Eldri fréttir - Mars 2009

Vorverkin hafin í númeradeildinni

Þrátt fyrir kreppu og bölmóð láta fornbílamenn ekki deigan síga. Þetta sést best á góðri innheimtu félagsgjalda og fjölda nýsmíðaðra steðjaplatna. Nú hafa yfir 730 númerasett verið framleidd hjá númeradeild klúbbsins, en þrátt fyrir þann frábæra árangur virðist sem að nokkrum fornbílum sé enn misþyrmt með ljótum, hvítum plötum. Er það miður! Nú þarf að vinda bráðan bug að því að bjarga þessum bílum yfir á hin svörtu steðjanúmer og það fyrir skoðunardaginn í maí. Einungis þarf að hafa samband við Umferðarstofu, sem úthlutar skráningu gegn 500 kr. gjaldi, og síðan tekur númeradeildin við pöntunum í síma 895-2400. Alla fornbíla á fornnúmer fyrir sumarið! [31.03]ös


Vestmannaeyjaferð í sumar

Í dagatalinu er búið að bæta við aukaferð í júni sem verður farin í samvinnu við nýstofnaða ferðanefnd Bifreiðaklúbbs Suðurlands, enn er verið að vinna í skipulagi ferðarinnar, en þar sem panta þarf far með Herjólfi og gistingu þarf að skrá síg í þessa ferð. Aðallega verður farið til Eyja föstudaginn 4. júní og komið til baka sunnudagskvöldið 7. júní, en auðvitað er hægt að fara á öðrum tímum. Tekið verður þátt í sjómannadags hátíðarhöldum, bílar sýndir, akstur og fleira. Nánar er hægt að sjá dagskrá þessarar ferðar hér. Fleiri dagskrárliðir verða færðir í dagatalið fljótlega en nokkar ferðir í sumar verða á vegum BKS, enda segja þau sjálf að BKS sé suðurlandsdeild FBÍ, og er gaman að fá fleiri valkosti fyrir félaga fyrir sumarið. [30.03]jslGærkvöldið

Safna og dótakvöld var haldið í gærkvöldi á Amokka og voru mörg skemmtileg söfn sýnd, enda eru félagar duglegir að halda til haga hlutum frá fyrri tímum. Kosið var um áhugaverðasta safnið og þriðju verðlaun hlaut Gunnar Örn Hjartarsson, önnur verðlaun hlaut Helgi Guðlaugsson og fyrsta sæti hlaut Garðar Schiöth enda fáir sem eiga jafnstórt safn módelbíla. Getraun var einnig úr bílasögunni í 10 liðum og voru margir með mikið af réttum svörum, en í þriðja sæti var Sigurbjörn Helgason, öðru sæti Rudolf Kristinsson og í fyrsta sæti Örn Sigurðsson. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [26.03]jsl


Bræður áberandi í bílasögunni

Þegar fyrstu skref bílaframleiðslu voru tekin þá voru oft fjölskyldufyrirtæki sem breyttu sinni framleiðslu frá reiðhjólum, yfirbyggingum vagna og ýmsu öðru. Nokkuð var um að bræður tóku við fyrirtækjum föður síns og hófu tilraunir með bílaframleiðslu. Þekktastir eru auðvitað Dodge bræður og Grahams bræður, fleiri bræður voru áberandi á þessum tímum og var stundum flókin leið fram að því að bílar fóru að bera þeirra nöfn. Í þessari grein er hægt að lesa um nokkur bræðrabönd sem tóku þátt í að skapa bílasöguna. [25.03]jsl


Frá gjaldkera

Þeir félagar sem eiga eftir að greiða árgjald, en vilja fá 2009 miðann fyrir skírteinið með næstu Skilaboðum, er bent á að greiða fyrir 26. mars, næst verða miðar sendir út með maí Skilaboðum. Nú er níuhundraðasti greiddi félaginn að bætast við og af því tilefni verður félagsnúmerið 900 endurvakið, væntanlega ætti einhver heppinn nýr félagi að hljóta það í dag eða á morgun. [23.03]


Bílarnir hans Leno

Nýlega sýndum við mynd þar sem margir bílar Jay Leno´s voru teknir fyrir, bílasafn Leno´s vekur alltaf athygli og eitthvað var um að menn misstu af þessari mynd. Í því sambandi er vert að benda á Jay Leno´s Garage en þar er hægt að sjá umfjöllun um flesta hans bíla og ýmislegt annað efni sem tengist söfnun hans. Þar er einnig að finna stórt myndasafn þar sem hver sem er getur sent inn mynd af sínum bíl með smá umsögn, en Íslenskir bílamenn hafa ekki verið duglegir að senda inn, þar sem einungis 3 bílar koma upp ef leitað er eftir Iceland. [20.03]Nýr valmöguleiki við uppgerð, krómsprautun

Strákarnir hjá Bílaréttingum og sprautun Sævars hafa verið að prófa sig áfram með krómsprautun og eru þeir vongóðir um að hér sé komin lausn fyrir marga sem þurfa að láta króma, en sú vinnsla getur verið tímafrek og erfið sé hluturinn ekki unninn vel fyrir krómið. Vinnsluaðferðin er ekki ósvipuð venjulegri málun nema þegar búið er að grunna og gera klárt undir sprautun er stykkið málað svart með glæru yfir og síðan látið standa í viku. Eftir það er stykkið slípað, pólerað og svo sprautað með krómi. Daginn eftir er síðan sprautað glæru yfir til að hlífa króminu. Hér er hægt að sjá myndir frá þessari prufu og er þetta tvímælalaust eitthvað sem er vert að skoða fyrir marga hluti, nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Bílaréttingum og sprautun Sævars, Skútuvogi 12. [19.03]jsl


Minnum á nýjar skoðunarreglur

Allar fornbifreiðar skulu mæta til skoðunar árið 2009, en nýskráningarár þeirra ræður því svo hvort þær fái eins eða tveggja ára skoðun eftir það. Reglan er sú að ef fornbifreið er nýskráð hér á landi á sléttu ári á hún að koma til skoðunar á sléttu ári. Ef fornbifreið er nýskráð á oddatöluári skal hún koma til skoðunar á oddatöluári. Dæmi: Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi árið 1972 fær hún eins árs skoðun árið 2009 og á að mæta aftur til skoðunar á sléttu ári 2010. Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi á oddatöluári, t.d. 1973, skal bifreiðin fá tveggja ára skoðun árið 2009 og mætir því næst árið 2011. Tekið skal fram að fornbifreið verður að vera skráð í notkunarflokkinn „fornbifreið“ hjá Umferðarstofu til þess að öðlast tveggja ára skoðanatíðni. Ekki er nóg að hún sé 25 ára eða eldri. Skráið bílana tímanlega og forðist sektir. [18.03]


Fallinn félagi

Þann 13.mars lést félagi okkar Hilmar Kristjánsson.


Hilmar var búinn að vera lengi félagi í klúbbnum og var duglegur að mæta í ferðir á Willy´s jeppa sínum, sem ber númerið D 252. Hilmar hafði einnig gaman af að mæta á myndakvöld okkar og þó að ekki hafi farið mikið fyrir Hilmari þá var hann vel þekktur af virkum félögum. Stjórn og félagar senda öllum aðstandendum samúðarkveðjur. [16.03]jsl


E-Type kynntur

Á þessum degi árið 1961 kynnti Jaguar hinn fræga XK-E eða E-Type á bílasýningunni í Genf. Nokrum árum áður hafði Jaguar rækilega stimplað sig inn í Le Mans kappaksturinn með C og D týpurnar, en þeir náðu fyrsta sæti árin´55, ´56 og ´57. William Lyons, stofnandi Jaguar, var síðan aðlaður fyrir þátt sinn í að koma Bretum svona rækilega inn í heim kappakstursins. Hér er hægt að lesa meira um E-type og síðan er hér stór myndasíða með þúsundum Jaguar mynda, að lokum ein mynd af tveimur hérna á bakkanum árið 1963. [16.03]jslSkemmtilegar myndir

Margt er hægt að finna á netinu bæði til fróðleiks og skemmtunar, þessar myndir fyrir ofan fundust á netinu og sýna vel að það er ekkert sem mönnum dettur ekki í hug þegar kemur að bílum og notkun þeirra. [13.03]jslFræðsluferð í gærkvöldi

Farin var fræðsluferð austur á Eyrarbakka í gærkvöldi, en félagar fyrir austan buðu í heimsókn á Gónhól. Farið var í rútu frá Árbænum og var hún full. Tilefni heimsóknar var sýning myndar um Sverri Andrésson og bílasögu hans, en einnig um leið stutt yfirlit yfir fornbílamenningu á Suðurlandi. Boðið var upp á góðar veitingar eftir sýningu myndar og mikið spjallað saman. Lagt var síðan af stað í bæinn undir miðnætti eftir góða heimsókn austur. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [12.03]jsl


Bílapóló Bílapóló Bílapóló Bílapóló
Bílapóló var hættulegt en vinsælt sport

Fæstir nútíma bílamenn vita um eitt vinsælasta bílasport sem iðkað var á fyrstu áratugum liðinnar aldar. Bílapólóið stunduðu fífldjarfir og liprir ökumenn, en bílarnir voru yfirleitt gamlir með áfestum veltigrindum. Fólst keppnin í því að tveir bílar eltu knött einn mikinn og sáu kylfumenn um að slá hann en ökumenn eltu og var takmarkið að koma knettinum í markið hjá andstæðingnum. Keppnin gat orðið æði hörð eins og glöggt sést á meðfylgjandi myndum sem teknar voru árið 1912. Ekki fer þó mörgum sögum af miklum meiðslum á mönnum, en sjálfsagt hafa fáir sloppið alheilir frá þessum hildarleik.Var sport þetta mjög vinsælt í helstu borgum Bandaríkjanna en lagðist að mestu af í heimskreppunni miklu á fjórða áratugnum. [11.03]ös


AutoRama um helgina

Þessi fræga sýning var haldin um helgina í Detroit, en á þessa sýningu senda allir helstu aðilar sem taka að sér breytingar til að sýna sínar nýjustu útfærslur. Einnig eru þarna einkaaðilar sem komast að með sína bíla ef þeir hafa vakið athygli fyrir sínar breytingar. Græjur og aukahlutir eru einnig stór partur af AutoRama. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá helginni og einnig um sýninguna sjálfa. [09.03]jsl


Uppfærsla um helgina

Loksins hefur gefist tími til að uppfæra félagsskrána á netinu og verður lokið við það verk um helgina. Stefnt er að uppfæra einu sinni í mánuði, en eins og allt annað sem unnið er fyrir klúbbinn þá er þetta sjálfboðavinna og verður að vinnast eftir þvi sem tími er til. Rétt um 30 félagar voru færðir inn núna en síðasta uppfærsla var síðasta janúar. Um leið er ítrekað að félagar sendi okkur breytingar á heimili og eins e-mail svo þeir fái Skilaboð á réttum tíma, en auðvelt er að skoða sínar upplýsingar í félagskrá og aðgangsorð er alltaf birt í Skilaboðum. Að öðrum ólöstuðum þá var núna skemmtilegast að færa inn 1942 Packard 180 sem er betur þekktur sem forseta-Packardinn, en forsetaembættið er félagi í klúbbnum núna og vonandi fáum við að sjá hann í einhverjum keyrslum í sumar. [06.03]jsl


1929, “The Big Fire”

Los Angeles International Auto Show er ein stærsta bílasýning á vesturströnd Bandaríkjanna, en fyrsta sýningin var haldin árið 1907 með 99 bíla. Strax á fyrsta ári var mikil aðsókn þó að bílar væru ennþá eitthvað fyrir sérvitringa. En þar sem þessi sýning var í LA þá fór fljótt að bera á miklum glamúr í kringum sýninguna og þótti ekki fínt að mæta nema í fatnaði sem þóknaðist tísku þess árs og átti þetta einnig við bílana sem urðu að fylgja tískunni. Fljótlega urðu umbúðir sýningarinnar meira áberandi en sýningargripirnir sem sýndir voru, þá hafði einnig verið bætt við bátum og flugvélum vegna nýríka fólksins, en mikið af trjám og plöntum hafði verið komið fyrir í salnum og um leið var haldin blómasýning í salnum. Nákvæmlega fyrir 80 árum kom upp eldur þegar sýningin var haldin og fuðraði sýningarsvæðið upp á örskotstundu vegna alls gróðursins og brunnu þarna rúmlega 320 bílar en ekkert manntjón varð. Í dag er sýningin haldin um haust, síðast í nóvember 2008, svo er bara spurning um hverjir af stóru merkjunum verða eftir til að sýna bíla í haust. LA Auto Show [05.03]jsl


Myndir frá ýmsum söfnum

Þessi síða hefur að geyma mikið af myndum frá ýmsum söfnum í Bretlandi og t.d. frá Streetlife Museum sem er í Hull. Mörg önnur áhugaverð söfn eru kynnt þarna og eru þau flokkuð eftir viðfangsefni þeirra. Almennt eru söfn í Bretlandi með þeim betri sem maður sér og skemmtilega sett upp, enda skiptir það miklu máli að söfn séu ekki bara þurrar upplýsingar. [04.03]jsl


Bílayfirlit eftir árum

Á þessari síðu er að finna létt yfirlit um það sem gerðist í bílasögunni fyrir hvert ár frá 1950. Þó að þetta sé kannski ekki ítarleg söguskýring þá er þetta ágæt upprifjun á því helsta sem gerðist, einnig er þarna að finna undir "Car Reviews" smá umsögn yfir ýmsar bílategundir. [03.03]jsl


Fornbílar og list

Í Scottsdale, Arizona, var nýlega haldin skemmtileg sýning fornbíla í tenglsum við listagallerí, og þar sem óhætt er að segja að fornbílar séu listaverk þá á þetta vel saman. Þarna voru félagar úr Cadillac klúbbi sem sýndu bíla sína að þessu sinni og meðal þeirra var Mel Martin sem er eigandi að góðu safni sem telur 42 bíla, allt frá 1915 Ford T til 2004 Cadillac CTS-V sem var tilraunabíll frá GM. Hérna er hægt að lesa meira um þennan dag og eins að sjá nokkrar myndir. [02.03]jsl