Eldri fréttir - Janúar 2010

Aldrei of lítill bílskúr

Margir lenda í því vandamáli að bílskúrar í dag eru frekar litlir, sérstaklega fyrir alvöru bíla eins og fornbílafólk á. En ef skúrinn er of lítill fyrir venjulegan bíl þá er hægt að gera eins og þessi maður, en skúrinn hans er 1,55 cm á breidd og bíllinn er 1.49 cm, en hvernig kemst hann út úr bílnum?. Myndbandið útskýrir allt og er þetta með betri lausnum sem undirritaður hefur séð. [29.01]jsl


Stormur stoppar uppboð

Það voru ekki ánægðir fornbílaeigendur sem vitjuðu bíla sinna eftir mikinn storm sem gekk yfir Scottsdale, Arizona. Búið var að reisa stærðar tjöld til að sýna bíla, en síðasta föstudag gerði mikið óveður með tilheyrandi rigningu og fauk eitt aðal tjaldið, 800 feta, og féllu þá súlur á bílana sem stóðu eftir í rigningunni. Ekki bætti ástandið ofurreglur Kanans, þar sem ekki mátti fara inn á svæðið þar til búið væri að úrskurða það óhætt fyrir fólk. Talið er að tjónið sem varð sé um 1.5 milljón dollara, en meðal þeirra bíla sem bjóða átti upp var 1948 Tucker Convertible sem er sá eini sem til er, en hann slapp með nokkrar rispur. Hér er hægt að lesa meira um uppboðið. [27.01]jsl


Gömul vídeó

Eyjólfur Brynjólfsson hefur sett þrjú skemmtileg vídeó inn á síðuna okkar á Facebook. Eru þetta myndir fá 17. júní akstri árið 1982. Öskjuhlíð árið 1982 og frá uppsetningu fornbílasýningar í Laugardalshöll árið 1989. Til að sjá vídeóin þarf að vera skráður inn, en þar sem stór hluti Íslendinga er á Facebook þá ætti ekki að vera mikið vandamál að sjá þau hjá einhverjum, ef það er ekki til aðgangur. [25.01]jslCitroën Kegresse

Hérna er umfjöllun um Citroën Kegresse snjóbíla sem Vegagerðin var með fyrir stríð, en nýlega voru erlendir áhugamenn hér á ferð til að skoða þá tvo sem eftir eru hér. Þeir voru notaðir í póst og farþegaflutninga á Holtavörðuheiði, Hellisheiði, Fjarðarheiði og Fagradal. Bílarnir voru fluttir inn fyrir tilstilli Jónasar frá Hriflu og aðlagaðir að Íslenskum aðstæðum, byggt var yfir þá og settur í þá Ford mótor. Annar þeirra er á safninu að Skógum en hinn er í geymslu á Selfossi. Hér má lesa nánar um bílana. [22.01]Eyjólfur Karlsson/jsl


Spyker og SAAB

Í fréttum uppá síðkastið hefur verið rætt nokkuð um hollenska bílaframleiðandann Spyker og hugsanleg kaup þeirra á SAAB bílaverksmiðjunum, en hverjir eru Spyker? Fyrirtækið er hollenskur bílaframleiðandi sem stofnað var árið 1999 af Victor Muller (f. 1959) og byrjaði bílasmíði árið 2000. Allir bílar Spyker eru handsmíðaðir og verðmiðinn eftir því. Eftir því sem undirritaður kemst næst framleiðir Spyker þrjú módel: Spyker C8, Spyker D12 Peking-to-Paris og Spyker C12 Zagato og eru þetta allt ofursportbílar, Spyker hefur því verið rangnefndur lúxusbílaframleiðandi í fréttum hér að undanförnu. Ekki má rugla Spyker, sem hér um ræðir, saman við eldri hollenskan vagnasmið sem einnig hét Spyker, en það fyrirtæki var stofnað 1880 og varð gjaldþrota árið 1922. Gaman er að skoða myndir úr verksmiðju Spyker, en það má gera hér og svo er Spyker líka með flotta heimasíðu. [21.01]Guðjón Örn Emilsson/jslNýr Boss

Helgi Guðlaugsson vildi benda okkur á þessa frétt um nýja Mustang sem byggir á Boss keppnisbílnum, en 40 ár eru liðin frá því að alvöru Boss-inn vann Trans-Am keppnina. Aðeins 50 bílar verða smíðaðir af þessari útgáfu. [20.01]jsl


Misheppnuð hreinsun?

Síðastliðið sumar var í gangi átak hjá ríkisstjórn Bandaríkjanna sem miðaði að fækkun eldri bíla og átti að hvetja fólk til að fá sér nýrri og eyðslugrennri bíla. Átakið fólst í því að fólk gat skilað inn gömlum bílum til eyðingar og fengið inneign uppí nýjan bíl, svipað og hefur verið í gangi í Bretlandi og við höfum fjallað um. Bílarnir þurftu að vera 25 ára eða yngri, eyða meira en 16L/100km, vera tryggðir síðasta árið og ökufærir. Fyrir bílinn fengust $ 3500-4500, þar að auki gáfu margir bílaframleiðendur afslátt af nýjum bílum, allt að jöfnuðu inneignina sem fékkst fyrir gamla bílinn. Eflaust er ekki eftirsjá í öllum þeim hátt í 700.000 bílum sem enduðu ævi sína í átakinu, en sé rennt yfir listann sést að inn á milli voru í það minnsta nokkrum áhugaverðum bílum skilað inn til eyðingar, t.d. 1987 Buick ASC GNX, 1997 Aston Martin DB7 Volante, 1997 Bentley Continental R, 1989 Pontiac Trans Am (tuttugu ára afmælisútgáfa), 1985 Audi Quattro, 1985 Maserati Quattroporte, 1985 TVR 280i convertible, 60 stk. AMC Eagle, 1007 stk. Chevrolet Camaro, 1611 Ford Mustang (Mustang rústar Camaro hér a.m.k.) og ýmsir aðrir áhugaverðir bílar eru líka á listanum. [19.01]Guðjón Örn Emilsson/jsl


Wheels and Wings

Á hverju sumri í Varberg, Svíþjóð, er haldið stórt bílamót sem tengist flugmóti og sýningu. Þarna er um leið varahlutamarkaður, rúntar og fl. á dagskrá og er þetta eitt af stærri mótunum í Svíþjóð. Hér er hægt að sjá myndir frá síðustu árum. [18.01]Kristinn Sigurðsson/jsl


Fleiri gamlar auglýsingar

Gamlar bíla auglýsingar getur verið gaman að skoða bæði til fróðleiks og skemmtunar. Greinilegt að framleiðendur voru ekkert að fela það fyrir neytendum hverjum þeir voru að reyna að skáka og gaman að sjá hvernig skotin gengu á víxl, bein og óbein. Á þessari síðu er hægt að skoða margar gamlar auglýsingar og hægt er að fletta upp hverjum áratug fyrir sig. [15.01]Guðjón Örn Emilsson/jsl


Gömul auglýsing

Auglýsingar sem birtust í blöðum á árum áður, sérstaklega rétt eftir 1900, voru oft mjög hátíðlegar og mikið lagt upp úr að hafa allar þéringar í lagi enda, var það mikill dónaskapur að þúa þá sem lásu auglýsinguna. Þessi auglýsing birtist í Speglinum árið 1928 og þar var verið að auglýsa nýjan Ford, auðvitað með öllu því sem var nýjast á þeim tíma og mikið lagt upp úr að lýsa vel og vandlega öllum kostum hans. T.d. er tekið fram að þetta sé aflmikill bíll, "Nýi Ford er óvenju fljótur að auka hraðann. Við reynslu á Tudor Sedan vagni með 2 farþegum í, jókst hraðinn á 8 ½ sek. Úr 8 km. upp í 40 km" og "Þjer gleðjist yfir því með hve miklum mjúkleika og öryggi hann þýtur af stað í þrengslum og umferð stórborgarinnar, hve eldfljótt hann brunar fram þegar stjórnandi umferðarinnar gefur merki og þjer stigið fæti á stillirinn". [14.01]Þorgeir Kjartansson


Dagskrá á Google Calendar

Fyrir þá sem nota Google Calendar þá verður framvegis öll dagskrá klúbbsins einnig þar. Þeir sem eru með þetta dagatal geta þá bætt okkar dagskrá inn á dagatalið sitt og séð hvað er á dagská og fengið áminningu um þá liði sem þeir hafa áhuga á. Ítarlegri lýsing verður auðvitað sett þar inn um leið og á dagatalið á fornbill.is. Slóðin á Google dagatalið. [13.01]jsl


Ford Granada Turnier 2,3 Ford Granada Turnier 2,3 Ford Granada Turnier 2,3 Ford Granada Turnier 2,3 Ford Granada Turnier 2,3 Ford Granada Turnier 2,3 Ford Granada Turnier 2,3

Andreas Schütt hefur mætt á síðustu tvö Landsmót okkar á Selfossi og í sjálfu sér er það ekkert til að tala um, þar sem margir mæta á mótið, en Andreas kemur lengra að en aðrir þar sem hann býr í Þýskalandi. Um leið og hann kíkir til okkar í heimsókn þá fer hann um Ísland og heimsækir vini sína og skoðar landið. Andreas á þrjá Ford Granada og núna er hann að klára uppgerð á þeim þriðja, Ford Granada Turnier 2,3, sem hann ætlar að mæta á í sumar, en hina höfum við séð á síðustu Landsmótum. Andreas talar, les og skrifar íslensku og hefur mikinn áhuga á landi og þjóð og fylgist vel með því sem er að gerast hér. Heimasíða Andreas. [11.01]jsl


Dagatalið póstlagt

Nú er verið að póstleggja Dagatal fyrir 2010 ,þar sem kemur fram öll dagskrá klúbbsins fyrir árið. Mikil fjölgun ferða er kynnt fyrir sumarið og ýmsar breytingar á ferðum. Með dagatalinu fylgir lítið kort sem sjálfsagt er að geyma í veskinu, því þar eru upplýsingar um alla þá aðila sem veita félögum Fornbílaklúbbsins afslátt af þjónustu sinni og eru menn hvattir til að beina viðskiptum sínum til þeirra. Dagatalið er auðvitað einnig á fornbill.is, en þar munu verða ítarlegri upplýsingar um ferðir og dagskrá. Þegar líður nær sumri verður einnig Veskjakort aðgengilegt á fornbill.is til að prenta út en þar mun koma fram mætingarstaður og tími ferða. [08.01]jsl


Volvo vídeó

Inn á Youtube.com er rás sem heitir volvocarsnews. Þar inni er leitarvél sem vísar á mjög fjölbreytt myndefni t.d. ef Interlaken er slegið inn koma upp klippur frá Evrópumóti Volvo eigenda frá ágúst s.l., þar sem hundruðir Volvo eigenda mættu til Interlaken í Sviss. Volvo er einnig með klassikmyndir þar inni og sögu Volvo. [07.01]Gunnar B. Pálsson


Mopar samkoma í Svíaríki

Kristinn Sigurðsson benti okkur á myndir frá stórum Mopar samkomum í Svíþjóð, en eins og flestir vita þá er mikill fjöldi fornbíla í Svíþjóð og mikið um sýningar og samkomur fornbíla. Á heimasíðu Mopar klúbbs www.hemicuda.se er að finna myndir frá samkomu sem haldin var á síðasta ári í Rättvik. [06.01]jsl


Fallinn félagi

Þann 31. desember lést félagi okkar Jóhannes Þorsteinsson.


Jóhannes var í klúbbnum ásamt bræðrum sínum Guðna og Árna og kom oft með þeim í ferðir, en eftir að Jóhannes eignaðist sinn eiginn fornbíl árið 2002 (1964 Ford Thunderbird) héldu honum engin bönd og mætti hann í allar ferðir sem voru á dagskrá. Árið 2007 flytur Jóhannes til Svíþjóðar til dóttur sinnar. Stjórn og félagar senda öllum aðstandendum samúðarkveðjur. [04.01]jsl