Eldri fréttir - Nóvember 2008


Veður-hanar

Fyrr á árum þótti nauðsynlegt að vera með veður-hana til að sjá vindátti, sérstaklega til sveita þar sem breyting á vindátt þýddi um leið breytingar á veðri. Í Evrópu hafa veður-hanar verið lengi notaðir sem skraut en um leið gefið vísbendingu um áhugamál eða vinnu viðkomandi íbúa. Hjá Otter Wrought Iron Products er að finna mikið úrval veður-hana í ýmsum útfærslum, en útfærslur með bíla og dráttarvélar höfða örugglega mest til okkar. Í sjálfu sér ætti að vera lítið mál fyrir laghenta að útbúa svona fyrir sjálfan sig og um leið skreyta sitt hús eða býli. [01.12]jsl/gös


Umræður um herjeppa

Á Fornbílaspjallinu er að finna skemmtilegar umræður um MB 1945 herjeppa sem var nýlega keyptur á Filipseyjum og kemur væntanlega hingað næsta vor. Hægt er að sjá ýtarlegar myndir frá uppgerð hans og eins eru fróðlegar umræður í gangi um hvernig svona jeppi eigi að vera útbúinn samkvæmt reglum "Military vehicle preservation associations" ef viðkomandi jeppi yrði dæmdur af sérfræðingum. Allavega er herjeppinn flottur og verður gaman að sjá hann á götunni hér. [28.11]jsl


Ef stóru bílaframleiðendurnir falla

Mikið er rætt um hvort eigi að bjarga stóru Bandarísku bílaframleiðendunum, en þeir hafa ekki staðið eins illa í áratugi. Við rákumst á topp tíu lista yfir ástæður þess að bjarga þeim út frá sjónarhóli fornbílaeigenda. Þar eru listaðar nokkuð góðar ástæður fyrir björgun þeirra, en sú sem er í fyrsta sæti ætti að duga ein og sér, allavega fyrir þá sem vilja aka á Bandarískum bíl. Listinn á Classic Cars Blog. [27.11]jsl


Toyota aðdáandi

Á síðunni Toyotageek.com er að finna ýmislegt sem tengist Toyota. Fyrir utan tengla á ýmsar síður um Toyota þá eru þarna einnig smágreinar um ýmsar gerðir Toyota bæði eldri og nýjar. Toyota kom fyrst með bíl á markaðinn árið 1936 og var það Model AA Sedan. Árið 1957 var fyrsti bíllinn fluttur inn til Bandaríkjanna, en árið 1970 er P. Samúelsson hf stofnað til að flytja inn Toyota hingað til lands. Hér er hægt að sjá sögu Toyota og síðan Toyotageek.com. [26.11]jsl/gös


Vegna nýrra skoðunarreglna

Þar sem nýjar skoðunarreglur hafa tekið gildi og leyft er að innheimta sekt ef viðkomandi bíll hefur ekki verið færður til skoðunar á réttum tíma, er rétt að benda á möguleika fyrir þá sem eru með bíla í uppgerð eða langtíma geymslu. Fyrir utan að leggja inn númerin þá er hægt að sækja um hjá Umferðastofu að ökutæki verði skráð tímabundið úr umferð. Með þessari skráningu fær maður rauðan miða (akstur bannaður) og þarf ekki að leggja inn númerin, en gjöld og tryggingar halda áfram, oft hægt að semja um það við sitt tryggingarfélag. Gjald fyrir þessa skráningu er aðeins kr. 600, svo þetta er án efa besta lausnin fyrir þá bíla sem eru eða verða ekki á götunni til lengri tíma, sérstaklega þar sem ekki er hætta á að tapa númeraplötum við innlögn. Fornbílaklúbburinn sendi inn athugasemd vegna þessara laga, en drög að endanlegri útgáfu er að finna á vef Samgöngumálaráðuneytis. [25.11jslMustang Boss 351 38 ára

Á þessum degi árið 1970 á Detroit Auto Show var kynntur nýr meðlimur í Mustang fjölskyldunni, 1971 Ford Mustang Boss 351. Þar sem þessi útgáfa var einungis til þetta árið og framleiddur í 1803 eintökum er þetta talinn sjaldgæfasti Mustanginn. Til samanburðar voru 500.000 Mustangar seldir árið 1965. Mustang náði strax vinsældum, en í gegnum árin urðu útlitsbreytingar sem bæði þóttu til framfara og líka skref aftur á bak, en bílaáhugafólk getur lengi rifist um hvaða árgerð af Mustang sé fallegust. Hérna er hægt að sjá meira um árgerðir Mustang og helstu stærðartölur þeirra. [21.11]jsl


Fornbílar í Austurríki

Rúnar Sigurjónsson sendi okkur tengla á myndir frá PS-show bílasýningunni sem var haldin í Wels í Austurríki í síðasta mánuði. Myndir þessar er að finna hjá www.oldtimerauto.at, sem er Austurrískt bílablað. Einnig er þar að finna myndir frá Vínar-rallinu sem var haldið í september síðast liðnum. Síðan er öll á þýsku en myndirnar ættu að tala sínu máli. [20.11]jslLondon Steam Carriage

Richard Trevithick hét sá maður sem hannaði þetta ferlíki og líklega er þetta fyrsta farartækið sem gekk fyrir eigin afli og jafnframt gat flutt farþega. Trevithick var í samkeppni við James Watt um hvernig best væri að nýta gufu sem aflgjafa, en hugmyndir hans náðu ekki alltaf árangri. London Steam Carriage var smíðað árið 1803 og fór ferð um London til kynningar með 7 eða 8 farþega en ferðin þótti óþægileg vegna hristings og vagninn var dýr í kyndingu. Vagninn var gífurlega hár og voru afturhjólin 8 fet að hæð en með því að hafa þau svona stór átti að vera minni hætta á óþægindum út frá ójöfnum í vegum, en þar sem aflið var leitt í hjólin til skiptis vildi vagninn jugga fram og til baka og það þótt farþegum vitanlega ekki þægilegt. Trevithick var frekar seinheppinn í sínum uppfinningum, en samt er hægt að eigna honum tilkomu fyrstu lestarinnar, en árið 1804 var gerð prufa með gufuvagn sem Samuel Homfray gerði ,eftir að hafa keypt einkaleyfið fyrir gufulest af Trevithick. Hér er hægt að sjá meira um London Steam Carriage en til er eftirlíking vagnsins í keyrsluhæfu ástandi. [19.11]jslBretlandsreisa á opnu húsi 19. nóvember

Á opna húsinu miðvikudagskvöldið 19. nóvember munu ferðafélagarnir Jón S. Loftsson og Þorgeir Kjartansson sýna myndir frá nýliðinni heimsókn sinni til Bretlandseyja. Meðal merkra safna sem þeir skoðuðu voru Museum of Transport í Glasgow, Myreton Motor Museum í East Lothian, Grampian Transport Museum í Aberdeenshire og Lakeland Motor Museum í Cumbria. Dagskráin verður á Amokka, Hlíðarsmára 3 í Kópavogi (Air Atlantahúsinu), sem opnar klukkan 20 og hefst myndasýningin stundvíslega klukkan 20.30. Gert verður gott kaffihlé. [18.11]jslCrazy Cruisers Club

Þegar heimasíða Crazy Cruisers Club er skoðuð sést að það er meira í Sviss en Heiða og Toblerone. Þessi klúbbur var stofnaður árið 1988 og hefur staðið fyrir ýmsum bílasamkomum og hefur deildir í Frakklandi og Ítalíu. Á síðunni þeirra er að finna mikið af myndum frá samkomum, sýningum og fl. [17.11]jsl/gös


Merkir dagar

Það eru ýmsir merkir dagar sem hafa fallið á dagana 13. til 15. nóvember. Þann 13. árið 1940 kynnti Willys-Overland sína útgáfu af jeppa sínum fyrir herinn sem var síðar nefndur Jeep. Þann 14. árið 1914 kláruðu John and Horace Dodge sinn fyrsta bíl, sem auðvitað var nefndur Dodge. Þann 15. árið 1965 setti Craig Breedlove nýtt hraðamet þegar hann náði 600 mílna hraða á Bonneville Salt Flats, en hann hafði einnig slegið 400 og 500 mílna metin árin áður. Að lokum var þann 15. árið 1977 100.000.000 Fordinn smíðaður, en það var 1978 Ford Fairmont. [14.11]jsl


Ný Ferða og félaganefnd tekur til starfa

Eins og margir vita þá hefur Einar Gíslason hætt formensku ferða og félaganefndar og hefur Gunnar Örn Hjartarson tekið við sem formaður, en hann hefur verið í nefndinni síðan 2006. Gunnar tekur við góðu búi frá Einari, þar sem ferðir og samkomur hafa þróast mikið síðustu ár, enda hafa aldrei fleiri mætingar verið. Einnig hefur nefndin eignast mikið af dóti sem nýtist í ferðum, svo sem ný grill, borð og bekki í tjaldið og annan búnað. Með Einari hættir Þorgeir Kjartansson og undirritaður, en verða samt innan handar fyrst um sinn, í nefndina koma nýjir félagar Aðalheiður Arnljótsdóttir, Helgi Guðlaugsson, Kristín Sunna Sigurðardóttir og Sigurjón Guðleifsson sem reyndar byrjaði síðasta sumar. Í lokin vill stjórn klúbbsins þakka Einari og öðrum nefndarmönnum fyrir mikil og góð störf fyrir nefndina síðustu ár. [13.11]jsl


Bílaklúbbur Akureyrar eignast strætó

Fyrir stuttu eignaðist BA 1981 Mercedes Benz 305 strætó sem hefur verið í notkun fyrir norðan frá byrjun. Er hann víst í fínu standi og ekinn um 1200 þús. km. Án efa ætti þessi bíll að nýtast vel í starfi klúbbsins og skemmtilegt að sjá að bæjaryfirvöld á Akureyri vilji varðveita bílinn með þessum hætti í stað þess að farga honum. Í öðrum fréttum af BA er búið að endurvinna heimasíðu þeirra og verða þar örari fréttir um starfsemi bílaáhugafólks á þeirra svæði. [12.11]jsl/bó


Rabbkvöldin í Árbænum

Þrátt fyrir auglýstar myndasýningar og opin hús á Amokka í Kópavogi, verða rabbkvöldin áfram í Árbænum miðvikudagskvöldin 12. nóvember, 26. nóvember og 10. desember. Húsið opnar kl. 20.30 og heitt verður á könnunni. [11.11]jsl


Myndir frá London til Brighton

Fyrstu helgina í nóvember er hinn árlegi akstur fornbíla frá London til Brighton. Bílar sem geta tekið þátt verða að vera framleiddir fyrir 1905 og voru 483 bílar sem hófu keppni að þessu sinni og 420 sem kláruðu. Margir af þessum bílum eru alla jafnan geymdir á söfnum eða eru í eigu einkaaðila og er þetta oft eini atburðurinn sem þeir taka þátt í á hverju ári, en þessir bílar koma frá mörgum löndum. Aksturinn er alltaf á fyrsta sunnudegi í nóvember, en á laugardeginum er sýning á nokkrum tugum þessara bíla í Regent Street. Myndir frá sunnudeginum og eins sýningu. [10.11]jsl


Flottar myndir

Don Greytak er sjálflærður í teikningu og notar aðallega blýant til að gera sínar myndir. Á síðu hans er hægt að sjá ýmsar myndir hans, en þar er að finna flottar myndir af bílum, traktorum, lestum, flugvélum og fleira efni. Hægt er að panta þessar myndir og væri þetta t.d. fínasta jólagjöf. [ 07.11]jsl/gös


A-Body bílar

Valiant, Charger, Dart, Duster og Barracuda, allir muna eftir þessum bílum, en það voru fleiri sem tilheyrðu A-body fjölskyldunni. Drifter, Ute, Pacer, 3700, Demon, Twister og Scamp voru bílar sem náðu mismiklum vinsældum. Margir af þessum bílum voru framleiddir fyrir utan USA og þekktust lítið fyrir utan sín svæði. Á þessari síðu er hægt að fræðast meira um Valiant og aðra fjölskyldumeðlimi. [06.11]jsl/gös


Nýtt veftímarit

Fyrr á þessu ári var opnað nýtt veftímarit sem fjallar aðallega um hönnun og sérsmíði yfirbygginga fornbíla. Í gegnum árin hafa komið ýmsar sérútgáfur af bílum af ýmsu tilefni, t.d. afmælisútgáfur eða "one-off", og hafa þá jafnvel verið fengnir hönnuðir utan raða þeirra hönnuða sem jafnan vinna við viðkomandi tegundir. Sumir þessa bíla týndust en aðrir urðu miklir safngripir, þó að þeir hafi kannski þótt mjög svo frumlegir á sínum tíma. Veftímaritið Coachbuild.com [05.11]jsl/gös


Létta hliðin

Hér er hægt að sjá muninn á hvernig bretar, frakkar, ítalar og þýskarar hanna sama útbúnaðinn á mismunandi hátt.

Útskýringar á ýmsum verkfærum og hvernig þau virka.

Hvernig er hægt að sjá hvort þú eigir Land Rover? Hér eru nokkrar vísbendingar. [03.11]jsl/gös