Eldri fréttir - Nóvember 2007


Heimasmíðaður "fornbíll"

Það eru ekki bara stórar "drossíur" eða dýrir sjaldgæfir bílar sem eru í safni Jay Leno. Fyrir nokkrum árum eignaðist hann heimasmíðaðann þriggja hjóla bíl sem Bob Shotwell nokkur hafði smíðað fyrir um 70 árum. Bob hafði haldið upp á þennan bíl, en þegar aldur fór að segja til sín vildi hann koma bílnum í góðar hendur. Þessi bíll var gerður úr ýmsum hlutum svo sem framenda af Ford A og mótor úr gömlu Indian mótorhjóli. Hérna er hægt að sjá smá grein um bílinn á heimasíðu Jay Leno, en þar segir hann í lokin að það sé sérlega gaman af svona grip er var smíðaður á einfaldari tímum og sér fyrir sér hvernig skráning bílsins hafi farið fram, "Virka ljós? en flauta? Ok. hérna eru númerin". [30.11]jslMyndir frá Daytona

Hið árlega Turkey Run er nýafstaðið í Daytona, en smá myndaúrval er komið á netið frá samkomu þessa árs. Meðal myndanna eru nokkrar af þeim hópi sem fór frá Íslandi að þessu sinni og eru mörg kunnugleg andlit að sjá þarna. Vonandi verður hægt að hafa myndasýningu seinna í vetur frá þessari ferð, ef einhver hefur verið duglegur með myndavélina. [29.11]jsl


Fyrirspurnir um varahluti

Nú hefur verið opnaður sérstakur dálkur á Fornbílaspjallinu sem er ætlaður vegna fyrirspurna til Varahlutanefndar klúbbsins um hvort tilteknir varahlutir séu til í geymslum klúbbsins. Fyrirspurnum verður svarað eins fljótt og hægt er, en varahlutanefndarmenn eru við störf einu sinni í viku á Esjumelnum og ólíklegt að þeir geti svarað öllu eftir minni. Ekki þarf að skrá sig á spjallið til að setja inn fyrirspurn og þeim verður svarað á spjallinu nema menn biðji um svar á annan hátt, og þarf þá að fylgja sími eða netfang. [27.11]jslA Fordinn 80 ára

Þó að heimildir greini á um nákvæma dagsetningu kynningar Ford á Model A, þá er dagurinn í dag talinn vera kynningardagur A týpunnar. Flestir þekkja sögu þessa bíls enda næsta skrefið eftir T Ford en þetta var reyndar týpa tvö, þar sem Ford A hafði verið til áður, það var árið 1903 sem hann kom á markað. Nokkrir A Fordar eru hér á landi í fullu fjöri og gefa nýrri bílum ekkert eftir í ferðum klúbbsins og þurfa sumir jafnvel að hafa sig alla við til að halda í þá. [26.11]jslFyrstu vélsleðarnir

Akkúrat fyrir 80 árum fékk Carl Eliason einkaleyfi á vélsleða sem hann hafði verið að þróa síðustu tvö ár. Til að byrja með var sleði Carls byggður úr allskonar hlutum frá bæði bílum, reiðhjólum og venjulegum skíðum. Nokkru seinna var Eliason Motor Toboggan stofnað til að framleiða vélsleðana og brátt varð Toboggan þekkt víða um heim. Einn stærsti kaupandi sleðanna þessi fyrstu ár var Bandaríski herinn sem keypti 150 vélsleða til að nota í Alaska í seinni heimstyrjöld. Á þessum tíma var Four Wheel Drive Auto Company búið að koma inn í fyrirtæki Carls og þróun vélsleðans hélt áfram. Árið 1955 var einkaleyfið að renna út og fleiri merki koma á markaðinn, upp frá því dalar framleiðslan og árið 1963 er framleiðslu hætt. Hérna er hægt að lesa meira um sögu Eliason Motor Toboggan, en einnig er þar listi yfir þau söfn sem hafa Toboggan í sinni vörslu. [22.11]jsl


Rúntklúbbur í US

Detroit Metrocruisers er nafnið á klúbbi í Detroit, en eins og nafnið gefur til kynna þá er rúntur aðallega á dagskrá hjá þeim. Á heimasíðu þeirra er að finna myndir frá rúntum og eins er hér að finna myndir frá þeim nýjasta sem var um síðustu helgi. [21.11]jsl


Skemmtileg myndakeppni

Í fyrra var myndakeppni hjá FreakingNews! þar sem hægt var að senda inn myndir sem sýndu hugmyndir manna um nútíma fornbíla, sambland af nýjum og gömlum bílum. Þarna komu fram myndir af bílum þar sem var búið að sameina tegundir og eins gera nýja bíla sem gamla. Sumar hugmyndirnar, sem allar eru gerðar í Photoshop, eru ekki svo galnar og margar myndirnar mjög vel gerðar, fyrir utan þessa sem er af Bjöllu og Viper, þar hefur gleymst að endurgera skugga þegar nýr framendi var settur á, sem sýnir að það verður að muna eftir öllum smáatriðum þegar myndir eru búnar til. [19.11]jsl


Myndir frá London-Brighton

Þann 4. nóvember var London-Brighton rallið haldið, og nú eru komnar rúmlega 6000 myndir á netið svo það er eitthvað hægt að skoða um helgina hafi fólk áhuga, en þeir bílar sem geta tekið þátt verða að vera framleiddir fyrir 1905. Fulltrúi frá okkur var auðvitað á staðnum þegar 100 bílar af þeim sem tóku þátt voru sýndir daginn áður í Regent Street og hafði mikið gaman af, enda skemmtilegt að sjá þessa öldunga á ferð og í návígi. [16.11]jsl


Ísblástur

Allir sem hafa komið að bílauppgerð eða viðgerðum þekkja sandblástur, en þó að hann virki vel á venjulega málma, sem eru nokkuð heilir fyrir, þá getur sandblástur skemmt ef ekki farið er varlega. Nú er farið að bjóða ísblástur, sem notar þurrís í stað salla og um leið er hægt að hreinsa viðkvæma hluti og málma, ef t.d. þarf að hreinsa mikið skítuga hluti eða eitthvað sem fallið hefur á. Kosturinn við ísblástur er að eina sem verður eftir er smá bleyta og hún gufar fljótt upp. Hægt er að kynna sér betur þessa nýjung hjá www.isblastur.is. [15.11]jsl


Corvettu bílasala

Ef það er verið að leita eftir Vettu til kaups, þá eru þeir hjá ProTeam Corvette Sales örugglega með eina sem mundi henta, gæti samt kostað aðeins meira en ætlað var að eyða. Allavega er hægt að skoða úrvalið og látið sig dreyma eða bara fræðast betur um sögu Corvettu á ítarlegu söluyfirliti þeirra. Þarna er að finna rúmlega 100 Vettur til sölu og þar á meðal eina rauða 1970 LT-1 350-370-hp coupe, sem hefur verið ekið 147 mílur, á tilboði, aðeins 7,5 milljónir. www.proteam-corvette.com [14.11]jsl


Grein um Valda koppasala

Á síðunni pabbar.is er skemmtileg grein um heimsókn tveggja bræðra til Valda. Ástæða heimsóknar þeirra var að leita eftir koppum á 1966 Plymouth Belvedere sem annar þeirra er að gera upp. Fyrir þá sem þekkja til Valda sjá hann strax fyrir sér þegar greinin er lesin, svo vel hefur tekist að lýsa þessari heimsókn. http://www.pabbar.is [13.11]jsl


Turkey run

Á næstu dögum fer stór hópur bílaáhugafólks í hina árlegu ferð til Daytona til að fylgjast með "Turkey Run" sem er mikil bílasamkoma. Margir fara ár eftir ár og nota um leið tækifærið til að versla fyrir jólin. Fyrir þá sem ekki vita hvað þetta gengur út á, þá er hérna heimasíða Turkey Run og eins stór myndasíða frá síðasta ári. Þess má geta að yfirleitt er uppselt í þessa ferð mörgum mánuðum fyrir brottför. [12.11]jslTrabant 50 ára

Þar sem Trabant á 50 ára afmæli í þessari viku er upplagt tilefni að birta nokkra tengla á góðar Trabant síður. Þó að Trabant hafi verið frekar hornreka á markaðnum hérna, þá er þetta bíll sem hefur mikla sögu bæði erlendis, sérstaklega austur-evrópu, og hérna heima og lagði meðal annars grunninn að bílainnflutningi Ingvars Helgasonar. Það helsta sem menn settu út á Trabbann var mengun, en þeir höfðu margt annað sem vó á móti því. Frægasti Trabbinn hérna er eflaust Trabant "Dalabóndans" sem tók þátt í mörgu rallinu og eru margar skemmtilegar sögur til um hann, og væri nauðsynlegt að einhver mundi taka það saman í grein sem hægt væri að birta við tækifæri. Sem betur fer eru nokkrir Trabbar ennþá á götunni hérna og reyndar hafa þeir sést meira á ferðinni undanfarin ár. [09.11]jsl
digilander.libero.it
home.clara.net
hawkinge.com
team.netMaka-aðild að FBÍ

Þar sem borið hefur á fyrirspurnum til okkar um hvort boðið sé upp á maka-aðild, þá hefur verið ákveðið að koma því á. Frá og með nóvember geta makar núverandi félaga sótt um aðild og greiða þá hálft árgjald, kr. 2500, en eru samt fullgildir félagar með öllu sem því fylgir. Skilyrði fyrir maka-aðild er að sama lögheimili sé hjá báðum aðilum. Sótt er um aðild eins og venjulega en taka skal fram númer þess félaga sem er fyrir, eins er hægt að nota bílaskráningu svo hægt sé að skrá bifreið á maka, enda færist það í vöxt að makar eigi sitt hvorn bílinn. Makar verða með tengingu á milli í félagsskrá og einnig verða mætingapunktar fyrir ferðir tengdir saman, svo hjón geta verið á fá punkta saman og eða fyrir hvorn bíl eftir því sem hentar. Þess má geta að árið 2008 fylgir með þegar ný árgjöld eru greidd eftir 1. nóvember. [08.11]jslRoute 66

Aldrei hefur verið eins mikið fjallað um veg eins og route 66, í bókum, myndum, þáttum, ljóðum og söngvum. Þessi fræga leið í Bandaríkjunum sem tengdi saman austur og vestur varð strax ein aðalleiðin frá Chicago til Los Angeles. Eftir að þjóðvegakerfið varð betra og fleiri "highways" urðu til með beinni leiðum og fljótari, fór þessi leið í smá dvala en eins og alltaf þá leitar fólk í fortíðina þegar lífið var einfaldara (allavega í minningunni) og margir staðir sem standa við route 66 fóru að gera út á þessa þjóðsagnakenndu leið. Í dag er þessi leið mikið valin af fólki sem vill kynnast landi og þjóð betur og fara rólega yfir, eins er þetta farin að vera pílagrímsferð fyrir aðra, og helst á gömlum bíl (blæju auðvitað) eða mótorhjóli. Gífurlega mikið af efni er til um þessa leið, allt frá ljóðum til heilu kvikmyndanna, en á þessari síðu er samantekt á öllu því helsta sem maður þarf að vita til að ferðast þessa leið, frá lista yfir bækur um leiðina til upplýsinga um bensínverð á leiðinni. [07.11]jsl/gös


Skemmtilegur Trabbi

Félagi okkar Jón Baldur Bogason er eigandi af 1987 Trabant P601 De Lux og jafnframt þeim skrautlegasta hér á landi. Á Fornbílaspjallinu er að finna smávegis um sögu bílsins og góðar myndir af honum í gegnum tíðina, sem Jón hefur tekið. Trabbinn vekur óneitanlega athygli á götunni og skemmtilegur húmor er í allri útfærslu á honum. Færsla Jóns um Trabbann. [05.11]jsl


Mopar síður

Margar síður sem fjalla um ýmsa Mopar bíla (Dodge, Chrysler) eru tengdar saman í svokallaðan Webring, sem sagt hver síða er með tengil á aðrar síður. Oft er hægt að finna ágætis síður með því að flakka á milli og sjá hvað kemur upp næst. Svona tengingar eru oft á bílasíðum og eru þær að finna neðst á þeim. Hérna eru tvær Mopar síður er síðan tengjast þessum Mopar Webring. 1962 to 1965 Mopar Web og Lee Herman´s Mopar. [02.11]jsl


Byltingarkennd nýjung í hleðslumálum fornbíla

Margir fornbílamenn kannast við leiðinlegt vandamál tengdum bílarafgeymum, þegar nýlegir og fullhlaðnir geymar afhlaðast, botnfalla og skemmast meðan forn-bílinn er í vetrardvala. Rafgeymar eru dýrir og því sjálfsagt að koma í veg fyrir óþarfa útlát. Nú býður Skorri ehf fornbílamönnum lausn á þessu vandamáli, en það er lítið sjálfvirkt hleðslutæki sem tengt er við fornbílinn allan veturinn. Tækið viðheldur stöðugri álagsspennu, tekur rafmagn af geyminum og sendir inn á hann aftur, og kemur þannig í veg fyrir að hann botnfalli og eyðileggist. Tækið er aðeins 0,8 amper og eyðir því sáralitlu rafmagni og af því stafar engin eldhætta. Fullt verð fyrir 12 volta tæki er 7900 kr. og 8900 kr. fyrir 6 volta, en félagar í Fornbílaklúbbnum fá 10% afslátt. Fullyrða má að þetta sé jólagjöf fornbílamannsins í ár. Nánari fróðleik um þetta merkilega hleðslutæki má finna á heimasíðunni www.ctek.com, en Skorri er til húsa að Bíldshöfða 12 í Reykjavík. [01.11]ös