Eldri fréttir - Apríl 2009


Gærkvöldið

Fyrsti kvöldrúntur sumarsins var í gærkvöldi og var mæting við Perluna. Þrátt fyrir leiðinda veður var góð mæting, 33 bílar, enda óþarfi er að láta smá rigningu stoppa sig í að hitta félagana. Farinn var rúntur um vesturbæinn og Seltjarnarnes og endað í kaffi á Sjávarbarnum. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga.
Breyting á kjörnefnd. Vegna breyttra aðstæðna hjá formanni kjörnefndar, Jóni Hermanni, þá hefur orðið samkomulag um að fyrrverandi formaður Georg Theodórsson taki aftur við formennsku nefndarinnar og mun Kjartan Friðgeirsson starfa áfram með honum. [30.04]jsl


WheelsTv

Á WheelsTv.com eru mörg skemmtileg videó af samkomum fornbíla og eins videó sem eigendur bíla hafa sent inn. Þarna er einnig hægt að velja fleiri rásir sem eru með videó eftir flokkum, t.d. efni tengt Formulu 1, besta úr Top Gear, efni um trukka og umsagnir um nýjustu bílana. [29.04]jsl


Stutt í skoðunardag, minnum á nýjar skoðunarreglur

Til að nýjar skoðunarreglur gildi við næstu skoðun þá þarf skráður notkunarflokkur að vera "fornbifreið", ekki er nóg að hún sé 25 ára eða eldri.. Byrjað er að sekta fyrir vanrækslu á skoðun fyrir síðustu ár og er þó nokkuð mál að fá sekt felda niður. Allar fornbifreiðar skulu mæta til skoðunar árið 2009, en nýskráningarár þeirra ræður því svo hvort þær fái eins eða tveggja ára skoðun eftir það. Reglan er sú að ef fornbifreið er nýskráð hér á landi á sléttu ári á hún að koma til skoðunar á sléttu ári. Ef fornbifreið er nýskráð á oddatöluári skal hún koma til skoðunar á oddatöluári. Dæmi: Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi árið 1972 fær hún eins árs skoðun árið 2009 og á að mæta aftur til skoðunar á sléttu ári 2010. Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi á oddatöluári, t.d. 1973, skal bifreiðin fá tveggja ára skoðun árið 2009 og mætir því næst árið 2011. Tekið skal fram að fornbifreið verður að vera skráð í notkunarflokkinn „fornbifreið“ hjá Umferðarstofu til þess að öðlast tveggja ára skoðanatíðni. Skráið bílana tímanlega og forðist sektir. [27.04]jsl


V8TV

Hérna er síða með ýmsu efni til að skoða á milli þess að beðið er eftir nýjustu kosningatölum á laugardagsnóttina. Á V8TV eru videó af uppgerðum nokkurra bíla og eins videó sem taka fyrir sérefni. Einnig er þarna að finna ýmislegt efni sem hægt er að gleyma sér yfir, ef kosningasjónvarpið er leiðinlegt eða úrslitin ekki eins og maður vildi hafa þau. [24.04]jslGleðilegt fornbílasumar!
[23.04]


Myndir frá Techno Classica

Í byrjun apríl var stóra fornbílasýningin Techno Classica haldin í Essen. Þessi sýning þykir vera mjög góð og að þessu sinni voru gestir eitthvað um 165 þúsund. Undirritaður hefur ekki haft tækifæri til að heimsækja þessa sýningu en vonandi verður einhvern tíman af því, en nokkrir fóru héðan í fyrra. Lítið af myndum hefur sést á netinu um þessa sýningu síðustu ár en núna er farið að bera á meira úrvali af myndum sem gestir hafa tekið, sérstaklega á Flickr myndasíðunni, en hérna er hægt að sjá myndir frá 2009. [22.04]jsl


Áminning vegna árgjalda

Gjaldkeri klúbbsins vill minna þá félaga sem eiga eftir að greiða árgjaldið fyrir 2009 að gera það fyrir 23. apríl. Að öðrum kosti fá þeir ekki 2009-miða með maí-skilaboðunum, auk þess sem þeir missa af þeim fríðindum sem fylgja aðild að Fornbílaklúbbnum, t.d. lágu skoðunargjaldi og afslætti á eldsneyti. Stutt er í næsta skoðunardag og miðast sérgjöld á skoðun við greidda félaga 2009. Til að njóta atkvæðisréttar á aðalfundi þarf að greiða að minnsta kosti þremur vikum fyrir fund. [20.04]jsl


Kjörnefnd óskar enn eftir tilnefningum

Ítrekuð er auglýsing Kjörnefndar eftir framboðum til stjórnar og varamanna. Senn líður að aðalfundi og enn vantar framboð til stjórnar. Á aðalfundi Fornbílaklúbbsins er kosið um formann, þrjá stjórnarmenn og varamenn. Kosið er um formann og helming stjórnar, þrjá stjórnarmenn, á tveggja ára fresti en um varamenn er kosið árlega. Kjörnefnd lýsir hér með eftir áhugasömum mönnum til að gefa kost á sér til þessara starfa, en upplýsingar um framboð þarf að hafa borist kjörnefnd eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram, eða eru með ábendingar um góða menn á lista, eru beðnir um að hafa samband við formann kjörnefndar, Jón Hermann Sigurjónsson, í síma 895-1515. Búið er að opna síðu með upplýsingum um frambjóðendur og annað sem tengist aðalfundi, síðan verður uppfærð reglulega fram að aðalfundi. [17.04]jslFord Mustang 45 ára

Þann 17. apríl 1964 var Ford Mustang frumsýndur í New York, og þar með á þessi merki bíll 45 ára afmæli á morgun, föstudaginn 17. apríl. Mustang hefur verið framleiddur samfellt öll þessi ár og í yfir 9 milljón eintökum ! Laugardaginn 18.apríl ætlar Íslenski Mustang klúbburinn í samvinnu við Brimborg að halda 45 ára afmælissýningu í húsnæði Brimborgar að Bíldshöfða 6-8 frá kl. 10.00 til 16.00, en á sýningunni verða 25 bílar á öllum aldri. Á staðnum verða félagar úr Mustang klúbbnum sem svara spurningum og kynna klúbbinn. Þess má geta að Íslenski Mustang klúbburinn var stofnaður 17. apríl 2000 og verður því 9 ára á þessum merku tímamótum. Og að sjálfsögðu er FRÍTT INN í afmælið, þess má geta að þarna verða einnig félagar frá Bílaklúbbi Akureyrar að kynna Bíladaga 2009. Hér er hægt að sjá meira um sögu Mustang. [16.04]jsl/hg


Leiðrétting

Í síðustu Skilaboðum misritaðist í frétt um skoðunarskyldu fornbíla að nauðsynlegt væri fyrir 25 ára gamla bíla og eldri að bera viðeigandi fornnúmer til að öðlast tveggja ára skoðunarheimild. Þetta reyndist ekki á rökum reist og biðst ritstjóri Skilaboða velvirðingar hafi félagar orðið fyrir óþægindum vegna þessa. [07.04]ös
Rétt tilkynning frá 25. febrúar er endurbirt hér fyrir neðan.
Orðsending frá Umferðarstofu

Allar fornbifreiðar skulu mæta til skoðunar árið 2009, en nýskráningarár þeirra ræður því svo hvort þær fái eins eða tveggja ára skoðun eftir það. Reglan er sú að ef fornbifreið er nýskráð hér á landi á sléttu ári á hún að koma til skoðunar á sléttu ári. Ef fornbifreið er nýskráð á oddatöluári skal hún koma til skoðunar á oddatöluári. Dæmi: Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi árið 1972 fær hún eins árs skoðun árið 2009 og á að mæta aftur til skoðunar á sléttu ári 2010. Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi á oddatöluári, t.d. 1973, skal bifreiðin fá tveggja ára skoðun árið 2009 og mætir því næst árið 2011. Miða varð við nýskráningarár bifreiðanna á Íslandi þar sem ökutækjaskrá býr ekki yfir fullnægjandi upplýsingum hvað árgerð þeirra varðar. Því var ekki annað fært en að miða við nýskráningarár á Íslandi, því það er eina ártalið í ökutækjaskrá sem er alltaf fyrir hendi. Tekið skal fram að fornbifreið verður að vera skráð í notkunarflokkinn „fornbifreið“ hjá Umferðarstofu til þess að öðlast tveggja ára skoðanatíðni. Ekki er nóg að hún sé 25 ára eða eldri. [25.02]

Fréttasíða er komin í páskafrí, næsta frétt verður þann 14. apríl. Gleðilega páska. [07.04]jsl


Vakning bíla

Núna þegar mesta frostið er að hverfa þá fara gæðingarnir að vakna hver af öðrum. Margar útgáfur eru til af hvernig best sé að geyma bílinn og hvað sé best að gera til að vekja hann aftur eftir veturinn en í þessari grein er að finna útlistun á hvernig þetta sé gert, en það eru örugglega fáir sem fara í svona öfgar nema þá að bíllinn hafi staðið í mörg ár. En þó að ekki sé farið eftir þessu lið fyrir lið þá er ágætt að lesa þetta yfir og hafa vissa hluti í huga þegar vekja skal vél eftir langa geymslu. [06.04]jsl


Reynolds-Alberta Museum

Þetta safn, sem er í Alberta Kanada, er með 350 bíla, 70 flugvélar og yfir 1000 sýningargripi sem snúa að landbúnaði, vegagerð og námuvinnslu. Safnið er einnig með stórt bókasafn þar sem hægt er að finna ýmislegt efni fyrir þá sem eru að gera upp eða leita sér upplýsinga. Á næsta ári verður boðið upp á uppgerðarnámskeið í nokkrum liðum og hægt að velja hversu mikið af því er tekið. Alberta verður nær okkur í sumar þegar Flugleiðir byrja að fljúga til Seattle. Kannski ekkert vitlaust að athuga með svona námskeið og smá frí um leið. Nánar um safnið og námskeið. [03.04]jsl


Ekki alltaf ábyrgir

Eins og flestir hafa tekið eftir þá eru fréttir sem birtast 1 .apríl ekki endilega ábyggilegar, sem sást best á frétt okkar í gær sem auðvitað var haugalygi. Flestir sáu fljótt í gegnum þetta, en eitthvað var nú samt óþekktra bíla í Árbænum í gærkvöldi og smá umferð var við húsið okkar í Elliðaárdalnum. En þó að þetta hafi verið smá grín í tilefni dagsins þá er þessi frétt sönn, en nýlega fundust rúmlega 30 fornbílar í skógarjaðri í Norfolk, Bretlandi. Eigandinn lést fyrr á árinu og þegar farið var að skoða eignir hans þá fundust þessir bílar, en sumir þeirra hafa staðið í meira en 50 ár. Þó að margir þeirra séu illa farnir þá eru þarna inn á milli sjaldgæfir bílar og nöfn sem sjást lítið í dag eins og Swift, Lea Francis og svo auðvitað er þarna Lanchester, Austin og Singer. Þessir bílar ásamt öðrum verða boðnir upp næsta sunnudag og er hægt að sjá uppboðið hér. [02.04]jslFornbílaklúbburinn eignast vallargóss

Fyrir skömmu fundust nokkrir gamlir bílar í yfirgefnu geymsluhúsnæði á Keflavíkurflugvelli og var haft samband við Fornbílaklúbbinn vegna þessa. Ákveðið var að þiggja þessa bíla að gjöf og verða þeir seldir félögum klúbbsins á afar sanngjörnu gjaldi. Mun andvirðið renna í byggingarsjóð klúbbsins. Bílarnir, sem eru átta að tölu, verða fluttir til Reykjavíkur í dag, að félagsheimili klúbbsins í Árbænum og hefst uppboðið stundvíslega klukkan 20.30 í kvöld. Elsti bíllinn er Chevrolet árgerð 1955, en sá verðmætasti er án efa Pontiac Catalina árgerð 1964 sem við fyrstu skoðun virðist vera í góðu ástandi. Einnig eru þarna Ford vörubíll ´59, Rambler ´64, Buick ´68, Mercury ´70, Chevrolet ´71 og Ford ´74. Missið ekki af þessu fyrsta uppboði í sögu Fornbílaklúbbsins. [01.04]