Eldri fréttir - Nóvember 2009

Breskir fornbílar í hættu

Til að auka sölu nýrra bíla í Bretlandi var sett í gang herferð þar sem boðinn var afsláttur af nýjum bílum gegn því að eldri bíl væri fargað, en afsláttur þessi getur numið nokkrum hundruð þúsunda. Þegar hefur borið á að góðir efniviðir í fornbíla hafi lent í þessari förgun og nú eru bílaumboðin farin að benda fólki á að reyna að selja eldri bílinn frekar en að farga honum sé hann talinn fornbíll þar sem menn hafa áhyggjur af þessu. Þegar hefur verið fórnað mörgum góðum bílum og telja menn að þetta sé ekki endilega besta leiðin, enda er það ekki alltaf best að henda bara til að kaupa nýtt. Í sjálfu sér má yfirfæra þetta hingað, þar sem margir góðir bílar hafa lent í Hringrás þar sem eigendur hafa verið með of háar hugmyndir um verð, en markaðurinn hér á landi er of lítill til að bera hátt verð á óuppgerðum bílum, en um leið eru menn að henda bílasögunni. Þeir sem eru að falast eftir gömlum bílum til uppgerðar eru ekki að þessu til að hagnast á því heldur vilja menn viðhalda sögu og tegundum þar sem menn fá aldrei til baka raunkostnað á uppgerð. Grein um Scrappage scheme. [30.11]jslThe Red Green Show

The Red Green Show voru Kanadískir grínþættir sem voru byggðir upp í kringum karakter sem kallast Red Green, en upprunalega kom hann fram í þáttum sem hétu Smith & Smith frá árinu 1987. Þessi karakter hefur síðan komið fram í ýmsum þáttum í framhaldi af Smith & Smith og nú síðast í The Red Green Show, sem hætti árið 2006 eftir 300 þætti. Red Green er furðulegur karakter sem notar frekar óhefðbundnar aðferðir til að leysa ýmis dagleg vandamál og helsta tólið hans er "duct tape". Eins og gefur að skilja þá lendir Red Green í ýmsum vandamálum í kringum sína bíla og leysir þau á sinn snildarhátt þó að við getum ekki mælt með hans lausnum, en vanti manni eitthvað til að brosa af þá eru klippur hans lausnin. [26.11]jsl


Nýtt á myndasíðum

Á myndasvæðinu úr ferðum (fyrir félaga) er nú hægt að velja hvort myndir séu skoðaðar eins og hefur verið með valmyndum eða sem pdf sýning. Síðarnefnda tekur aðeins lengur að hlaða inn, fer eftir fjölda mynda, en hentar betur fyrir þá sem vilja nota örvatakka til að velja næstu mynd og hentar sérstaklega þeim sem eru ekki með mús t.d. á fartölvu. Til að byrja með er búið að setja inn fyrir 2009 en þessu bætt við eldri ár fljótlega. [25.11]jslGMC og Chevy trukkar

Þorgeir Kjartansson sendi okkur þessa síðu sem er með gott úrval af myndum af gömlum GMC og Chevy trukkum í ýmsum hlutverkum. [24.11]jslAllt í rusli

Eins og allar tegundir vinnutækja hafa þeir bílar sem notaðir eru við söfnun rusls þróast frá því að vera opnir handvagnar til hátæknibíla sem við þekkjum í dag. Eftir að byrjað var að nota vörubíla við þessa söfnun var fljótt byrjað að loka þeim vegna lyktar og eins að halda ruslinu á pallinum, erfitt var að tæma úr ílátum í þessa bíla þar sem lyfta þurfti hátt upp til að losa. Síðar meir var farið að nota ýmsar skúffur sem tóku við og lyftust upp til að losa í bílinn svipað og við þekkjum enn í dag. Á þessari síðu er að finna smá fróðleik um þróun þessara bíla, en spurningin er hvort einhverjir svona bílar leynast hér á landi ennþá, sérstaklega af þeim elstu. [23.11]jslStudebaker myndir

Á síðunni hans Bill Jackameit er að finna mikið af myndum af Studebaker, með smá lesningu um hvern bíl. Þarna hafa verið kynntir bílar hvers mánaðar allt frá 1995, en fyrstu innfærslur eru meira um óbreytta bíla en eftir sem líður á eru þeir meira breyttir, en Studebaker hefur verið vinsæll til breytinga síðustu árin. Á síðunni er einnig hægt að kaupa módel af Studebaker bílum og að lokum eru þarna ýmsir tenglar á síður sem tengjast Studebaker. [20.11]jslVel heppnað bókakvöld

Í gærkvöldi var haldið bókakvöld, en þá var mælst til að félagar mættu með sínar uppáhalds bílabækur öðrum til fróðleiks. Margar góðar bækur sáust þarna um kvöldið, mikið skoðað og bókaeign borin saman. Um leið var á sýningartjaldinu rúllandi myndir frá sýningum og söfnum erlendis sem hafa verið heimsótt. Líklega verða svona bókakvöld aftur á dagskrá eftir áramótin og er þá um að gera að mæta með sínar skræður og leyfa öðrum að kíkja í. [19.11]jsl


Breytingar í loftinu

Á nýlegri sýningu Speciality Equipment Market Association (SEMA) í Las Vegas var hægt að sjá teikn um ýmsar breytingar sem eru að gerjast í smíði og útfærslum "hot rod" bíla. Þarna mátti sjá bíla með bio-disel vélum, rafmagnsknúna og jafnvel knúna gasi. Annað sem gestir tóku eftir var að felgur eru að minnka aftur og var leitun að þessum risa "bling" felgum sem hafa tröllriðið flestum breyttum bílum undanfarið. Dekkjaframleiðendur eru einnig að leggja sitt af mörkum, en Pirelli kynnti ný dekk sem henta léttum SUV og pickup bílum, en dekkin eru 8% léttari en þau sem fyrir eru. Annað sem seljendur eftirmarkaðshluta taka eftir, er að aukning er í sölu notaðra hluta og er ekki eins mikið um að öllu sé hent þegar verið er að uppfæra eða bæta búnað bíla. Nokkrar myndir frá sýningu SEMA er að finna hér. [18.11]jsl


Fall múrsins

Þar sem haldið var upp á fall Berlínar-múrsins í síðustu viku, er ekki úr vegi að rifja upp sögu Trabants. Þegar múrinn féll og landamærin opnuðust þá streymdu íbúar austur-Berlínar til vesturs til að kynnast frelsinu og auðvitað var aðalfarartækið Trabant. Nokkrum árum seinna var Trabant orðinn vinsæll hjá yngra fólki til að gera upp, breyta og mála og eru margar samkomur haldnar tileinkaðar Trabantinum. Á þessari síðu er farið aðeins yfir sögu Trabants og eins á þessari síðu, þar sem einnig er að finna ýmsa varahluti fyrir Trabant. [16.11]jsl


Skemmtilegt myndasafn

Á siglo.is er að finna mikið magn mynda, en undir flokknum vélar og farartæki eru rúmlega 2000 myndir og meðal þeirra er að finna margar skemmmtilegar myndir af gömlum bílum, vörubílum, snjómokstri og öðrum farartækjum. Einnig er hægt að leita eftir fleiri flokkum í safninu, en tugir þúsunda mynda eru þar. www.sksiglo.is/is/myndasafn [13.11]jslLýst eftir horfnum hlutum úr Ford ´34

Einn af stofnendum Fornbílaklúbbsins, Þorsteinn Baldursson, hefur á liðnum árum verið að gera upp Ford árgerð 1934 sem upphaflega var á Akureyri. Bíllinn hefur verið í geymslu í Hafnarfirði, en nýlega uppgötvaði Þorsteinn að búið var að taka frá honum framrúðu bílsins, en hún er í krómuðum ramma og mjög dýr. Einnig hurfu tveir 6 volta rúðuþurrkumótorar, sem báðir eru krómaðir. Þessi þjófnaður, sem sennilega hefur átt sér stað fyrir umb ári, er illskiljanlegur, enda einungis tveir svona bílar til á Íslandi. Þó er sá möguleiki fyrir hendi að sá sem tók hlutina ófrjálsri hendi hafi hug á að selja þá á Ebay, taka þá með erlendis og selja þá þar, eða nota í annan fornbíl sem verið er að gera upp hérlendis. Þeir sem geta varpað ljósi á þetta mál eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband sem allra fyrst við Þorstein í síma 551-7678. [12.11]jsl


Stórt safn mynda fyrir tölvuna

Hjá NetCarShow.com er að finna mikið safn mynda til að nota sem "veggfóður" í tölvuna. Þó að það sé frekar takmarkað úrval af elstu bílunum eru þarna inn á milli gullmolar, en síðuna er hægt að nota til að fræðast um nýrri bíla (og kannski væntanlega fornbíla) þar sem ágætis lesning er með hverri tegund. Myndirnar er hægt að sækja í ýmsum stærðum og er þetta upplagt efni til að skoða yfir helgina. www.netcarshow.com. [05.11]jsl


Nýir afsláttaraðilar

Slökkvitæki ehf, Helluhrauni 10, Hafnarfirði, býður félögum 15% afslátt af þjónustu þeirra. Upplagt að skoða ástand slökkvitækja heimilisins fyrir jólin.
PG-Þjónustan býður félögum Fornbílaklúbbsins 15% afslátt af allri vinnu. Þeir sérhæfa sig í startara- og alternatoraviðgerðum, eiga talsvert af uppgerðum stykkjum á lager og einnig talsvert af varahlutum í eldri startara og alternatora.
Nýtum kjörin sem bjóðast og verslum hjá öðrum félögum. [05.11]jsl
Vorum beðnir um að koma á framfæri að helgina 14. nóvember verður aukasýning vegna afmælis Ragga Bjarna á Hótel Sögu, kr. 6500 matur og ball eða kr. 1800 á ballið. Hægt er að panta hjá Hauki í 857 9192 eða vertinn@simnet.isLondon til Brighton

Þrátt fyrir rigningu og leiðinda spá lögðu tæplega 500 fornbílar af stað síðasta sunnudag í London til Brighton rallið, en það er haldið árlega til að minnast þess að árið 1905 í Bretlandi var afnumið að þurfa að vera með hlaupandi mann, með rautt flagg, á undan bílnum. Til að geta tekið þátt verða viðkomandi bílar að vera framleiddir fyrir 1905 og vera með í það minnsta 3 hjól, en stundum eru undantekningar vegna sérstaka sýningar bíla sem óska eftir þátttöku. Mjög gaman er að vera við rásmarkið og sjá þessa öldunga aka fram hjá, enda eru þetta oft bílar sem almennt eru á söfnum á milli þessa viðburðar. Hér er hægt að sjá myndir frá sunnudeginum. [04.11]jsl


NEC sýningin

Helgina 13. til 15. nóvember er stærsta fornbílasýningin í Bretlandi á dagskrá. Þessi sýning hefur þróast upp í að vera lokasýning ársins og jafnframt eru þarna úrslitakeppnir í stigagjöfum fornbíla á vegum AutoGlym og fl. Sýningin er vanalega rúmlega 1000 bílar í nokkrum sýningarhöllum og margir aðilar sem kynna sínar vörur og klúbba. Ef farið er á sýninguna er best að mæta strax á föstudeginum og klára á laugardegi þar sem sunnudagur getur orðið frekar troðinn. NEC sýningarsvæðið er rétt fyrir utan Birmingham og frekar stutt ferðalag í heildina ef flogið er til Manchester. Nánar um sýninguna. [02.11]jsl