Eldri fréttir - Ágúst 2009


Myndir frá Sandgerði

Um helgina var hátíð í Sandgerði og mættu eigendur fornbíla þangað til að taka þátt í hátíðarhöldum. Vélhjólaklúbburinn Ernir leiddi hópinn í akstri inn í bæinn og var síðan bílum stillt upp við höfnina til sýningar. Þar sem mikið er orðið um ýmiskonar hátíðarhöld um allt land, nánast allar helgar um sumartímann, hefur færst í vöxt að óskað sé eftir mætingu fornbíla, því miður þá eru þessar óskir oft mjög seint settar fram og jafnvel með nokkradaga fyrirvara. Stefna klúbbsins hefur verið að sinna þessum óskum eftir því sem hægt er, jafnframt hafna þeim óskum sem eru með of stuttum fyrirvara. Einnig hefur verið reynt að gera viðkomandi aðilum grein fyrir að það sé hið minnsta sem hægt sé að gera fyrir eigendur sem mæta, að bjóða þeim í kaffi og skaffa einhverja aðstöðu fyrir fólkið, en því miður þá er oft lítið hugsað út í þetta, en sumir bæir hafa verið til fyrirmyndar. Skipuleggjendur hátíðarhalda verða að gera sér grein fyrir að þó eigendur fornbíla séu að mæta til að hafa gaman af þessu þá fer mikill tími í þetta og oft á tíðum fer viðveran bara í hangs í bílunum, þar sem engin aðstaða er og lítill áhugi er á að mæta aftur á sama stað. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [31.08]jslGærkvöldið

Síðasti formlegi kvöldrúntur sumarsins var farinn i gærkvöldi, og var áherslan á jeppa í þetta sinn. Rúmlega 30 bílar mættu og helmingur þeirra voru jeppar. Mæting var hjá Arctic Trucks og var hægt að kynna sér úrvalið hjá þeim áður en haldið var af stað. Rúntinum var skipt upp eftir því hvað menn treystu bílum sínum, en aðal rúnturinn var að Úlfarsfelli og síðan í gegnum Grafarvog, en endað í ísbúð á Laugalæk. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [27.08]jsl


Fornbíll næsta árs?

Einn af þeim bílum sem hafa fengið einna mest grín og aðhlátur í Bandaríkjunum síðustu ár verður fornbíll á næsta ári, en þennan dag árið 1985 var fyrsti Yugo fluttur inn til Bandaríkjanna. Yugo var kynntur sem ódýr og sparneytinn smábíll og seldist sæmilega í fyrstu, en þótti illa smíðaður og endast illa og fyrir vikið lendir Yugo ofarlega á öllum listum sem hafa verið gerðir um lélega bíla. Upprunalega nefnist bíllinn Zastava Koral og var fyrst framleiddur árið 1978 undir leyfi frá Fiat, en stuðst var við Fiat 128 við hönnun. Hér er hægt að fræðast nánar um Yugo. [26.08]jsl


Tafir á framleiðslu steðjanúmera

Takmarkanir á innflutningi liðinna mánaða hafa gert fornbílamönnum lífið leitt, en nú er orðinn tveggja mánaða dráttur á afhendingu áls sem klúbburinn notar við smíði steðjanúmera. Af þessum sökum hefur ekkert verið hægt að smíða síðan í byrjun júlí og pantanir hlaðast upp. Vonast er til þess að álið komi til landsins í byrjun september og þá verður hægt að hefjast handa við að afgreiða pantanir. Eru fornbílamenn á biðlistanum beðnir afsökunar á töfunum. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að þrátt fyrir kreppu hefur eftirspurn eftir steðjanúmerum aukist á milli ára, en það sem af er þessu ári hafa 70 númerasett verið smíðuð og fjölmörg bíða framleiðslu. [24.08]ös


Dream Cruise 2009 Dream Cruise 2009 Dream Cruise 2009 Dream Cruise 2009 Dream Cruise 2009
Dream Cruise 2009

Um síðustu helgi var hin fræga Dream Cruise haldin, en þetta er einn stærsti "rúntur" sumarsins vestra. Margir bíla mæta til að taka þátt í hinum ýmsu smásýningum sem eru haldnar í kringum aðal sýninguna, sem er sjálfur rúnturinn. Margir drífa út stóla sína og njóta dýrðarinnar sem rúllar stanslaust fram hjá, en aðrir eru framkvæmdarsamari og leigja út garða sína, sem liggja út að aðalgötunni, til þeirra sem koma að fylgjast með. Margir leggja á sig langt ferðalag með sinn bíl til að taka þátt í þessu og hafa ekki misst úr ár. Hér er hægt að sjá nokkrar myndir fá rúntinum í ár. [21.08]jsl


Volvo tenglar

Félagi okkar, Gunnar B. Pálsson Volvo sérfræðingur, sendi okkur nokkra tengla sem tengjast Volvo og varahlutum fyrir þá. Einnig eru þarna bílasölusíður þar sem er hægt að leita eftir bílum á norðurlöndum. Auðvitað er margt annað efni á þessum síðum sem tengist bílasamkomum og myndir frá þeim en mest um Volvo. [20.08]jsl
www.svis.se/
www.blocket.se/
www.finn.no/bil/
www.140-klubben.org/
www.amazonklubben.se/
www.vp-autoparts.se/


Hraðamet fellur

Samtök sem standa að "The British steam car challenge" felldu nýlega 103 ára gamalt hraðamet í gufuknúnum bíl, en fyrra met átti Bandaríkjamaðurinn Fred Marriott sem hann setti á 1906 Stanley steam car og náði 127 mílna hraða. Nýja metið er ennþá óformlegt, en það var sett á sérútbúnum bíl og náði hann 131 mílna hraða og fljótlega verður reynt aftur og gert formlega í það skiptið, en annað óformlegt met var sett árið 1985, 145.6 mílna hraði. Hér er hægt að sjá nánar um þessa mettilraun. [19.08]jsl


Nýr afsláttaraðili

Landvélar ehf var að bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem veita FBÍ félögum afslátt og býður upp á 15% afsl. af öllum vörum nema suðuvélum, en þar er 10% afsl. og vegna stærri tækja er gefið tilboð. Nokkuð breiður hópur fyrirtækja veitir þegar félögum afslátt, og er upplagt að beina viðskiptum til þeirra aðila, enda getur munað þó nokkru, sérstaklega ef verið er að kaupa stærri hluti, en ekki spillir fyrir að í sérhæfðari fyrirtækjum er oft farið örlítið lengra til að hjálpa fornbílafólki við að leysa þeirra vandamál. Listi yfir aðila sem veita afslátt. [18.08]jslGóð helgi

Ný liðin helgi var mikil veisla fyrir fornbílafólk, en á laugardeginum mættu rúmlega 80 bílar á Aldamótahátíð á Eyrarbakka. Þar var mikið um að vera um allt þorp og markaður á Gónhóli og ýmiskonar dagskrá var allan daginn, svo margt var hægt að skoða og gera. Dagurinn endaði síðan með hlöðuballi sem stóð til miðnættis. Á sunnudeginum var mikið um gamla ameríska á kvartmílubrautinni, en þá var haldinn svokallaður muscle car dagur og mættu margir til að sýna sig og sjá aðra, en einnig til að reyna bílinn á brautinni. Myndir frá báðum dögum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [17.08]jslGærkvöldið

Eigendur Thunderbird og breskra bíla mættu í Árbæinn í gærkvöldi til skrafs og samkeyrslu. Um 40 bílar mættu og einnig margir sem hafa sést lítið eða ekki neitt. Einn skar sig sérstaklega úr, að öðrum ólöstuðum, en það var Cortina 1970 árgerð og aðeins ekinn 19þús. km! Ennþá eru svo að koma bílar í ljós sem hafa bara verið geymdir og varla settir í gang nema til þjónustuskoðunar. Rúntur var síðan um bæinn og endað á Amokka Borgartúni, með stuttu stoppi við Höfða þar sem Thunderbird bílarnir voru myndaðir saman. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [13.08]jsl


"Nýjar" tegundir koma á götuna

Fyrir 44 árum var kynntur nýr jeppi frá Ford, nefndur Bronco, átti hann að keppa við Jeep Cj5 og Scout frá International Harvester. Bronco varð strax vinsæll og var framleiddur í 12 ár, þar til Bronco II var kynntur. Á sama degi ári seinna var Camaro kynntur og fyrir 101 ári rúllaði fyrsti "Tin Lizzie" af færibandinu, betur þekktur sem Ford T model. Og í tilefni af rúntinum í kvöld þá var fyrsti Thunderbirdinn framleiddur á þessum degi fyrir 46 árum. [12.08]jsl


Myndir úr Vogum

Um helgina var fjölskylduhátíð í Vogum og var fornbílafólki boðið að mæta til að taka þátt. Þrátt fyrir að mikið væri að gerast um þessa helgi mættu nokkrir eigendur úr bænum, en heimamenn létu sig ekki vanta og sýndu sína bíla. Hér eru nokkrar myndir frá þessum degi, sem Jón Hermann og Guðjón Emilsson tóku fyrir okkur hina sem ekki gátu mætt. [10.08]jslMustang rúntur

Í gærkvöldi var rúntur á dagskrá í samvinnu við mustang.is enda margir Mustang eigendur í báðum klúbbum og tilvalið að leiða þessa aðila saman hvort sem er á nýjum eða eldri Mustang bílum, en einnig voru aðrir muscle car eigendur hvattir til að mæta í Árbæjarsafnið. Fín mæting var og eftir að menn höfðu náð að spjalla saman og fá sér kaffi var farinn léttur rúntur niður í bæ, og þrátt fyrir að byrjað væri að rigna þá létu fáir það á sig fá. Svona kvöld verður örugglega aftur á dagskrá fyrir haustið ef tími og veður leyfir. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [06.08]jsl


Båstad Classic Motor í Svíþjóð

Í lok júlí var þessi fornbílasamkoma í Svíþjóð og vinur okkar í Þýskalandi, Andreas Schütt, mætti á þessa sýningu á sínum Ford Granada, en Andreas hefur mætt á síðustu tvö Landsmót okkar á Selfossi á sínum bílum. Á heimasíðu hans er að finna myndir frá þessu móti og eins frá síðustu heimsókn hans til Íslands. Síðan er reyndar öll á þýsku en það skiptir ekki máli vegna mynda, einnig er að finna upplýsingar um bíla hans. Þess má geta að Andreas hefur alltaf skrifað okkur á Íslensku og talar hana einnig vel, svo hann fylgist vel með því sem er að gerast hjá okkur. [05.08]jsl