Eldri fréttir - Október 2008


Flottar myndir

Þessi mynd gæti verið úr hvaða smábæ sem er í Bandaríkjunum upp úr 1950, en þetta er módel sem er myndað í módelumhverfi. Michael Paul Smith hefur verið að dunda sér við módelsmíði og ákvað að sameina það við annað áhugamál sitt, ljósmyndun. Myndir hans eru ekki tölvugerðar, eins og margar í dag, heldur gerðar með módelum, bakgrunnum og góðum uppstillingum. Hérna er hægt að sjá þessar myndir hans og eins heildar myndasafn hans. Kannski gefur þetta einhverjum góðar hugmyndir sem gaman væri að sjá seinna meir. [31.10]jsl/gös


Glasgow Museum Of Transport Manchester Museum of Transport Malvern Showground Haynes International Motor Museum Tank Museum Beaulieu Transport Museum Brooklands Museum Bentley Wildfowl and Motor Museum Duxford Transport Museum Heritage Motor Center NEC sýningarhöll Streetlife Museum of transport British Commercial Vehicle Museum Cars of the Stars Moray Motor Museum Grampian Transport Museum Myreton Motor Museum Lakeland Motor Museum
Bresk bílasöfn

Kortið yfir bresk bílasöfn hefur verið uppfært, en á kortinu er hægt að sjá hvar bílasöfn eru í Bretlandi, en áherlsan er á að merkja inn söfn sem hafa verið heimsótt af undirrituðum. Hægt er að smella á viðkomandi stað og opnast þá kort í Google Maps þar sem hægt að sjá nákvæmlega hvar viðkomandi safn er. Undirritaður hefur einnig tekið saman skrá sem hægt er að nota í Google Earth, en það forrit er frábært sé verið að skipuleggja ferðalög. Í þeirri skrá eru ýtarlegri upplýsingar með heimilsfangi ásamt heimasíðu viðkomandi safns. Tvær aðrar skrár eru þarna einnig, meira til gamans, yfir ýmsa aðra staði sem vert er skoða í UK og eins ýmislegt í London. Þessar skrár eru á lokaða svæðinu fyrir félaga og verða þær uppfærðar eftir því sem tími leyfir. [30.10]jslSérstakur bíll

Evert Kr. Evertsson sendi okkur þessar myndir og upplýsingar um þennan 1936 Ford Tudor Sedan sem var smíðaður fyrir Allegheny Ludlum Steel Division. Bíllinn var notaður sem kynning og eins til notkunar fyrir þá bestu sölumenn hvers árs. Aðeins sex voru gerðir, en fjórir eru ennþá til. Fleiri tegundir voru einnig gerðar seinna, 1960 Thunderbird og 1967 Lincoln Continental. Hægt að lesa meira um þessa tilraun hjá Allegheny Ludlum Steel Division. [29.10]jslMyndir frá föstudagskvöldinu

Eins og hefur komið fram þá var bjórkvöld haldið á Amokka síðasta föstudagskvöld og um leið voru ferðaverðlaun afhent. Sautján náðu að fá verðlaunapening í ár, en mætingar í ferðir síðasta sumar hafa aldrei verið fleiri. Alls voru 717 mætingar skráðar, og er það fyrir utan gesti, en 256 bílar eru á bak við þessar mætingar. Undanfarin ár hafa mætingar vaxið jafnt og þétt og vonandi verður sumarið 2009 ennþá stærra. Nokkrar myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [27.10]jslBjórkvöld og verðlaunaafhending ATH. Breyting á stað!

Föstudagskvöldið 24. október verður afhending verðlauna fyrir ferðamætingu sumarsins á dagskrá í Amokka, Hlíðarsmára 3 í Kópavogi (Air Atlanta-húsinu), og um leið verður bjórkvöld í tilefni sumarloka. Húsið opnar kl. 21 og verður ölið selt gegn vægu gjaldi. Myndir hér fyrir ofan eru frá síðasta miðvikudagskvöldi í Amokka. Nú er um að gera að fjölmenna og gleðjast við lok sumars!
Viðurkenningar vera veittar til þeirra félaga sem mættu í 10 ferðir eða fleiri á nýliðnu sumri. Eigendur 17 fornbíla náðu þessum góða árangri og fá þeir að launum glæsilegan verðlaunapening.
Gullviðurkenningar fyrir 14-15 ferðir fá Ársæll Árnason, Árni og Guðný, Símon A. Pálsson, Jón S. Loftsson, Einar og Diljá, Jón Guðmundsson, Kristín Sunna og Aðalheiður, Rúnar Sigurjónsson og Sigurbjörn Helgason.
Silfurviðurkenningar fyrir 12-13 ferðir fá Sigurður og Marý, Evert Kr. Evertsson, Gunnar og Sigrún, Gunnar og Veiga og Kjartan og Þorgerður.
Bronsviðurkenningar fyrir 10-11 ferðir hljóta Hróbjartur Örn Guðmundsson, Jens Kristján Jensson og Sævar og Ragnheiður.
Þessir aðilar eru beðnir um að mæta á bjórkvöldið föstudagskvöldið 24. október og taka á móti viðurkenningum úr höndum ferðanefndarmanna. [24.10]jsl


Ýmislegt um Bjöllur

Á þessari síðu er að finna ýmislegt sem tengist sögu Bjöllunnar, t.d. samantekt á ýmsum furðulegum fróðleik um Bjölluna, svo auðvitað smá yfirlit yfir söguna. [23.10]jsl/gös

Gamlar bensínstöðvar

Sem betur fer eru margir sem safna saman myndum frá fyrri tímum og jafnvel nenna að koma þeim á netið öðrum til gamans. Á þessari síðu eru teknar fyrir gamlar bensíntöðvar í USA. Á árum áður voru stöðvar oftast í einkaeigu og voru með ýmiskonar aukaþjónustu, svo sem smurþjónustu, verkstæði og björgunarbíla. Reyndar hefur undirritaður oft furðað sig á hversu bensínstöðvar hér í borg eru mikil bákn með miklar lóðir í kring, en svoleiðis sér maður ekki nema í útjaðri borga, t.d. í Englandi. Eins hefur á seinni árum verið enn minna að sækja á þesum stöðvum, nema bara bensín, þar sem oft eru illfáanlegar bílavörur þar sem aðaláherslan er að selja gos og sælgæti á þessum stöðvum. [20.10]jsl


Gamlar myndir

Mjög algengt var að mynda eigendur við bíla sína áður fyrr, sérstaklega þegar almenningur fór að eignast sínar eigin myndavélar. Í dag eru bílar svo hversdagslegir að ekki þykir neitt merkilegt að mynda eigendur við þá og oft á fólk engar myndir af þeim bílum sem hafa verið í eigu þeirra, nema þeir hafi slysast til að vera í bakgrunni fjölskyldumynda. Á þessari síðu er að finna skemmtilegar myndir fá fyrri árum. [17.10]jsl/gös


Útrásinni lokið

Nú hafa allir skilað sér heim sem voru í sínum árlegu haustferðalögum, smá hópur fór til Hershey eins og venjulega og undirritaður ásamt Þorgeiri Kjartanssyni fór í árlega skoðunarferð til UK. Að þessu sinni voru skoðuð söfnin Museum of Transport í Glasgow, Myreton Motor Museum í East Lothian, Grampian Transport Museum í Aberdeenshire og Lakeland Motor Museum í Cumbria. Eitthvað af myndum liggja eftir þessa ferð og verður myndasýning á dagskrá síðar í vetur. [16.10]jsl


Haustsamkoma AACA

Í dag opnar hin árlega samkoma Antique Automobile Club of America í Hershey. Smá hópur félaga hefur farið á þessa samkomu í mörg ár, en fyrst var haldin samkoma á þessu svæði árið 1954. Í dag er þetta orðin með þeim stærri samkomum í US. Á heimasíðu samkomunnar er að finna ýmsar upplýsingar fyrir gesti og sýnendur en einnig ýmislegt fróðlegt um sögu samkomunnar, sérstaklega loftmyndir af svæðinu allt frá 1965 og er gaman að bera saman hversu svæðið hefur stækkað sem fer undir samkomuna. [08.10]jsl


Draumur Cord´s

E. L. Cord sem framleiddi Cord og Auburn hafði stóra drauma um að framleiða enn betri bíla, þótt að Cord og Auburn hafi nú ekki verið taldar einhverjar druslur á þessum tíma. Cord hafði fylgst með bræðrum sem höfðu vakið athygli fyrir sína bíla, aðallega fyrir kappakstur, og fyrir 82 árum rann saman við Cord fyrirtæki þeirra bræðra og Frederick og August Duesenberg tóku við að gera draum Cord´s að veruleika. Tveimur árum seinna var Duesenberg Model J kynntur, og þar með var kominn bíll sem markaði bílasöguna og fljótlega var farið að tala um "Duesie" sem samnefnara um lúxusbíla. Ekkert af þessum merkjum lifði af kreppuna miklu og fór fyrirtæki Cord´s á hausinn, þó að seinna meir hafi fyrirtækið verið endurvakið að einhverju leyti. Cord, Auburn þykja dýrir söfnunarbílar en Duesenberg toppar þá samt auðveldlega enda margfalt meiri bílar og fáir framleiddir. [06.10]jsl


Jowett Jupiter

Jowett Cars Ltd í Bradford, Bretlandi, framleiddi fólks og atvinnubíla frá 1906 til 1954, en á árunum ´50 til ´54 var Jowett Jupiter sportbíllinn framleiddur. Mikið er ennþá um þessa bíla í Bretlandi, og víðar, og eru margir klúbbar og síður tileinkaðar Jowett. Reyndar vill breski Jowett klúbburinn telja sig sem elsta eins-bíla klúbbinn stofnaðan árið 1923 og tölvuvæddur 1974! Hérna er ýmislegt um Jowett. Jowett Club - Jowett Jupiter [03.10]jsl/gös


Verkfærasafn

Það er örugglega til safn yfir hvaða hluti sem er, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem til eru söfn um ótrúlegustu hluti. Verkfærasafn er nokkuð sniðug hugmynd, sérstaklega þar sem komnar eru kynslóðir sem vita ekkert um hvernig á að nota jafnvel einföldustu verkfæri. Safn þetta er í Oroville Kalíforníu, og ekki veitir af að fræða fólk þar, og var opnað árið 2006 í gömlu húsi sem hefur verið gert upp. Heimasíða þeirra sýnir nokkrar myndir frá safninu, en því er skipt upp eftir flokkum verkfæra. [02.10]jsl/gös


Léttari hliðin

Eins og allt bílaáhugafólk þekkir þá er nauðsynlegt að hafa létt spaug í kringum þetta áhugamál okkar. Oft er nóg að þrír hittast sem hallast að vissum tegundum og skotin fara að fljúga. Margt skemmtilegt hafur verið sett inn á netið þar sem teknir eru saman brandarar um tegundir og fl., en á þessum tveimur síðum er eitt það besta efni sem undirritaður hefur séð lengi. Önnur síðan fjallar um Lucas en eins og flestir vita þá fann Lucas upp myrkrið (vísun í rafkerfi breskra bíla) og síðan orðskýringar við Haynes viðgerðabækurnar. Þar eru frábærar lýsingar og auðvelt að finna aðstæður sem maður hefur lent í sjálfur t.d. "Haynes: Get an assistant... Translation: Prepare to humiliate yourself in front of someone you know." [01.10]jsl