Eldri fréttir - Febrúar 2010Fallinn félagi

Þann 12. febrúar lést félagi okkar Sigurður Þorvaldsson. Sigurður var búinn að vera félagi í klúbbnum frá fyrstu árum og var vel þekktur af eldri félögum. Útför Sigurðar fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Hátúni 2, í dag, 25. febrúar, og hefst athöfnin kl. 11. Stjórn og félagar senda öllum aðstandendum samúðarkveðjur. [25.02]jsl


RV / campers 100 ára

Í ár er haldið upp á að 100 ár eru frá því að fyrstu húsbílarnir eða "campers" voru gerðir fyrir almenna sölu. Þeir fyrstu voru frekar bílar sem hafði verið breytt í það að vera með útbúnaði fyrir tjöld sem tengdust bílnum og ýmsar hirslur til að geyma útbúnað. Fljótlega urðu til húsvagnar sem voru dregnir og svo auðvitað bílar með áföstu húsi, oftast þekktir vestanhafs sem RV eða Recreation Vehicle. Ótrúlegustu útfærslur hafa orðið til í gegnum árin og bara ímyndaraflið sem takmarkar þær. RV/MH Heritage Foundation er stórt safn sem sérhæfir sig í varðveislu þessara bíla og sögu þeirra, en myndir fá safninu er hægt að sjá hér. Svo er bara að koma sér upp svona græjum til að mæta á Landsmótið í sumar. [19.02]jsl


Styttist í HERO fornbílarallið

Í vor verður aftur haldið fornbílarall hér á landi sem er skipulagt af HERO - Historic Endurance Rallying Organisation, en síðasta rall var haldið haustið 2008. Strax var vitað að annað rall yrði haldið, þar sem færri komust að en vildu en fjöldi bíla nú verður takmarkaður við 60, og er það fyrir utan þá Íslendinga sem vilja taka þátt. Rallið hefst sunnudaginn 9. maí og stendur til 15. maí. Nánar er hægt að sjá um rallið hér. [18.02]jsl


Ármiðar 2010

Félagar hafa verið duglegir við að greiða árgjaldið fyrir 2010, nú þegar hafa rétt um helmingur félaga greitt. Bent skal á að þeir sem vilja fá 2010 miða með næstu Skilaboðum ,að greiða þá fyrir 26. febrúar svo hægt sé að koma þeim með á útsendingarlistann. Þess má geta að stutt er í að félagatalið nái 1000, og miðast það auðvitað við virka félaga. [17.02]jsl


Nýtt á varahlutasíðu

Varahlutanefnd hefur verið að bæta við myndum á varahlutasíðu og nú voru stuðarar teknir fyrir, en ýmislegt leyndist í þeirri hrúgu þegar tekið var til, bæði notaðir og nýjir. Einnig var nokkrum öðrum hlutum bætt við í ýmsum flokkum sem passar í Ford 1947. Þess má geta að posi er nú á Esjumelnum svo auðvelt er að ganga frá kaupum á varahlutum. [15.02]jsl


Gamall nýr

Rúnar Sigurjónsson sendi okkur ábendingu um leið sem er hægt að fara ef maður fær leið á nýja bílnum sínum. Þó að PT Cruiser sé hannaður í anda eldri bíla þá er hann óneitanlega nýr bíll, svo að eigandi þessa bíls ákvað að flikka aðeins upp á hann og um leið að sækja til fyrri ára. Svo ar allt annað mál hvað fólki finnst um útkomuna. [11.02]jsl


Módelbílar í nýju ljósi

Michael Paul Smith gerir meira en að stilla upp sínum módelbílum í skáp og þurrka af þeim reglulega. Bílana myndar hann og býr til umhverfi sem hæfir tíma og gerðum. Allar myndir hans eru beint úr myndavélinni, ekkert "photoshop" eða gervi bakgrunnur, allt eins raunverulegt og hægt er. Hægt er að sjá myndir hans hér og inn á milli eru myndir af uppsetningu og hvernig hann vinnur þessar myndir. [10.02]jsl


Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld Safnarakvld
Frá helginni

Síðasta laugardag var smá sýning bíla sem hafa verið smíðaðir eða yfirbyggðir hér á Íslandi. Var þetta gert til kynningar á þessari grein, en frekar lítið er fjallað um þessa grein. Í áratugi var t.d. smíðað yfir allar rútur sem fóru um vegi landsins og mikið er um smíði allskonar palla og tengivagna fyrir flutninga. Einnig var mikið smiðað yfir jeppa og voru margar útgáfur til af þeim húsum, en lítið fór fyrir þeim á þessari sýningu. Rafmagnsbílar voru einnig kynntir þarna, en nokkur tilraunastarfsemi hefur verið í gangi um að breyta venjulegum bílum í rafmagnsbíla. [09.02]jslÞorrablótið

Síðasta laugardagskvöld var haldið hið árlega þorrablót klúbbsins. Mikil aðsókn var og var uppselt, en húsnæði rúmar ekki fleiri en 95 í sæti. Maturinn var að venju frá Kjötsmiðjunni og ekki klikkaði hann frekar en venjulega. Leynigestur hafði verið boðaður og reyndist það vera Sigríður Klingenberg spákona og messaði hún yfir gestum með sínum hætti. Gestir skemmtu sér vel og dönsuðu fram á nótt. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [08.02]jsl


Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO Y 301 BYKO
Leikfangabíll?

Fyrir helgi var verið að setja inn vörubíl í verslun BYKO í Kauptúni í tilefni "bílskúrsdaga" hjá þeim. Var fenginn lánaður 1946 Chevrolet vörubíll í eigu Kjartans Friðgeirssonar, voru þessar myndir teknar við það tækifæri. Það er ekki hægt að neita því að bíllinn virkar frekar sem leikfang í þessu umhverfi, heldur en vörubíll sem þótti stór á sínum tíma. [02.02]jsl


Landsmótsnefnd

Nýlega var ákveðið af stjórn FBÍ að setja í gang sérstaka nefnd sem sér um allt sem við kemur Landsmóti FBÍ. Aðaltilgangur er að hlúa að Landsmótinu og um leið létta á Ferðanefnd, þar sem þessi helgi kallar á langan undirbúning, um leið er stefnt að því að efla dagskrána og leyfa mótinu að þróast og stækka. Þorgeir Kjartansson verður formaður nefndarinnar, en með honum verða Einar J. Gíslason, Garðar Smári Arnarson, Heiðar S. Smárason, Jón S. Loftsson, Kjartan Friðgeirsson, Rúnar Sigurjónsson, Sævar Pétursson og Þorsteinn Jóhannsson. Garðar, Jón, Sævar og Þorgeir eru allir í stjórn klúbbsins og hafa verið í Ferðanefnd, Einar og Rúnar hafa báðir verið formenn Ferðanefndar, Kjartan var í fyrstu Ferðanedninni, Þorsteinn verður lykilmaður á Selfossi og Heiðar er mikill trukkakall og mun sjá um stærri bílana. Auk þess verða fleiri aðilar kallaðir til að sinna sérverkefnum. [01.02]jsl