Eldri fréttir - Maí 2009


Fréttir af aðalfundi FBÍ

Í gærkvöldi var aðalfundur Fornbílaklúbbsins á Amokka og var óvenju góð mæting. Venjuleg aðalfundarstörf voru á dagskrá en einnig var verið að kjósa um formann, þrjá stjórnarmenn og tvo varamenn. Í byrjun fundar voru veittar heiðursviðurkenningar til fjögurra félaga fyrir vel unnin störf í þágu klúbbsins, en Ársæll Árnason, Einar Gíslason, Rudolf Kristinsson og Þórður Sveinsson hlutu þessar viðurkenningar. Formaður og nefndarformenn fluttu sínar skýrslur um starfsemi klúbbsins síðastliðið ár. Farið var yfir stöðu framkvæmda við byggingu klúbbsins en nú er verið að vinna við einangrun þaks og er verið að ganga frá samningum vegna glerjunar og frágangi glugga. Úrslit kosninga voru í stuttu máli þessi, Sævar Pétursson formaður var endurkjörinn, í stjórn voru kosnir þeir Garðar Arnarson, Halldór Gíslason og Jón S. Loftsson. Varamenn til eins árs eru þeir Ólafur Björgvinsson og Óskar Einarsson. Nánar er hægt að sjá úrslit kosninga hér. Í lok fundar var síðan farinn smá rúntur upp í byggingu okkar. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [28.05]jslTil hamingju BA

Í dag er Bílaklúbbur Akureyrar 35 ára, en BA er elsti formlegi bílaklúbburinn á landinu. Í tilefni þess verður fornbíladeild BA með afmælisakstur um kvöldið, en mæting er við Kaffi Akureyri kl. 20. Um hvítasunnuna verður einnig "Old-Boys" torfærukeppni á dagskrá. Óskum félögum okkar fyrir norðan til hamingju með daginn. Heimasíða BA. [27.05]jsl


Austur-evrópu bílar

Margar tegundir frá þessu svæði hafa ratað hingað í gegnum árin, oft í gegnum vöruskipti á tímum hafta. Fyrir ca. 30 árum var algengt að sjá Volgu, Moskvitch, Lödur og fleiri á götum hér, en þó að þessir bílar hafi reynst nokkuð vel þá hurfu þeir fljótt eftir að notagildið var búið. Á þessum árum datt fáum í hug að varðveita svona bíla, en í dag vekja þeir eftirtekt ef þeir sjást á götunni. Unnar Reynisson benti okkur á nokkar áhugaverðar síður um austur-evrópu bíla. Rússa-bílaklúbbur í Hollandi, myndir hjá Volga Club Finlandi, myndir og upplýsingar eins eiganda af GAZ bílum, Ýmislegt um Volgu og að lokum Moskvitch síða (á þýsku). [25.05]jslMessa í gærkvöldi

Fyrsta bílamessan var haldin í gærkvöldi og þrátt fyrir að fáir létu sjá sig frá öðrum klúbbum þá var góðmennt í Digraneskirkju þetta kvöld. Sr. Gunnar Sigurjónsson hélt þrumandi fína bílapredikun fyrir fornbílaeigendur og messan í heild var bíltengd og létt yfir henni. Einar Clausen, einsöngvari, flutti frábærlega vel lagið "Áfram veginn" fyrir okkur og í lok messu var boðið upp á kaffi. Í lokin var mikið verið að skoða bílana og spjalla, en sr. Gunnar mætti auðvitað á sínum 12 strokka Jaguar, kvöldið var síðan endað með því að farinn var léttur rúntur um miðbæinn. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [22.05]jsl


Vegna Skeljungskorta

Vert er að taka það fram vegna bréfs frá Skeljungi, sem fylgir afsláttarkortum ,að þau koma ekki í stað félagsskírteinis en vegna einhverra mistaka þá er nefnt í bréfinu að Skeljungskortið sé það. Kortið er eingöngu afsláttarkort vegna Skeljungs og samstarfsaðila þeirra en félagsskírteinið okkar gildir til afsláttar hjá öðrum aðilum sem FBÍ hefur samið við og svo auðvitað til auðkennis vegna árgjalda 2009. Minnum einnig á að í hvert skipti sem Skeljungskortið er notað til eldsneytiskaupa þá er verið að styrkja klúbbinn. [21.05]jsl


Skemmtileg síða

Á Legendary Collector Cars er að finna ýmislegt skemmtilegt efni sem hentar vel bílaáhugafólki. Þarna eru meðal annars myndir frá heimsóknum á bílasöfn, varahlutabúðir, bílsýningum og frá uppgerðum bíla. Einnig er hægt að kaupa bílabækur, sjá ýmisleg vídeó og margt fleira. Áhugaverð síða . [19.05]jsl


Listi stjórnarkjörs

Kjörnefnd hefur birt lista yfir frambjóðendur til stjórnar fyrir næsta tímabil. Kosið verður um formann og þrjá stjórnarmenn til tveggja ára og tvo varamenn til eins árs. Nánar um aðalfund og upplýsingar um frambjóðendur er að finna á síðunni Aðalfundur 2009. [18.05]jsl
Listi til stjórnarkjörs :

Til formanns:
Jón Hermann Sigurjónsson
Sævar Pétursson


Í stjórn:
Garðar Arnarson
Halldór Gíslason
Jón Hermann Sigurjónsson
Jón S. Loftsson
Óskar Einarsson

Varamenn:
Garðar Arnarson
Gunnar Ólafsson
Óskar Einarsson
Ólafur BjörgvinssonGuðmundur J. Jónsson forstjóri Varðar og Sævar Pétursson formaður FBÍ við undirritun
Nýr samningur við Vörð tryggingar hf

Nýlega var undirritaður samningur við Vörð tryggingar hf vegna fornbílatrygginga fyrir félaga Fornbílaklúbbsins, en Vörður mun bjóða félögum 40% afslátt af fornbílatryggingum og góð kjör á öðrum tryggingum félaga. Samningur þessi mun gilda ótímabundið þar til annar aðilinn segir honum upp með hálfs árs fyrirvara. Í raun er verið að fara nokkur ár til baka með verð fornbílatryggingar með þessum samningi, en Vörður var fyrsta tryggingarfélagið til að bjóða virkilega lækkun fornbílatrygginga á sínum tíma. Til að njóta þessara sérkjara þarf að vera félagi í Fornbílaklúbbnum og tryggja að minnsta kosti daglega bílinn líka, en það hefur alltaf verið skilyrði fyrir fornbílatryggingu. Nýmæli í samningi þessum er að aðili frá Verði og annar á vegum FBÍ munu reglulega hittast til að hafa samráð um framgang samkomulags eða annað það sem snýr að hagsmunum félagsmanna er lúta að vátryggingum, einnig sjá þessir aðilar um að skera úr um ágreining sem gæti komið upp ef deilt er um hvort viðkomandi ökutæki sé notað sem fornbíll, t.d. eldri jeppar. Fyrir hönd klúbbsins sömdu stjórnarmennirnir Þorgeir Kjartansson og Jón S. Loftsson, en Þorgeir mun verða tengiliður vegna samnings. Nánar um samkomulagið er hægt að sjá hér. [15.05]jslGærkvöldið

Galvaskir félagar mættu í gærkvöldi á planið hjá Öskju í hávaðaroki, en alls mættu 48 bílar. Farinn var rúntur um Mosfellsbæinn og endað í kaffi á Ásláki. Nokkrir nýjir félagar voru þarna að mæta í fyrsta sinn, en vonandi verður betra veður næst svo að tími gefist til að skoða bílana þeirra og kynnast þeim betur. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [14.05]jsl


Safnarakv÷ld Safnarakv÷ld Safnarakv÷ld
Flott slökkvibílasafn

The Antique Toy and Firehouse Museum í Bay City Michican er skemmtilegt safn sérhæft í eldri slökkvibílum og öðru sem tengist slökkvistarfi, en einnig er þarna að finna gott safn af bílamódelum og Tonka leikfangabílum. Safnið er aðallega opið yfir sumartímann, en eins og mörg svona söfn þá er oft opið eftir samkomulagi ef haft er samband tímanlega sé óskað eftir heimsókn. Safnið, meðal annarra muna ,státar af stærsta dælubílnum sem á að hafa verið smíðaður, gerður fyrir New York Fire Department Mack Trucks og Fruehauf upp úr 1960, en bíllinn er með 2200 hestafla dísel bátavél sem gat dælt 33.440 lítrum á mínútu. Dælubíllinn krafðist mikils viðhalds og erfitt reyndist að nota hann á mörgum þröngum götum New York, samt var hann notaður í tæp 2300 útköll. Heimasíða safnsins og myndir frá safninu. [11.05]jslMini-inn 50 ára

Fyrir 50 árum rúllaði út hjá British Motor Corporation smábíll sem hafði fengið nafnið Mini. Líklega hafa fáir getað séð hversu mikið þessi litli bíll átti eftir að breyta bílasögunni og koma víða við í tenglsum við tísku, bíómyndir, auglýsingar og flest sem tengdist árunum sem fengu nafnið "swinging sixties". Margar útgáfur af Mini sáu ljósið í gegnum árinog vinsælt hefur verið að "peppa" þá upp með sportfelgum og öflugri vél. Flest allir sem hafa verið í bílaáhugamálinu hafa kynnst Mini og margar góðar sögur eru til um afrek eða hrakföll manna tengdum honum. Mini hefur samt alltaf sérstakan stað í huga fólks og gamli bíllinn var ótrúlega knár og skemmtilegur smábíll, en einhvern veginn var hann alltaf stærri að innan en að utan. Sögu Mini er að finna víða á netinu og er óþarfi að endurskrifa hana hér, frekar að vísa á nokkra tengla um Mini. Þess má geta að stór afmælishelgi verður haldin á Silverstone brautinni 22-24 maí. [08.05]jsl Grein í The Independent / Mini á Wikipedia / Týpur og árgerðir / Afmæli á SilverstoneNý sérkjör félaga - ný kort

Búið er að gera nýjan samning við Skeljung vegna afsláttarkjara til félaga Fornbílaklúbbs Íslands. Stærsta breytingin er að afsláttur mun gilda frá dæluverði og nýju kortin tengjast beint við kredit eða debetkort, ekki mánaðaviðskipti. Sérkjör félaga verður 7 kr. afsl. frá dæluverði á Shell-stöðvum og 5. kr. frá dæluverði hjá Orku-stöðvum. Dæmi: sjálfsafgreiðsluverð er 153.80 og lækkar þá lítraverð í kr. 146.80 sé kortið notað, sama gildir um Orkuna en þar lækkar um 5 kr. hver líter. Um leið fær klúbburinn vissa upphæð af keyptum lítrum sem nýtist til félagsstarfsins. Öllum greiddum félögum (einstaklingum) fyrir árið 2009 verða send þessi nýju kort og er undir hverjum og einum að virkja kortið á þjónustuvef Skeljungs, en sé kortið notað er verið að styrkja klúbbinn í hvert skipri sem dælt er. Einnig eru afsláttarkjör hjá samstarfsaðilum Skeljungs sem fylgja kortinu, en á þessari síðu er hægt að sjá nánar um þessi sérkjör og annað sem tengist kortinu. Eldri kort munu virka áfram en í lok júní fellur niður afsláttur af þeim. [06.05]jsl


>
Antique Auto Museum at Hershey fær gjöf

Síðasta laugardag var safninu afhentur 1929 Ford Model A Roadster til varðveislu, en það sem gerir þennan atburð merkilegan er að hann var gefinn af fyrsta og eina eigandanum. Frank Hartmaier keypti bílinn 16. maí árið 1929 þegar hann var 17 ára og hefur átt hann síðan í gegnum kreppur og stríð en var ákveðinn í að safnið skyldi njóta hans eftir sinn dag, en Frank lést í janúar 2009. Bíllinn hafði þjónað honum vel í gegnum árin og verið mikið notaður. Bílnum hefur auðvitað verið viðhaldið og tekinn í gegn, en aðallega til að halda honum gangandi og í lagi. Margir hafa falast eftir bílnum en Frank vildi heldur nota bílinn og njóta hans frekar en að eiga andvirði hans í banka enda keyrir maður ekki á seðlunum. Hérna er hægt að lesa meira um Frank og bílinn hans. [05.05]jsl/shVel heppnuð skoðun

Síðasta laugardag var hinn árlegi skoðunardagur klúbbsins og var enn einu sinni slegið met í mætingu, en í gegnum skoðun fóru 202 bílar. Mikið var um bíla sem sjást lítið og góð mæting var frá Selfossi þó að skoðað sé þar í dag. Þessi mæting verður að teljast mjög góð, sérstaklega þar sem úrhelli gerði eftir hádegi með hagléli. Eins og venjulega voru margir félagar allan tímann, enda gefst góður tími til að hitta félagana eftir veturinn og sjá hvað aðrir hafa verið dunda við í skúrnum. Frumherji tók vel á móti félögum með bakkelsi og grilluðum pylsum og á þessum degi hafa skoðunarmenn mikið gaman af að taka þátt í ýmsu léttu gríni sem félagar taka upp á. Eftir skoðun var farinn léttur rúntur á 30 bílum vestur í bæ og endað í borgara á Hamborgarabúllunni. Ferðanefnd þakkar Frumherja og starfsfólki fyrir frábærar móttökur. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [04.05]jsl