Eldri fréttir - Nóvember 2010

Leitað að "Snjólfi"

Kristján Auðunsson í Stykkishólmi hefur lengi safnað vélsleðum og hefur nú opnað safn sem sýnir part af safninu en það inniheldur sleða frá 1968 til 2006, i heildina um 100 stk. En í safnið vantar einn, og er það eini Íslenski sleðinn "Snjólfur", ef einhver veit af svoleiðis eintaki þá er hægt að hafa samband við Kristján í 893 9969. KVA Sleðasafnið, Reitarveg 10, Stykkishólmi er opið eftir samkomulagi. [26.11]jsl


Jólagjafir fyrir fornbílafólk

Í tilefni bókakvölds sem var í Árbænum í gærkvöldi er upplagt að stinga upp á góðri bílabók í jólagjöf fyrir fornbílafólk. Mikið af góðum bókum eru til um allt mögulegt sem tengist þessu áhugamáli, fyrir utan auðvitað sérhæfðum bókum um vissar tegundir eða bílamerki. Á Amazon er að finna rúmlega 3300 bækur sem falla undir fornbíla og ætti örugglega að vera hægt að finna eitthvað við hæfi þar, einnig er sniðugt að gefa áskrift af bílablaði og þau eru einnig að finna hjá Amazon, en auðvitað einnig á fleiri stöðum á netinu. [25.11]jsl


Eitthvað til að skoða um helgina

Lingenfelter Performance Engineering býður upp á ýmsar breytingar og uppfærslur á bílum, en Ken Lingenfelter er sjálfur mikill safnari bíla og á gott úrval af þeim.

SEMA samkoman var haldin í byrjun nóvember í Las Vegas og að venju þá voru þar sýndar hinar ýmsu breytingar á bílum, en þarna er líka hægt að sjá afburða lakkvinnu á mörgum þessara bíla.

Að lokum eru nokkrar myndir frá samkomu AAA Glidden tour en þeir sem taka þátt í þeirri samkomu/keyrslu eru duglegir að nota bíla sína, þó að margir af þeim séu fluttir á staðinn vegna vegalengda þá eru þetta ekki "trailer queens". AAA Glidden tour á sögu allt aftur til 1905. [19.11]jsl


Tölur um klúbbinn uppfærðar

Ýmsar tölulegar upplýsingar um félaga og bílaeign þeirra er að finna á FBÍ í tölum undir Starfsemi FBÍ og er búið að uppfæra þær núna í nóvember. Nokkuð miklar breytingar hafa orðið á samsetningu bílaeignar félaga frá því að þessar upplýsingar voru fyrst teknar saman árið 2005. Bílaskráin hefur í fyrsta lagi stækkað gífurlega, en einnig hefur ný kynslóð félaga komið með sínar uppáhaldsárgerðir og eldri bílar jafnvel að detta smá saman út. Meðal árgerð bíla félaga er núna 1967 en var 1962. Einnig er eftirtektarvert að árgerðir 1970 til 1979 gera 31% af þeim bílum sem eru á skrá hjá okkur, en 2005 þá var 1960-69 með 31%. Annað sem er vert að nefna er að áberandi hafa verið nýskráningar félaga sem eiga bíla frá Japan og Evrópu frá 1980 til 1990 og er það góð vísbending um að þessar árgerðir og tegundir hverfi ekki úr sögu okkar. [18.11]jsl


Skil á bréfi til félaga

Eins og félagar hafa tekið eftir þá fylgdi bréf með síðustu Skilaboðum. Áríðandi er að félagar skili inn sínum svörum, sama hvaða afstöðu þeir hafa. Þetta er í fyrsta skipti sem allir félagar hafa atkvæðaseðil um mál sem snertir alla félaga og nauðsynlegt að þeir segi skoðun sína. [16.11]jsl


Vélasjóður Ríkisins

Björgvin Ólafsson sendi okkur ábendingu um skemmtilegar myndir á síðu Bílaklúbbs Akureyrar, en það eru nokkrar myndir frá störfum Ingimundar Guðmundssonar (faðir Daníels G. Ingimundar torfærukappa) og Péturs Kristjónssonar (pabbi Helga P.) er þeir unnu hjá Vélasjóði Ríkisins við það að þurrka upp mýrar og búa til skurði í kringum tún hjá bændum landsins. [15.11]jsl


1977 Nova Concours 1977 Nova Concours 1977 Nova Concours 1977 Nova Concours 1977 Nova Concours
Nova í uppgerð

Kristinn Sigurðsson sendi okkur nýjar myndir af 1977 Novu sem hann hefur verið með í uppgerð síðustu mánuði, en stefnt er að hún mæti á rúntinn næsta vor. Allt rafmagn virkar og eftir er að fínstilla vél, finna gorma að framan og raða restinni saman. [12.11]jsl


Fundargerðir á netinu

Á aukaaðalfundi sem haldinn var í byrjun september var lögð fram tillaga um að fundargerðir væru birtar á svæði fyrir félaga og var það samþykkt. Vegna ýmissa tafa þá barst okkur fundargerð frá þessum fundi fyrst núna um mánaðarmótin, en með henni er þetta nýja fyrirkomulag sett í gang. Á þessu svæði verða framvegis birtar fundargerðir frá aðalfundum, stjórnarfundum, sérfundargerðir vissra nefnda og ársreikningar. [10.11]jsl


Mun Kína hreinsa upp fornbílamarkaðinn?

Hróbjartur Ö. Guðmundsson benti okkur á ágætis viðtal við Yang Li, sem er einn af skipuleggjendum Beijing – Sjanghai rallinu, um stöðu fornbíla í Kína og hverju megi búast við þar. Margt forvitnilegt sem kemur fram í þessari grein, en vegna þeirra spurninga sem greinarhöfundur setur fram þá mætti frekar búast við að markaður í Kína muni halda uppi verði á þeim eftirsóttari og sjaldgæfu bílum þegar efnamiklir Kínverjar fara að fjárfesta, en hinn almenni fornbílamaður í Kína á frekar eftir að sækjast í það sem er nær honum og jafnvel frekar að eltast við tískubylgjur út frá bíómyndum. Með greininni eru skemmtilegar myndir frá bílasafni í Kína. [08.11]jsl100 ár frá láti Charles Rolls

Í vikunni komu nokkrir Rolls-Royce eigendur saman í Manchester til að minnast að 100 ár eru liðin frá láti Charles Rolls, en hann lést í júli árið 1910 í flugóhappi og var um leið fyrsti Bretinn sem lést í flugi. Charles Rolls og Sir Henry Royce hittust í Manchester og úr varð hið fræga Rolls-Royce merki. Sjá frétt á BBC. [05.11]jsl


Áríðandi bréf til félagsmanna Fornbílaklúbbsins

Meðfylgjandi þeim Skilaboðum eru að berast félögum fyrir helgi, er bréf frá stjórn Fornbílaklúbbsins vegna húsnæðis okkar í Elliðaárdal. Þetta bréf er auk þess mikilvægur atkvæðaseðill sem þú ert beðinn um að fylla út og póstleggja til klúbbsins fyrir næstu mánaðarmót, en burðargjaldið hefur þegar verið greitt. [04.11]jsl


London to Brighton Veteran Car Run London to Brighton Veteran Car Run
London to Brighton Veteran Car Run

Þessi árlegi viðburður er haldinn fyrsta sunnudag í nóvember og eru 550 bílar skráðir að þessu sinni. Sá elsti er 1894 Benz, en allir verða að hafa verið framleiddir fyrir 1904. Fyrir utan þessi venjulegu merki Renault, Fiat, Mercedes, Peugeot, Cadillac og Vauxhall eru alltaf nokkrir De Dion Bouton, White og Rambler. Að þessu sinni verða tveir vel þekktir bílar, 1904 Darracq og 1904 Spyker, sem hafa ekki sést saman í langan tíma en það eru aðalstjörnurnar úr myndinni Genevieve, en í henni keppa þeir John Gregson og Kenneth More í London to Brighton rallinu. Á laugardeginum verða 100 af þeim sem keppa sýndir í Regent Street, en rallið hefst á sunnudeginum kl. 07.00 í Hyde Park. [03.11]jsl