Eldri fréttir - Janúar 2009

Eitthvað til að gramsa í um helgina

Á sínum tíma bentum við á eldri blöð Morgunblaðsins á netinu til að skoða eldri greinar um fornbíla og auglýsingar en síðasta haust var opnað fyrir að hægt er að skoða flest öll eldri tímarit og blöð sem hafa verið gefin út á Íslandi. Slóðin er http://www.timarit.is/ og er hægt að leita eftir árum, dögum, blöðum og síðan leitarorðum. T.d. er að finna í Mbl. frá 1968 grein um 1929 Graham Paige, og eins sami bíll árið 1963, fyrsta hópkeyrsla Fornbílaklúbbsins árið 1977 og svo viðtal í Degi frá 1989. Til að skoða blöðin þarf að nota Adobe Reader eða DjVu fyrir Internet Explorer en báðar viðbætur ar hægt að finna á forsíðu timarit.is. [30.01]jsl/shStudebaker ættarmót

Í síðustu viku var sagt frá því hér á heimasíðunni hversu stórtækir þeir voru hjá Studebaker þegar þeir plöntuðu nærri kílómeters löngu auglýsingaskilti við tilraunabraut sína í Indiana. Árið 2007 lögðu félagar í Studebakerklúbbnum leið sína á þessa tilraunabraut og þeystu þar hinum öldnu gæðingum. Tilraunabraut þessi var sú fyrsta sinnar gerðar í heiminum, gerð árið 1926 og markaði upphafið af fjölda slíkra brauta í eigu stærri bílaframleiðenda. Hér eru myndir frá ættarmótinu. [29.01]ös


Árgjaldið sent út

Nú hafa greiðsluseðlar vegna árgjalds 2009 verið sendir út. Félagar eru minntir á að eftir eindaga seðils falla þeir út af lista klúbbsins og um leið hverfa öll þau fríðindi sem því fylgir að vera félagi. Sérstaklega skal á það minnt að Skeljungskortið verður ógilt, greiði félagar ekki árgjald sitt tímanlega. Hafi menn ekki fengið greiðsluseðilinn til sín t.d. vegna breytinga á heimilisfangi, eru þeir beðnir um að hafa samband við jsl@itn.is. Einnig er gott að tilkynna breytingar á heimilisfangi tímanlega. [28.01]jslMerkilegt apparat

Á meðfylgjandi vídeó sést merkileg prufa sem var gerð árið 1924, en þar var verið að sýna útfærslu Armstead Snow Motors Company á snigilsdrifi til notkunar í snjó. Notuð voru tvö stór sílenderhylki með skrúfumynstri sem snérust á móti hvor öðru. Prufan var gerð á Fordson dráttarvél en einnig á á Chevrolet bíl. Sýndi prufan að auðvelt var að ferðast í snjó og auðvelt í stýringu, en þessi hugmynd náði aldrei neinni útbreiðslu. Eitthvað var reynt að nota þessa hugmynd í seinni heimsstyrjöld en ákveðið var frekar að nota hefðbundið beltadrif, Rússar gerðu reyndar nokkur tæki sem notuðu þessa hugmynd en ekki í neinu mæli. Þessi hugmynd kom reyndar fram fyrst árið 1907 þegar James og Ira Peavey komu með sitt tæki sem átti að notast til að draga timbur og keppa við Lombard Steam Log Hauler, tvö tæki voru gerð en virkuðu ekki sem skyldi þar sem vantaði alla fjöðrun og þau voru of stíf til að fylgja vegum. [26.01]jsl


Fornbílaklúbburinn á facebook

Þar sem stór hluti Íslendinga er komin á samskiptasíðuna facebook, eða fésbók eins og margir nefna hana, var kominn tími til að klúbburinn léti sjá sig þar. Búið er að stofna síðu sem er smá kynning á klúbbnum, en aðallega er hún hugsuð sem staður til að sjá næstu dagskrá, en um leið er hægt að merkja við mætingu sína og láta aðra vini frétta af áhugaverðum viðburðum. Dagskrá á facebook verður uppfærð jafnóðum og á fornbill.is Einnig er þar möguleiki fyrir vini að senda inn sínar myndir frá samkomum. [23.01]jsl


Studebaker Studebaker Studebaker
Þeir voru stórtækir hjá Studebaker

Í eina tíð var Studebaker elsti vagnaframleiðandi heims og síðar meðal þeirra stærstu í bílgreininni. Færri vita hins vegar hversu stórtækir þeir voru í markaðssetningu, en meðal ógleymanlegra verka þeirra er stærsta auglýsingaskilti veraldar, sem enn sést vel, tæplega eins kílómeters langt nafn fyrirtækisins gert úr 8200 lifandi trjám við tilraunabraut fyrirtækisins í Indinana. Brautin var gerð árið 1926 og var sú fyrsta sinnar gerðar í heiminum. Fyrir heimssýninguna í Chicago 1934 smíðaði Studebaker tröllaukið líkan af nýjasta bíl sínum af Land Cruiser-gerð, sem var nærri 30 metrar að lengd og yfir 10 metrar á breidd. Innan í þessum risabíl var síðan kvikmyndasalur sem tók 80 gesti í sæti. Geri aðrir betur! [21.01]ös


Flottir vörubílar Flottir vörubílar Flottir vörubílar
Flottir vörubílar

Margir íslenskir fornbílamenn hafa einbeitt sér að uppgerð og varðveislu gamalla vörubíla og er það vel. Frændur okkur Danir eru þekktir fyrir að fara vel með bílana sína og hafa fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki varðveitt atvinnutæki sín í upprunalegri mynd. Hér má sjá myndir af 100 glæsilegum fornvörubílum í Silkeborg en þar fór fram myndarlegur vörubílarúntur síðasta sumar. Svo eru reyndar til Danir sem ganga heldur langt í umgengni sinni við hina öldnu vinnujálka, eins og glöggt má sjá hér. [20.01]ös


Breytingar vegna skoðunar

Vegna nýrra skoðunarreglna sem tóku gildi fyrr í þessum mánuði (sjá frétt neðar) er nauðsynlegt að skrá fornbíla í réttan notkunarflokk annars mun skoðunarregla fornbíla ekki gilda fyrir viðkomandi bíl og mun þá sektarákvæði gilda eins og fyrir venjulega bíla. Hægt er að breyta notkunarflokki með því að fylla út þetta form, koma því til Umferðastofu í Borgartúni ásamt kr. 500 skráningargjaldi. Áríðandi er að fornbílaeigendur geri þetta sem fyrst sé bíllinn ekki skráður sem fornbíll, en auðvitað gildir þetta eingöngu fyrir bíla sem hafa náð 25 ára aldri. [19.01]jsl


Bjallan kemur til Ameríku

Fyrir 60 árum kom fyrsta bjallan til Ameríku og var kynnt sem "Victory Wagon". Ekki var mikill áhugi í fyrstu og herma heimildir að tvær hafi selst fyrsta árið. Volkswagen of America var síðan stofnað árið 1955 til að samhæfa sölu og þjónustu. Framleiðsla og sala jókst mjög hratt eftir þetta og bjallan varð vinsæl. Á hippatímabilinu náði bjallan enn á ný vinsældum sérstaklega meðal námsmanna. [16.01]jsl


Just a car guy

Á þessari blogsíðu er að finna myndir af ýmsum sérstökum fornbílum eins og t.d 1924 Hispano-Suiza H6C Tulip Wood Torpedo. Sérstakir og sjaldgæfir bílar og þessi týpa var gerð úr viði. Fleiri myndir af sérstökum bílum er að finna á þessari síðu en lítið af lesefni er með myndum, en stundum eru tenglar á aðrar síður um efnið. Þó að síðan sé dálítið ruglingsleg og óskipulögð þá er samt þess virði að kíkja á hana stöku sinnum og sjá hvað þeir hafa grafið upp í sérstökum myndum. [15.01]jsl/gös


Dave Milner Dave Milner Dave Milner
Láttu þig dreyma!

Á tímum kreppu og gengisfellinga verður sífellt erfiðara að stunda innflutning á fornbílum og ferðalög á erlendar fornbílasýningar og söfn bíða betri tíma. Dave nokkur Milner, sem kallar sig sköpunarsnilling, fékk þá hugdettu að kaupa fornbílamódel og festa þau síðan á filmu með framandi ljósmyndir í bakgrunni. Þannig hefur honum tekist að ferðast í huganum um heiminn á glæsilegum fornbílum. Hér má sjá skemmtilega myndasyrpu með sköpunarverkinu. [14.01]ös


Nýjar skoðunarreglur

Fyrir helgi tóku gildi nýjar skoðunarreglur og hefur verið beðið eftir niðurstöðu í þessu máli eftir að fréttist í haust að til stæði að breyta þessum reglum. Þær breytingar sem snúa að fornbílum, 25 ára og eldri, eru þær að skoða þarf fornbíla fyrir 1. ágúst þess skoðunarárs sem við á, endastafur í númeri gildir ekki lengur. Einnig þurfa fornbílar ekki að mæta í skoðun nema annað hvert ár. Sem þýðir að skoða þarf fornbíl fyrir 1. ágúst á þessu ári og síðan næst fyrir 1. ágúst 2011. Reglugerðina í heild er hægt að skoða hér. Sektarákvæði er í þessum reglum sé bíll ekki færður til skoðunar, en þeim sem eru með bíla í langtímageymslu eða uppgerð er bent á að hægt er að skrá bíla tímabundið úr umferð (fá rauðan miða) og leysir það vandamálið með að eiga á hættu að tapa númeraplötum. Líklega þýðir þetta einnig að skrá þurfi fornbíla sem slíka í notkunarflokk, en það er eitthvað sem klúbburinn á eftir að skoða á næstu dögum. Skoðunardagur klúbbsins og Frumherja í maí verður að sjálfsögðu áfram á dagskrá, enda er best að vera á nýskoðuðum bíl fyrir sumardagskrána. [12.01]jslDagatal fornbílamannsins

Dagatal FBÍ verður póstlagt á næstu dögum en þar kemur fram öll dagskrá klúbbsins á árinu 2009, en alls eru 64 dagar fráteknir fyrir áhugamálið. Eru félagar beðnir um að hengja dagatalið upp á áberandi stað í híbýlum sínum þannig að sem minnstar líkur verði á því að þeir missi af fjölbreyttri dagskrá klúbbsins. Einnig er dagatalið birt á heimasíðunni fornbill.is undir liðnum Starfsemi FBÍ, en þar eru nánari upplýsingar um hverja ferð, m.a. dagskrá og mætingartíma, einnig er hægt að sjá næstu dagskrárliði í GSM símanum undir www.fornbill.is/wap. Verða allar hugsanlegar breytingar á dagskránni færðar inn tímanlega. Auka dagtöl er hægt að fá á rabbkvöldum í Árbænum, einnig er hægt að prenta það út á fornbill.is. [09.01]jsl


1937 Bugatti Type 57S Atalante 1937 Bugatti Type 57S Atalante 1937 Bugatti Type 57S Atalante 1937 Bugatti Type 57S Atalante
Bílskúrsfundur

Stóra fréttin um s.l. áramót var óvæntur fundur afkomenda Dr Harold Carr’s, en hann hafði arfleitt þau af bílskúr sínum. Haldandi að skúrinn væri bara hjallur sem þyrfti að hreinsa út úr, var farið að skoða í skúrinn og fannst þá 1937 Bugatti Type 57S Atalante. Oft hafa fundist bílar eftir andlát en þetta er ekkert venjulegur fundur. Framleiddir voru 17 Bugatti Type 57S Atalante og voru þeir langt á undan sínum tíma bæði í útliti og sérstaklega frammistöðu þar sem þeir náðu 130 mílna hraða á þeim tíma þegar bílar náðu almennt 50 mílna hraða. Þessi Bugatti hefur þá sérstöðu að vera í upprunalegu ástandi, ekinn 26,284 mílur og er með eigandasögu, en Earl Howe var fyrsti eigandi, en hann var þekktur fyrir að hafa unnið Le Mans á sínum tíma. Bíllinn verður boðinn upp hjá Bonham uppboðsfyrirtækinu þann 7. febrúar og er búist við að bíllinn geti jafnvel náð 1.2 milljörðum en lágmarksboð er 470 milljónir. Bíllinn var keyptur árið 1955 á 895 pund. Þó að afkomendum hafi ekki verið kunnugt um bílinn, þá var hann ekki óþekktur þar sem sérfræðingar vissu af honum og mörg skilaboð fundust frá vongóðum kaupendum sem ferðuðust langar leiðir í þeirri von að ná sambandi við Dr Harold Carr en hann vildi aldrei selja. [08.01]jsl


Skemmtileg pæling

Oft er talað um hvað aldur gæludýra er í mannárum en á þessari síðu kom fram hugmynd um hvað aldur bíla gæti verið í mannárum. Sett er fram formúla þar sem akstur bílsins (í mílum) er deilt með árgerð hans og þá komi fram mannárin. T.d. er bíllinn minn ekinn 71800 mílur og árgerðin er 1976, útkoman er 36 mannár, sem er ekki svo langt fram yfir aldur bílsins. Ef viðkomandi bíll er ekinn t.d. 15000 mílur og væri ágerð 1976 þá væri útkoman rétt um 8 ár, bara rétt krakki ennþá og ætti að eiga mikið eftir. Þó að þetta séu ekki nein vísindi, þá gæti samt verið eitthvað til í þessu til að sjá hversu gömul "sál" bílsins sé. [07.01]jsl/gös


Nýtt fornbílaár

Með nýju ári er upplagt að endurnýja heimasíðu klúbbsins, en undirritaður hefur verið að yfirfara allar síður og endurskipuleggja uppsetningu síðu klúbbsins á meðan fréttasíðan var í jólafríi. Þó að það séu ekki stórkostlegar breytingar í útliti þá er samt mikið búið að breyta og yfirfara kódann sem undir liggur, einnig er búið að endurraða valmöguleikum undirsíða og fl. Dagatalið hefur breyst aðeins en nú verður einnig hægt að sjá næstu dagskráliði í GSM símum (ef netið er virkt í þeim) á www.fornbill.is/wap. Í öllum breytingum getur eitthvað gleymst svo það gætu verið einhverjar villur hér og þar en það ætti að lagast fljótlega. [05.01]jsl