Eldri fréttir - September 2006


Citroën módelbílar

Netið er góður staður til að sýna söfn manna og deila um leið með öðrum sínum áhugamálum. Andreas Rutishauser er mikill Citroën áhugamaður og sýnir á heimasíðu sinni safn sitt af Citroën módelbílum, einnig er að finna hjá honum ágrip af sögu Citroën og annað sem tengist þeim. [28.09]jsl/gös


Bílasmiðir

Crailville í Englandi hefur verið að smíða yfirbyggingar á bíla síðan árið 1975 og hefur verið að nota gömlu aðferðina við yfirbyggingar, sem sagt handgert og eftir óskum hvers og eins. Áður en bílar fóru að vera fjöldaframleiddir var yfirleitt valin vél, síðan grind og að lokum var valinn sá aðili sem byggði bílinn sjálfann, og oftast var bílum síðan gefið nafn sem var þá jafnvel kennt við eiganda eða vél og yfirbyggingaraðila. Hérna er hægt að sjá heimasíðu Crailville og eins er hægt að lesa betur um feril yfirbyggingar. [27.09]jsl/gös


Fornbílar í Hull

Þegar ferðast er um erlendis borgar sig að athuga hvað er á dagskrá á hverjum áningarstað, eins og undirritaður ásamt Þorgeiri Kjartanssyni gerði þegar átti að leggja af stað frá Hull, þrátt fyrir að vera búnir að skoða á netinu það sem væri hægt að skoða var samt hægt að finna fornbílasamkomu sem var haldin í gömlu virki rétt fyrir utan Hull. Virki þetta er Fort Paull og á sér nokkur hundruð ára sögu, en bílana vorum við aðallega að skoða þar. Eins og bretum er einum lagið var þessi samkoma um leið "picnic" með nestiskörfum og tilheyrandi. Hérna eru nokkrar myndir frá þessum degi. [25.09]jsl


Safnaferð

Í kvöld er undirritaður, ásamt Þorgeiri Kjartanssyni, að koma heim eftir vikuferð í Englandi þar sem heimsótt voru nokkur valin fornbílasöfn, en eins og margir vita voru 7 aðrir félagar undir forystu Rúnars Sigurjónssonar á ferð í Þýskalandi fyrr í september, má búast við nokkrum myndakvöldum í vetur úr þessum ferðum, þar sem sýnt verður það helsta sem bar fyrir augu. [22.09]


Estafette

Margar síður á netinu eru tileinkaðar sérstökum tegundum og hér er ein sem er fyrir Estafette eigendur um allan heim, reyndar eru ekki margir skráðir notendur, í allt 9 eigendur, en einn af þeim er íslenskur, og auðvitað félagi í Fornbílaklúbbnum. Þennan bíl gátu menn séð á síðustu Ljósanótt ,en unnið er að fá bílinn á númer.Nokkrir svona bílar hafa verið skráðir hér á landi en líklega er þetta sá eini sem er götuhæfur. Estafette Owners [21.09]jsl


Saga Jaguar-XK120

Þegar Jón Sigursteinsson á Akureyri gerir upp bíl þá er afraksturinn án efa með því besta sem gerist hér á landi og þó víðar væri leitað. Þetta geta þeir vitnað um sem hafa skoðað bíla hans. Leó M. Jónsson hefur tekið saman grein um Jaguar-XK120 og er faið yfir sögu hans og eins uppgerð Jóns á sínum bíl. www.leoemm.com/xk120 [20.09]jsl


Bugatti

Hér er nokkuð góð síða sem er tileinkuð Bugatti bílum. Þar er hægt að sjá myndir af ýmsum árgerðum Bugatti bíla og öðru sem tengist því nafni. Þarna er líka hægt að sjá fréttir af nýjum uppgerðum. Eins eru þarna nokkrir Bugatti bílar auglýstir til sölu, ef menn hafa áhuga, og pening. [18.09]jsl/gös


Mercedes-Benz 1955 - 1985

Hér er önnur grein eftir Leó M. Jónsson og að þessu sinni er það mikil grein um Mercedes-Benz. Farið er yfir margar gerðir þeirra og komið víða við og er þetta fínasta helgarlesning. www.leoemm.com/benz [15.09]jsl


Saga Buick 1908 - 1975

Margir félagar okkar eiga flottan Buick og hefur sú tegund alltaf þótt samnefnari fyrir stóra og mikla bíla,jafnvel sem stöðutákn, eins og stórir jeppar í dag. Leó M. Jónsson hefur tekið saman grein um sögu Buick frá árinu 1908 til 1975. www.leoemm.com/buicksagan [14.09]jsl


Packard uppgerð

Custom Auto Service, Inc. sérhæfir sig í uppgerð á Packard bílum, og eins og sést á heimasíðu þeirra þá er Packard "bíll fyrir herramenn byggður af herramönnum". Þarna er hægt að sjá myndir af uppgerðum bílum sem þeir hafa þegar gert, og eins þeirri uppgerð sem stendur yfir núna. Custom Auto Service, Inc. [13.09]jsl/gösEsjumelur í gær

Í gær,sunnudag, var síðasta ferð sumars en þá var svokallaður varahlutadagur í bílageymslum klúbbsins á Esjumel. Ágætis mæting var þrátt fyrir leiðinda veður, en 26 félagar mættu á sínum fornbílum, en í heildina hafa gestir verið eitthvað um 70-80 manns. Að venju var boðið uppá heitar vöfflur og kaffi og voru bílageymslur opnar svo að gestir gætu skoðað þær, en þetta er eini dagurinn sem aðrir en eigendur bíla fá aðgang. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [11.09]jslSkemmufréttir

Undanfarið, og í sumar, hefur verið unnið að ýmsum endurbótum í bílageymslum klúbbsins á Esjumel. Fyrr í sumar var lagt "dren" í kringum húsin og endurnýjaðar lagnir frá niðurföllum úr húsunum. Í síðustu viku var ný keyrsluhurð sett í í elsta húsið og í næstu viku verður væntanlega skipt um hurð í skemmu 3, og verða þá öll húsin komin með rennihurðir. Einnig er byrjað að koma upp salerni í einu húsinu, en það hefur staðið til í mörg ár. Einnig er verið að fara í gegnum það mikla magn varahluta sem hefur safnast upp í gegnum árin. [07.09]jslMyndasíða

Hérna er ein skemmtileg myndasíða af fornbílum sem eru teknar að mestu leyti í Sviss. Þarna er að finna myndir allt frá 1920 til 2006. Mest eru þetta myndir úr fjölskyldualbúmi Felix Groebli sem hefur komið þeim á netið öðrum til ánægju, en einnig myndir frá samkomum og ferðum fornbíla í Sviss síðustu ár.Felix´s Car Photo Collection [06.09]jsl/gösLjósanótt

Síðasta laugardag mætti fornbílafólk í Keflavík til að taka þátt í dagskrá Ljósanætur. Tæplega 70 félagar voru mættir og tóku þátt í akstri og sýningu, en í heildina voru þarna um 100 bílar ásamt miklum fjölda mótorhjóla, eitthvað um 250 stk. Eftir sýningu var sameiginlegt grill hjá félaga okkar Magnúsi, og var síðan farið í miðbæinn til að fylgjast með flugeldasýningu. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [04.09]jsl