Eldri fréttir - September 2008


Húdd-skraut

Í gegnum árin var ýmiskonar húdd-skraut á bílum og oftar á dýrari og/eða flaggskipum framleiðanda. Í fyrstu var þetta ekki beint skraut, heldur hitamælar fyrir vatnskassann en þróast yfir í merki og skraut. Á tímabili hér á landi var mönnum gert að saga þessi merki af þar sem þau þóttu hættuleg, gæti svo sem verið í vissum tilfellum, en held að þau hafi verið minnsta vandamálið fyrir þann sem ekið var á, en þetta var ein af mörgum ákvörðunum gamla Bifreiðaeftirlitis Ríkisins. Á nýlegri sýningu í Kalíforníu valdi classiccars.about.com þau topp tíu sem þóttu bera af þar. [29.09]jslHúsið klætt

Vel gengur með byggingu klúbbsins við Rafstöðvarveg og er nú unnið við klæðningu hússins.Í dag var verið að undirbúa að glerja, en búið er að setja alla glugga í, nema eftir er smá frágangur á stóra glugganum í enda hússins. Burður fyrir þakið er klár og er næsta skref að einangra og klæða, en rigningar undanfarið hafa tafið það verk. Óhætt er að segja að verkið hafi gengið vel þegar það loks fór af stað, en mikil vinna hefur verið lögð í að ná sem bestu samningum vegna aðfanga og verkþátta. Umsjón á verkinu hefur bygginganefnd í samvinnu við stjórn klúbbsins. En hita og þunga þessara framkvæmda hafa Sævar Pétursson formaður og Halldór Gíslason ritari borið vegna samninga, leitun tilboða, eftirliti, lánafyrirgreiðslu og fl. Utan þess hefur Halldór lagt til hundruði vinnutíma vegna funda, tilboða, öflun leyfa, samninga og ekki síst vegna beinnar vinnu með flutningum á efni. Margir fleiri aðilar hafa einnig komið að góðri fyrirgreiðslu, en haldin er skrá yfir þá aðila sem hafa styrkt klúbbinn í þessum framkvæmdum. [26.09]jslVel heppnuð ferð að Stóragerði

Síðasta laugardag fóru 28 fornbílamenn og konur, bæði frá Selfossi og höfuðborginni, í einstaklega skemmtilega ferð á samgönguminjasafnið að Stóragerði. Fyrsti áfangastaður var hjá Sæmundi í Borgarnesi en þar voru móttökurnar vægast sagt stórkostlegar. Skoðaður bílakosturinn hans um leið og boðið var upp á bakkelsi og léttar veitingar. Það var ekki laust við að gamlir sveitaballataktar tækju sig upp hjá farþegum eftir veitingarnar hjá Sæmundi. Eftir hádegisverð í Staðarskála var síðan haldið að Stóragerði, en þar var . ferðalöngum mjög vel tekið af Gunnari og fjölskyldu. Menn gáfu sér góðan tíma til að skoða safnið, enda sérstaklega vel úr garði gert. Komið var síðan aftur til byggða síðla kvölds eftir góðan dag.. Menn höfðu á orði að þetta þyrfti að endurtaka fyrr en síðar. Athygli vakti að fimm úr hópnum höfðu í gegnum árin ekið þeirri rútu sem var notuð í ferðinni, en það er 1974 Scania FB 110 sem er sú síðasta er var yfirsmíðuð hjá Bílasmiðju Kaupfélags Árnesinga. Þeir eru: Eyvindur Þórarinsson, Guðlaugur Jónsson, Ingvar Ólafsson, Guðmundur Óskarsson og Kári Reynisson. Margar myndir voru teknar í ferðinni og verður þeim gert betur skil væntanlega í október á opnu húsi. [24.09]jsl/gtÚrslit í HERO rallinu

Endanleg úrslit hafa verið birt úr HERO fornbílarallinu sem var haldið hér á landi í byrjun september. Ýmiskonar verðlaun eru veitt í þessum keppnum, t.d.eru liðsverðlaun, eftir þjóðerni, bestu bílarnir, byrjandaverðlaun og fl. Heildarverðlaun úr keppninni hlutu Mark Godfrey og Sue Godfrey á 1969 Ford Escort Mk1, í öðru sæti Paul Wignall og Fred Bent á 1970 Porsche 911S og þriðja sæti Jayne Wignall og Kevin Savage á 1965 Sunbeam Tiger. Á heimasíðu HERO er hægt að sjá nánar um úrslit, stigagjöf og síðan skemmtilega lesningu um viðburði hvers dags. Undirbúningur fyrir næstu keppni sem verður væntanlega í apríl 2010 er hafinn og vonandi sjáum við fleiri íslenska keppendur taka þátt næst. [22.09]jsl


Bílnúmer allra landa

Skráningarnúmer bíla á sér langa sögu, en á fyrstu árum var lítið spáð í hvort bílar væru skráðir frekar en að það væru sérlærðir ökumenn á bílunum. Fljótlega var fundið út að hægt væri að skattleggja bíla og auðvitað varð þá þörf á að skrá þá. Númeraplötur bíla hafa breyst í gegnum árin sérstaklega vegna fjölgunar þeirra og ýmissa reglugerða. Safnarar eru í þessu eins og öllu öðru og á þessari síðu er að hægt að sjá númer frá öllum löndum og frá ýmsum árum, einnig sérnúmer svo sem vegna hers eða annars. Þar er einnig tenglalisti yfir aðrar síður safnara, klúbba og annað sem tilheyrir númerum. [19.09]jsl/gös


Kaiser í Húnaþingi

Björgvin Ólafsson benti okkur á smá frétt á Norðanátt.is þar sem fjallað er um heimkomu 1953 Kaiser. Jón Húnfjörð í Múla fékk hann nýjan og átti meðan hann lifði, en nú er Ágúst Sigurðsson búinn að eignast hann og væntanlega stendur til yfirhalning og að koma honum á götuna. Kaiser var framleiddur af Kaiser-Frazer Corporation sem var tilkomið af samruna fyrirtækja Henry J. Kaiser og Joseph W. Frazer, inn í fyrirtækið hafði einnig runnið það sem eftir var af Graham-Paige Motor Company. Árið 1953 keyptu þeir einnig Willys-Overland og var fyrirtækið sameinað undir nafninu Willys Motors og um leið var ákveðið að hætta framleiðslu fólksbíla. Kaiser Jeep Corporation hét síðan fyrirtækið þar til það var selt til AMC sem síðan rann inn í Chrysler, og má þá segja að hringurinn hafi lokast þar sem Joseph W. Frazer vann hjá Chrysler áður en hann fór í samstarf með Kaiser. Nokkrir Kaiser bílar hafa verið hér í gegnum árin, en líklega er enginn þeirra á götunni svo vitað sé. [17.09]jsl


Árni Magnússon

Fyrrverandi félagi okkar Árni Magnússon er fallinn frá. Margir af eldri félögum þekktu Árna vel, en hann var afar virkur í félagsstarfinu á fyrstu árum klúbbsins og var einn af þeim sem stóðu að fyrstu ferðum félaga og ýmsum uppákomum sem síðan mynduðu grunn þeirrar dagskrá sem er í dag. Árni tók einnig þátt í að koma fyrsta félagsheimili klúbbsins í gang og var oft fundarstjóri á aðalfundum. Síðustu ár átti Árni í langvarandi veikindum en fylgdist vel með því sem gerðist í klúbbnum í gegnum vini sína þar. Árna var veitt heiðursviðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu klúbbsins á síðasta aðalfundi FBÍ. Stjórn og félagar senda aðstandendum samúðarkveðjur. [16.09]Esjumelur í gærdag

Síðasta ferð sumars var í gærdag er varahlutamarkaður og opið hús var í geymslum klúbbsins á Esjumel. Þrátt fyrir blautan dag var mikill fjöldi fólks sem kíkti í geymslurnar en félagar fengu skemmtilega heimsókn þegar eigendur þriggja bíla sem komu hingað vegna fornbílarallsins litu við. Um kl. 16 var farið í þá fornbílaspyrnu (100m) sem auglýst var, þó að ekki væru margir þátttakendur, enda var hún meira til gamans frekar en mikil keppni. Bretarnir vildu auðvitað vera með og rúllaði einn þeirra upp sínum flokki (6 strokka) og eins öllum nema einum í V8 flokki. Hróbjartur Ö. Guðmundsson sigraði (4 st) á 1971 Sunbeam, David Roberts (6 st) á 1968 Triumph TR250 og Helgi Guðlaugsson (8 st) á 1969 Mustang. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [15.09]jslLagonda

Af þeim bílum sem eru hér í heimsókn núna vegna rallsins, hefur borið mest á að menn eru ekki vissir um uppruna Lagonda bílanna, en þeir eru breskir. Það var Wilbur Gunn, bandarískur, sem kom til Englands og byrjaði að framleiða mótorhjól árið 1898 í garðhúsinu sínu. Þóttu hjólin standa sig vel og tóku Lagonda hjól þátt í keppnum fyrir hönd Englands. Árið 1904 var stofnað fyrirtæki um framleiðsluna og fljótlega var byrjað að framleiða létta bíla. Árin liðu, bílarnir stækkuðu og ný módel komu reglulega fram. Undir seinni heimsstyrjöld fór að halla undan og nýjir aðilar komu að fyrirtækinu sem fær nafnið LG Motors, en um leið er hent út ýmsum tegundum sem voru að fara í framleiðslu, þar á meðal Rapier, en Tim Ashcroft hafði hannað hann. Fór svo að Tim stofnaði Rapier Cars Limited. Fleiri breytingar urðu á fyrirtækinu en eftir stríðið var skömmtun á stáli og fór svo að David Brown keypti fyrirtækið og sameinaði við Aston Martin sem hann hafði einnig keypt. Hér er hægt að lesa meira um sögu Lagonda. [10.09]jslLjósanótt

Góð mæting bíla var í akstur um Keflavík á Ljósanótt, eins og venjulega, og voru rúmlega 110 bílar sem óku að sýningasvæðinu. Eftir að dagskrá lauk var nokkur hópur eftir sem grillaði saman hjá Magga félaga okkar í Keflavík, enda passar tjaldið okkar akkúrat í garðinn hjá honum. Því miður var venjulega kaffiaðstaðan fyrir félaga flautuð af á síðustu stundu, ekki víst að allir hafi vitað af þeirri breytingu, en á næsta ári munum við sjálfir sjá um það svo að ekki sé verið að hræra með staðsetningu. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [08.09]jslHERO rallið - skoðun

Mikil bílaveisla var í Frumherja í morgun þegar þátttakendur fornbílarallsins mættu í skoðun og skráningu, en 65 bílar taka þátt. Sjálft rallið byrjar á sunnudagsmorgun og fyrsta tímaþraut verður við Kringluna um kl. 08.30, sjá nánari dagskrá rallsins. Nokkrar myndir frá morgninum, en síðar í haust verðum við með myndakvöld frá rallinu. [06.09]jsl


Myndir frá rúnti 3. sept.

Síðasta miðvikudagskvöld var óformlegur rúntur, en venjulegt rabbkvöld var á dagskrá í Árbænum. Um 30 bílar mættu til að fara rúnt um bæinn, Þorgeir Kjartansson tók nokkrar myndir fyrir okkur til að skoða. [05.09]jsl


HERO-Fornbílarallið að bresta á

Fornbílarallið hefst 7. sept. og stendur til 12. sept. Til landsins koma 65 bílar til að taka þátt í rallinu og tilheyrandi mannskapur, elsti bíllinn er 1922 Bentley Tourer og sá yngsti er 1981 Lotus Sunbeam. Hægt verður að sjá bílana í öryggisskoðun hjá Frumherja, Hesthálsi, laugardaginn 6. sept. og hefst hún kl. 09.

Sunnudaginn 7. sept. er áætluð mæting félaga á Grand Hótel kl. 20 til að sjá bílana, hitta hópinn og sýna þeim okkar bíla um leið. Á lokadegi rallsins, 12. september, verður skemmtileg tímaþraut á neðra planinu hjá Perlunni og hefst hún um kl. 17. Þar verða bílarnir ljósmyndaðir. Fornbílaklúbbsfélagar eru að sjálfsögðu velkomnir með sína bíla. Að öðru leyti er hægt að sjá allt um rallið hér. [03.09]jsl


Vélar

Á þessari síðu er að finna ýmislegt um gamlar vélar, bæði uppgerðar, módel af vélum, myndir frá sýningum o. fl. Eins er þarna skemmtileg útskýring á hvernig ýmsar vélagerðir virka og sýnt með einföldum hreyfimyndum. [01.09]jsl/gös