Eldri fréttir - Febrúar 2009

Fornbílasýningar í ár

Þó að kreppa sé í annarri hverri frétt þessa daga, þá er engin ástæða til að leggjast í kör og hætta að lifa sínu lífi og þar sem þetta er tíminn til að fara að íhuga hvert skal halda í sumarfríinu, er upplagt að skoða hvort ekki sé hægt að blanda saman fríi og áhugamálinu. Hér fyrir neðan eru tenglar á nokkrar síður er lista sýningar og viðburði þar sem fornbílar leika aðalhlutverkið. Oft getur verið verulega pirrandi að vera staddur einhversstaðar erlendis og sjá svo eftir að heim er komið að sýning og annað hafi kannski verið á staðnum nokkrum dögum fyrir eða eftir dvöl. [27.02]jsl
www.classic-car-directory.com/events
www.classicshowsuk.co.uk
www.classiccarsforsale.co.uk/classic-car-events
www.classiccarsmagazine.co.uk/news


Ýmislegt áhugavert á dagskrá í sumar

Í næstu Skilaboðum sem verða póstlögð eftir helgina er að finna dagskrá Ferðanefndar fyrir sumarið. Með nýjum aðilum í nefndinni þá koma nýjar hugmyndir og er óhætt að segja að allir ættu að finna eitthvað til að mæta í. T.d. verður aukaferð á dagskrá 21.mai, Uppstigningardag, þar sem bílamessa verður á dagskrá í Digraneskirkju um kvöldið, en þar mun séra Gunnar predika. Dagskráin fyrir sumarið verður síðan komin á dagatalið eftir helgina og eins tilbúið veskjakort til að prenta út en þar koma fram mætingarstaðir. [26.02]jsl


Orðsending frá Umferðarstofu

Allar fornbifreiðar skulu mæta til skoðunar árið 2009, en nýskráningarár þeirra ræður því svo hvort þær fái eins eða tveggja ára skoðun eftir það. Reglan er sú að ef fornbifreið er nýskráð hér á landi á sléttu ári á hún að koma til skoðunar á sléttu ári. Ef fornbifreið er nýskráð á oddatöluári skal hún koma til skoðunar á oddatöluári. Dæmi: Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi árið 1972 fær hún eins árs skoðun árið 2009 og á að mæta aftur til skoðunar á sléttu ári 2010. Ef fornbifreið var nýskráð á Íslandi á oddatöluári, t.d. 1973, skal bifreiðin fá tveggja ára skoðun árið 2009 og mætir því næst árið 2011. Miða varð við nýskráningarár bifreiðanna á Íslandi þar sem ökutækjaskrá býr ekki yfir fullnægjandi upplýsingum hvað árgerð þeirra varðar. Því var ekki annað fært en að miða við nýskráningarár á Íslandi, því það er eina ártalið í ökutækjaskrá sem er alltaf fyrir hendi. Tekið skal fram að fornbifreið verður að vera skráð í notkunarflokkinn „fornbifreið“ hjá Umferðarstofu til þess að öðlast tveggja ára skoðanatíðni. Ekki er nóg að hún sé 25 ára eða eldri. [25.02]


Wheels & Wings Wheels & Wings Wheels & Wings
Fornbílar og flugvélar

Frændur okkar Svíar eru miklir fornbílaáhugamenn og þeir eru einnig mjög lagnir við að setja saman margvíslegar sýningar fyrir áhugamenn um allskyns farartæki. Ein árleg sýning heitir Wheels & Wings en þar hittast á einum stað fornbílar, fornar flugvélar og mótorhjól. Það gæti verið ágætis hugmynd fyrir hina nýskipuðu ferðanefnd Fornbílaklúbbsins að stefna saman fornbílamönnum, gamlingjum og þristavinum á einn góðan völl þegar sumarsól ber hvað hæst við himin. Hér eru skemmtilega myndir frá sýningu síðasta sumars. [23.02]ös


Pontiac Pontiac Pontiac
Brátt heyrir Pontiac sögunni til

Nú hefur GM ákveðið að grípa til víðtækra sparnaðaraðgerða samhliða gríðarlegum samdrætti í bílasölu vestanhafs. Um leið og tilkynnt var um uppsögn 47.000 starfsmanna var gefin út yfirlýsing um að hér eftir verði bílamerki fyrirtækisins einungis fjögur: Chevrolet, Cadillac, Buick og GMC. Þar með er ljóst að Pontiac, sem framleiddur hefur verið síðan árið 1926, hverfur á hina bílsögulegu sporbraut líkt og Oldsmobile og Plymouth. Hér er góð myndasíða tileinkuð sögu Pontiac [20.02]ös


Meira þýskt

Í enda janúar opnaði nýtt safn á vegum Porsche í Zuffenhausen sem er í útjaðri Stuttgart. Á sama stað fæddist "Bjallan" og eins afi allra Porsche, Type 64 “Berlin–Rome Car,” árið 1939. Safnið mun sýna þróun Porsche, tilraunabíla og eins þá sem hafa og eru notaðir í keppnum. Safnið sjálft er mjög nýtískulegt í útliti og á örugglega eftir að vera ofarlega á lista fornbílafólks sem heimsóknarverður staður á næstu árum. Porsche Museum. [19.02]jsl


Geländewagen 30 ára

Hvað sem fólki finnst um útlit þessara jeppa þá eiga þeir sína sögu og þeir fyrstu búnir að stimpla sig inn sem fornbílar fyrir nokkrum árum. Framleiddir fyrst sem herbílar, en boðnir á almennum markaði árið 1979, líklega í febrúar. Litlar breytingar hafa verið í gegnum árin fram til 1990-91, samt hafa verið til ýmsar útgáfur af þessum jeppa, allt frá pallbíl til sérútbúinns flutningsbíls fyrir páfann þegar hann er sýndur opinberlega. Á Fornbílaspjallinu er að finna þráð um uppgerð eins 300 GD sem talið er að sé sá fyrsti sem kom hingað, en á þessari síðu er að finna myndir af nokkrum útgáfun G-wagen og eins upplýsingar á Wikipedia. [18.02]jsl


Góð skil árgjalda

Skil á árgjöldum 2009 ganga mjög vel og hefur rúmlega helmingur félaga þegar greitt árgjaldið fyrir 2009. Við viljum samt minna félaga á að vilji þeir fá 2009 miðann fyrir skírteinið um næstu mánaðarmót að greiða þá árgjaldið fyrir 23. febrúar, annars fá þeir ekki miðann fyrr en mánaðarmótin mars - apríl. Lokaskil árgjalda er 30. apríl vegna aðalfundar og falla menn sjálfkrafa út af félagsskrá hafi ekki verið greitt fyrir þann tíma. [16.02]jslRúntur í LA

Félagi okkar Sigurður Ólafsson var nýlega í Kalíforniu og hitti þar á skemmtilegan kvöldrúnt sem er farinn reglulega frá einni hamborgarabúllu suður af Los Angeles. Sigurður hafði auðvitað mikið gaman af og tók nokkrar myndir fyrir okkur, en einnig eru hér fleiri myndir frá þessum rúnti. Eitt sem Sigurður veitti eftirtekt var að eftir því sem eigendurnir voru eldri þess meira voru bílarnir breyttir, sem er öfugt við það sem við sjáum hér á landi, spurning hvort það sé þróun sem við eigum eftir að sjá seinna meir. [13.02]jsl/só


Fornbílar ekki alltaf betri

Oft er talað um hversu auðveldara það sé að vera með fornbíl þegar eitthvað bjátar á og oftast sé hægt að gera við sjálfur án þess að hafa mastergráðu í tölvufræðum, þar sem bílar í dag bjóða ekki upp á annað undir "húddinu" en nokkra gula tappa til að bæta á viðkomandi vökva. En þó að við séum með okkar gömlu bíla í dýrðarljóma þá getur verið vont að vera á mjög gömlum lendi maður í árekstri eins og sést á þessum myndum. [12.02]jsl/gösBílakirkjugarðar

Í gegnum tíðina höfum við bent á síður sem eru með myndir af yfirgefnum og gleymdum bílum sem eru að grotna niður hér og þar. Mörgum finnst gaman að skoða svona síður, kannski til að fussa yfir því hversu illa er farið með þessa bíla, aðrir reyna að finna út hvaða tegundir þetta eru. Aðrir spá í hvort hægt sé að bjarga viðkomandi bíl og hversu mikið þarf að gera. Þrátt fyrir tilgang skoðunar myndanna þá eru svona síður alltaf vinsælar og oft sést á spjallsvæðum umræður um hvar viðkomandi bílar séu og hvort hægt sé að bjarga. Þessi síða hefur margar myndir flokkaðar eftir áratugum. [11.02]jsl


Ný kjörnefnd

Eins og áður hefur komið fram þá baðst formaður kjörnefndar lausnar vegna anna og var auglýst eftir aðila í þessa nefnd. Snarlega gekk að fá nýjan formann og annan til að starfa með honum. Jón Hermann Sigurjónsson mun verða formaður og með honum mun starfa Kjartan Friðgeirsson, en Grímur Víkingur Þórarinsson sem var í nefndinni mun vera þeim til halds og trausts eftir þörfum, um leið er Georg Theodórssyni fráfarandi formanni þökkuð störfin fyrir nefndina. Um leið vill kjörnefnd auglýsa eftir framboðum til stjórnarsetu, en kosið er um 3 stjórnarmenn á hverju ári, einnig er kosið í ár um formann klúbbsins og er einnig auglýst eftir framboðum vegna þess. Tekið er fram að samkvæmt lögum FBÍ er skylt að auglýsa og kjósa vegna stjórnarsetu og formann hvort sem sitjandi aðilar bjóði sig áfram eður ei. Hægt er að hafa samband við Jón Hermann í síma 895 1515 vegna framboða eða ábendinga um aðila. [10.02]jslÞorrablótið

Síðasta laugardagskvöld var hið árlega þorrablót FBÍ haldið í Árbænum og var fullt hús. Matur var frá Kjötsmiðjunni og var tekið hraustlega á því að hætti fornbílafólks. Leynigestur kvöldsins var Ómar Ragnarsson sem söng og skemmti félögum sínum í smá stund og leiddi fjöldasöng. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [09.02]jsl


Stór bílaskrá

Á þessari síðu er að finna mikið myndasafn af ýmsum bílum, margar með ágætum upplýsingum um viðkomandi bíl. Hægt er að skoða eftir árgerðum, tegundum eða flokkum, en yfirlitið í stafrófsröð efst sýnir fleiri tegundir. Í svona skrám er alltaf hægt að finna tegundir sem maður hefur aldrei heyrt um t.d. Queen og Kissel, báðir 1908 árgerð. [06.02]jsl/gös


Mótorhjólamyndir

Á Cedric's Classic Bikes hefur Cedric Norman tekið saman myndir og smá upplýsingar um eldri mótorhjólategundir. Þarna er að finna á sama stað öll helstu hjólin frá fyrri árum svo sem Royal Enfield, Norton, NSU og fl. [04.02]jsl


Sunbeam, Talbot og Darracq

Á síðu The Sunbeam Talbot Darracq Register er að finna fróðlegar upplýsingar um sögu og eins myndir þessa tegunda. Sunbeam fyrirtækið á t.d. sögu allt aftur til 1899 og framleiddi marga flotta bíla á fyrri part síðustu aldar. Darracq nafnið var einnig vel þekkt á sama tíma en öll þessi merki runnu saman um og eftir kreppuna miklu og lentu síðan undir Rootes Group sem átti fyrir rest mikinn hrærigraut af ýmsum merkjum sem voru notuð seinna eða hurfu alveg. Þó að saga þessara merkja geti verið flókin, þá er samt gaman að sjá myndir og upplýsingar um þessa bíla frá þeirra blómatíma. [03.02]jsl


Kjörnefndarmenn óskast

Klúbburinn auglýsir eftir fólki til að starfa í kjörnefnd, en hún sér um uppstillingu aðila til stjórnarkjörs á aðalfundi og eins framkvæmd stjórnarkjörs svo og annað sem kallar á atkvæðisgreiðslur. Tveir aðilar vinna í þessari nefnd og vantar nýjan formann, þar sem núverandi formaður hefur óskað eftir lausn vegna anna. Vinna í þessari nefnd er aðallega nokkrum vikum fyrir aðalfund og svo einnig á fundinum sjálfum. Umsækjendur hafi samband við Sævar, formann FBÍ, í síma 895 8195 sem fyrst. [02.02]jsl