Eldri fréttir - Júlí 2009

Síðasta Bjallan framleidd fyrir 6 árum

Þann 30. júlí 2003 rann síðasta Bjallan af færibandinu í Puebla, Mexico, og var hún síðan send á safn VW í Wolfsburg. Bjallan hefur verið gífurlega vinsæl og sérstaklega á hippatímabilinu, en var árið 1977 bönnuð í sölu í Bandaríkjunum þar sem vél hennar stóðst ekki nýjar og strangar mengunarkröfur. Eftir það fór salan dvínandi og eftir 1988 var hún eingöngu seld í Mexico ,og var framleiðslu hennar hætt árið 2003. Áður hafði VW kynnt nýja Bjöllu eins og allir þekkja, sem var að grunni til byggð á VW Golf,en um leið tapaði hún sínum fyrri sjarma. [30.07]jsl


Rýmingarsala hjá Bentley Motors

Í fyrsta skipti verður eigendum af Bentley og Rolls-Royce boðið að koma í varahlutalager Bentley Motors þar sem rýmingarsala verður hjá þeim þann 26. og 27. september í Cheshire, Englandi. Er þetta í fyrsta, og líklega eina, skipti sem þetta er gert en nú á að rýma fyrir lager fyrir nýjan Bentley. Lagerinn er gífurlega stór og telur 55 þúsund vörunúmer með rúmlega 7 milljón hluti. Allir þessir hlutir eru nýjir og verða starfsmenn til aðstoðar við að finna allt frá vélarblokkum niður í perur í hanskahólfið. Hérna er hægt aðlesa meira um þennan sérstaka viðburð. [29.07]jslGrillferðin

Síðustu helgi var helgar og grillferð á dagskrá og að þessu sinni var farið austur að Klaustri. Frekar fáir mættu á þeim gömlu, sem var miður, en hópurinn sem fór var eitthvað um 45 manns. Fyrsti hópurinn lagði af stað úr bænum kl. 10 á föstudagsmorgni og var ekið í rólegheitum austur, en síðan var fólk að leggja af stað fram eftir degi. Á Klaustri var frátekið svæði fyrir okkur og eftir að búið var að koma sér fyrir var kvöldið tekið með góðu stuði. Á laugardeginum var farið í stuttan göngutúr upp að Systravatni, en eftir hádegi fóru flestir í skoðunarferð í Fjaðrárgil en nokkrir fóru í að leita uppi nokkra gamla sem standa á beit. Fyrir matinn var farið í ýmsa leiki til að espa upp hungrið og var keppt í pokahlaupi, húllahopp og reiptogi, síðan var grillað í boði ferðanefndar og Kjötsmiðjunnar. Um kvöldið var síðan söngur og gleði fram eftir nóttu. Sunnudagsmorgunn rann síðan upp með rigningu en um hádegi komið fínasta veður þegar lagt var af stað til Skóga þar sem hópnum var boðið að skoða safnið og sérstaklega nýjustu viðbótina sem er talstöðvasafn, en þar er hægt að sjá alla sögu fjarskipta á Íslandi. Sigurður Harðarson, rafeindavirki, á heiðurinn af þessu safni en hann hefur safnað tækjum í rúmlega 40 ár enda landsþekktur í sínu fagi og allir sem hafa þurft að nota fjarskiptatæki þekkja til Sigga Harðar. Kom hann sérstaklega til að sýna okkur safnið og hitta hópinn. Að lokinni skoðun var frjáls brottför en góðri ferð formlega lokið. Myndir frá helginni eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [28.07]jsl


Myndir frá Hvanneyri síðustu helgi

Um helgina var haldið upp á 60 ára afmæli Ferguson dráttarvéla á Íslandi. Margar vélar voru þarna til sýnis og mikill fjöldi gesta kom til að skoða, enda hafa dráttarvéladagar á Hvanneyri verið vinsælir. Þess má geta að ein vél var þarna á staðnum sem varð 60 ára á sunnudeginum. Þorgeir Kjartansson tók nokkrar myndir fyrir okkur, en dagurinn endaði með samkeyrslu vélanna að Hvítárbökkum. [21.07]jsl


Flokkun bíla og dæmingar þeirra

Í mörg ár hefur Bloomington Gold show staðið fyrir sýningu og dæmingu á Corvettum, þar sem þær eru flokkaðar og dæmdar eftir vissum reglum um hversu mikið eða lítið þær séu uppgerðar. Nú hafa þeir víkkað út þessar reglur og flokkun til annarra bíla og var nýlega haldið svokallað Survivor Collector Car show. Flokkun fornbíla og dæmingar eftir þeirra kerfi er allt frá því að vera bíll sem er eins og hann kom frá verksmiðju, 5% frávik vegna lagfæringa og fl., til þess að vera bíll sem vekur engann áhuga, óuppgerður, ljótur og extra punktar eru gefnir fyrir hreiður dýra og sérkennilegra vélarhljóða. Margir aðrir flokkar eru notaðir en það sem vekur mesta athygli er hversu mikil áhersla er lögð á að bílar séu ekki gerðir upp of mikið, sem sagt dældir, rispur, veðrað lakk og fl. er litið á sem eðlilegt slit og sé meira áhugavert en fulluppgerður bíll, en þessi flokkur leyfir ekki meiri lagfæringar/uppgerð en 50%. Hér er hægt að sjá nokkar myndir frá þessari sýningu og eins að sjá meira um þessa flokkun. [20.07]jsl


Ýmislegt að gerast um helgina

Það þarf ekki að fara langt til að finna eitthvað fyrir fornbílafólk um helgina, en t.d. er "Kátt í Kjósinni" á laugardaginn, en þá er opinn dagur víða í Kjósinni þar á meðal safnið á Kiðafelli sem verður opið frá 13 til 17, þar sem margt áhugavert er til sýnis fyrir þá sem hafa áhuga á bílum og vélum, sjá nánar hér. Á Hvanneyri verður mikill Ferguson dráttarvéladagur og þennan dag eru allir Ferguson-eigendur velkomnir með gripi sína að Hvanneyri, hvort sem þeir eru gráir, gylltir eða rauðir. Tilvalinn helgarrúntur á fornbílnum! [17.07]jsl


Lödur í kappakstri

Á síðunni englishrussia.com er oft að finna skemmtilegar myndasyrpur, aðallega frá austantjaldslöndunum. Þessi myndasyrpa sýnir ýmsar tegundir af rússabílum í ískrossi og öðrum keppnum, en aðallega eru þetta Lödur og Volgur. Neðar á síðunni eru tenglar á svipaðar myndasyrpur sem sýna ýmislegt broslegt við bílamenningu Rússa. [16.07]jsl


Nýr Camaro vekur upp áhuga

Með kynningu GM á nýjum Camaro er aftur kominn áhugi fyrir þessum þekkta "musclecar". Nýja módelið lofar góðu og nær nokkuð vel að endurvekja gamla útlitið og bílasalar í Bandaríkjunum hafa orðið varir við eftirvæntingu. Eastern Michigan Camaro Club tekur einnig eftir auknum áhuga á Camaro, en þeir héldu sýna árlegu sýningu á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna með 220 bíla, en fyrir nokkrum árum fór sýningin hæst í 550 bíla en hefur dalað eftir að framleiðslu á Camaro hætti árið 2002. Hér er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari sýningu og eins myndir af nýja módelinu. [15.07]jsl


Stórt myndasafn

Hjá auto-history.tv er að finna mikið af efni sem tengist bílasögunni. Myndirnar er hægt að kaupa á hörðum diski til að skoða eftir því sem hentar og eru þær flokkaðar eftir efni, en einnig fæst aðgangur að efninu á netinu í 30 daga við kaup á einhverum af þeim bílamyndum sem þeir hafa til sölu á dvd. Nokkur sýnishorn af þessum myndum eru þarna, en líka er hægt að sjá myndsýningu frá sögu bílsins. Þarna er einnig tímalína þar sem helstu skref bílasögunnar eru yfirfarin, allt frá árinu 1679 þegar Denis Papin fann upp "pressure-cooker" sem leiddi síðan til hugmynda seinna meir vegna nýtingar gufukatla. [14.07]jslPicnic og gróðursetningarferð

Góður en fámennur hópur félaga mætti síðasta laugardag til að fara í Fornbílalund og gróðursetja nokkrar plöntur. Mætt var við Kópavogskirkju og þaðan haldið í lundinn okkar í jaðri Heiðmerkur. Eftir það var farið í heimsókn í bústað félaga okkar Rudolfs Kristinssonar við Elliðavatn, rétt við byggðina á Norðlingaholti. Þar gæddu félagar sér á nesti og nutu frábærs veðurs. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [13.07]jsl


Bandarískir bílar ekki til lengur?

Vegna alls umrótsins á bílamarkaðnum í USA var fljótt farið að gantast um að þar með hefðu allir bandarískir bílar orðið safngripir. En í raun hafa ekki verið til Bandarískir bílar í smá tíma þar sem mjög fáir eða jafnvel enginn nær því að vera 100% American-Made. Á síðustu árum hefur þessi prósenta verið að lækka í sífellu, og núna eru mest seldu bílarnir aðeins að ná um 80%, og oft eru þessir bílar bara settir saman í USA. Svo að þeir sem eiga nokkurra ára gamlan bandarískan bíl gætu verið með góðan framtíðar safngrip sem verði seinna meir minnst sem síðasta árgerðin sem framleidd var í Bandaríkjunum, hver veit. Grein um American-Made.. [09.07]jsl


Myndir frá Carlisle

Sérstakur fréttaritari okkar, Sigurður Ólafsson, er sem betur fer sendur reglulega til "bandaríkjahrepps" vegna vinnu sinnar og í júní síðastliðnum náði hann að taka nokkrar myndir fyrir okkur á Carlisle í leiðinni. Að þessu sinni var fréttaritarinn frekar veikur fyrir "hot-rod" bílum og sérstaklega þeim gula úr American Graffiti myndinni, en hann gleymir samt ekki sinni ástríðu sem er Mustang. Alltaf gaman fyrir okkur hina sem eru landfastir vegna hátt reiknaðs gengis að sjá sýnishorn frá svona sýningum. [08.07]jslMyndir frá sýningu BA

Bílasýning Bílaklúbbs Akureyrar var haldin á Bíladögum, sem eru í kringum þjóðhátíðardaginn. Mikill fjöldi bíla var á þessari sýningu, en nýlega voru settar inn myndir á vef BA af öllum sýningagripum. Þess má geta að það var 1960 Chevrolet Impala í eigu félaga okkar Sveins Árnasonar á Egilsstöðum sem var valinn fallegasti bíllinn á sýningunni. Myndir á vef BA. [07.07]jslGærdagurinn

Hinn árlegi fornbíladagur í Árbæjarsafni var á dagskrá í gær, sunnudag, en um leið var þetta fatadagur. Ágæt mæting bíla var, þrátt fyrir mikla ferðahelgi og rigningu um morgunin, en að þessu sinni var mæting kl. 10. í safnið og verið fram yfir hádegi. Margir mættu í fötum sem hæfðu þeirra bílum og skapaði þessi samkoma mikið líf í safninu. Í hádeginu voru síðan grillaðar pylsur fyrir félaga og gesti þeirra. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga.[06.07]jslKvennarúntur í gærkvöldi

Hinn árlegi kvennarúntur, sem er núna greinilega búinn að festa sig í sumardagskránni, var í gærkvöldi. Mættu 46 bílar og þar af voru 25 með kvenbílstjóra, en aðrar létu sér nægja að sitja í og segja bílstjóra sínum til. Kvenfólkið leiddi auðvitað hópinn og var farinn stór klukkutíma rúntur um Reykjavík og endað í Te og Kaffi á Grandagarði þar sem Ferðanefndin bauð öllu kvenfólkinu í kaffi, karlar sáu um að greiða fyrir sinn kost sjálfir en fengu nú samt að sitja með kvenfólkinu í kaffinu. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [02.07]jsl


Corvette verður til

Fyrir 56 árum var fyrsta Corvettan framleidd, auðvitað hvít með rauðri innréttingu. Vettan var fyrst og fremst draumabíll GM fyrir Motorama sýninguna árið 1953, en vakti strax mikla athygli sem sportbíll. Þrátt fyrir sérstakt útlit og eina bestu útlitshönnun sem hafði sést lengi, var ekki jafn spennandi það sem undir var. Mest var unnið með parta af lager GM og sex strokka Blue Flame vél, enda var þetta fyrst og fremst tilraunabíll. Eftir að Ford kom með T-Bird á markaðinn ári seinna var ljóst að GM þurfti að hafa sportbíl og Vettan var endurbætt á næstu árum þar til að hún var orðin einn aðal sportbíll "Kanans". Árið 1992 rúllaði síðan milljónasta Corvettan af færibandinu og var ekið út af Zora Arkus Duntov, en hann átti mestan heiður af endurbótum Vettunnar á fyrstu árum hennar, þar á meðal hönnun vélar og framtíðarsýn GM fyrir sportbílamarkaðinn. Hér er hægt að sjá þróun Vettunnar í gegnum árin.. [01.07]jsl