Eldri fréttir - Nóvember 2006

Nýr ´57 Chevy Bel Air

Í tilefni 50 ára afmælis ´57 Chevy á næsta ári, býður CARS Inc. upp á nýjan ´57 Chevy Bel Air blæju. Hægt er að fá bílinn sem "body only", á grind eða sem tilbúinn á götuna. CARS Inc. byrjaði sem lítið fyrirtæki sem framleiddi merki og smáhluti fyrir þá sem voru að gera upp ´57 Chevy, en hefur þróast út í að bjóða allt sem viðkemur þessari árgerð, og nú "nýjan" bíl hvort sem er "original" eða gamla útlitið, en með öllum nútíma þægindum. Hérna er hægt að sjá meira um þennan ´57 Chevy. [30.11]jsl/gös


Frábærar nýjungar í krambúðinni

Þessa dagana er krambúð Fornbílaklúbbsins að taka miklum stakkaskiptum og birtist hver nýjungin á fætur annarri. Meðal þess nýjasta sem boðið er uppá eru glæsilegar flíspeysur með ísaumuðu merki klúbbsins og nafni viðkomandi félagsmanns. Verð fyrir slíka flíspeysu er einungis 6400 kr. Einnig er boðið upp á léttan vindjakka með ísaumuðu merki klúbbsins og nafni félagsmanna fyrir aðeins 5300 kr. - Jakkinn er svartur en flíspeysurnar svar-gráar. Boðið verður upp á karla- og kvennasnið og að sjálfsögðu verða allar stærðir í boði. Til að byrja með munu pöntunarlistar og mátunarflíkur liggja frammi í félagsheimilinu í Árbænum á miðvikudagskvöldum, þar sem hægt verður að máta, panta og greiða með kortum (posi á staðnum). Nú er um að gera að grípa tækifærið, panta sér vandaðar fornbíla-flíkur hið snarasta og fá mjúkan pakka í jólagjöf. Mæta síðan vel merktur og vel klæddur í ferðir næsta sumars! [29.11]jsl


Fyrsti Ástralski bíllinn

Í nóvember árið 1948 var kynntur fyrsti bíllinn sem var að öllu leyti smíðaður í Ástralíu. Bar hann nafnið 48-215, en var betur þekktur sem Holden FX. General Motors-Holden's Automotive framleiddi þennan bíl og var honum strax vel tekið. Næstu ár komu fleiri tegundir á markað í Ástralíu frá þeim og árið 1994 var nafni fyrirtækisins breytt í Holden og er það ennþá að framleiða bíla sem henta sérstökum markaði Ástralíu. Hérna er hægt að lesa meira um sögu Holden og eins myndir af Holden bílum. [28.11]jsl


Þarf ekki að eiga fornbíl

Oft koma fyrirspurnir um hvenær sé hægt að ganga í Fornbílaklúbbinn, hvort bíll viðkomandi verði að vera orðinn 25 ára, og eins hvort það sé hægt að vera í klúbbnum án þess að eiga fornbíl. Þessu er auðvelt að svara, það þarf ekkert til, nema þá helst áhuga á eldri bílum og góðum félagsskap annarra með svipuð áhugamál. Ef viðkomandi á eldri bíl þá skiptir aldur hans engu máli, en eingöngu þeir bílar sem hafa náð 25 ára aldri fá mætingarstig í ferðum klúbbsins. Fjöldi félaga í FBÍ eiga ekki fornbíl og hafa jafnvel aldrei átt, en hafa bara gaman af starfi klúbbsins og ferðum, eða vilja jafnvel bara nýta sér þau sérkjör sem eru í boði fyrir félaga, og er það bara hið besta mál, enda eftir því sem klúbburinn er stærri þess meira er hægt að semja um sérkjör. Fjöldi félaga í FBÍ eru nú hratt að nálgast 700 og þess má geta að þeir sem skrá sig fyrir áramót, og greiða árgjald, eru sjálfkrafa greiddir félagar fyrir árið 2007. Hér er hægt að sjá meira um inngöngu í FBÍ. [27.11]jslEftirlíkingar af fyrstu fornbílunum

Í Bandaríkjunum er starfandi hópur manna sem hefur sérstakan áhuga á fyrstu vélknúnu farartækjunum, "Horseless Carriage", eða hestlausa vagninum, eins og bíllinn var jafnan nefndur meðan hann sleit barnsskónum. Þessir einstaklingar hafa smíðað fjölmargar eftirlíkingar af þessum bílum og selja auk þess teikningar af þeim, jafnframt því sem þeir halda úti heimasíðu um áhugamálið. Það virðist við fyrstu skoðun ekki vera flókið mál að smíða svona bíl, enda samanstendur vélbúnaðurinn yfirleitt af sláttuvélarhreyfli og hjólabúnaðurinn á meira skylt við reiðhjól en seinni tíma bíla: smallcarplans.com [24.11]ös


Bílasíða

Hérna er skemmtileg upplýsingasíða um nokkrar tegundir bíla, mikið af myndum með og nokkuð greinargóðar upplýsingar um viðkomandi bíla. Áherslan er á sport og hraðskreiða bíla, en samt góð almenn bílasíða. [23.11]jsl/gös


Bílasala í Kalíforníu

Hringur Baldvinsson sendi okkur ábendingu um þessa bílasölu sem sérhæfir sig í eldri sportbílum, aðallega evrópskum, bæði óuppgerðum og uppgerðum, einnig lítið eknum bílum. Hringur hefur sjálfur notað þjónustu þeirra og getur mælt með þeim. [22.11]jsl


Mismunandi markaðir

Árið 1911 opnaði Ford sína fyrstu bílaverksmiðju utan Bandaríkjanna, í Manchester, Englandi. Í fyrstu voru þar framleiddir þeir sömu bílar og í Bandaríkjunum, en árið 1920 voru sett ný lög í Bretlandi þar sem settir voru hærri skattar á stærri vélar. Hönnuðir Ford þurftu að koma með nýjar útfærslur af þeirra bílum og Model Y kom á markað. Hönnuðir gerðu sér líka fljótt grein fyrir að markaðir í Evrópu þurftu minni og nettari bíla en í Bandaríkjunum og 1936 kom Ford E93A Prefect, sem var einnig seldur vestan hafs, en þegar kom að 1959 Ford Anglia þá vildi "kaninn" ekki svona lítinn bíl, þrátt fyrir að Anglia seldist vel í Bretlandi og Evrópu. Ennþá í dag er hægt að sjá mikinn mun á þeim bílum sem ganga í Bandaríkjunum og svo hinsvegar í Evrópu, þó að það þurfi kannski ekki nema nafnabreytingu ! [20.11]jsl


Vintage Commercial Vehicles

Fyrir þá sem hafa gaman að skoða myndir af eldri breskum vörubílum þá er Vintage Commercial Vehicles skemmtileg síða með myndum af ýmsum tegundum, svo sem Dennis, Vulcan, Leyland og fl. Það sem er oft gaman við að skoða þessa bresku vörubíla er hversu skrautlega þeir eru merktir og málaðir, og oft með sérkennilegt byggingarlag. [17.11]jsl/gös


´48 Chevy

Á 1948chevy.com er að finna nokkrar góðar myndir af þessari árgerð af Chevrolet, flokkað eftir Stock, Low Rider/Street Rod og Diamonds in the ruff. Einnig er að finna á þessari síðu myndaseríu af uppgerð 1948 Chevrolet Cabriolet, sem eigandi síðunnar hefur unnið að. [16.11]jslHaustfagnaður

Síðasta laugardagskvöld var haldinn haustfagnaður í húsnæði okkar í Árbæjarsafni. Húsið opnaði kl. 20, og um kl. 21 var borinn fram matur, bayonskinka og meðlæti í boði Ferða- og félaganefndar, enda voru auglýstar léttar veitingar. Einnig var hægt að versla ýmsa drykki á vægu verði til að skola matnum niður. Ýmis skemmtiatriði voru á meðan borðað var, en aðal atriði kvöldsins var þegar sjálfur" Elvis Prestley" mætti á staðinn og tók nokkur valin lög. Þeir sem mættu höfðu greinilega gaman af þessu kvöldi, því húsið lokaði ekki fyrr en um kl 4. um nóttina ! Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [13.11]jsl3wheelers.com

Hérna er skemmtileg síða um þríhjólabíla, bæði ýmislegt sem viðkemur þeim og eins upptalning og upplýsingar um allar gerðir þeirra. Gaman væri ef svona bílar færu að sjást á götum hérna, en í Evrópu eru þríhjólabílar mjög vinsælir og mikið um þá á sýningum og margir klúbbar starfandi. [10.11]jsl/gös


Enskir strætóvagnar

Hérna er síða fyrir þá sem hafa gaman af enskum strætóvögnum eða rútum. Þetta eru mest myndir frá árunum 1960 og 1970, en líka af uppgerðum vögnum sem hafa verið í keyrslu og eins á söfnum. Góðar skýringar eru við hverja mynd og margar skemmtilegar, fyrir utan að þá er nú nokkur "sjarmi" yfir mörgum þessum eldri vögnum, miðað við nútímann, þar sem allt er eins í útliti. [09.11]jsl/gös


Fleiri tryggingamöguleikar fyrir fornbílamenn

Nú hefur Tryggingamiðstöðin ákveðið að blanda sér í slaginn um fornbílamenn og býður lægri fornbílatryggingar. Af fyrsta fornbíl þurfa félagar Fornbílaklúbbsins að greiða kr. 13.500, kr. 10.000 af öðrum fornbíl, en ekki krónu af þeim þriðja eða fleirum. Skilyrði fyrir afslættinum er að félagar tryggi brúksbílinn líka hjá félaginu, en af honum fá þeir 19% aukafslátt, séu þeir tjónlausir. [06.11]jsl


Showoff Of The Year 2006

Síðasta miðvikudag voru tilkynnt úrslit úr keppni lesenda Cardomain um bestu vörur ársins og eins Showoff Of The Year, en meðal bíla í þeim flokki var Mustang Sigfúsar Sverrissonar. Úrslitin voru kynnt á SEMA sýningunni og Mustang Sigfúsar vann þennan lið keppninnar. Hérna er hægt að skoða síðu Sigfúsar, og óskum við honum til hamingju. [03.11]jsl


London um helgina

Ef svo vill til að þú sért í helgarferð í London þessa helgi, þá er London to Brighton rallið á dagskrá. Þessi viðburður er búinn að vera árlega í nóvember síðan 1927 (fyrir utan 1947). Í ár eru rétt um 500 bílar skráðir í rallið og eru þeir elstu frá 1896 og yngstu frá 1902. Rallið hefst kl. 07, sunnudag, við Hyde Park Corner, en einnig er hægt að sjá bílana á keyrslu á öðrum stöðum. Ef maður er á annað borð í heimsborginni þá er þetta viðburður sem er vel þess virði að kíkja á. Hérna er hægt að sjá allt um rallið. [02.11]jslFyrsti Bandaríski bílaklúbburinn

Á þessum degi árið 1895 var fyrsti Bandaríski bílaklúbburinn stofnaður, The American Motor League, og voru 60 stofnfélagar. Meðal stofnenda, og varaformaður, var Charles Edgar Duryea sem átti Duryea Motor Wagon Company, en það er talið vera það fyrsta sem framleiddi bíla í Bandaríkjunum, þar sem þeir byrjuðu að smíða og selja fjöldaframleidda bíla (alla eins) árið 1896, en aðrir voru frekar í að smíða bíla eftir pöntun og meira í tilraunum með gerðir. Fyrirtækið lifði reyndar bara í þrjú ár og er talið að eingöngu einn Duryea sé ennþá til. [01.11]jsl