Eldri fréttir - Júlí 2008


Kvennarúnturinn

Í gærkvöldi tóku konurnar völdin, flestar allavega, og óku bílunum á rúntinum í gærkvöldi. Var farinn stór rúntur um Reykjavíkur svæðið og endað á Amokka í Hlíðarsmára, en þar var því kvenfólki sem var með í för boðið í kaffi, en karlarnir sáu um sig sjálfir. Einnig fengu allar konur snyrtivöruprufur og rauða rós frá Ferðanefnd. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [31.07]jsl


Bring A Trailer

Hérna er ágætis bílasíða þar sem er að finna innsent efni frá ýmsum aðilum. Hægt er að skoða efnið eftir framleiðslulöndum tegunda og eins að gefa komment á efnið. http://bringatrailer.com [30.07]jsl/gös


Men's Vogue

Flestir hafa heyrt um kvennablöðin Vogue og önnur álíka tískublöð, en við höfðum aldrei heyrt um karlaútgáfu af Vogue fyrr en síða þeirra fannst á netinu. Greinilega er blaðið stílað á "uppakynslóðina" og ekki víst að blaðið yrði efst á áskriftarlista bílaklúbba, en þarna eru samt ýmsar greinar sem fjalla um bíla, misgóðar að vísu. Netútgáfu blaðsins er að finna hér. [28.07]jsl/gös


Dýrustu fornbílarnir

Í águst verða aðaluppboðin í US í tengslum við eðalbíla sýninguna á Pebble Beach. Sex uppboðs fyrirtæki munu bjóða upp um 700 bíla og nú er spurning hvort ný met verða sett eða hvort kreppa sé komin í fornbílamarkaðinn. Hér er hægt að skoða lista sem hefur verið tekinn saman yfir þá bíla sem hafa farið hæðst í síðustu uppboðum. Þarna er að finna ýmsar tegundir sem eru sjaldgæfar og verðið er allt að 850 milljónir. Allavega er hægt að láta sig dreyma. [25.07]jslMyndir frá picnic samkomu og Flint

Um helgina voru þrír klúbbar í Michigan með picnic samkomu þar sem aðallega komu saman elstu bílar. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari samkomu. Einnig um helgina var skrúðakstur bíla í kringum 100 ára afmæli GM í Flint. Bílar sem höfðu verið framleiddir í Flint voru mest áberandi, Chevrolet og Buick, en allar tegundir frá GM voru með í akstrinum. Um 250 bílar tóku þátt allt frá þeim elstu til húsbíla . Nokkrar myndir frá akstrinum. [24.07]jslAustur-Evrópu bílar

Valberg Helgason sendi okkur þessar myndir af bílum sem eru til sölu, en hann er í sambandi við aðila sem kaupa bíla á uppboðum í austur-Evrópu. Hægt er að velja um hundruði bíla af ýmsum tegundum og árgerðum. Eins og margt annað sem er gert öðruvísi þarna austurfrá, þá er skýring þeirra á því hvers vegna bílarnir væru svona skítugir að það gæti verið gaman fyrir nýjan eiganda að eiga myndir "fyrir og eftir"! Hægt er að hafa samband við Valberg á valbergh@simnet.is ef áhugi er á að fá meiri upplýsingar. [23.07]jslHelgarferðin

Helgar og grillferðin var um síðustu helgi í Stykkishólmi. Nokkur hópur fornbílafólks mætti á svæðið og naut góðs veðurs um helgina. Á laugardeginum fór partur af hópnum í siglingu um Breiðafjörð, en sumir gengu á Helgafell eða fóru í skoðunarferð. Um kvöldið var síðan grillað í boði Ferðanefndar og Kjötsmiðjunnar, en eftir matinn var sungið og spilað í tjaldinu fram á nótt. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [21.07]jsl


GM hátíðarhöld

Um þessa helgi verða ýmis hátíðarhöld haldin í Flint, Michigan, í tilefni 100 ára afmælis GM. Flint var lengi aðalstaður GM veldisins, en er nú bara skuggi af því sem var áður, líkt og með aðrar bílaborgir. Þrátt fyrir ýmsar sögur af endanlegu falli GM verður samt haldið upp á þessi 100 ár enda engin ástæða til að gleyma sögunni þó ílla gangi. Á heimasíðu sem fjallar um afmælið er að finna ýmsan fróðleik um sögu Flint, dagskrá hátíðarhalda og annað sem tengist sögu GM í Flint. [18.07]jslHvanneyri um helgina

Síðastliðinn sunnudag var hinn árlegi safnadagur haldinn hátíðlegur á Hvanneyri og af því tilefni var efnt til skrúðaksturs á gömlum Ferguson dráttarvélum, en Haukur Júlíusson í Jöfra leiddi hópinn. Um þriðja tug Ferguson dráttarvéla frá ýmsum árum tóku þátt í akstrinum. Ekið var um Andarkíl um Skorradal, yfir Hestháls fyrir mynni Lundarreykjadals yfir Grímsá á vaði og að Fossatúni þar sem menn og konur fengu sér kaffi eftir votan, en skemmtilegan dag. Veitt var viðurkenning fyrir frumlegasta klæðnaðinn í anda aldurs véla, og annar þeirra er hlaut viðurkenningu var í sömu úlpunni (sjá mynd 18) og hann var í þegar hann sótti sinn nýja MF-135 fyrir 39 árum. Myndir frá deginum. [15.07]þkSmábílarúnturinn

Síðasta föstudagskvöld var smábílarúntur á dagskrá. Greinilega hafa margir eigendur minni fornbíla verið út úr bænum þetta föstudagskvöld, þar sem mæting var frekar lítil. Þeir sem mættu höfðu allavega gaman af og fóru smá rúnt um bæinn. [14.07]jslFornbílalundur í gærkvöldi

Góður hópur fornbílafólks á 20 fornbílum mætti við Salarlaug í gærkvöldi en hélt síðan upp í Guðmundarlund þar sem hópurinn stoppaði í smá stund. Gróðursett var síðan í svæðinu okkar og hlúð að plöntum fyrra árs. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [10.07]jslFrá helginni

Á laugardaginn voru nokkrir bílar mættir að Borg í Grímsnesi, að ósk Hollvina Grímsness, en félagið hefur staðið að ýmsum uppákomum síðustu helgar. Aðallega var óskað eftir bílum sem þekktust í sveitum áður fyrr og eru myndir frá þessum atburði hér fyrir ofan.
Á sunnudeginum var hinn árlegi fornbíladagur í Árbæjarsafninu og var þetta um leið fatadagur. Þrátt fyrir mikla ferðahelgi var fín mæting og margir í góðum "dressum". Um miðjan dag voru grillaðar pylsur og félagar nutu dagsins í safninu. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [07.07]jslEinkafornbílasafn selt

Art Astor byrjaði að safna fornbílum fyrir 30 árum og safnið hans var talið eitt af þeim bestu í einkaeigu. Vegna aldurs ákvað Art að minnka við sig og var uppboð í byrjun júli á 200 bílum úr safni hans. Þessir bílar fóru frá 290 þús. upp í 48.6 milljónir fyrir 1938 Cadillac V16 Convertible Coupe. Bílana er hægt að sjá á uppboðsvefnum en fyrir utan góðar myndir af þeim er að finna góðar upplýsingar og sögu viðkomandi bíls. [03.07]jsl


Meira af Landsmóti

Nú er búið að vinna myndir og telja mætingarpunkta eftir helgina og allt komið á sinn stað á netinu. Þetta var fjölmennasta mótið hingað til, hvort sem er litið á fjölda bíla sem voru sýndir, fjölda þeirra sem fengu mætingarpunkta (75% viðvera) og fjöldi þeirra sem mættu í grillið, grillaður matur fyrir 210 manns, og fjöldi þeirra sem gistu um helgina. Skemmtilegast er að sjá hversu mikið af fjölskyldum mæta og vakti það athygli þeirra erlendu gesta að sjá ekki bara eigendur með bíla sína að ræða saman um vélar og bíla. Úrslit úr velti-pétri (bílaþraut) var að Halldór Jónsson var í þriðja sæti, Georg Óskar Ólafsson var í öðru sæti og Kristinn Sigurðsson hlaut fyrsta sæti með besta tíma sem hefur náðst í þessari þraut. Myndir frá helginni eru komnar á Myndasíðu, og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [01.07]jsl