Eldri fréttir - Maí 2007

Bilhistorie

Á þessari síðu sem er norsk er að finna ýmislegt sem tengist bílasögu í Noregi, en þarna er einnig að finna gamlar auglýsingar og myndir flokkaðar eftir árum og gerð. [30.05]jsl/gös


BCA

Buick Club of America heldur úti heimasíðu með ýmsu efni, auðvitað allt um Buick. Þarna er að finna margt gott efni fyrir Buick eigendur, t.d. tengla á ýmsar síður sem tengjast Buick, lista yfir Buick klúbba og myndir frá samkomum. Þarna er líka að finna merkilega lesningu um hvernig eigi að dæma Buick bíla og er farið mjög nákvæmlega í hvernig allt á að vera í bílnum, hvort sem hann er upprunalegur eða uppgerður. Þarna er örugglega hægt að finna ýmislegt um það hvernig viðkomandi tegund og árgerð kom frá verksmiðju. [29.05]jsl(/gösCurves of Steel

Hjá Phoenix Art Museum hefur verið sett upp sýning á þeim helstu bílum sem þykja endurspegla þann tíma þegar straumlínulögun náði hámarki og nefnist hún "Curves of Steel". Margir gullfallegir bílar urðu til á þessum tíma, en einnig komu gerðir sem þykja ansi skrítnar í dag. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessari sýningu. [25.05]jsl


Aðalfundur og keyrsla

Í gær var Aðalfundur FBÍ haldinn á Hótel Loftleiðum. Rúmlega 50 manns sóttu fundinn, en atkvæðabærir voru þeir félagar sem höfðu greitt félagsgjald fyrir 1. maí. Þar sem fundurinn var haldinn um kvöld á virkum degi var tekin upp ný áhersla um fundarhaldið og var gengið hratt í að flytja skýrslur og yfirferð reikninga, fyrir vikið var fundurinn afgreiddur á tveimur tímum með kaffihléi. Ýmis mál voru rædd og formenn nefnda fluttu skýrslu yfir starfsemi sína síðasta reikningsár klúbbsins. Rudolf Kristinsson formaður byggingarnefndar fór sérstaklega yfir stöðu mála vegna byggingu klúbbsins og bar jafnframt fram tillögu um að fundarmenn aðalfundar gæfu stjórn klúbbsins heimild til að taka lán, ef þyrfti, til að geta brúað bil svo ekki komi til frestunar á framkvæmdum í haust.Var tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. Kosið var um formann, þrjá stjórnarmenn og tvo varamenn á þessum fundi. Sævar Pétursson var endurkjörinn sem formaður með öllum gildum atkvæðum, í stjórn voru endurkosnir þeir Halldór Gíslason með 48 atkvæði af 50, Jón S. Loftsson með 47 atkvæði af 50 og Rúnar Sigurjónsson með 42 atkvæði af 50. Tveir varamenn voru í kjöri, Garðar Arnarson og Þorgeir Kjartansson, hlutu þeir hvor um sig 50 atkvæði en Garðar var valinn fyrsti varamaður eftir hlutkesti. Þakkaði formaður og fundarmenn þeim fyrir vel unnin störf í gegnum árin.. Eftir fundinn var að venju farinn rúntur niður í miðbæ og endað á miðbakka. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [24.05]jslMyndir frá sýningu og afmæliskvöldverði

Nú er búið að setja inn 219 myndir frá afmælishelgi klúbbsins sem Georg Theodórsson og undirritaður tóku um helgina. Er þar að finna myndir af öllum þeim bílum sem sýndir voru ásamt þeim texta sem var á sýningarspjöldum með þeim, svo þeir félagar sem höfðu ekki tök á að koma um helgina geta séð upp á hvað var boðið. Yfirlit af því helsta er komið á Myndasíðu , eins allar og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [23.05]jslAfmælishelgi lokið

Nú er afstaðin glæsileg afmælissýning sem var um helgina og tókst hún mjög vel í alla staði. Mikið af gestum sýningarinnar lýstu yfir ánægju sinni með þá bíla sem sýndir voru og breidd tegunda. Hátíðarkvöldverður var einnig á dagskrá um helgina sem var haldinn á Grand Hótel og komu þar saman félagar til að halda upp á afmælið. Mikið magn mynda bíður vinnslu eftir helgina bæði frá sýningu og kvöldverði og verður birting þeirra að bíða fram til miðvikudags vegna anna við uppgjör sýningar og vinnslu mynda, en nokkrar myndir er hér fyrir ofan frá lok sýningar. Sýningarnefnd vill koma fram þakklæti til allra þeirra sem komu að undirbúningi og vinnu við sjálfa sýninguna, eigenda sýningarbíla og þeirra sem stóðu vaktir. Sérstakar þakkir fær Ræsir fyrir lánið á húsnæði og velvilja. [21.05]jsl


Til hamingju með afmælið

Stjórn og nefndir klúbbsins vilja senda afmæliskveðjur til allra félaga, en Fornbílaklúbburinn er 30 ára í dag. Þann 19. maí árið 1977 komu saman nokkrir áhugamenn um eldri bíla og vildu stofna formlega félagsskap um áhugamál sitt, að varðveita gamla bíla og viðhalda þeim og um leið sögu þeirra. Á þeim tíma var litið á menn sem hálf ruglaða er söfnuðu gömlum "druslum" og leituðu að bílum sem höfðu sérstaka sögu, út um allar sveitir og í hlöðum landsins, en án þeirra er stofnuðu klúbbinn hefði seint náðst sá árangur sem er í dag. Núna telur klúbburinn rúmlega 700 meðlimi og njóta félagar virðingar fyrir sitt framlag til varðveislu á bílasögu landsins. Af þessu tilefni var opnuð afmælissýning í gær og eru sýndir rúmlega 50 bílar í nýja Ræsishúsinu Krókhálsi 11, og í kvöld er hátíðarkvöldverður á Grand Hótel sem hefst kl. 19 með ræðu formanns klúbbsins, þess má geta að uppselt var í kvöldverðin fyrir nokkru. [19.05]jslSýning opnar í dag

Hér fyrir ofan er að sjá smá forsmekk af þeim bílum sem sýndir eru. Unnið var við að setja inn bíla í gærdag. Óhætt er að segja að þessi sýning sé glæsileg og margir fallegir og merkilegir bílar þar. Sýningin verður opin frá kl. 18 til 22 í kvöld, laugardag frá kl. 10 til 18 og sunnudag frá kl. 11 til 22. Stefnt er að vera með hópkeyrslu frá sýningarstað um bæinn ef veður leyfir, nánar auglýst um helgina. [18.05]jsl


Afmælissýning opnar á morgun

Sýning okkar vegna 30 ára afmælis Fornbílaklúbbs Íslands mun opna kl. 17 föstudaginn 18. maí fyrir félaga, en auglýstur tími er annars kl. 18 til 22. Verður síðan opið á laugardegi frá kl. 10 til 18, en um kvöldið verður hátíðarkvöldverður klúbbsins, og á sunnudag opið frá kl. 11 til 22. Sýningin verður haldin í nýja húsnæði Ræsis að Krókhálsi 11, en þeir lánuðu klúbbnum húsið til þessarar sýningar. Félagar Fornbílaklúbbsins og makar þeirra fá frítt inn, aðrir greiða 500 kr. og ókeypis er fyrir börn 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum. Meðal þeirra bíla sem verða sýndir að þessu sinni eru margir glæsilegustu og verðmætustu fornbílar landsins og þá er ekki bara verið að tala um peningalega heldur einnig sögulega. Má þar nefna elsta bíl landsins 1914 Maxwell Touring, minnsta bíl landsins 1956 Heinkel, einn dýrasta fornbíl sem er í eigu Íslendings 1953 Mercedes Benz 300 Coupé sem var fluttur sérstaklega til landsins fyrir sýninguna en eigandinn býr erlendis, Ford Mustang Shelby Cobra GT500 KR sem er nýkominn úr uppgerð og kemur beint á sýninguna. Í heildina er verið að sýna bíla sem eru margir nýlega komnir til landsins og einnig nokkra bíla sem hafa verið lítið sjáanlegir undanfarið. [17.05]jsl


Bækur, módel og fl.

Hjá eAutomobilia er að finna ýmislegt sem tengist bílum, svo sem módel, bílabækur, merki, lyklakippur og margt fleira. Þarna er einnig að finna ýmsar fræðibækur um ýmislegt sem tengist uppgerð á bílum. [16.05]jsl/gös


Barney Pollard

Ekki er víst að margir kannist við nafnið en Barney Pollard var mikill bílasafnari í Detroit. Hann byrjaði að safna bílum árið 1939 þegar hann fékk gamlan Cadillac sem greiðslu upp í skuld og síðan var ekki aftur snúið. Barney fór víða til að leita í hlöðum og um sveitir til að finna gamla bíla og beið jafnvel í mörg ár eftir svari frá mönnum um hvort þeir vildu selja. Fljótlega var safnið hans orðið mjög stórt og fljótt var farið að pressa á hann að endurselja eitthvað af safninu, þar sem hann gæti aldrei gert upp alla þessa bíla, en Barney gaf sig ekki. Einnig náði hann að verja safn sitt þegar átti að taka það til bræðslu þegar vöntun var á stáli fyrir hergagnaframleiðslu í seinni heimstyrjöldinni. Barney geymdi bílana sína í stóru vöruhúsi og raðaði þeim upp á endann, þétt saman eins og spilum. Áður en bílarnir fóru í geymslu voru þeir makaðir í olíu og feiti til betri varðveislu og eina leiðin til að fara um safnið var að skríða ofan á haugnum, þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir gönguleiðum í húsinu. Aldrei var fundið fullkomlega út hversu stórt safnið væri og voru tölur frá 600 til 1000 nefndar, en inn á milli voru þarna bílar sem voru ekki finnanlegir lengur. Þó að Barney hafi haft sem markmið í byrjun að gera bílana upp og koma á fót safni þá varð fjöldinn fljótt svo mikill að hann gerði sér grein fyrir að verkið mundi aldrei klárast og var partur af safninu seldur á uppboði. Barney hafði 4-6 menn í vinnu á hverjum tíma að gera upp bíla fyrir sig og á 40 árum náðu þeir að gera upp að fullu um 70 bíla svo það getur hver maður séð hversu brjáluð þessi söfnun var, t.d. var svo þétt raðað í geymsluna þar sem vatnskassar voru geymdir að ekki var hægt að finna nokkuð þar nema taka þá alla út og ill mögulegt að raða aftur inn svo vel kæmist fyrir. Hérna er hægt að lesa meira um Barney Pollard og ýmsar blaðagreinar um hann. [14.05]jsl/gösRúntur í gærkvöldi

Annar rúntur sumars var farinn í gærkvöldi og var mæting við N1 (Bílanaust) þar sem boðið var upp á kaffi og gos meðan beðið var brottfarar. Rúmlega 30 bílar fóru síðan rúnt um höfuðborgarsvæðið, en farið var um Garðabæ og síðan miðbæ Reykjavíkur og endað var í kaffi á Amokka í Borgartúni. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [10.05]Skoðunardagur og vorferð

Hinn árlegi skoðunardagur FBÍ var haldinn síðasta laugardag hjá Frumherja á Hesthálsi. Þrátt fyrir frekar kalt veður og smá bleytu var nýtt met sett í mætingu en 126 fornbílar voru skoðaðir. Starfsfólk Frumherja tók vel á móti félögum með kaffi og bakkelsi, grilluðum pylsum og greinilegt er að skoðunarmenn hafa gaman af svona degi og eins voru þeir ánægðir með hversu bílarnir eru í góðu standi og vel viðhaldið. Eftir skoðun var farinn léttur rúntur um Reykjavík á 40 bílum og endað á Hamborgarabúllunni við höfnina þar sem tilboð var fyrir félaga. Skoðun var einnig á Akureyri hjá Frumherja í samvinnu við Bílaklúbb Akureyrar og mættu um 40 bílar þar og var einnig grillað þar á meðan skoðun stóð yfir. Myndir frá báðum stöðum eru komnar á Myndasíðu , og eins stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [07.05]jsl


Gamlir hertrukkar í Þórsmörk

Á þessari heimasíðu er að finna myndir frá ferð nokkurra gamalla hertrukka og jeppa í Þórsmörk. Ekki er vitað hvenær þessi ferð var farin, en okkur var bent á þessa síðu sem frétt, en eins og oft áður þá er lítill áhugi manna að senda inn myndir og fréttir um ferðir eða samkomur eldri bíla til að deila með öðrum sem hafa áhuga á að sjá hvað fornbílafólk er að gera um allt land. Þarna hefði verið auðvelt í þessu tilviki að senda inn myndir þar sem þarna eru allavega 3-4 félagar úr FBÍ með í för. [02.05]jsl/gös


Buick síða,

Hjá buickstreet.com er að finna upplýsingar og myndir af bílum meðlima, og annarra sem hafa sent inn upplýsingar um Buick bíla sína. Ef farið væri eftir höfðatölu landa þá væri auðvelt fyrir formann Ferðanefndar klúbbsins að slá út svona síðu, þar sem hann á eitt stærsta safn Buick bíla hér á landi og á örugglega eftir að mæta á nokkrum þeirra í ferðum sumars. [01.05]jsl/gös