Eldri fréttir - Mars 2008

Vorverkin hafin í númeradeildinni

Nú hafa yfir 630 númerasett verið framleidd hjá númeradeild klúbbsins, en þrátt fyrir þann frábæra árangur virðist sem að nokkrum fornbílum sé enn misþyrmt með hvítum plötum og er það miður! Nú þarf að vinda bráðan bug að því að bjarga þessum bílum yfir á steðjanúmer og það fyrir skoðunardaginn í maí. Einungis þarf að hafa samband við Umferðarstofu, sem úthlutar skráningu gegn 500 kr. gjaldi, og síðan tekur númeradeildin við pöntunum í síma 895-2400. Alla fornbíla á fornnúmer fyrir sumarið! [31.03]ösTeiknaðar bílamyndir

Ólafur Sveinsson hefur verið að gera blýantsteikningar af ýmsum farartækjum sem hann hefur rekist á í sínu umhverfi. Stefnt er að sýna þessar myndir á Samgönguminjasafninu á Ystafelli í sumar, en einnig er hægt að fá myndir eftir pöntun hjá honum. Erlendis er mjög þekkt að hægt sé að fá teiknaðar myndir af sínum bíl en það er ekki allra að teikna bíla þó að þeir séu góðir á öðrum sviðum myndlistar. Annar góður teiknari hefur verið að gera myndir eftir pöntun á okkar samkomum, Sigurður Valur Sigurðsson, en ekki virðast vera myndir á netinu frá honum. Á heimasíðu Ólafs er hægt að sjá myndir eftir hann, einnig virðist Ólafur fikta eitthvað við "pinstripe" skreytingar. [28.03]jslDóta og verkfærakvöldið

Í gærkvöldi var þetta árlega kvöld í Árbænum og sýndu nokkrir félagar sín bílasöfn og annað áhugavert. Ingibergur Bjarnason hlaut verðlaun fyir áhugaverðasta safnið en Stefán Ásgeirsson sigraði í getraun um bílategundir. [27.03]jsl


Grein um rafmagnsbíla

Aðal uppgangur bíla sem gengu fyrir rafmagni var fyrir daga auðvelds aðgangs að olíu og áður en nothæft vegakerfi á milli borga var til. Þó að rafmagnsbílar hafi komið við sögu í gegnum árin, allt frá 1832, þá er varla hægt að segja að þeir séu algengir í dag þrátt fyrir allar þær tilraunir sem hafa verið gerðar til að koma þeim á almennan markað. Hér er hægt að sjá smá grein um sögu rafmagnsbíla og yfirlit yfir þær tegundir sem gerðar hafa verið. Það er kannski ekki svo vitlaust að fá sér rafmagnsbíl sem fornbíl eins og staða bensínverðs er í dag. [26.03]jsl/gösAutorama sýningin

Nýlega var hin árlega Autorama sýning haldin, en þar eru sýndir breyttir bílar, hot-rod´s og sérsmíðaðir bílar. Að þessu sinni hlaut Ridler verðlaunin 1960 Rambler station wagon, en þau verðlaun geta þeir breyttu bílar hlotið sem eru sýndir í fyrsta sinn á þessari sýningu og eru þau styrkt af General Motors Performance Parts. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessari sýningu. Fréttir verða næst eftir páska. [19.03]jsl


Myndasíða

Phil Seed hefur safnað saman myndum af ýmsum bílategundum sem hann hefur komið fyrir á heimasíðu sinni. Bæði eru þetta myndir sem eru skannaðar úr bæklingum eða teknar á sýningum. [17.03]jsl/gös


Old Woodies

Þessi skemmtilega síða er tileinkuð bílum sem eru byggðir úr við, annað hvort að mestu eða með viðarklæðningar. Mikið var um að bílar væru með húsi og jafnvel grind úr viði en seinna meir þótti flott að vera með viðarklæðningu á hliðum bíla. Á myndasíðu þeirra er hægt að skoða bíla flokkaða eftir tegundum og gerðum. [14.03]jsl/gös


Hot Rods

Hot Rods at the Beach Car Show er samkoma sem hefur verið haldin síðustu 10 ár en er um leið fjáröflun fyrir lögreglu og slökkvilið í Santa Cruz. Hérna er hægt að sjá nokkar myndir frá síðustu samkomu. [13.03]jsl/gös


Nefsholt.com

Okkur barst ábending um þessa síðu sem er tengd bænum Nefsholti í Holtum og er þar að finna myndaalbúm með ýmsum myndaflokkum. Meðal mynda er flokkur með myndum af ýmsum bílum og dráttarvélum, einnig er að finna þarna gamlar afréttamyndir þar sem hægt er að sjá ýmis eldri farartæki í notkun. [12.03]jsl


Classic Nation

Hjá Classic Nation er að finna ýmislegt sem viðkemur eldri bílum, t.d. eru stuttar fréttir af viðburðum eða smá greinar um málefni sem tengjast fornbílum. Þarna er einnig að finna gott myndasafn frá ýmsum samkomum. [11.03]jsl/gös


London Transport Museum

Um helgina var undirritaður og Þorgeir Kjartansson að skoða þetta safn, sem hefur verið lokað í rúmlega tvö ár vegna stækkunar og uppgerðar húsnæðis þess.Á safninu er að finna farartæki sem sýna þróun þeirra frá hestvögnum til nútíma lesta ,en vegna þessara framkvæmda þurfti að fjarlægja alla sýningargripi og þeir sem þekkja til staðsetningar safnsins þá er ekki auðvelt fyrir stórvirk flutningatæki að athafna sig á þessu svæði fyrir utan Covent Garden. Safnið á sögu aftur til 1920 þegar farið var að halda til haga gömlum fólksflutningavögnum en opnar síðan sýningarsal upp úr árinu 1960. Safnið var síðan flutt á núverandi stað um 1980. Þar sem safnið er í húsi frá 1871 þá er það friðað að nokkru leyti og gerir það allar framkvæmdir dýrar, en stækkun og viðhaldsframkvæmdir í heild kostuðu rétt undir 3 milljörðum króna. Sýndar verða myndir frá safninu við tækifæri á næstunni. London Transport Museum [10.03]jsl


Fornbílarall í haust

HERO - Historic Endurance Rallying Organisation, stendur fyrir fornbílaralli hér í september og hafa þegar 63 bílar verið skráðir til keppni. Elsti bíllinn er 1923 Bentley og sá yngsti 1981 Lotus Sunbeam. Búist er við hópnum í byrjun september en rallið sjálft er í sex daga. Fornbílaklúbburinn, Bílaklúbbur Akureyrar og fleiri aðilar verða þeim innan handar við komu og á ferð um landið. Einnig verður óskað eftir aðilum á viðkomustöðum sem gætu aðstoðað með viðgerðaraðstöðu eða annað, en dagskrá rallsins er hægt að sjá hér. Auðvitað verða fluttar fréttir af þessu þegar nær dregur og eins á meðan rallið stendur yfir. Þess má geta að Íslenskum áhöfnum er velkomið að taka þátt. An Icelandic Odyssey [07.03]jsl


Í gærkvöldi

Farið var í heimsókn til Einars Gíslasonar, formanns ferðanefndar, þar sem hann sýndi félögum part af bílasafni sínu. Meðal þeirra bíla var sá nýjasti í safninu, auðvitað Buick, en sú tegund er aðaluppistaða bílsafns hans. Nokkrar myndir frá gærkvöldinu eru komnar á myndasíðu og eins eru hér stærri og fleiri fyrir félaga. [06.03]jsl


Ný afsláttarkjör

Undanfarið hefur verið að yfirfara þau afsláttarkjör sem bjóðast félögum og er nú búið að bæta við nokkrum nýjum fyrirtækjum við listann yfir afsláttarkjör. Á næstu mánuðum verða fleiri aðilum bætt við, eftir því sem semst. Um leið er félögum bent á að nýta sér þjónustu þessara aðila, og auðvitað verður alltaf að sýna félagsskírteinið til að fá viðkomandi afslátt. [05.03]jsl


Boddýstál fyrir fornbílamenn

Einn af félögum Fornbílaklúbbsins til margra ára, Einar Þór Jónsson, hefur stofnað sitt eigið fyrirtæki, Sindrason ehf, sem sérhæfir sig í innflutningi á áli og stáli. Klúbburinn hefur náð hagstæðum samningum við Einar um kaup á áli til númeraframleiðslu og nú býður hann félagsmönnum klúbbsins, með góðum afslætti, mjúkt kaldvalsað boddýstál, sem hentar mjög vel í alla ryðbætingarvinnu. Netfangið hjá Einari er einar@sindrason.is og síminn 575-3100. [03.03]ös