Eldri fréttir - Desember 2009


Jóla og áramótafrí

Siðan er komin í jólafrí eins og önnur starfsemi klúbbsins, næsta opna kvöld verður 13. janúar.
Stjórn og nefndir Fornbílaklúbbsins óskar öllum gleðilegra jóla. [17.12]jsl


Okkur vantar fréttir

Nú hefur fornbill.is verið í gangi frá 2002 og hafa verið birtir daglega fréttamolar frá starfinu og heimi fornbíla allan þann tíma. Örn Sigurðsson sá fyrst um að skrifa fréttir, en undirritaður byrjaði árið 2004 að koma með einstaka skot, en sat uppi með fréttirnar fljótlega eftir það. Nú er svo komið að viðkomandi er orðinn frekar uppiskroppa með að finna alltaf eitthvað nýtt til að benda á, einnig er þetta frekar bindandi þar sem undirritaður sér einnig um allt sem viðkemur netinu, félagaskrá, myndun ferða, situr í stjórn og er gjaldkeri. Nú er óskað eftir að félagar, sem eru í dag 950, leggi sitt af mörkum til að halda fréttum í gangi og sendi inn til birtingar, margt er hægt að finna t.d. hvað er að gerast á heimasvæði félaga, hvað er í gangi í bílskúrnum, uppáhaldsbílar félaga, stutt grein um eitthvað sem félagar eru sérhæfðir í og svo mætti lengi telja. Heimasíðan er með 450 heimsóknir að meðaltali á dag og líklega skoða þeir aðilar fleira á netinu svo að einhverjir hljóta að eiga til efni sem hægt er að nota. Efnið yrði birt eftir því sem raðast best niður, en fréttir frá starfinu munu auðvitað halda sínum stöðum. Auðvitað verður efnið yfirfarið og lagað sé þörf á svo að menn þurfa ekki að vera nóbelshafar til að senda inn efni. Núna er þetta í höndum ykkar góðir félagar. Með kveðju Jón S. Loftsson, umsjónarmaður fornbill.is [16.12]jslBíladella

Nýverið kom út heimildamyndin Bíladella um bílaáhugamanninn og Selfyssinginn Sverri Andrésson. Í myndinni er Sverri fylgt eftir í fimm ár og fylgst með honum gera upp bíla og fl. Inní myndina fléttast Landsmót Fornbílaklúbbsins á Selfossi og margt fleira. Það er Gunnar Sigurgeirsson kvikmyndagerðamaður á Selfossi sem gerir myndina og Filmsýn ehf sem gefur hana út. Myndin var frumsýnd í Sambíó Selfossi 3. des.sl. og fékk mjög góðar viðtökur. Myndin er til sölu í verslunum Elko í Reykjavík og Fríhöfninni, einnig í flestum verslunum á Selfossi. Þetta er harður pakki og góð jólagjöf fyrir alla þá er elska bíla. [15.12]Gunnar Sigurgeirsson


Bílabæklingar

Það er alltaf gaman að skoða gamla auglýsingabæklinga og sérstaklega yfir sinn eiginn bíl. Fyrr á árum snérust þessir bæklingar um hve þægilegur bíllinn væri og hversu kraftmikill, ekki má heldur gleyma öllum aukahlutunum sem fylgdu eða var hægt að fá. Í dag eru þessir pésar frekar þurrir og snúast mikið um loftpúða og mengunarmál. [14.12]jsl


Steðjaplötur framleiddar

Í vikunni var loks hægt að framleiða þær númeraplötur sem hafa verið pantaðar, en ekki hefur verið hægt að gera plötur vegna vöntunar á réttu efni. Að loknu sumri átti að smíða þær númerapantanir er lágu fyrir, en þá kom í ljós að álið sem hafði verið pantað var vitlaust afgreitt og of mikil harka í því svo ekki var hægt að þrykkja í álið. Eftir þó nokkurn tíma var loks komið á hreint að framleiðandi hafði afgreitt vitlaust og var þá hægt að fá sent rétta efnið. Eftir helgina verður búið að mála plöturnar og senda til Umferðastofu. [11.12]jsl
Jólakvöldið

Í gærkvöldi var síðasta kvöldið í Árbænum á þessu ári og um leið var smá jólastemning í kringum það. Margir tóku áskoruninni um að mæta með jólasveinahúfu, en yngstu gestirnir Eyrún, Gulla og Kolli hlutu bíómiðana sem voru í boði fyrir skrautlegustu húfurnar. Næsta kvöld sem dagskrá verður er miðvikudagskvöldið 13. janúar. [10.12]jslDagatalið 2010

Nú hefur Dagatalið fyrir 2010 verið sett inn á fornbill.is. Búið er að fjölga ferðum, sérstaklega kvöldrúntum, en um leið er nýtt stigakerfi sem þýðir að ekki þarf að mæta í allar ferðir til að ná gulli. Landsmótið hefur verið fært aftur um eina viku og aðrar smá breytingar á föstum ferðum hafa verið gerðar. Skoðunardagur færist aftur í miðjan maí og er það til komið vegna 1.maí sem er fyrsti laugardagur, og eins verður HERO rallið með skoðun þann 8. maí og ekki er hægt að hafa þá skoðun saman við okkar. Mætingarstaðir ferða verða kynntir nánar í apríl og að sjálfsögðu verða ferðir kynntar á fornbill.is eins og hefur verið. Dagatalinu verður dreift til félaga í byrjun janúar ásamt veskjakorti yfir þá aðila sem veita félögum afslátt. [09.12]jsl


Jólagjafir fyrir bílaáhugafólk

Til að gleðja bílaáhugafólkið í fjölskyldunni er upplagt að gefa eitthvað sem tengist áhugamálinu, t.d. er hægt að gefa aðild að klúbbnum okkar eða bæta í pakkana merki, penna eða öðru smá dóti sem fæst í Krambúð klúbbsins. Einnig er vinsælt að gefa áskrift af góðu bílablaði, dvd disk yfir uppáhalds bílategundina, eða bók sem fjallar um þá tegund sem viðkomandi á eða hefur áhuga á. Hjá Hemmings fæst ýmislegt fyrir bílafólkið, eins er hægt að finna ýmislegt á Amazon. Svo er auðvitað hægt að kaupa verkfæri eða annað sem vantar til að hafa í bílnum eða bílskúrnum. Að lokum er líka hægt að benda á módel af bílum sem fást á nokkrum stöðum t.d. í Tómstundahúsinu. [07.12]jsl


Kveikt í bílasafni

Síðasta þriðjudagskvöld kom upp eldur í Cae Dai Museum, í Wales. Talið er að kveikt hafi verið í og 46 ára maður hefur verið handtekinn. Það sem verra er að slökkviliðsmenn áttuðu sig ekki á hversu mikið af munum væri þarna á staðnum og litlu sem engu var bjargað, en þarna var einkasafn Sparrow Harrisons sem hann hefur safnað í gegnum árin. Meðal muna var Cadillac og vörubíll sem voru notaðir við lestarránið mikla árið 1963, mikið af munum frá 1950 og einnig bílar úr þáttunum Heartbeat. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessu safni, en því miður þá verður þetta safn ekki heimsótt á næsta ári eins og stóð til hjá undirrituðum. [04.12]jsl


Uppgerðasíða

Rúnar Sigurjónsson hefur haldið úti síðum um uppgerðir bíla sinna og þar á meðal er núverandi verkefni sem er Mercedes-Benz 300GD. Bíllinn var frekar dapur þegar Rúnar eignast hann og hefur verið mikið unnið í honum. Á síðunni er að hægt að sjá verkið flokkað eftir drifbúnaði, vél og yfirbyggingu, en einnig eru aðrar upplýsingar að finna þarna um bílinn. www.doktorinn.is/klaus [03.12]jsl


V8 vélin 107 ára

Á þessum degi árið 1902 fékk Leon-Marie-Joseph-Clement Levavasseur einkaleyfi fyrir fyrstu 8 strokka vélinni sem virkaði. Vélar voru sífellt að stækka og um leið þurfti að stækka plássið fyrir þær, en með því að setja strokkana í V var hægt að spara plássið. Í sjálfu sér er óþarfi að fara nánar út í sögu V8 vélarinnar en oft vill gleymast hver eða hverjir stóðu að helstu uppfinningum bílasögunnar. [02.12]jsl