Eldri fréttir - Febrúar 2011

Jaguar E-Type
E-Type 50 ára

Á þessu ári heldur Jaguar upp á 50ára Jaguar E-Type sem er fyrir löngu orðinn klassískur og eftirsóttur bíll og að stórum hluta út á útlitið, enda af mörgum talinn best heppnaðasta hönnun sportbíls. E-Type var fyrst sýndur á Geneva Auto Show árið 1961 og í ár verður á þeirri sömu sýningu frumsýndur nýr sportbíll frá Jaguar að þessu tilefni. Strax vakti E-Type mikla athygli og varð vinsæll sportbíll og þótti falla vel inn í þá "swinging sixties" tískustrauma sem voru í gangi þá, en ekki dró úr vinsældum hans að vera kraftmesti fjöldaframleiddi bíllinn á götunni, enda átti E-Type (og aðrir) þátt í að árið 1965 var settur 70 mílna hámarkshraði á hraðbrautir í Bretlandi og fóru þá menn til Evrópu til að njóta bílsins. Á heimasíðu Jaguars er hægt að sjá meira um afmælið og eins verður þar bein útsending frá Geneva Auto Show þann 1. mars kl. 14.45 frá frumsýningu XKR-S. Ian Nicholls hefur einnig tekið saman fína grein um sögu E-Type á Austin Rover Online. [25.02]jsl


Nýjar gamlar myndir

Nú stendur til að setja reglulega inn gamlar myndir úr safni klúbbsins og er fyrsti skammturinn kominn á síðuna. Mismikið er vitað um fyrirsætur og er óskað eftir upplýsingum ef einhver kannast við gripina og eins hvar og hvenær. Innsendar uppl. verða færðar inn við fyrsta tækifæri og stefnt er að setja inn skammt af myndum mánaðarlega. Síðast þegar þetta var gert komu ýmsar uppl. fram frá félögum og um leið er þá verið að bæta í bílasöguna. [24.02]jsl


logo pust ehf
Nýtt og breytt á afsláttarsíðu

Púst ehf, Smiðjuvegi 50 (rauð gata), er nýr aðili sem veitir félögum afsl. og er það 10% af öllu. Margir fornbílaeigendur þekkja þetta verkstæði og hafa fengið púst undir sína bíla hjá þeim Einari og Elvari á Smiðjuveginum.

Stilling ehf hefur aukið sín kjör og núna er 15% afsl. af flest öllum vöruflokkum. [23.02]jslHandsmíðaðir bílar í 65 ár

Frá 1946 hefur Bristol Cars verið að framleiða bíla og allir handsmíðaðir. Í byrjun hét það Bristol Aeroplane Company og þegar það þurfti að nýta vinnuafl og þekkingu manna sem höfðu verið að byggja flugvélar í seinna stríðinu hóf það bílaframleiðslu. Hvernig hönnun þeirra hófst er dálítið á reiki en eitthvað af teikningum fengust af BMW bílum og eins eiga þeir að hafa fengið lausan úr haldi einn hönnuð BMW eftir stríð. Þegar fram leið þróaðist fyrirtækið og rann inn í British Aircraft Corporation (seinna British Aerospace) en bíladeildin var seld einkaaðilum um 1960, og hefur síðan haldið sínu striki í að framleiða lúxusbíla. Hér er hægt að sjá þróun framleiðslu þeirra í gegnum árin og eins hvað er til sölu af notuðum bílum hjá þeim og eru þeir ekki beint gefnir. [21.02]jsl


Tilboð hjá Vélalandi

Vélaland er að bjóða sérstök kjör á stimpla settum, en þeir eru að taka til á lagernum núna. Meðal annars eru sett í: 351 C í std., 350 í .030 (3 gerðir af þjöppu), 318 Chrysler í .030, 429 Ford í .020, 302 Ford í std, 351 M í .030, 6.2 Gm Diesel í 0.50, 6.2 GM Diesel í STD, 6.2 GM Diesel 0.75mm, 300Ford Í .030, MMC 2.6 Lítra í 0.75.
Settin eru á 10 til 15 þúsund með vsk.
Vélaland er að Vagnhöfða 21, 110 Reykjavík, s: 515 7170. [18.02]jsl


Landsmótsnefnd óskar eftir leikglöðufólki

Núna eru rétt rúmlega fjórir mánuðir í landsmót klúbbsins, en þegar í haust var undirbúningsvinna hafin. Landsmótsnefndin hittist reglulega á næstu mánuðum og er farin að svipast eftir góðu fólki til að taka að sér umsjón leikja, bæði barna og svo eldri "barna". Rúnar Sigurjónsson hefur séð um þessi mál hingað til með góðri aðstoð, en nú er tími til að fá fleiri með og eins góðar hugmyndir. Rúnar verður innan handar með skipulag og fl. en gaman væri að fá góðar hugmyndir og eins ef einhverjir vilja taka að sér góða leiki eða þrautir yfir þessa helgi. Hægt að hafa samband við formann nefndar, Þorgeir á torgeir66@gmail.com [16.02]jsl


1940 Dodge VK 1940 Dodge VK 1940 Dodge VK
Framhald frá 2009

Í september 2009 sögðum við frá 1940 Dodge VK vöruflutningabíl sem hafði verið notaður til að flytja kappaksturbíl á milli keppna og hafði verið að drabbast niður í gegnum árin . Bent var á síðu um uppgerðina sem hófst árið 2007 og hægt var að sjá þar framvindu uppgerðar eftir mánuðum, núna í janúar var verið að bæta inn myndum sem sýna þegar auglýsingar eru málaðar á bílinn og stutt í að verkinu ljúki. [11.02]jsl


´s 1914 Premier

Nýtt vídeó var að koma á síðuna hjá Jay Leno og þar er hann að sýna 1914 Premier, en Premier var framleiddur í Indianapolis fram til ca. 1925 og fáir eftir. Leno nýtur sín eins og venjulega við að útskýra allt við bílinn og fer smá rúnt á honum. Einnig sýnir hann hvernig þeir gerðu nýja vatnsdælu í bílinn með hjálp 3D prentarans sem hann er með. [10.02]jsl


Síða um aðalfund 2011 í loftið

Búið er að setja í gang síðu um framboð og annað sem við kemur aðalfundi klúbbsins fyrir 2011. Lögum klúbbsins var breytt á síðasta aðalfundi og er framboðsfrestur styttri núna, en um leið verður hægt að að kynna frambjóðendur betur og eins í Skilaboðum, sem hefur aldrei verið gert áður, þar sem framboðsfrestur áður rann út einungis viku fyrir fund. Síðan verður uppfærð jafnóðum og upplýsingar koma frá kjörnefnd um framboð eða önnur mál sem verða tekin fyrir á aðalfundi. [08.02]jsl


þorrablót þorrablót þorrablót þorrablót
Þorrablótið

Síðasta laugardagskvöld var hið árlega þorrablót klúbbsins haldið og að venju í Árbænum. Full bókað var en hægt er að koma 90 fyrir á loftinu og að sjálfsögðu sá Kjötsmiðjan um matinn. Töframaðurinn Jón Víðis mætti til að skemmta með sínum brögðum, og eru sumir félagar ennþá að reyna að finna út hvernig hann plataði þá. Myndir frá frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri fyrir félaga. [07.02]jsl


Reno's Hot August Nights

Þegar horft er út um gluggann núna þá virðist vera mjög langt í kvöldrúntana, en til að stytta tímann er hægt að kíkja á þessi vídeó (4 bútar) frá rúnti í Reno sem er kenndur við heitar ágústnætur. Rúnta af þessari stærðargráðu getum við hér á skerinu bara dreymt um, en miðað við hina frægu höfðatölu þá sláum við þá örugglega út á góðu kvöldi. [04.02]jsl


Kjörnefnd hefur störf

Eins og skýrt var frá nýlega þá var kjörnefnd skipuð og hefur hún verið að hittast til að fara yfir vinnulag og skipta með sér verkum. Nefndin vill benda á að opið er fyrir framboð til stjórnar og eins til formanns. Kosið er um formann á tveggja ára fresti, eins er kosið um helming stjórnar annað hvert ár og varamenn hvert ár. Hafa skal samband við nefndarmenn með framboð eða ábendingar um félaga.Grétar 892 1413, Kjartan 869 1360, Sigurjón G. 864 2096 og ón H. 896 0452. [01.02]