Eldri fréttir - Júní 2007

Vantar frá Íslandi

Á þessari síðu sem er eingöngu um Opel Rekord, Olympia er að finna innsendar myndir og sögu bíla frá ýmsum löndum, nema frá Íslandi. Nú skorum við á Opel eigendur að finna til myndir og smá sögu um bíla sína og senda inn til þeirra svo að landið komist á listann.Ýmislegt efni er þarna einnig sem tengist þessum bílum. t.d. auglýsingamyndir, myndir frá framleiðslu þeirra og fl. [28.06]jsl/gös


Fleiri myndir frá Landsmóti

Nú er búið að bæta við myndum frá Landsmóti, Georg Theodórsson tók þær um helgina. Þegar litið er yfir helgina þá er ánægjulegt að sjá að fleiri eru farnir að gista yfir alla helgina en töluverður fjöldi er að koma yfir daginn en fer síðan heim yfir nóttina. Annað sem ánægjulegt er að alltaf eykst að fjölskyldur eru að mæta með í svona ferðir. [27.06]jsl


Stór samkoma í USA

Síðustu helgi var stórt fornbílamót og sýning haldin í Henry Ford's Greenfield Village. Þarna voru rúmlega 900 bílar af öllum gerðum og tegundum mættir, dálítið stærra en samkomur hér á landi. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari helgi. [26.06]jsl
Landsmótið vel heppnað

Nú er Landsmóti á afmælisári lokið og örugglega eitt af því besta hingað til. Mótið hófst á föstudagskvöldið með akstri um Selfoss, þar sem Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra ók 1930 Ford í broddi fylkingar að mótsstað. Rúmlega 70 bílar voru við setningu mótsins. Eftir smá tölu setti Björgvin síðan mótið og bauð félaga velkomna til Selfoss. Eins og venjulega var bílasýning á laugardeginum og rúmlega 110 bílar voru á mótsstað yfir daginn. Gott veður hjálpar auðvitað til þegar svona mót er haldið og þrátt fyrir smá hvassviðri um daginn þá var veðrið um helgina hið besta fyrir okkur. Nokkur þúsund gesta heimsóttu okkur um helgina, en erfitt er að sjá hversu margir koma í heildina þar sem ekkert er talið inn á mótið og auðvitað frítt inn á svæðið.Á laugardagskvöldið var grillað fyrir eitthvað um 170 manns í boði klúbbsins og kjötmeistara okkar, Sigurðar í Kjötsmiðjunni, og eftir mat var bæði lifandi músik og leikin.. Á sunnudeginum var farið í bílaþrautir og leiki fyrir yngri og eldri, þar á meðal "kassabílarall" á smábílum og hjólböru-rall. Mótinu lauk síðan með akstri um Selfoss. Ferðanefnd vill þakka Gesthúsi fyrir móttökurnar og Lögregluembættinu á Selfossi fyrir liðlegheit og akstursfylgd. Myndir frá helginni eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [25.06]jslTulsa-Plymminn kominn upp á yfirborðið

Síðasta föstudag var Plymouth árgerð 1957 grafinn upp í Tulsaborg í Oklahoma eftir hálfrar aldar vist neðanjarðar. Hafði honum verið pakkað inn í sérstakan dúk og komið fyrir í öflugri steinkistu ásamt bjórkassa og öðrum minjagripum úr samtímanum. Um leið var haldin getraun meðal borgarbúa og mun sá er giskaði rétt á íbúafjölda Tulsa árið 2007 eignast bílinn. Eftir að bíllinn hafði verið grafinn upp var farið með hann í íþróttamiðstöð þar sem hann var tekinn úr dúknum í viðurvist 7000 áhorfenda. Kom bíllinn forugur og haugryðgaður úr dúknum og ekki tókst að gangsetja hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þykir mörgum í bílheimum illt til þess að vita að hin sjálfskipaða forystuþjóð tækninnar skyldi ekki takast að búa til vatnshelda steinkistu, því enn eru menn að grafa upp heilar og vatnsheldar steinkistur í Egyptalandi og víðar, sem eru mörg þúsund ára gamlar. Hér er frétt CNN um málið, video af því þegar honum lyft upp og myndir af bílnum og því dóti sem var með honum. [19.06]ösFerðir 16. og 17. júní

Síðasta laugardag voru um 30 fornbílar mættir til að fara með 60 manna hóp frá Ferðafélagi Íslands austur fyrir fjall í tilefni að 100 ár eru liðin frá heimsókn Friðriks VIII Danakonungs og þeirri vegagerð sem fylgdi þeirri heimsókn, sá vegur sem almennt er kallaður Konungsvegurinn kostaði um 14% af útgjöldum ríkisins það árið. Byrjað var að fara til Þingvalla þar sem ekið var niður Almannagjá, en gjánni var lokað fyrir bílaumferð árið 1967. Stutt stopp var gert þar og farið yfir sögu þessarar heimsóknar, en síðan var haldið til Laugarvatns þar sem farið var í hádegismat. Meðal annarra í þessari ferð var sendiherra Danmerkur sem hafði mikið gaman af því að Íslendingar skyldu minnast þessarar heimsóknar Friðriks VIII. Skeljungi er þakkað sérstaklega fyrir styrk sem þeir gáfu til þessarar ferðar. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga.


Hátíðarakstur var eins og venjulega á 17. júní og mættu félagar fyrst í Árbæjarsafn en þaðan var lagt af stað í akstur í gegnum miðbæ Reykjavíkur. Eftir keyrslu í gegnum bæinn var sýning á miðbakka Reykjavíkurhafnar. Mikil umferð fólks var um svæðið til að skoða bílana og mynda. Um 70 bílar tóku þátt á þessum degi. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [18.06]jslAmphicar

Einn af sérstakari bílum félaga klúbbsins er 1963 Amphicar, en það er bíll sem er gerður bæði fyrir land og sjó. Um síðustu helgi mætti Jóhann Árnason á sínum Amphicar en hann hefur ekki sést í nokkur ár í ferðum okkar, einnig mun hann mæta í 17. júní aksturinn, kannski munum við geta séð hann í öðrum ferðum sumars ef það verður tækifæri til að taka "rúnt" á vatni eða sjó eins og hefur verið gert á árum áður áhorfendum til furðu. Hérna er grein um þessa sérstöku bíla. [14.06]jsl


Grein um Thunderbird

Hjá collectorcarbuff.com er ágæt grein um þróun og sögu Thunderbirds nafnsins og útlit þeirra bíla sem hafa borið það nafn. Á sömu síðu er að finna ýmsar greinar um bílasöfn, uppboð, samkomur og fl. sem viðkemur fornbílum. Einnig er að finna þarna tengla á annað bílaefni sem gæti höfðað til fornbílafólks. [13.06]jsl/gösFjölskyldu og húsdýragarðurinn

Síðasta laugardag var hinn árlegi fornbíladagur í Fjölskyldu og húsdýragarðinum. Rúmlega 40 bílar voru mættir til uppstillingar í garðinn, en áætlað er að rúmlega 100 manns í heildina hafi mætt á okkar vegum til að skemmta sér í garðinum, en eins og venjulega var frítt í öll tæki fyrir félaga og fjölskyldur þeirra sem mættu með bíla. Að þessu sinni voru bílarnir á stóru grasflötinni þar sem tjaldið okkar var uppsett og einnig var grillað þar um hádegi. Myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [11.06]jsl


Breytingar á netföngum

Undanfarið hefur borið á að nokkur netföng félaga, sérstaklega hjá þeim sem fá Skilaboð í e-mail, hafa ekki virkað eða verið vitlaust uppgefin. Einnig kemur fyrir um hver mánaðarmót að Skilaboð koma til baka þar sem viðkomandi finnst ekki á uppgefnu heimilisfangi. Viljum við benda félögum á að skoða skráningu sína í Félagaskrá og senda okkur breytingar ef það á við, sérstaklega ef menn hafa ekki fengið Skilaboð undanfarið, eins að senda okkur jafnóðum breytingu á heimilisfangi, ef það á við. [07.06]jslSjómannadagurinn

Í gær, sunnudag, héldu nokkrir félagar til Grindavíkur til að taka þátt í dagskrá Sjóarans Síkáta. Sextán bílar mættu þrátt fyrir leiðinda veður um helgina og sýnir það vel hvað félagar láta veðrið ekki spilla þegar þeim er boðið í heimsókn. Bílum var stillt upp fyrir framan Saltfisksetrið og voru kaffiveitingar í boði fyrir félaga og fjölskyldur. Nokkar myndir frá deginum eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [04.06]jsl


Bílaauglýsingar

Það er oft gaman að skoða gamlar bílaauglýsingar, sérstaklega til að sjá tíðaranda þess tíma sem viðkomandi auglýsing er gerð. Á þessari síðu er hægt að sjá nokkrar slíkar. [01.06]jsl/gös