Eldri fréttir - Júlí 2007

Þegar bílútvarpið var villtur lúxus

Á vef FÍB er skemmtileg grein um bílútvörp, en 75 ár eru frá því að fyrstu tækin komu á markað. Eins og kemur fram í greininni þá er gífurlegur tollur og gjöld hér landi á svona "lúxus" og ekki í fyrsta skipti sem ríkið tekur að sér að ákveða hvað fólkinu (sama fólki sem reyndar borgar laun þeirra sem ákveða hvað okkur er fyrir bestu) í landinu er hollt að eiga. Þar sem þetta var stórhættulegt að eiga svona "lúxus" var Bifreiðaeftirlit Ríkisins (ein vitlausasta stofnun sem hefur verið stofnuð) fengið til að athuga, um leið og bílar voru færðir til skoðunar, hvort þannig tæki væru í bílunum. Reyndar eru til margar skemmtilegar sögur um hvernig menn fóru framhjá þessum skatti með því að fela tækin eða láta innsigla gervi leiðslur í tækin, svo skoðunarmenn héldu að ekki væri hægt að notað tækið. Sýnir hvernig almenningur mun alltaf finna leiðir til að komast hjá óeðlilegri skattheimtu. [30.07]jsl


Cadillac

Fyrir 98 árum eignaðist GM, bílaframleiðandann Cadillac Car Company, en Buick Motor Company sá um kaupin fyrir hið nýstofnaða fyrirtæki William Durants. Cadillac Car Company sem hafði verið stofnað af William Murphy upp úr gjaldþroti Henry Ford Company, . Henry Martyn Leland kom síðan að þessu fyrirtæki og kom því í gang með bílaframleiðslu. Fljótlega fékk nafnið Cadillac orð fyrir að vera vel smíðaðir bílar og vandaðir. Árið 1908 voru þrír Cadillac bílar sendir til Englands til að taka þátt í keppni bíla og meðal annarra þrauta voru þeir teknir í sundur af félögum Royal Automobile Club, pörtunum blandað saman og síðan settir aftur saman með hlutum sem voru valdir af handahófi. Tveir fóru í gang í fyrsta snúningi og sá þriðji í annarri tilraun og var síðan ekið í burt. Á þessum tímum þótti þetta merkilegt að allir hlutir gengu á milli vandræðalaust og væru framleiddir svona nákvæmlega. Nokkrum árum seinna bauð Cadillac upp á startara, rafal, rafgeymi og rafmagnsljós og var nefnt að Cadillac væri "The Standard of the World". Hérna er hægt að lesa meira um sögu Cadillac. [27.07]jsl


Hugmyndir fyrir fatadag

Þar sem stutt er í fatadag í ágúst er ágætt að fara að huga að hugmyndum. Á þessum myndum er hægt að sjá nokkrar útgáfur af fatnaði sem fólk mætti í á þessari samkomu fornbíla. Allavega er hægt að skoða bílana sem þarna voru komnir saman. [26.07]jslChip Foose og hans bílar

Fyrir þá sem fylgjast með þeim geira fornbílaheimsins þar sem gamlir bílar eru gerðir upp og um leið gjörbreytt með allra nýjustu tækni um borð, þekkja vel nafnið Chip Foose. Snemma byrjaði hann að vinna á verkstæði föður síns og strax 12 ára var hann búinn að sprauta sinn fyrsta bíl. Vegna tilviljunar hitti hann Alex Tremulus, sem hannaði hinn fræga Tucker, og höfðu þau kynni mikil áhrif á að Foose fór í listaskóla. Eftir skólann vann hann hjá ýmsum fyrirtækjum við hönnun og útlitsteikningu ásamt því að vinna með föður sínum að ýmsum bílaverkefnum fyrir kvikmyndir, en árið 1990 hefst samstarf hans við Boyd Coddington sem hefur mikið verið að taka að sér sérsmíðar, sérstaklega "hotrods". Árið 1998 endar þetta samstarf og Foose stofnar sitt eigið fyrirtæki ásamt eiginkonu sinni. Foose hefur fengið mörg verðlaun fyrir sína hönnun og útfærslur á bílum í gegnum árin, og hvað sem mönnum finnst um svona breytingar og eins og sumir mundu kalla skrumstælingu, þá er ekki hægt að neita því að margir af þessum breyttu bílum eru listahönnun og frábærlega útfærðir. Svona "one off" útfærslur af bílum kosta eigendur mikla peninga, en um leið getur þetta verið fjárfesting þar sem margir mundu bjóða vel í marga af þessum bílum, þar sem Foose bílarnir fá yfirleitt fyrstu verðlaun á sýningum. Hérna er hægt að sjá myndir af nokkrum bílum Foose og eins hér af einum Chevrolet sem tekinn er í gegn og breytt. [25.07]jslVel heppnuð grillferð

Um helgina fóru félagar norður til Akureyrar í helgarferð sem jafnframt var grillferð sumarsins. Tuttugu bílar fóru í þessa ferð en einnig voru nokkrir félagar með í för á sínum daglega brúksbíl þar sem þessi helgi var upphafið af lengra ferðalagi um landið. Félagar okkar fyrir norðan tóku á móti hópnum við komu til Akureyrar og var ekinn hópakstur um bæinn og endað á tjaldsvæðinu. Á laugardeginum var farið á rúmlega 30 bílum í heimsókn til Ystafells þar sem Sverrir og frú tóku á móti hópnum og sýndu þau okkur þetta veglega safn sem þarna er orðið. Um kvöldið var síðan grillað í boði klúbbsins og Kjötsmiðjunnar fyrir félaga og fjölskyldur þeirra, eitthvað um 80 manns. Upp úr hádegi á sunnudag fóru síðan félagar að týnast heim og þar með lauk góðri helgi fyrir norðan í hinu fínasta veðri. Myndir frá helginni, sem undirritaður og Georg Theodórsson tóku, eru komnar á Myndasíðu og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [23.07]jsl


Rock-plötur

Ef það vantar réttu músikina í ´50 bílinn þá er kannski hægt að finna eitthvað hjá Old Rock Records í Svíþjóð. Þar er boðið upp á 1000 titla frá þessum árum og hægt er að fá marga titla á CD eða gömlu skífuna. Hægt er að leita eftir titli eða flytjanda. [19.07]jsl/gös


Silverstone Classic

Helgina 27. til 29. júlí verður mikið um að vera á Silverstone brautinni en þá verður keppt á eldri bílum, allt frá götubílum til eldri F1 bíla. Eins og venjulega þegar bretar halda kappakstur þá er mikið um að vera jafnhliða keppninni svo sem fallhlífarstökk, sýning bíla, uppboð á bílum og aðrar uppákomur. Keppt verður í ýmsum flokkum eftir gerð og tegund bíla. Þarna er tækifæri til að sjá flesta af bestu bílum sögunnar keppa og eins í sýningarakstri, sérstaklega má nefna kvöldkeppni sem á að minna á Le Mans. Tilvalið að kíkja á Silverstone ef maður er á ferð um Bretland á þessum tíma. [18.07]jslDráttarvélar í skrúðakstri

Í tilefni af safnadögum 8. júlí síðastliðinn fór hópur góðra manna í skrúðakstur á 16 dráttarvélum á öllum aldri og allar Ferguson. Farinn var hringur frá Búvélasafninu á Hvanneyri um nærliggjandi sveit, með Hauk Júlíusson í fararbroddi, í glampandi sól og 20 stiga hita. Meðal annars var komið við í Ferjukoti við Hvítá og safnið þar skoðað, síðan var ekið yfir gömlu Hvítárbrúna og hina ýmsu slóða niður á Hvanneyri. Einnig sást til gömlu rútunnar hans Sæmundar að "transporta" með fólk um sveitina og sómdi hún sér vel á hlaðinu á Ferjukoti. Myndir frá akstrinum. [17.07]þk


Orðaskýringar

Oft er erfitt að finna út hvers vegna sumir hlutir eru kallaðir því nafni sem .þeir bera í almennu tali og á þetta sérstaklega við ýmsa hluti sem tengjast bílum. En á þessari síðu er komið til hjálpar og gefin skýring á þessum daglegu hlutum, og um leið sér maður þá í nýju ljósi, t.d. hversu oft ætlar maður að kaupa sjúkrakassa í bílinn en gleymir því, þá er hérna góð ástæða til þess " First aid kit - the thing you wish you'd remembered to put in the garage immediately prior to picking up that hammer" eða til hvers hjólkoppar eru "Hubcaps - randomly detach themselves to visibly warn cars behind of a sharp bend approaching". Að mörgu leyti þá er þessi grein með heldur betri orðskýringar en viss bók sem var gefin út hér á landi fyrir mörgum árum og menn þurftu að lesa vegna ýmissa prófa sem tengjast bílum, en hún hefur reyndar verið uppspretta margra brandara og gáta í partýum í gegnum árin. [13.07]jslKolefnisjöfnun í gærkvöldi

Níunda ferð sumars var farin í gærkvöldi og var sú ferð jafnframt gróðursetningarferð á því svæði sem klúbburinn fékk úthlutað fyrir 3 árum. Síðustu ár hefur verið farið á þetta svæði og félagar plantað niður trjáplöntum, eða kolefnisjafnað eins og þykir fínt að kalla það í dag. Kvöldið endaði síðan á keyrslu í vesturbæinn þar sem farið var í kaffi á Grandakaffi. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [12.07]jslElsti "bíllinn" á uppboði

Í ágúst verður uppboð á fornbílum á Pebble Beach. Ca. á vegum Gooding & Company. Meðal annarra bíla sem verða boðnir upp er 1884 De Dion-Bouton et Trepardoux gufuknúinn vagn sem er sagður vera elsti "bíllinn" sem er ennþá gangfær. Þessi vagn var smíðaður árið 1884 og tekur um 30 mín, að ná upp dampi og nær allt að 38 mílna hraða. Albert de Dion og Georges Bouton stofnuðu þetta Franska fyrirtæki sem var í fremstu röð þeirra sem voru með tilraunir með farartæki í árdaga bíla, bæði knúnir gufu og síðan bensíni. Þó nokkuð er til ennþá af bílum frá De Dion-Bouton bæði sem hafa verið gerðir upp og eins nokkrir sem eru alveg upprunalegir. Margir af þessum bílum taka reglulega þátt í London-Brighton rallinu sem haldið er árlega. Áætlað er að þessi De Dion-Bouton geti farið á ca. 150 milljónir. Hérna er frétt frá CNN um vagninn og eins er hægt að sjá stutt video af vagninum í akstri. [11.07]jsl


Mótorhjólasafn

Í Birmingham, Alabama, er að finna stórt mótorhjólasafn þar sem má sjá hjól allt frá árdögum þeirra til nútímahjóla. Safnið er kennt við George Barber sem keppti á sjöundaáratugnum en fékk áhuga á að safna og gera upp bíla á níundaáratugnum. Fljótlega snérist áhugi hans til mótorhjóla þar sem Barber fannst vanta safn sem sýndi sögu þeirra. Safnið opnaði árið 1995 og telur núna rúmlega 1100 hjól. Hérna er hægt að sjá meira um safnið á heimasíðu þeirra og fleiri myndir hér. [09.07]jsl


Fornbílar í Bolungarvík

Um helgina er mikið um að vera í Bolungarvík en þá eru svokallaðir Markaðsdagar. Meðal annarra dagskrárliða verða fornbílar frá nærliggjandi svæðum til sýnis og væntanlega flestir bílar Elvars Sigurgeirssonar, en hann á orðið gott safn eldri bíla og einnig eitt stærsta safn dráttarvéla hér á landi. Hérna er hægt að sjá meira um dagskrá helgarinnar í Bolungarvík og eins frétt á Vísi um bílasafn Elvars. [06.07]jsl


Fæðing Þýsku hraðbrautanna

Flestir geta verið sammála um að ef Hitler hafi eitthvað gott gert, þá er það Þýska vegakerfið. Vinur Hitlers, Fritz Todt, var á þessum degi árið 1932 valinn sem "vegamálastjóri" með umsjón yfir þessa rosalegu áætlun Hitlers og árið 1936 voru 100 þúsund km. tilbúnir og haft var eftir Fritz að 170 milljón rúmmetrar af jarðvegi hafi verið fluttir til vegna lagningar hraðbrautanna. Auðvitað var þetta framtak ekki gert af góðmennsku Hitlers heldur lá á bakvið að gera hernum auðvelt að fara á milli hratt og auðveldlega. Hérna er hægt að sjá nokkrar eldri myndir frá hraðbrautunum á vef þeirra. [05.07]jsl
Fyrsti fundurinn í nýja húsinu

Í gærkvöldi var stjórnarfundur og partur af honum haldinn í nýja húsinu okkar sem er óðum að taka á sig mynd. Eftir er að steypa 3-4 veggstubba og loft í geymslum á efri hæð og þar með er steypuvinnu lokið. Núna er verið að vinna í að fá tilboð í þakklæðningu og glugga. Þar með ætti að vera nokkuð ljóst að húsið verður orðið lokað fyrir vetur.Voru stjórnarmenn sammála um að þeir verktakar sem hafa komið að þessu hingað til hafa unnið hratt og vandað til verka. Þess má geta að ein af ferðum sumars þann 29 .ágúst hefst við nýja húsið og verður þá gott tækifæri fyrir félaga til að skoða húsnæðið. [04.07]jslFínn fornbíladagur í Árbæjarsafni

Síðasta sunnudag var hinn árlegi fornbíladagur í Árbæjarsafninu og voru 48 bílum og tækjum stillt upp til sýnis um safnasvæðið.. Þarna átti fornbílafólk góðan dag í frábæru veðri ásamt gestum safnsins. Aðstaða klúbbsins í safninu var opin þar sem boðið var upp á kaffi og bakkelsi. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [02.07]jsl