Eldri fréttir - Maí 2010

Bílamerkingar

Nú hafa verið gerð rétt tæplega 400 spjöld (sýnishorn) til að hafa í bílum félaga, en spjöldin er upplagt að leggja á mælaborðið þegar bílum er stillt upp. Spjöld eru gerð jafnóðum fyrir nýja félaga séu allar upplýsingar til staðar og síðan er verið að gera þau eftir því sem bílaskrá er uppfærð. Vanti einhverjum spjald fyrir 17. júní og Landsmót er hægt að senda póst á jsl@itn.is fyrir 12. júní, taka þarf fram félagsnúmer, bílnúmer, tegund, gerð, árgerð og vélastærð. Merkingar verða ekki gerðar fyrir 17. júni eins og áður, enda koma þessi spjöld í stað þeirra. Þess má geta að í Krambúð eru til sogskálar með krók fyrir þá sem vilja hengja spjaldið á rúðu. [31.05]jsl


Til hamingju BA

Bílaklúbbur Akureyrar átti afmæli í gær, en klúbburinn var stofnaður árið 1974 og er því 36 ára, en BA er elsti starfandi akstursíþróttaklúbbur landsins. Slóð á myndir frá skoðunardegi BA sem var í frétt um daginn virkar víst ekki lengur en hægt er að sjá þessar myndir hér. [28.05]jslAðalfundurinn

Í gærkvöldi var aðalfundur klúbbsins og var góð mæting á Amokka þar sem fundurinn var haldinn. Fyrir utan venjuleg aðalfundarstörf voru ýmis mál tekin fyrir og þar á meðal lagabreytingar, en þær tillögur sem voru samþykktar og eða felldar er hægt að sjá á síðunni þar sem tillögur og framboð stjórnarmanna voru kynntar. Kosið var um þrjá stjórnarmenn, en í framboði voru fimm, sitjandi stjórnarmenn og varamenn voru kosnir áfram. Úrslit kosninga er einnig hægt að sjá á síðunni um Aðalfund 2010. Mikið var rætt um byggingu klúbbsins, framtíð og stöðu fjármála vegna hennar, og sitt sýndist hverjum, en stjórn var falið að halda áfram en jafnframt að fá svör sem fyrst með styrki vegna safnsins og önnur mál sem snúa að framhaldi byggingarinnar. Væntanlega verður aukafélagsfundur eftir 3 mánuði til að kynna stöðuna þá og möguleika um framhaldið. Eftir fund var haldið í Elliðarárdal til að skoða framkvæmdir í húsinu okkar. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [27.05]jsl


Myndir frá Akureyri

Myndir frá skoðunardegi Bílaklúbbs Akureyrar eru komnar á síðuna þeirra, en skoðunardagur þeirra var síðasta laugardag eins og okkar. Skoðaðir voru 50 bílar að þessu sinni og var boðið upp á grill meðan beðið var skoðunar. [21.05]jsl


Upplýsingar um söfn og staði

Komið hefur upp sú hugmynd að safna saman upplýsingum um sem flest söfn, áhugaverða staði og annað sem er gaman að heimsækja fyrir bílafólk. Við óskum eftir upplýsingum um alla þá staði sem fólk er velkomið í heimsókn, hvort sem það er opið bíla og tækjsafn, byggðasöfn (vélar, tæki og fl.), einkasöfn við bæi (dráttarvélar og tæki) eða annað áhugavert sem tengist bíla og vélasögu okkar. Við þurfum að vita staðsetningu (heimilisfang), opnunartíma, síma og auðvitað smá lýsingu. Upplýsingar er hægt að senda á jsl@itn.is merkt sem "söfn". Ekki er verið að leita eftir stöðum þar sem einkaaðili hefur safnað saman sínu dóti og hefur fyrir sig, heldur eingöngu stöðum þar sem fólk má og er velkomið að skoða, hvort sem það er á vissum tímum eða eftir samkomulagi. [19.05]jslSkoðunardagurinn

Síðasta laugardag var hinn árlegi skoðunardagur í Reykjavík og var hinn fínasta mæting. Rétt rúmlega 120 bílar voru skoðaðir og telst það mjög gott, þar sem fornbílar þurfa núna að mæta á tveggja ára fresti. Frumherji tók vel á móti félögum að vanda og var boðið upp á bakkelsi með morgunkaffinu og síðar grillaðar pylsur. Þó nokkuð var um bíla sem hafa ekki sést áður hjá okkur, bæði hjá eldri og nýjum félögum. Eftir skoðun var haldið suður með sjó og bílafloti og aðstaða Tomma í "Bláa hernum" og Hinriks "Vopna" var skoðað, bæði í Keflavík og upp á velli, og var þar margt að sjá fyrir fornbílafólk. Þar var boðið upp á fínustu köku skreytta merki klúbbsins í boði Ragnarsbakarís. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [17.05]jslGærkvöldið

Kvöldrúntur var á dagskrá í gærkvöldi og fóru 40 bílar rúntinn sem hófst við Ísbúð Kópavogs og var farið í gegnum Kópavoginn upp í Ögurhvarf og síðan þar í gegnum hverfið og endað við Shell í Smáralind. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [13.05]jslFrá helginni

Fornbílar voru áberandi síðasta laugardag þegar bílar voru til sýnis á tveimur stöðum, hjá Poulsen vegna 100 ára afmælis fyrirtækisins og síðan hjá BYKO Kauptúni vegna sumardaga. Margir bílar mættu á báða staðina og hjá BYKO kom uppstillingin dálítið skemmtileg út, þar sem menn gátu verið mislengi en jafnóðum og einhver fór þá var annar mættur í staðinn, svo það voru ekki endilega sömu bílar á staðnum þegar fólk skoðaði á leið inn í búðina og svo þegar komið var aftur út. Þar sem alltaf er eitthvað um svona uppákomur eins og síðustu helgar er nauðsynlegt að koma í gang lista yfir þá bíla sem eru tilbúnir að mæta og jafnvel með stuttum fyrirvara, hægt er að senda póst á jsl@itn.is og taka fram nafn, tegund og símanúmer. Myndir frá þessu er hægt að sjá hér. [10.05]jsl


Sérhæft einkasafn

Bragi Guðmundsson benti okkur á þetta safn sem er í eigu Dennis Albaugh, en hann hefur safnað rúmlega 100 Chevrolet bílum sem eru allt frá 1912 til 1975 og bara blæjubílum. Hefur hann náð í allar gerðir og árgerðir frá 1939 þar sem Chevy framleiddi ekki blæjubíl það ár. Er óhætt að segja að þetta sé sérhæfing, en Dennis þessi auðgaðist á að selja efnavörur fyrir landbúnað. Hér er hægt að sjá myndir frá þessu safni hans. [06.05]jslMeira frá helginni

Á Selfossi kom fornbílafólk saman og stillti upp bílum sínum við Hvíta húsið í tilefni 10 ára afmælis Postulanna, en það kalla félagar Bifhjólasamtaka Suðurlands sig. Hjól og bílar eiga alltaf vel saman svo að svona tilefni eru upplögð til að skella saman í sýningu. Félagi okkar Jóhann Þorsteinsson sendi okkur nokkrar myndir frá deginum. [05.05]jslKór-keyrsla

Síðasta laugardag var smá uppákoma sem félagar voru beðnir um að taka að sér, en það var að aka kórfélögum Karlakórs Reykjavíkur að loknum síðustu vortónleika þeirra. Þessi uppákoma var skipulögð af mökum þeirra og kom kórfélögum mikið á óvart þegar 25 fornbílar biðu þeirra eftir tónleika í Langholtskirkju og ekið var með þá að Hótel Loftleiðum þar sem makar og fleiri tóku á móti þeim með lúðrablæstri og söng. Myndir frá þessu er hægt að sjá hér. [04.05]jslMyndir frá sýningu

Sýning Kvartmíluklúbbsins og Sniglanna, Burnout 2010, lauk í gærkvöldi og var þetta vel heppnuð sýning en margir aðilar komu að henni til að kynna sína starfsemi og þar á meðal Fornbílaklúbburinn. Svona sýningar efla líka starf klúbbanna þar sem félagar þeirra geta hitt aðra og skoðað vel þá gripi sem eru til sýnis enda eru margir sem nýta sér helgarpassa og koma oft á meðan á sýningu stendur. FBÍ sýndi 5 bíla og eins og venjulega var áhersla á að endurspegla fjölbreytni bíla félaga. Skemmtilegt er að segja frá því að á svona ofurhestaflasýningu var 95 ára öldungurinn með fæstu hestana valinn þriðji athyglisverðasti bíllinn, 1915 Ford T með heil 20 hestöfl. Hér er smá myndayfirlit af þeim eldri bílum sem voru þarna. [03.05]jsl