Eldri fréttir - Febrúar 2007


Selfoss um síðustu helgi

Síðasta laugardag fóru nokkrir stjórnarliðar FBÍ í heimsókn til félaga okkar á Selfossi. Eins og venja er í svona ferðum var skúrainnlit á dagskrá og eins var skoðuð aðstaða nokkurra félaga sem þeir hafa undir geymslu bíla sinna og viðgerðaraðstaða. Um kvöldið var síðan opið hús í Hlíðskjálf þar sem myndaalbúm úr safni klúbbsins voru sýnd og Krambúð FBÍ var opin. Þarna áttu félagar gott kvöld saman og höfðu tækifæri til að ræða við stjórnarmenn og eins nýir og tilvonandi félagar að kynnast starfsemi klúbbsins betur. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu ,og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [27.02]jsl


Frazer Nash

Margir gætu haldið að nafnið væri tengt Kaiser-Frazer eða Kaiser Darrin. Ekki er það heldur komið frá Nash (Nash, Hudson) eða Nash-Healey. Frazer Nash var breskt fyrirtæki sem fékk nafnið frá stofnanda sínum, Archibald Frazer-Nash. Byrjað var á smíði fyrstu bílana upp úr 1920 en framleiðslu var hætt 1957. Á árunum 1934 til 1939 var fyrirtækið með umboð fyrir BMW í Bretlandi og voru þeir bílar fluttir inn i hlutum og settir saman þar og fengu nafnið Frazer-Nash-BMW. Framleiðsla á Frazer Nash var aldrei mikil, til 1930 voru um 400 bílar framleiddir, margir af þeim keðjudrifnir, og frá 1948 til 1957 voru 85 bílar framleiddir. Hérna er hægt að lesa meira um Frazer Nash og eins að sjá ýmsar myndir af þessum bílum hjá Frazer Nash klúbbnum. [26.02]jsl/gösSökklar tilbúnir

Allt gengur vel við byggingu okkar í Elliðarárdal, búið er að steypa sökkla og verður nú farið í að fylla í og leggja gólflagnir. Veður hefur lítið tafið,nema þessi smá frostakafli í byrjun febrúar. [23.02]jsl


Króm undir húddið

Ef það stendur til að hressa aðeins uppá útlit vélarinnar með smá krómi fyrir næsta sumar, þá er mikið úrval af krómhlutum hjá motorchrome.com. Oft þarf ekki mikið til að gera vélarsalinn glæsilegri, smá króm hér og þar og þá hefur maður eitthvað meira til að bóna og þrífa. [22.02]jslMinnsti bíll á Íslandi?

Þegar félagi okkar Gunnar Örn setti inn á Fornbílaspjallið myndir af sínum 1956 Heinkel Kabine, þá tóku ansi margir eftir því, enda er greinilega fylgst með hvað félagar í klúbbnum eru að gera. Áður en varði var búið að vísa í spjallið á vinsælli Íslenskri tenglasíðu, og í gærkvöldi voru tæplega 4000 búnir að skoða myndir af bíl Gunnars. Hver segir svo að það sé ekki áhugi á bílum á Íslandi. En margir bíða eftir að sjá Gunnar á bílnum í sumar, en meðal annars mun Gunnar leiða smábílarúnt í sumardagskrá FBÍ. [21.02]jsl


Merkilegur áfangi klúbbsins

Í byrjun afmælisárs Fornbílaklúbbsins er það skemmtilegt að geta tilkynnt að nú eru félagar FBÍ orðnir 700 talsins. Þar sem þetta var fyrirséð var búið að ákveða að endurvekja eldra félagsnúmer þegar þessum áfanga væri náð, og var það Björn Gíslason sem fékk félagsnúmerið 0700 úthlutað í gærkvöldi. Óskum við öllum félögum til hamingju með þennan áfanga, enda eftir því sem klúbburinn stækkar þess auðveldara verður að halda úti félagsstarfi og semja um afsláttarkjör til félaga. [16.02]jslSkýrsla um Benz

Fyrir skömmu fékk undirritaður tölvupóst frá ónefndum bílasala í Þýskalandi þar sem honum var boðið að kaupa fagurgrænan Mercedes Benz af árgerð 1954. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að gripurinn var staðsettur í Egyptalandi og ekki í eins góðu ástandi og myndirnar báru með sér við fyrstu sýn. Sannast þar hið margkveðna, að ljósmyndir af fornbílum geta verið miklar tálsýnir. Rúnar Sigurjónsson, Mercedes Benz-sérfræðingur með meiru, var beðinn um að meta bifreiðina og gæði hennar eftir kostum. Sendi hann frá sér eftirfarandi skýrslu í bundnu máli:

Dásemdarinnar draugurinn
döpru er í standi
árans öskuhaugurinn
er allra manna vandi

Að versla svona forarfjós
frá ösnum í Egyptalandi
þar sem ýmislegt gæti komið í ljós
er alls ekki okkar vandi

Því ættirðu að gleyma þessum haug
eins og veifað væri hendi
og uppræta þenna árans draug
sem auglýsinguna sendi.

[15.02]ös
The Greatest Auto race

Árið 1908 var haldin ótrúleg keppni á bílum, sem fólst í keyrslu frá New York til Parísar með viðkomu í ýmsum borgum í Ameríku, sú fyrsta Chicago og endaði í San Francisco þar sem farið var í skipi til Valdez. Þaðan var haldið til Alaska, yfir Beringssund, sem var ísilagt, Síberíu, Asíu og síðan til Evrópu og endað í París, alls 35.200 km. Til að minnast þessarar ótrúlegu keppni er búið að skipuleggja aðra keppni á næsta ári með 40 liðum, 20 á nýjustu keppnistækjum og 20 lið á fornbílum. Hérna er hægt að lesa meira um keppnina og eins er hægt að sjá hérna smá kynningu á 2ja tíma heimildarmynd sem er í vinnslu um keppnina árið 1908. Meðal þess sem er gert fyrir myndina er endursmíði Thomas Flyer, Protos, Zust og de Dion. [14.02]jslFabryka Samochodow Osobowych

Ekki er nema von að nafnið hafi verið stytt í FSO, en þetta er nafn á Pólskri bílaverksmiðju sem var stofnsett eftir síðari heimsstyrjöld. Upphaflega stóð til að framleiða bíla í samvinnu við FIAT en "kaldastríðið" kom í veg fyrir það, í staðinn komu tegundir sem voru byggðar á Pobieda. Seinna var síðan samvinna við FIAT þegar þeir framleiddu Pólska útgáfu af 125. Hérna er hægt að sjá nánar um þetta fyrirtæki og tegundir þeirra, Daewoo kom síðan inn í FSO árið 1995 með sínar tegundir til samsetningar. [13.02]jslGömul reiðhjól

Þó að við séum frekar fyrir stærri farartæki, þá er ekki úr vegi að kíkja á eldri reiðhjól þar sem flestir framleiðendur fyrstu bílanna voru viðriðnir reiðhjólaframleiðslu (eins og sést á þessum myndum þá var fólk stolt af sínum reiðhjólum í þá daga). Á þessari síðu er hægt að sjá myndir af nokkrum tegundum reiðjóla, aðallega frá ´50 og ´60. Áberandi er hvað mikið var gert á þessum árum til að gera hjólin rennilegri í útliti og hversu margt er sameiginlegt með útlitshönnun hjóla og bíla frá þessum árum, sem er vísun í geimkapphlaup og hraða. [12.02]jsl


Bjallan vill frammúr!

Á hraðbrautum Þýskalands má aka mjög hratt. Þar var eitt sinn gömul Volkswagen-bjalla á ferð og varð bensínlaus. Eftir nokkra stund ber að sportlegan Benz sem stöðvar og tekur bjölluna í tog. Þegar hann er nýlega lagður af stað aftur ber að Ferrari sem dregur úr hraðanum, ekur upp að hlið Benzans og ökumaðurinn lítur til Benz-ökumannsins og æfir inngjöfina. Ökumaður Benzans skilur táknmálið og er til í tuskið og nú gefa þeir báðir duglega í.Þegar bílana ber að næstu bensínstöð áttar ökumaður Volkwagen-bílsins sig á að Benzinn hefur gleymt honum og byrjar því að flauta til að minna á sig. Fyrst flautar hann kurteislega en síðar ákafar og ákafar.Nú víkur sögunni til afgreiðslumannsins á bensínstöðinni. Hann fylgist með leiknum og hringir svo til vinar síns sem afgreiðir á næstu bensínstöð og segir: „Þessu máttu ekki missa af! Rétt bráðum sérðu Ferrari og Benz í æsilegum kappakstri og á eftir þeim er Volkswagen-bjalla sem liggur á flautunni til að komast framúr!“ [09.02]ösSkemmtilegar myndir

Á heimasíðu Horseless Carriage Club er að finna skemmtilegar myndir af bílum félaga. Klúbburinn lítur reyndar á öll ökutæki sem "hestlaus farartæki" en klúbburinn snýst aðallega um allar gerðir bíla sem eru framleiddir fyrir 1. janúar 1916. Fleiri myndir er að finna á þessari síðu, t.d.. úr ferðum klúbbsins og er að finna nokkrar þeirra hér. [08.02]jsl


Forfaðir jeppanna

Á þriðja áratug síðustu aldar hóf Mercedes Benz framleiðslu á fyrstu G-bílunum, sem flestir þekkja í dag sem jeppann frá Benz. Í upphafi var G-bíllinn þriggja öxla, sex hjóla, með drifi á báðum afturöxlunum. Þessir miklu vagnar voru þó ekki eins öflug torfærutæki eins og hönnuðirnir höfðu vonast til í upphafi og reyndist þyngdin vera stærsti óvinurinn. Þegar tæplega þriggja tonna ferlíkið lenti í drullu og svaði gat það litlar bjargir sér veitt, enda voru dekkin í mjórri kantinum og gáfu takmarkað flot. Hér eru myndir af þessum gripum, sem í dag er mjög verðmætir fornbílar: [07.02 ]ösÞorrablótið

Síðasta laugardagskvöld var þorrablót klúbbsins haldið í Árbænum. Rúmlega 80 manns komu þar saman og áttu gott kvöld og nutu góðra veitinga. Eins og venjulega sá félagi okkar Sigurður í Kjötsmiðjunni um matinn, eins og félagar hafa kynnst þá er það ekki svikið sem kemur frá honum. Eftir mat skemmtu gestir sér saman í söng og dansi fram yfir miðnætti. Myndir frá kvöldinu eru komnar á Myndasíðu ,og eins fleiri og stærri myndir á lokuðu svæði fyrir félaga. [05.02]jsl


Gamlar bílaauglýsingar

Á þessari síðu er að finna gamlar sjónvarpsauglýsingar um nýjustu bílamódel fyrri ára. Þarna er hægt að finna mynd af 1957 Plymouth Sport Suburban og 1961 Oldsmobile til að nefna eitthvað. www.tvparty.com/vaultcomm [02.02]jsl


Classic Car spjall

Fyrir utan ýmsar upplýsingar og góða tengla á síðunni hjá ClassicCar.com, þá er þar líka gott spjall þar sem hægt er að leita ráða hjá öðru fornbílafólki. Auðvitað er spjallið okkar líka góður vettvangur, en stundum þarf að leita út í hinn stóra heim til að fá ráð eða upplýsingar. [01.02]jsl