunnlenski sveitadagurinn

Jötunn Vélar og Vélaverkstæði Þóris á Selfossi héldu þennan dag þriðja árið í röð ásamt framleiðslufyrirtækjum fyrir austan. Um leið var verið að kynna sveitina fyrir gestum, og voru dýr og tæki til sýnis ásamt ýmsum öðrum uppákomum. Jóhann Þorsteinsson er búinn að setja inn myndir á síðu sína frá þessum degi og eins frá rúnti sem var 5. mai á Selfossi. [09.05]jsl


Ritstjóri kveður

Þau skilaboð sem eru að detta í hús hjá félögum, eru þau síðustu sem Örn Sigurðsson ritstýrir. Vegna aukinna verkefna á sviði útgáfumála, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi, er sá tími á þrotum sem hann hefur til að sinna frekari störfum fyrir klúbbinn. Eftir að hafa ritstýrt skilaboðunum í rúm 11 ár og haft umsjón með útgáfu 116 tölublaða þakkar Örn fyrir gott samstarf og óskar félagsmönnum velfarnaðar á komandi árum. Um leið þakkar stjórn Erni fyrir hans framlag í útgáfumálum klúbbsins.

En það er ekki bara að ritstjóri kveðji, heldur er alger nýjung með þessum skilaboðum, kynning á frambjóðendum til stjórnar. Liðin er sú tíð að nöfn frambjóðenda séu þekkt viku fyrir aðalfund, en með breytingu á lögum klúbbsins í fyrra var framboðsfrestur settur einn mánuður og skylt að kynna frambjóðendur á netinu og í skilaboðum, en skrefi lengra var gengið og eru myndir birtar af viðkomandi og helstu markmið. Vonandi taka félagar þessu vel og um leið ættu þeir að átta sig betur á hver er hver. [06.05]ös/jslGatsby Cabriolet
Gatsby Cabriolet

Þessi bíll vakti nokkra athygli á sýningu KK um páskana, enda ekki margir sem hafa séð hann á götunni hér. Þetta er "kit-car" sem er byggður á grind annars bíls og oftast notuð sama vél til að auðvelda. Svona bílar eru algengir erlendis og hægt að fá í mörgum útgáfum þó að Gatsby-inn veki oft meiri athygli en aðrir. Hér er hægt að sjá meira um þessa bíla. [05.05]hg/jsl


Athugið rétt heimilisföng

Þann 15. maí tekur Pósturinn upp ný vinnubrögð, og póstur verður eingöngu afhentur sé viðkomandi merktur á póstkassa eða hurðarskilti. Nú er um að gera að taka merkingar í gegn og passa að póstur berist áfram. Einnig er bent á að auðvelt er að senda inn breytingu á heimilisfangi til okkar á þessu formi. [04.05]jsl


Árgjöld

Í dag er síðasti dagur til að greiða árgjaldið vegna aðalfundar, en einungis félagar sem hafa greitt þremur vikum fyrir aðalfund geta greitt atkvæði þar og um leið strikast út af skrá þeir sem ekki hafa greitt og eru þannig að missa af afsláttarkjörum sínum. Þess má geta að aldrei hafa fleiri félagar verið á skrá, eða 1117, og af þeim hafa 977 greitt árgjaldið fyrir 2011. [02.05]jsl

Fréttir af hússölufundi

Fimmtudaginn 28. apríl sl. var haldinn fundur á Amokka um nýbyggingu klúbbsins í Elliðaárdal og tilboð sem klúbbnum hefur borist í húsið upp á 160 milljónir. Nokkrar umræður spunnust um málið, enda tilboðið töluvert undir raunmati hússins, einkum ef litið er til þess fjármagns sem nú þegar hefur verið lagt í verkið, eða rúmar 200 milljónir. Skuldir klúbbsins vegna byggingarinnar eru hins vegar um 130 milljónir og því spurning hvort klúbburinn ætti að skéra sig niður úr skuldasnörunni með umtalsverðum fórnarkostnaði. Rúmlega 100 félagsmenn mættu á fundinn og greiddu atkvæði. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var sú að tilboðið var fellt með tveimur atkvæðum. [02.05]ös
(78 þurfti til að samþykkja miðað við 3/4 atkvæðamagn, 76 = já. 26 = nei) jsl