Eldri fréttir - Október 2009


Úr dalnum

Verkið heldur áfram í húsinu okkar og mættu nokkrir félagar í síðustu viku til að ganga frá einangrun á sökkli svo hægt sé að múra yfir og síðan fylla að með grús. Frágangur á gönguhurðum var einnig í vikunni og í næstu viku verður lagt í gólfið á eldhúsi, salernum og geymsluherbergi á annarri hæð. Húsið er orðið fullt af bílum sem verða í geymslu í vetur og komust færri að en vildu. [30.10]jsl

Vörubílaferð

Í byrjun október fóru nokkrir eigendur eldri vörubíla í sína árlegu haustferð. Farið var austur fyrir fjall að Sólheimum Hrunam.hr., með viðkomu í Þorlákshöfn og Eyrarbakka. Á áfangastað tóku hjónin Jóhann og Esther vel á móti ferðamönnum að vanda og var ýmislegt skoðað, en fyrir ofan eru nokkrar myndir sem voru teknar í þessari ferð. [29.10]jsl


Ótrúlegt ef satt er

Á netinu hefur gengið auglýsing um 1950 Chevrolet til sölu, og kannski ekkert merkilegt við það, en sagan segir að bíllinn hafi verið keyptur og staðið nánast óhreyfður síðan, en mælirinn sýnir 437 mílur! Bíllinn á víst að hafa staðið óhreyfður þar sem eigandinn hafi látist stuttu eftir kaupin, síðan var nágranni ekkjunnar sem loks náði að kaupa bílinn eftir að hafa gengið lengi eftir að fá að kaupa hann. Loks þegar hann eignast bílinn árið 1962 var honum lagt í skúrnum hans og þar stóð hann til 2007, en var gangsettur einstaka sinnum og hreyfður út á planið. Bíllinn á sem sagt að vera algjörlega eins og hann kom frá verksmiðju, með GM lofti í dekkjum og allt (en líklega hefur nú þurft að bæta í þau í gegnum árin). Hérna er hægt að sjá meira um bílinn, en við seljum þetta ekki dýrar en keypt var. [28.10]jsl


Brunatryggingar formbíla

Þar sem fornbílar eru komnir í geymslur, eða eru á leið á sinn vetrarstað, er í því sambandi vert að benda á að í almennri heimilisbrunatryggingu er lítið sem ekkert tryggt í bílskúrum, en getur þó verið misjafnt eftir félögum. Bílar sem eru í kaskó eru tryggðir, en alla aðra þarf að tryggja sérstaklega og jafnvel að tilkynna hvar staðsettir í geymslu sé það ekki á lögheimili. Bendum við fornbílaeigendum á að skoða sínar tryggingar sérstaklega út frá þessu. [27.10] jsl.Myndir frá verðlaunaafhendingu

Fríður hópur félaga mætti síðasta laugardagskvöld til að taka á móti mætingarverðlaunum frá ferðanefnd klúbbsins. Að þessu sinni náðu 24 þeim áfanga að mæta í 11 eða fleiri ferðir yfr sumarið, 8 gull, 6 silfur og 10 brons. Fjöldi félaga sem mættu í ferðir sumarsins var 187, en á þá voru skráðar tæplega 900 mætingar, og er þetta mesta mæting sem skrá hefur verið. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [26.10]jsl


Bjórkvöld og verðlaunaafhending - Ath. breyting á stað

Laugardagskvöldið 24. október verða verðlaun afhent fyrir ferðamætingu sumarsins og um leið verður bjórkvöld í tilefni sumarloka. Nú er um að gera að fjölmenna á Amokka í Borgartúni og gleðjast við lok sumars!
Þeir sem hljóta viðurkenningar:
Gull fyrir 15-16 ferðir fá Árni og Guðný, Einar og Diljá, Gunnar Örn og Helga, Símon Arnar Pálsson, Gunnar Már og Gerður, Rúnar Sigurjónsson, Jón S. Loftsson og Kristín Sunna / Heiða.
Silfur fyrir 13-14 ferðir eru Ársæll A. Árnason, Jón Guðmundsson, Jón Hermann Sigurjónsson, Sigurður og Marý, Sævar og Ragnheiður og Magnús Magnússon.
Brons fyrir 11-12 ferðir hljóta Garðar H. Garðarson, Gunnar og Sigrún, Halldór Jónsson, Hróbjartur Örn Guðmundsson, Kjartan og Þorgerður, Rudolf Kristinsson, Sigurbjörn Helgason, Sigurjón og Cecilie, Steingrímur og Guðný og Sveinn Þorsteinsson.
Þessir aðilar eru beðnir um að mæta á Amokka næsta laugardagskvöld og taka á móti viðurkenningum úr höndum ferðanefndarmanna. Húsið opnar klukkan 21. [23.10]jsl


Endalok "sleðanna"

Í lok október 1973 var fyrsti skellur bensínkreppunnar sem setti varanlegt mark á framleiðslu bandarískra bíla. Vegna Yom Kippur stríðsins drógu arabaríkin úr framleiðslu og hækkuðu verð og kom það harðast niður á bandaríkjamönnum, vegna stuðnings þeirra við Ísraela, þó að bensínkreppan hafi síðan náð til heimsins alls síðar meir. Japanskir bílaframleiðendur nýttu sér vel þetta tækifæri og náðu að margfalda sölu sína, þar sem almenningur var fljótur að sjá hversu sparneytnir þeir japönsku voru, en fram að þessum tíma voru þetta aðallega sérvitringar sem óku á þeim japönsku. Bílaframleiðendur reyndu eftir megni að svara þessari innrás með misjöfnum árangri og á markaðinn komu Chevy Vega, Ford Pinto og fleiri. Síðar meir var reynt að minnka tegundir og gera þá framdrifna, en reyna að búa þá ýmsum lúxus sem bandaríkjamenn voru vanir að hafa, en örugglega má segja að flestar þær tilraunir hafa ekki elst vel. Að lokum fór svo að í kringum 1977 hættu flest stóru módelin í framleiðlsu og þar með voru dagar "sleðanna" taldir. [22.10]jsl


"Kryppan" hættir í framleiðslu

Í lok október árið 1965 hætti Volvo framleiðslu á hinum vinsæla PV544 sem tók við af PV444 árið 1958. PV544 var með ýmsum öryggis þáttum sem Volvo var að kynna til sögunnar, svo sem öryggisbeltum sem staðalbúnaði. PV544 varð strax mjög vinsæll sem rallý-bíll og var með yfirburði í rallinu vel fram yfir 1960. Síðasta PV544 var ekið út úr verksmiðju Volvo af Nils Wickstrom reynsluökumanni Volvo og afhentur Gustaf Larson, öðrum stofnanda Volvo. Fram til 1965 voru 440 þúsund PV544 framleiddir. Hér er hægt að sjá meira um hvað PV544 hafði framyfir PV444. [21.10]jsl
Fréttir úr dalnum

Í gærkvöldi mætti vaskur hópur félaga til að taka loka hnykkinn í húsi klúbbsins, svo hægt sé að lakka yfir gólfið áður en settir verða inn þeir bílar sem hafa fengið vetrarsetu í húsinu. Allt rusl var tekið og eins var verið að hreinsa gólfin, sópa og ryksuga. Í kvöld verður sett umferð af lakki til að loka gólfinu og á mánudag verður sett upp öryggiskerfi í húsið. Stefnt er síðan að því að taka inn bíla á mánud. og þriðjudagskvöld (haft verður samband við aðila vegna mætingartíma). [16.10]jsl


Myndir frá bílasýningum

Fréttasíðan rakst á þessa síðu, carnut.com, sem hefur ýmislegt um bíla en forvitnilegast er myndasafnið þeirra frá ýmsum bílasýningum allt frá 1967. Eitthvað eru nú færri myndir frá þessum elstu sýningum en samt áhugavert að skoða margar þeirra, en myndirnar eru frá ýmsum sýningum og samkomum í Bandaríkjunum. [15.10]jsl


Mælaborð

Þegar valinn er fornbíll til eignar eru margir þættir sem koma við sögu, en stór partur getur verið hvernig mælaborðið er í viðkomandi bíl. Fyrir suma skiptir það kannski ekki miklu máli svo lengi sem allt virkar, en fyrir aðra getur mælaborðið verið það sem menn muna mest eftir úr bernsku, þegar kannski var farinn rúntur með eðaldrossíu þess tíma. Mælaborð hafa ekki alltaf verið bara staður til að hafa alla mælana og ýmis viðvörunarljós sem pirra mann í tíma og ótíma heldur hafa þau verið stór partur af heildarhönnun bílsins. Á tímum vængja bíla voru mælaborð oft jafnt á við græjur sem voru í flugvélum og örugglega hefur margur ekki ennþá fundið út hvað allir takkarnir gera. Síðan þróast mælaborð út í hagkvæmni og hönnuð út frá öryggi vegna árekstra. Í fyrstu bílum sem komu á markaðinn var oft bara einn mælir eða jafnvel enginn og bara hraðastillir fyrir kveikju, ef hann var ekki á stýrinu, en þetta virkaði og það þurfti ekki meira, enda mætti örugglega sleppa helmingi af þessu dóti sem er í bílum í dag án þess að nokkur saknaði þess. Á Flickr er að finna margar myndir af ýmsum flottum mælaborðum sem skreyttu bíla í den. [14.10]jsl


Jay Leno og Bentley

Oft hefur komið fram í myndum mikill áhugi Jay´s á Bentley, og á hann nokkra sjálfur. Á síðunni hans er að finna nýtt myndband frá heimsókn hans í byrjun október á Bentley samkomu á Pebble Beach, þar sem voru saman komnir fjöldi bíla sem kepptu á ýmsum kappakstursbrautum hér áður fyrr. Reglulega er verið að bæta við myndböndum á síðuna hans Jay og eru þau auðvitað bílatengd og margt forvitnilegt að finna þarna. [13.10]jslCitroën áberandi á NEC

Þar sem Citroën heldur upp á 90 ára afmæli um þessar mundir, má búast við að Citroën verði áberandi á Classic Motor Show sem verður haldið í Birmingham 13. til 15. nóvember. Sjaldgæfir gestir verða allavega í bás þriggja stærstu Citroën klúbbanna í Bretlandi, en það verður TPV, Coccinelle, C60 og Projet L. Á heimasíðu Citroen Car Club er að finna ýmislegt um sögu Citroën en einnig smá grein um safn Citroën, en Citroën geymir rúmlega 300 bíla frá ýmsum árum til að varðveita sögu Citroën. [12.10]jsl


Kreppu bíll - Bond Bug

Það hafa kannski ekki margir heyrt þetta nafn, en þetta er þriggja hjóla tveggja manna bíll sem var framleiddur á milli 1970 og 74 í Bretlandi af Reliant Motor Group. Þessi smábíll er upplagður í kreppunni, en því miður voru bara tæplega 2300 framleiddir og þeir sem eru til í dag eru farnir að verða eftirsóttir. Reliant Motor Group hefur lengi framleitt þríhjólabíla og voru þeir lengi vel vinsælir í Bretlandi, en hönnuður Bond Bug, Tom Karen, gekk til liðs þeim til að koma þessari framleiðlsu í gang, en allt frá 1963 hafði þessi hugmynd verið að veltast fyrir þeim, en fyrirtækinu vantaði bíl til að taka við af Regal línunni. Tom Karen er kannski ekki mikið þekkt nafn en hann hafði átt heiðurinn af hönnun ýmissa annarra hluta, t.d. Bush TR130 útvarpinu (sem er ennþá selt í dag) og Raleigh Chopper hjólinu sem sést nú á öllum söfnum í dag ,en var draumur allra krakka upp úr ´70. Meira er hægt að finna um Bond Bug á þessari síðu. [09.10]jsl


Volvo rásinn

Sé ekkert í sjónvarpinu eins og oft er um helgar sérstaklega, þá er upplagt að leggjast í skoðun myndbanda á netinu, t.d. YouTupe. Gunnar B. Pálsson sendi okkur ábendingu um eina rás þar, sem fjallar um Volvo og þar er hægt að sjá myndir um eldri bílana og eins sýningu sem var haldin í Swiss í sumar. VolvoCarsNews. [08.10]jsl
Úr dalnum

Búið er að flota yfir gólf á 2. hæð og unnið er núna á fullu við að sprautusparsla veggi, en mjög gott tilboð fékkst í verkið svo ákveðið var að drífa í því . Einnig er núna verið að bora göt vegna salerna og annarra lagna. Strax um eða eftir helgi verður síðan farið í að hreinsa gólfið og bera á það til að varna að olía eða annað smitist í steypuna. Stefnt er síðan að geta tekið inn þá bíla sem verða í vetrargeymslu um miðjan mánuð enda verður þá öll óþrifavinna búin. [07.10]


Vegna aðgangs að læstum síðum FBÍ

Undanfarið hefur borið á að nokkrir félagar hafa ekki komist inn á læstar síður sem eru ætlaðar félögum, eins Fornbílaspjallið og fl. síður sem eru vistaðar erlendis. Eftir athugun á þessu hefur komið í ljós að eldveggur hjá hýsingaraðila hefur verið að neita nokkrum ip töðum aðagngi og hefur þurft að láta opna fyrir þær. Sé þetta vandamál til staðar þarf að láta undirritaðan vita ip tölu þeirrar tengingar sem vandræði er með, og verður þeim safnað saman og sendar út til að fá aðgang opnaðan aftur. Auðvelt er að sjá ip töluna hér www.whatismyip.com.
[05.10]jslVarahlutasíða uppfærð

Kominn var tími á að yfirfara varahlutasíðuna og skipta henni meira upp eftir tegundum hluta, enda var hún sett upp til prufu í fyrstu. Meiri áhugi hefur verið á síðunni en reiknað var með í byrjun og hefur varahlutanefnd afgreitt marga hluti sem félagar hafa fundið þar. Þessi síða hentar einnig sérstaklega vel þeim sem eiga ekki heimangengt á opnunartíma á Esjumelnum og þarna hafa menn verið að finna hluti sem hefur jafnvel verið erfitt að finna á netinu. Varahlutanefnd stefnir á að senda okkur reglulega nýjar skráningar, eftir því sem lagerinn er tekinn í gegn í vetur. Varahlutasala FBÍ [02.10]jsl


Rétt notkun á golfvelli

Fyrir 15 árum gátu nokkrir félagar í Glenmoor Country Club, sem ekki spiluðu golf en voru mikið fyrir fornbíla, sannfært aðra klúbbsfélaga um að fá afnot af golfvellinum í einn dag til sýningar fornbíla. Í fyrstu voru þetta aðallega nokkrir bílar þeirra sem voru í klúbbnum, en í dag hefur þetta vaxið upp í helgarsamkomu sem dregur bíla víða að til sýnis, en einnig er hátíðarkvöldverður og keyrsla bíla um nærliggjandi svæði. Upplagt væri að nota einhverja velli hér á landi undir svona sýningar. [01.10]jsl